• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2018 í máli nr. S-242/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þ. Steinþórssonaðstoðarsaksóknari)

gegn

Mark Laurence Z. Bargamento

(Eva Dóra Kolbrúnardóttir lögmaður)

 

I

            Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 30. apríl síðastliðinn, á hendur Mark Laurence Z. Bargamento, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, „fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 1. maí 2016, inni á skemmtistaðnum Austur, Austurstræti 7 í Reykjavík, slegið A, kt. 000000-0000, hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á vinstri hlið höku sem sauma þurfti saman, eymsli í kjálkalið og framtönnum í neðri kjálka, þversprunga kom á tönn nr. 32 auk þess sem tönnin var aum, hreyfanleg og stóð innan við tannröð. Þá voru einnig brotskemmdir á tönnum 37, 36 og 35.

 

       Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

       Ákærði neitar sök og krefst sýknu en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

Brotaþoli kom á lögreglustöð 9. maí 2016 og kærði ákærða fyrir líkamsárás þá er í ákæru greinir. Kvaðst brotaþoli hafa verið á nefndum skemmtistað þessa nótt með manni frænku sinnar. Þeir hefðu staðið við barinn og verið að ræða saman. Brotaþoli kvaðst svo ekki hafa vitað fyrr en hann hefði fengið mjög fast hnefahögg í andlitið sem komið hefði vinstra megin á höku og vör. Hann kvað ákærða hafa slegið sig og hefði árásin verið algerlega tilefnislaus. Brotaþoli kvaðst ekki vita til þess að ákærði hefði átt sökótt við sig en nefndi þó einhver gömul kvennamál sem hann taldi þó sakleysisleg.

Maður frænkunnar bar hjá lögreglu að hann hefði staðið hjá brotaþola er maður hefði kallað nafn brotaþola og þegar hann var að snúa sér við hefði hann verið sleginn.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. október 2017. Hann kvaðst ekki muna eftir slíku atviki en kannaðist við deilur við brotaþola út af stúlku. Ákærði neitaði að hafa slegið brotaþola.

Brotaþoli fór á slysadeild þessa sömu nótt og skýrði þar frá atvikum á sama hátt og hjá lögreglu. Við skoðun var hann greindur með „um það bil eins sentimetra langan skurð rétt neðan vinstra munnviks sem var opið í gegn.“

Brotaþoli fór til sérfræðings í tannréttingum 4. maí 2016 og kvaðst hafa fengið högg á neðri kjálka nokkrum dögum áður. Í vottorði sérfræðingsins segir að brotaþoli hafi verið með stoðboga límdan aftan á framtennur og augntennur í neðri kjálka eftir tannréttingu. Þessi bogi hafi losnað við höggið. „Við skoðun var hliðarframtönn í neðri kjálka í vinstri hlið (tönn 32) aum og nokkuð hreyfanleg auk þess að standa innan við tannröð. Þversprunga var sjáanleg í tönninni en óljóst er hvort sprungan sé einungis í glerungi eða hvort hún nái inn í tannbein. A var einnig með verk í hægri kjálkalið og hafði lítið getað bitið saman frá högginu, gat bitið létt saman við skoðun en talsverð eymsli í kjálkalið og framtönnum í neðri kjálka.“

Þá fór brotaþoli til tannlæknis síns 13. október 2016 og í vottorði hans segir að brotskemmdir hafi verið á tönnum 35, 36 og 37. Brotaþoli sagði tannlækninum að hann hefði orðið fyrir árás þá um sumarið.

 

III

       Við aðalmeðferð neitaði ákærði sök og kvaðst ekki hafa slegið brotaþola eins og honum er gefið að sök. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa verið á skemmtistaðnum þessa nótt. Ákærði kvaðst kannast við brotaþola. Þeir ættu sameiginlegan vin og einu sinni hefði brotaþoli beðið sig og vininn um aðstoð vegna pilta er voru að ónáða brotaþola. Þetta taldi ákærði einu samskipti sín við brotaþola en kannaðist þó við að þeir hefðu rætt saman um stúlku.

       Brotaþoli kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum þessa nótt. Hann hefði verið að ræða við mann frænku sinnar og ekki séð ákærða. Hann kvað nafn sitt hafa verið nefnt og þegar hann hefði snúið sér við hefði ákærði slegið hann. Í framhaldinu hefðu dyraverðir vísað ákærða út en brotaþoli kvaðst ekki hafa átt samskipti við hann. Hann kvaðst hafa fengið ör í andlitið og eins hefðu tennur brotnað. Brotaþoli kvaðst vera kunnugur ákærða frá líkamsrækt og eins ættu þeir sameiginlega kunningja. Þá bar brotaþoli að hann hefði kysst fyrrverandi kærustu ákærða og stafaði ágreiningur þeirra af því, en ákærði hefði áður hótað sér og ætlað að vaða í sig, eins og brotaþoli orðaði það. Þetta hefði gerst áður en atvikið átti sér stað sem er ákæruefnið. Þá kannaðist brotaþoli við að einhverju sinni hefði ákærði verið tilbúinn að verja hann gegn piltum sem voru líklegir til að ráðast á hann.

