• Lykilorð:
  • Gáleysi
  • Gjafsókn
  • Húsbóndaábyrgð
  • Líkamstjón
  • Málskostnaður
  • Orsakatengsl
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunargögn
  • Vinnuslys
  • Vinnuvélar
  • Örorka
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 9. nóvember 2018 í máli nr. E-2422/2017:

Guðmundur Ólafs Kristjánsson

(Höskuldur Þór Þórhallsson lögmaður)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir lögmaður)

 

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 21. ágúst 2017 og dómtekið 26. október 2018. Stefn­andi er Guð­mundur Ólafs Kristjánsson, [...], Reykjavík. Stefndi er Samskip hf., Kjalarvogi 7–15, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 6.502.589 krónur, auk 4,5% vaxta af 558.550 krónum frá 21. maí 2012 til 30. júní 2012, en 4,5% vaxta af 6.502.589 krónum frá 30. júní 2012 til 23. apríl 2016, en með dráttarvöxtum sam­kvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 6.502.589 krónum frá 23. apríl 2016 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðu máls­­­­kostnaðaryfirliti eða að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst stefndi þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 15. júní 2015, var stefnanda veitt gjaf­­­­­­­­sókn fyrir héraðsdómi með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­­­­mála. Gjafsóknin er takmörkuð við réttargjöld, lögmannsþóknun og undirmats­gerð. Dómara var úthlutað málinu 10. janúar 2018 en fram að þeim tíma hafði hann ekki komið að meðferð þess.

 

II.

Málsatvik:

 Stefnandi var ráðinn til starfa í vöruhúsi hjá stefnda við Kjalarvog í Reykjavík. Um var að ræða sumarstarf með fullu starfshlutfalli og var ráðningartími frá 15. maí 2012 til 31. ágúst sama ár. Stefnandi slasaðist við vinnu síðdegis 21. maí 2012. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var við störf á vinnuvél, nánar tiltekið bretta­­tjakki af gerð­inni Jungheinrich ERD 220, sem notuð var til að færa vöru­bretti á milli svæða í vöru­húsinu. Stefnandi bakkaði brettatjakkinum svo hann lenti á brettastæðu fyrir aftan tækið með þeim afleiðingum að hægri fótur hans klemmdist á milli tjakksins og stæð­unnar.

Stefnandi leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítalans sama dag en samkvæmt læknis­­­­vottorði Yngva Ólafssonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsettu 28. júní 2013, reyndist stefnandi á slysdegi hafa hlotið klemmuáverka á hægri fót með ótil­­færðum brotum í ytri ökklahnyðju sem og nærendum framleistabeina II–V og innan­­­­vert á hælbeininu. Þá var stefnandi óvinnufær eftir slysið og var með fótinn í gipsi og með takmörkun ástigs í sex vikur.

Stefndi tilkynnti um slysið til Vinnueftirlits ríkisins 23. maí 2012. Slysið var ekki til­kynnt til lögreglu. Myndupptaka reyndist vera til af slysinu úr eftirlits­mynda­véla­kerfi í vöru­húsi stefnda og óskaði stefnandi ítrekað eftir aðgangi að þeirri upptöku áður en til máls­höfðunar kom. Þeirri beiðni var hins vegar synjað af stefnda og til skýr­­ingar var vísað til þá­gild­­­­andi laga um persónuvernd nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006 um raf­­­ræna vöktun.

Stefndi var með launþegatryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. en ábyrgðar­­­­­tryggingu hjá erlendu tryggingafélagi. Í byrjun árs 2016 komu stefn­andi og Sjóvá-Almennar trygg­­ingar hf. sér saman um öflun mats á læknisfræðilegri örorku sam­­­­­­kvæmt skil­mál­um launþega­tryggingar­innar. Samkomulag náðist hins vegar ekki við stefnda um aðkomu að fyrr­greindri gagnaöflun þar sem hann taldi að bótaskylda væri ekki til staðar. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gerði upp bætur við stefn­­anda 8. apríl 2016 vegna fyrrgreindrar tryggingar með greiðslu á 866.373 krón­um.

Stefnandi aflaði mats dóm­kvaddra matsmanna með matsbeiðni, dagsettri 11. sept­ember 2015, varðandi tímabil þján­ingabóta, tímabundna örorku, varanlegan miska og varan­lega örorku samkvæmt skaða­bótalögum. Dómkvaddir matsmenn, Svein­björn Brands­­son bækl­unar­­skurðlæknir og Birgir G. Magnússon lögmaður, skiluðu mats­­­­­­gerð, dagsettri 14. mars 2016, með niðurstöðum um framan­greinda þætti. Stefn­­andi sendi kröfubréf 23. mars sama ár þar sem hann óskaði eftir greiðslu frá stefnda á skaða­­bótum til hans til samræmis við fyrrgreint mat. Með svarbréfi stefnda, dag­­settu 10. nóv­ember 2016, var kröfunni hafnað. Ágrein­ingur er milli aðila um bóta­skyldu sem nánar greinir í máls­ástæðum.

Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Þá gáfu skýrslu vitnis Gunnar Gaukur Guð­­mundsson, fyrrverandi starfsmaður hjá stefnda, Bergvin Magnús Þórðarson. öryggis­­­­­­stjóri hjá stefnda, og Hans Þorsteinsson, lestunarstjóri hjá stefnda.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Varðandi bótaskyldu stefnda þá byggir stefnandi á því að stefndi beri sakarábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir við vinnu sína. Byggir stefnandi á því að verulega hafi skort á að farið væri eftir ákvæðum laga og reglna um öryggi og aðbúnað á vinnu­stöð­um við framkvæmd verksins og að á því beri stefndi ábyrgð. Að því virtu telur stefn­­andi að tjónið verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt meginreglum íslensks skaðabótaréttar um sakarábyrgð og eftir atvikum vinnuveitendaábyrgð.

Stefnandi byggir á því að vinnuaðstaða sem honum hafi verið búin um­­rætt sinn hafi í raun verið ófullnægjandi og stórhættuleg. Stefnandi vísar til þess að vöru­­­bretti sem hann bakkaði á hefði ekki átt að vera liggjandi á gólfinu á þeim stað þar sem það var þar sem umferð brettatjakka hafi verið almenn, tíð og hún hafi átt að vera örugg. Brettið hafi legið á stað fyrir innan augsýnilega merkta línu á svæði þar sem öllum hafi verið ljóst að keyrt var um og ekki mátti setja niður bretti. Að mati stefn­­­­anda sé ljóst að hætta hafi verið á því að starfsmenn yrðu fyrir tjóni af brettinu, til dæmis með því að falla eða klemmast á því og öðrum hlutum, eins og gerst hafi í tilviki stefn­­anda. Stefn­andi telur að stefndi hefði því átt að sjá til þess að brettið væri á öðrum stað en þar sem stefnandi var á ferð, nánar tiltekið innan merktrar línu, þar sem ekki mátti vænta um­­ferðar vélknúinna ökutækja svo fylgt væri ströngum öryggisreglum í hví­vetna.

Stefnandi byggir einnig á því að brettatjakkurinn hafi verið verið bilaður og því stór­­­hættu­legur í notkun, sérstaklega fyrir mann sem hafði einungis notað tækið í ör­fáa daga. Stefnandi vísar til þess að hann hafi í aðdraganda málshöfðunar ekki fengið af­rit af myndupptöku af slysinu og því verði að líta svo á að brettatjakkurinn hafi verið bil­aður og vanbúinn og í öllu falli í andstöðu við nánar tilgreind ákvæði laga og reglu­gerðar á sviði vinnuverndar, sem háttsemi stefnda brjóti í bága við hvort sem hún teljist sönnuð eða ekki. 

Stefnandi vísar til 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum þar sem kveðið sé á um að framkvæma skuli og haga vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í þeim efnum skuli fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnu­eftir­lits ríkisins að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þá beri að gæta að sömu atrið­um varðandi sjálfan vinnustaðinn, sbr. 42. gr. sömu laga. Hvíli það á herðum atvinnu­rekanda, það er í þessu tilviki stefnda, að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laganna, en atvinnu­­­­­­rekandi sé hver sá sem annist skipulega aðgerð eða framkvæmd, sbr. 12. og 90. gr. sömu laga. Af hinum almennu ákvæðum laga nr. 46/1980 megi sjá að ríkar skyldur hafi hvílt á herðum stefnda til að sjá til þess að fyllsta öryggis væri gætt varðandi þær vinnu­­­­­aðstæður sem stefnanda voru búnar, auk tilhögunar á þeirri vinnu sem honum var gert að inna af hendi umrætt sinn.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi ekki fengið neina sérstaka kennslu á um­ræddan brettatjakk og hann hafi sjálfur þurft að læra á hann með því að nota tjakkinn. Á þeim degi sem slysið varð hafi stefnandi einungis verið búinn að starfa hjá stefnda í fimm daga. Hann hafi því verið óvanur tækinu á þeim tíma. Að því virtu byggir stefn­andi á því að eðlilegra hefði verið hjá stefnda, sem vinnu­­veitanda, að sjá til þess að verk­­­stjóri hefði verið til staðar til að leiðbeina stefn­anda við störf hans fyrstu dag­ana. Af tildrögum slyssins og afleiðingum þess sé hins vegar ljóst að stefndi hafi brugðist með öllu skyldum sínum samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980. Þá hafi stefndi jafnframt með háttsemi sinni farið gegn almennum stjórnvaldsfyrirmælum sett­um með stoð í lögum nr. 46/1980, auk þess sem farið hafi verið gegn almennum ríkjandi hátt­­ernis­viðmiðum á þessu sviði. 