       Maður móðursystur brotaþola var með honum þessa nótt. Hann kvað sig og konu sína hafa staðið með brotaþola við bar. Þá hefði hann heyrt nafn brotaþola nefnt. Brotaþoli hefði snúið sér við og um leið legið, hann hefði fengið „einn á lúðurinn“, eins og hann orðaði það. Maðurinn kvað ákærða hafa slegið brotaþola. Hann þekkti ákærða í dómsalnum. Maðurinn kvað engin samskipti hafa verið milli ákærða og brotaþola, hvorki fyrir eða eftir höggið. Dyraverðir hefðu tekið ákærða en maðurinn og kona hans hefðu flutt brotaþola á slysadeild.

       Móðursystir brotaþola bar að hafa verið á skemmtistaðnum umrædda nótt ásamt manni sínum og brotaþola. Hún kvað þau hafa verið við barinn þegar nafn brotaþola hefði verið nefnt mjög hátt. Hann hefði snúið sér við og þá hefði hann verið kýldur einu höggi. Ákærði hefði verið að verki. Nánar spurð kvaðst hún hafa séð brotaþola falla í gólfið og dyraverði færa ákærða út en hún kvað fas ákærða auk þess hafa bent til þess að hann hefði slegið en hún hefði ekki beint séð hann slá brotaþola. Hún kvaðst hafa kannast við ákærða frá því í líkamsræktinni.

       Læknir á slysadeild, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann bar að skrifað hefði verið í sjúkraskrá að grunur væri um los á tönn hjá brotaþola. Það hefði hins vegar farist fyrir að geta þess í vottorðinu.

       Sérfræðingur í tannréttingum, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hún kvað brotaþola hafa verið í tannréttingum löngu áður en hún hefði séð hann. Brotaþoli hefði komið til sín 4. maí 2016 og skýrt frá því að hann hefði fengið högg á neðri kjálkann nokkrum dögum áður. Hann hefði farið á slysadeild en þegar hann kom til hennar hefði hann verið mjög aumur í framtönnum í neðri góm, sérstaklega vinstra megin. Brotaþoli hefði haft, frá fyrri tíð í tannréttingum, svonefndan stoðboga límdan aftan á framtennur neðri góms. Við höggið hefði stoðboginn losnað en límið setið eftir. Við skoðun síðar hefði mátt sjá þversprungu í hliðarframtönn vinstra megin í neðri góm en ekki hefðu verið merki um að sprungan næði inn í bein. Hún kvaðst hafa vísað honum til heimilistannlæknis varðandi sprunguna en hún hefði rétt tennurnar og límt nýjan stoðboga og hefði það verið í nóvember sama ár.

       Tannlæknir brotaþola staðfesti framangreint vottorð. Hann kvað brotaþola hafa komið til sín 13. október 2016 og var það í fyrsta sinn sem hann sá brotaþola eftir árásina sem brotaþoli hefði sagt sér frá. Tannlæknirinn kvað það vel geta verið að brotin sem hann sá í tönnum brotaþola hefðu stafað af árás 1. maí 2016. Engin skemmd hefði verið í tönnunum heldur hefði verið fleygkvarnað út úr tönn að ofanverðu. Rætur tannanna hefðu ekki orðið fyrir skemmdum heldur hefði brotnað ofan af þeim. Tönn nr. 35 var óviðgerð og alveg heil en það hefði brotnað ofan af henni og orðið að fylla hana. Í tönn nr. 36 var lítil fylling á einum stað en ofan af henni hafði brotnað og þurfti að fylla. Í tönn nr. 37 hafði verið lítil fylling en hún hefði brotnað niður á milli. Tannlæknirinn kvað brotskemmdir í tönnum brotaþola hafa náð inn í tannbein.

 

IV

       Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Hann kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola eins og hann er ákærður fyrir og kvaðst ekki muna til þess að hafa verið á skemmtistaðnum umrædda nótt. Hér að framan var rakinn framburður brotaþola og tveggja vitna sem öll bera að ákærði hafi slegið brotaþola einu höggi eftir að hafa nefnt nafn hans. Þótt blæbrigðamunur sé á framburði vitnanna, eins og rakið var, er sannað með framburði þeirra, gegn neitun ákærða, að hann hafi slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið eins og hann er ákærður fyrir. Ákærði verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

       Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu við ákvörðun refsingar sem er hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi og skal hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

       Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti í dómsorði.

 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

        Ákærði, Mark Laurence Z. Bargamento, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Ákærði greiði 40.000 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dóru Kolbrúnardóttur lögmanns,  695.560 krónur.

                                                                                   

Arngrímur Ísberg