Til frekari skýringa varðandi fyrrgreind almenn stjórnvaldsfyrirmæli vísar stefn­andi til þess að atvinnurekandi skuli samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfs­mönn­um sé ætlað að nota innan fyrirtækis hæfi því verki sem eigi að vinna eða sé hæfi­lega lag­að að því þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin. Þessu hafi hins vegar ekki verið fyrir að fara í tilviki stefn­anda. Tæki í þessu sambandi merki vél eða vélbúnað, áhöld, verkfæri eða þess háttar bún­­að sem not­­­aður sé á vinnustöðum. Við val á tæki skuli stefndi enn fremur hafa til hlið­sjónar sér­stök vinnuskilyrði, aðstæður og áhættu innan vinnu­­staðarins, þar á meðal áhættu á vinnu­svæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í för með sér, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu reglna. Stefnandi vísar einnig til 7. gr. fyrr­greindrar reglugerðar en samkvæmt því ákvæði hafi stefnda borið að upplýsa starfs­menn sína um notkunar­skilyrði tækja, óvenju­­­­­­­legar fyrir­sjáan­legar aðstæður og þá reynslu sem fengist hefði við notkun hlut­aðeig­andi tækja. Jafnframt hafi stefnda borið að sjá til þess að skrif­legar leið­bein­ingar um framan­greind atriði lægju frammi á vinnu­­staðnum. Stefnandi byggir á því að hann hafi engar slíkar upplýsingar fengið um notkun brettatjakksins og engar upp­lýsingar um tækið hafi legið fyrir á vinnu­staðnum sem hafi verið aðgengi­legar fyrir hann. Enn fremur vísar stefnandi til 9. gr. sömu reglu­gerðar og tekur fram að samkvæmt því ákvæði hafi stefndi átt að taka fullt tillit til vinnu­aðstæðna og líkams­stöðu starfs­manna við notkun tækja þegar ákvæðum um að­búnað, hollustuhætti og öryggismál var fram­fylgt. Að auki hafi stefnda borið að líta til megin­reglna vinnu­vistfræðinnar, en þær reglur fjalli meðal annars í mörgum atriðum um líkamsstöðu við framkvæmd vinnu. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til gr. 1.1 í II. við­auka með reglu­gerðinni þar sem sú skylda sé lögð á vinnuveitanda að tryggja að tæki skuli notað þannig að sem minnst hætta stafi af fyrir þá sem noti það og fyrir aðra starfs­menn. Þá vísar stefnandi auk þess til gr. 3.2.5 í sama viðauka þar sem kveðið sé á um að allar lyftingar skuli skipuleggja og fram­­kvæma rétt svo að öryggis starfsmanna sé gætt og að þeim sé stjórnað með viðeigandi hætti. Stefndi hafi hins vegar ekki uppfyllt framan­­greindar skyldur.

Stefnandi vísar til þess að við mat á sök stefnda verði að hafa í huga að ekki var til­kynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en tveimur dögum eftir að það varð. Stefn­andi tekur fram að þar sem vinnuslysið var ekki tilkynnt þegar það varð hafi Vinnu­eftirlitið ekki rannsakað tildrög og orsakir slyssins. Að því virtu verði stefndi að bera allan halla af sönnunarskorti um þá þætti sem taki til slyssins enda hafi honum borið samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 að tilkynna um það án tafar og í öllu falli innan sólarhrings. Vísar stefn­andi til áralangrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um þetta atriði. Stefn­andi telur að af þessu leiði að leggja verði framburð hans um orsakir slyssins til grund­vallar nema stefnda takist sönnun um annað, til dæmis með mynd­upptökum úr eftir­lits­myndavéla­kerfi í vöruhúsi stefnda.

Stefnandi telur að við mat á saknæmi eigi að líta á aðra þætti en þá hlut­­­lægu sem að framan greinir. Í því sambandi vísar stefnandi til almennra viður­kenndra leið­bein­ingar­­­sjónar­miða við sakarmat í skaðabótarétti, nánar tiltekið til þess hversu mikil hætta hafi verið á því að tjón yrði af þeirri háttsemi sem um ræðir, hversu mikið tjón var líklegt að leiddi af henni, hversu auðvelt eða erfitt var fyrir tjónvald að gera sér grein fyrir hættu á tjóni og hvaða ráðstafanir var unnt að gera til að koma í veg fyrir tjón. Stefn­andi byggir á því að ljóst sé að mikil tjónshætta hafi verið fólgin í því að skilja vöru­bretti eftir á miðju gólfi þar sem reiknað var með umferð starfsmanna. Að mati stefn­anda sé einnig ljóst að töluvert tjón geti leitt af framangreindu enda geti starfs­­menn hæg­lega beinbrotnað við árekstur á vörubrettið, eins og gerðist hjá honum. Jafn­framt bendir stefnandi á að mjög auðvelt hafi verið fyrir stefnda að gera sér grein fyrir þess­ari hættu og auðvelt hafi verið fyrir hann að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón. Að þessu virtu styrki framangreind leiðbeiningar­sjónar­mið enn frekar sök stefnda á tjóni stefnanda.

Stefnandi reisir mál sitt einnig á því að skilyrði 1. mgr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, um meðábyrgð starfsmanns séu ekki uppfyllt hvað hann varði. Stefnandi rökstyður fjárkröfu sína um bætur fyrir þjáningar, varan­­legan miska og varanlega örorku með vísan til matsgerðar dómkvaddra mats­manna og annarra framlagðra gagna, þar á meðal skattframtala vegna áranna 2009–2011. Um kröfu um almenna vexti vísar stefnandi til 16. gr. laga nr. 50/1993 og eru í stefnu færð fram rök fyrir slíkum vöxtum og vaxtatímabili. Hið sama á við um kröfu um dráttar­vexti en til stuðnings þeirri kröfu vísar stefnandi til 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001. Með hlið­sjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefnanda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins. Stefn­­andi vísar einnig til 1.–9. gr. og 15.–16. gr. laga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi jafnframt til laga nr. 91/1991, þar með talið XXI. kafla þeirra laga vegna máls­kostn­aðar og 1. mgr. 33. gr. laganna varðandi varnarþing. Að lokum er krafa um virðis­auka­skatt studd við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda enda hafi aðgæsluleysi stefnanda valdið hinu meinta tjóni. Þá byggir stefndi á því að aðstæður á vinnustað hafi verið í samræmi við lög og reglur þar að lútandi og þeim hafi á engan hátt verið ábótavant.

Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda um að aðstæður á vinnustað hafi verið ófull­­­nægjandi þegar slysið átti sér stað. Stefndi vísar til þess að umrætt vörubretti, sem stefnandi bakkaði á, hafi verið staðsett á lestunarreit þar sem sérstaklega var ætlast til þess að vörubretti væru lögð niður. Lestunarreitir séu með fram aksturs­braut­um í vöru­húsinu og ekki sé ætlast til þess að ekið sé á lestunarreitum. Þar sem vöru­brettið var á stað sem sérstaklega var ætlaður vörubrettum sé ljóst, að mati stefnda, að engin hætta hafi stafað af því og að starfsmenn hafi getað ekið bretta­­­­­tjökkum eftir akbraut­inni án vandkvæða. Stefndi byggir á því að hann hafi verið búinn að gera viðeigandi ráð­stafanir til þess að tryggja að slys, eins og stefnandi lenti í, myndi ekki eiga sér stað. Stefndi vísar í þessu sambandi til þess að hann hafi skipulagt vöruhúsið með þeim hætti að lestunarreitir fyrir vöru­bretti væru skýr­­lega aðskildir frá akstursbrautum. Stefndi tekur fram að hann geti ekki borið ábyrgð á meintu tjóni starfsmanna sem keyri þvert á aksturs­brautir án þess að horfa í þá átt sem þeir aki.

Stefndi tekur fram að lestunarreitur sem um ræðir hafi verið fullhlaðinn vöru­brett­um með fram endilangri akbrautinni og því hafi brettastaðan ekki getað farið fram hjá stefn­anda. Stefnandi hafi komið akandi með fram henni, eins og fram komi á mynd­bandi. Stefnandi hafi hins vegar ekki farið eftir umferðarreglum vöruhússins heldur hafi hann ekið inn á lestunarreit til vinstri, yfir heila línu og bakkað því næst þvert á aksturs­­­stefnu án þess að horfa í þá átt sem hann bakkaði með þeim afleiðingum að hann hafn­aði á brettastæðunni.

Stefndi hafnar einnig fullyrðingu stefnanda um að brettatjakkurinn hafi verið bil­aður. Stefndi tekur fram að fullyrðingar stefnanda um vanbúnað brettatjakksins hafi fyrst komið til vitundar stefnda þegar honum var birt stefna í þessu máli. Stefndi full­yrðir að óundirritað bréf, dags. 10. júlí 2013, um meintan vanbúnað tækisins, lagt fram af stefnanda í máli þessu, hafi aldrei borist til stefnda.

Stefndi byggir á því að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir fullyrðingum sínum um ástand brettatjakksins. Í því sambandi bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki gert reka að því að upplýsa í hverju meint bilun eða vanbúnaður hafi falist. Stefndi mót­mælir harðlega fullyrðingu í stefnu um að háttsemi stefnda [brjóti] í bága við tilvitnuð laga- og reglugerðarákvæði hvort sem háttsemin [teljist] sönnuð eða ekki. Fyrir það fyrsta telur stefndi ekki með öllu ljóst hvaða háttsemi þarna sé verið að vísa til. Í öðru lagi fái það ekki staðist að óskilgreind háttsemi, sem sé að auki ósönnuð, geti talist brjóta í bága við lög eða reglugerðir.

Stefndi tekur fram að á þeim tíma þegar umrætt slys átti sér stað hafi þrír bretta­tjakkar af gerðinni Jungheinrich ERD 220 verið í notkun hjá honum. Ekki liggi fyrir hvaða brettatjakkur það hafi verið sem stefnandi ók í umrætt skipti þegar hann bakk­aði á brettastæðuna. Umrædd tæki séu skoð­unarskyld og árlega skoðuð af Vinnu­eftir­liti ríkisins. Tækin hafi ávallt staðist reglu­­bundnar skoðanir, sem taki að mati stefnda af allan vafa um ástand tækjanna og sé til sönnunar um að það tæki sem stefn­andi not­aði þegar slysið átti sér stað hafi verið í góðu ástandi. Fullyrðingar stefnanda um meintan vanbúnað tækisins eigi því ekki við rök að styðjast. Auk þess bendir stefndi á að áðurnefnd myndupptaka af atvikinu sýni að tækið hafi verið í góðu lagi og virkað sem skyldi, bæði fyrir og eftir slysið.

Stefndi byggir á því að hann hafi gætt fyllsta öryggis í starfsemi sinni og ávallt hugað að góðum aðbúnaði starfsfólks og hollustuháttum á vinnustaðnum. Nýliða­þjálfun sé mikilvægur þáttur í því að gæta að framangreindum atriðum og af þeim ástæð­um sé tilsjónarmaður útnefndur fyrir hvern nýjan starfs­mann. Það sé hlutverk til­sjónar­manns að þjálfa nýjan starfsmann til þeirra verkefna sem honum sé ætlað að vinna, auk þess að upplýsa viðkomandi um atriði er lúti að starfs­­mannamálum, öryggis- og heilbrigðismálum o.fl. Þá sé sérstaklega farið yfir starf­­­semi viðkomandi deildar, þar með talið kennslu á tæki, varnir við álagi, verk­lag og umgengni um tæki. Í því skyni að tryggja að nýliðum sé veitt fullnægjandi kennsla í öllum atriðum sem varða starf þeirra hjá stefnda þá sé notaður gátlisti, þar sem merkt sé við þau atriði sem kynnt hafi verið fyrir nýliðanum og bæði tilsjónar­maður og ný­liði skrifi undir til að staðfesta að kennsla og þjálfun hafi farið fram. Stefndi vísar til þess að fyrir liggi út­­fylltur gátlisti til staðfestingar á þjálfun stefn­anda. Fullyrðingum stefn­anda um skort á kennslu á brettatjakkinn og leið­bein­ing­um við störf sé því hafnað sem röngum. Þá bendir stefndi á það að þegar slysið varð hafði stefnandi verið með gild vinnu­véla­réttindi í flokkum I og J í tæp sex ár og auk þess unnið daglega á samskonar tæki í tæpa viku án vandræða. Brettatjakkurinn sem stefn­andi stýrði þegar slysið átti sér stað hafi verið í svokölluðum SM-flokki en ekki sé gerð krafa um vinnu­vélaréttindi til þess að mega stýra slíku tæki. Af því megi draga þá ályktun að notkun tækisins sé svo einföld að ekki sé talið nauðsynlegt að gera kröfur um að stjórn­endur þeirra hafi sér­­stök rétt­indi til að nota það. Megi því ætla að ein­stak­lingur með vinnuvéla­réttindi í gildi í tæp sex ár eigi að geta notað tækið án vand­kvæða.

Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda um að ákvæði reglugerðar nr. 367/2006 hafi verið brotin í starfsemi stefnda. Stefndi byggir á því að umrætt tæki hafi vel hæft því verki sem stefnandi vann við og verið hæfilega lagað að því, þannig að starfs­­­menn gætu notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu væri hætta búin, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Stefndi ítrekar í þessu sambandi að slys stefnanda hafi ekki stafað af ástandi umrædds tækis heldur orðið vegna aðgæsluleysis stefnanda. Þá telur stefndi einnig sannað, samkvæmt útfylltum gátlista um móttöku nýliða á vinnu­svæði stefnda, sem lagður hafi verið fram, að stefnandi hafi fengið upplýsingar um notkunar­­­skilyrði tækisins og kennslu á það þegar hann hóf störf hjá stefnda. Þá ítrekar stefndi það að stefnandi var með gild vinnuvélaréttindi í flokkum I og J og hafi því mátt vera kunnugt um þær reglur sem giltu um notkun lítilla vinnuvéla á borð við um­ræddan tjakk.

Stefndi tekur fram að hann fái ekki séð að 9. gr. reglugerðar nr. 367/2006 eigi við í málinu, enda sé ekkert sem bendi til þess að uppi séu álitaefni er lúti að líkamsstöðu stefn­­­­anda við framkvæmd starfs hans, og stefnandi hafi ekki byggt á því. Loks telur stefndi sannað að hann hafi í starfsemi sinni tryggt með fullnægjandi hætti allar þær skyldur sem á honum hvíli samkvæmt framangreindri reglugerð og eftir atvikum við­auka við hana.

Stefndi tekur fram að hann hafi tilkynnt slysið skriflega til Vinnueftirlits ríkisins 23. maí 2012. Þá hafi mjög skammur tími verið liðinn frá slysinu en það hafi átt sér stað seinnipart dags 21. sama mánaðar, eftir lokun skrifstofu Vinnueftirlitsins. Stefndi bendir á að hefði Vinnueftirlitinu þótt tilefni til þess að rannsaka slysið nánar, þá hefði því verið í lófa lagið gera það, svo sem með því að mæta á slysstað, þar sem að­stæður eru enn óbreyttar, skoða myndupptöku af atvikinu og eða eftir atvikum gera út­­tekt á tækjabúnaði stefnda. Það hafi Vinnueftirlitið hins vegar ekki gert. Stefndi tekur fram að hann hafi ekki forræði yfir rannsóknarúrræðum Vinnueftirlitsins og því sé ekki unnt að láta hann bera hallann af skorti á rannsókn af þess hálfu. Stefndi tekur þó fram að hann telji að skortur á rannsókn komi ekki að sök, varðandi mat á að­stæðum og orsök­­um slyssins, þar sem fyrirliggjandi myndupptaka af slysinu sýni að allur aðbún­aður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og í samræmi við viðeigandi lög og reglu­­­­gerðir. Þá hafi umræddur brettatjakkur auk þess verið í góðu ástandi. Jafn­framt telur stefndi að myndupptakan sýni að slysið hafi einungis orsakast af aðgæslu­leysi stefn­­­anda sem stefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á. Að þessu virtu sé að mati stefnda ekki unnt að leggja framburð stefnanda um atvik og orsakir slyssins til grund­vallar í mál­­inu.

Stefndi byggir á því að hann hafi gert allt það sem í hans valdi stóð til þess að tryggja öryggi og góðan aðbúnað starfsmanna og koma í veg fyrir að stefnandi og aðrir starfs­­­­­­­menn stefnda myndu lenda í slysi sem þessu. Í fyrsta lagi vísar stefndi til þess að hann hafi tryggt að stefnandi fengi viðeigandi þjálfun og leiðbeiningar áður en hann hóf störf. Í öðru lagi hafi hann skipulagt akstursbrautir og lestunarreiti og þar að auki séu umferðarreglur í vöruhúsi stefnda með þeim hætti að starfsmenn eigi ekki á hættu að lenda í árekstrum ef þeir fara eftir þeim reglum sem settar hafi verið. Með vísan til alls þess sem að framan hafi verið rakið, þá telji stefndi að aðgæsluleysi stefnanda hafi eitt verið valdur að slysinu og meintum afleiðingum þess. Að þessu virtu byggir stefndi á því að skaðabótaskylda sé ekki fyrir hendi.

Varnir stefnda varðandi aðalkröfu taka einnig til þess að 1. mgr. 23. gr. a laga nr. 50/1993 komi ekki til álita í málinu þar sem slysið hafi einungis orsakast af aðgæslu­leysi stefnanda. Þá taka varnir stefnda vegna aðalkröfu jafnframt til þess að orsaka­samband milli slyssins og afleið­inga þess hjá stefnanda sé ekki sannað. Varðandi vara­­kröfu þá taka varnir stefnda til þess að meint tjón sé ofmetið og andstætt megin­reglum skaða­bótaréttar um að tjónþoli eigi ekki að hafa ávinning af tjóni sínu. Í þessu sam­­bandi vísar stefndi til þess að matsgerð sé ófullnægjandi og hún sé reist á röngum for­send­um. Þá taka varnir stefnda varðandi varakröfu einnig til þess að við­mið stefn­anda um meðalatvinnutekjur tjónþola samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé of­metið þar sem hluti teknanna byggi á örorkulífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkis­­ins. Til viðbótar taka varnir stefnda varðandi varakröfu til þess að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 eigi að draga frá skaðabótum þær bætur sem stefnandi hafi áður fengið úr slysatryggingu launþega hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Enn fremur byggir stefndi á því að vaxtakrafa stefnanda sé fyrnd að hluta samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Með hlið­sjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefnda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um kröfu um máls­­kostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstöður:

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að vinnuaðstæður hafi verið ófull­nægjandi og í raun stórhættulegar, annars vegar vegna staðsetningar á vörubretti sem bakkað var á og hins vegar vegna bilunar í brettatjakkinum og vanbúnaðar hans.

Myndupptaka úr eftirlitsmynda­vélakerfi hefur verið lögð fram og sýnir hún greini­lega hvernig slysið átti sér stað. Myndupptakan er tæp mínúta að lengd, mynd­gæði eru ágæt. Upptakan er í lit en án hljóðs. Sjón­­svið myndavélar er ofan frá og yfir vinnu­­­­svæði í vöruhúsi stefnda. Á mynd­upp­tökunni sést þegar starfsmaður með grænan hjálm, tilsjónar­maður stefnanda, er við störf á brettatjakki. Stuttu síðar sést þegar annar starfsmaður, með hvítan hjálm, stefnandi, stýrir bretta­tjakki þvert yfir aksturs­svæði í átt að til­sjónar­­­­­­­­­­manninum, inn á svæði fyrir lestunarreiti og yfir aðgreiningar­línu milli lestunar­reita. Á sama tíma vísar hægri handleggur stefn­anda í átt að nálæg­um hlöðn­um vöru­brett­um á lestunar­­­­reit hægra megin ofan frá og verður ráðið af upp­tökunni að stefn­andi sé að benda á brettin og tala við tilsjónar­mann­inn á sama tíma. Til­sjónar­maðurinn nemur staðar á þessum tíma og lítur til hliðar og vísar andlit hans í átt að brett­unum sem stefn­andi bendir á. Stefnandi nemur staðar á sama tíma í stutta stund og sést þá þegar til­­­­­sjónarmaðurinn horfir á lítið tæki sem hann heldur á fyrir framan sig og gengur síðan yfir framstæða gaffla á brettatjakki stefn­­anda. Á sama tíma byrjar stefnandi að bakka. Tilsjónar­maðurinn gengur rakleiðis að um­ræddum brett­­­­­um sem stefnandi var að benda á og nemur þar staðar og vísar þá vinstri fram­­­­­­­hand­leggur tilsjónarmannsins í átt að einu þessara ­bretta. Af upptökunni verður ráðið að tilsjónar­maðurinn sé að segja stefn­­­anda til og að hann eigi að færa bretta­­tjakkinn að vöru­brettinu. Á sama tíma sést þegar stefnandi bakkar bretta­tjakk­inum og vísar andlit hans allan tímann til hægri í átt að til­­­­sjónar­manninum uns hann skellur með brettatjakkinn á hlöðnu vöru­bretti fyrir aftan sig. Þá sést á upptökunni að umrætt bretti sem stefnandi bakkaði á var hluti af röð af hlöðn­­um vöru­brettum til beggja hliða á lestunarreitum sem mynd­uðu sam­liggjandi vegg hlaðinna vörubretta með fram aksturssvæðinu.

Þegar litið er til framangreindrar myndupptöku þá liggur fyrir að vöru­brettið sem stefnandi bakkaði á var hluti af stæðu hlaðinna vörubretta sem mynduðu samfellda röð, eins og áður greinir, til hliðar við svæði sem ætlað var til aksturs á milli raða á lest­unar­reitum. Samkvæmt myndupptökunni var vörubrettið sem stefnandi bakkaði á ekki meira inni á aksturssvæðinu en önnur vörubretti sem voru í fyrrgreindri röð. Þá verður ekki ráðið af upptökunni að vöru­brettin hafi verið mjög mikið inni á aksturs­svæð­­inu þannig að sérstök hætta hafi stafað af staðsetningunni. Að þessu virtu verður ekki fallist á með stefn­anda að staðsetning vörubrettisins sem hann bakkaði á hafi verið óörugg.

Hvað varðar hið síðargreinda atriði, nánar tiltekið meinta bilun í bretta­tjakki og vanbúnað, þá liggur fyrir að því er ekki lýst í stefnu með hvaða hætti tjakk­urinn var bil­aður eða vanbúinn og er þessi málsástæða stefnanda því óskýr. Af mála­­tilbúnaði stefnanda verður hins vegar ráðið að þetta stafi af því að stefndi hafi ekki orðið við beiðnum stefn­­anda um aðgang að framan­greindri mynd­upp­töku. Að mati dóms­ins þykir rétt að taka tillit til þessa að því marki sem unnt er, enda verður ekki séð að vörn­um stefnda hafi verið áfátt að þessu leyti.

Að mati dómsins styður myndupptakan það ekki sérstaklega að brettatjakkurinn hafi verið í ólagi. Á upptökunni sést tækið færast greiðlega á milli tveggja lestunar­reita og stöðvast án vandkvæða uns því er bakkað aftur og það lendir á fyrrgreindu vöru­­bretti með fyrrgreindum afleiðingum fyrir stefnanda. Stefn­andi bar um það fyrir dómi að brettatjakkurinn sem hann notaði í umrætt skipti hefði virkað en hann hefði hins vegar ekki verið í fullkomnu lagi. Hlaup hefði verið í stýri bretta­tjakksins og hann ekki stöðvast sem skyldi. Ekki var hins vegar fullt samræmi í fram­­burði stefn­anda um akstur tækis­ins þar sem stefnandi bar einnig um að atvikið hefði gerst svo fljótt að hann hefði í raun ekki áttað sig á því að hann var að bakka á stæðuna fyrr en hann hefði lent á henni. Við sönnunar­­matið verður stefn­andi látinn bera hallann af framan­­greindu mis­­­ræmi. Að því virtu verður lagt til grundvallar að meint bilun í stjórnbúnaði tækisins, nánar tiltekið í stýris- og stöðvunar­búnaði, hafi í raun ekki verið þess vald­andi að tækið lenti á bretta­­­­stæðunni. Samrýmist það einnig mynd­­upptökunni þar sem sést greini­­lega að tæk­­­­­inu var ekið rakleiðis aftur á bak uns það lenti á stæð­unni. Þá verður ekki annað ráðið af myndupptökunni en að stefn­andi hafi fyrst og fremst verið að horfa á til­sjónar­­manninn á sama tíma og bretta­tjakkinum var bakkað í stað þess að hann gætti að umhverfi sínu fyrir aftan tjakkinn. Að framan­greindu virtu verður ekki fallist á með stefn­anda að meint bilun eða van­búnaður á bretta­tjakk­inum hafi í raun þýðingu fyrir úr­lausn máls­ins með tilliti til þess hvort að­stæður á vinnu­stað stefn­anda hafi verið ófull­­nægjandi.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn til viðbótar á því að stefndi hafi ekki fylgt almenn­­um ákvæðum laga nr. 46/1980, nánar tiltekið að framkvæmd og tilhögun vinnu hafi ekki verið með þeim hætti að gætt væri fyllsta öryggis og góðs að­búnaðar og holl­ustu­­­­hátta svo samrýmst hafi 37. gr. laganna. Þá hafi hið sama verið uppi varð­andi vinnu­­­­­­­­staðinn, sbr. 42. gr. sömu laga. Með þessu hafi stefndi brotið gegn skyldum sín­um samkvæmt 13. gr., sbr. 12. og 90. gr., laga nr. 46/1980. Máli sínu til frekari stuðn­ings vísar stefn­andi til þess að hann hafi ekki fengið sérstaka kennslu á brettatjakkinn og verkstjóri hafi ekki leiðbeint honum við störf fyrstu dagana.

Við úrlausn á þessum atriðum er til þess að líta að samkvæmt yfirlitsteikningu og fyrr­­­­­greindri myndupptöku þá liggur fyrir að stefndi var búinn að skipuleggja vöruhús sitt með skýr­um hætti á þeim tíma þegar slysið átti sér stað og hefur ekki orðið breyt­ing á því. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir röðum að­greindra lestunarhólfa sem hvert og eitt er almennt myndað af átta lestunar­reitum, fjór­­um á hvorri hlið og með aksturs­svæði á milli. Þá eru lestunarhólf og lestunarreitir að­­­­greindir með yfirborðsmerkingum á gólfi. Beggja megin við lestunar­hólfin eru langar aksturs­brautir eftir endilöngu vöru­húsinu, annars vegar þeim megin sem vöru­­bif­reiðir eru lestaðar og hins vegar þar sem varningur er geymdur í vöruhúsi. Stefn­andi hefur vinnu­véla­­rétt­indi í flokk­um I og J sem taka meðal annars til lyftara. Þá hefur hann starfs­reynslu af stjórnun slíkra tækja á fyrri vinnustað. Ágreiningslaust er að ekki er þörf á vinnuvéla­rétt­indum til að mega stjórna brettatjakki. Almennar um­ferðar­­reglur gilda á svæðinu, eins og almennt á við um akstur vinnu­véla, sbr. um­ferðar­lög nr. 50/1987, og bar stefnandi meðal annars um að honum hefði verið kunn­ugt um að svo væri. 

Þá ber einnig að líta til þess að gögn máls­ins styðja það að stefn­­andi hafi hlotið svokallaða nýliðaþjálfun hjá stefnda. Hið sama kom fram í framburði vitnisins Berg­vins Magnúsar Þórðarsonar öryggis­­­­­­­­­­­­­­stjóra. Í framburði Bergvins kom einnig fram að til­sjónar­maður fylgdi almennt nýjum starfs­­­­manni fyrstu dagana í starfi og svo hefði verið um stefnanda. Samrýmist það fyrirliggjandi mynd­upptöku en bæði Berg­vin og stefn­andi báru um að starfsmaður með grænan hjálm á höfði, sem sæist á upp­töku, hefði verið umræddur tilsjónarmaður. Af framburði stefnanda verður hins vegar ráðið að nýliðaþjálfunin hafi verið fremur takmörkuð og miðast við fyrsta vinnu­­­­­dag hans hjá stefnda. Framburður stefn­anda um þetta samrýmist framburði vitnis­ins Gunnars Gauks Guð­­mundssonar. Stefn­andi bar um það fyrir dómi að hann hefði fengið nýliðahandbók stefnda við upphaf ráðn­ingar í tengslum við nýliða­þjálfunina og að hann hefði kynnt sér efni hand­­bókar­innar. Í bók­inni er meðal annars fjallað um öryggis­­­­mál, þar með taldar eru grunn­­­­vinnu­reglur um öryggi og heil­brigði. Þar greinir meðal annars að starfs­­­maður skuli vera vakandi fyrir um­hverfinu og gæta varúðar. Stefnandi bar um það fyrir dómi að hann hefði á fyrsta vinnudeginum hjá stefnda fengið til­sögn um það hvernig hann ætti að nota bretta­tjakkinn. Sam­­rýmist það fyrir­­liggjandi gátlista stefnda sem er undir­­ritaður af stefn­anda og til­sjónarmanni hans. Þá kemur einnig fram á gát­list­anum að stefnanda hafi verið kynnt verk­­­lag í vöruhúsi o.fl. Á gát­listanum er hins vegar ekki merkt við reit um að stefn­anda hafi verið kynnt verk­lag við losun og lestun eða frá­gang á farmi. Í framburði vitnis­­­ins Hans Þor­­steins­­sonar lest­unar­­stjóra, sem annast þjálfun nýrra starfsmanna hjá stefnda, kom hins vegar fram að sá reitur taki fyrst og fremst til verk­lags við að lesta gáma en ekki stjórnunar bretta­­­­tjakks, og að því virtu hefur vöntun á fyrr­greindum þjálfunarþætti ekki sérstaka þýðingu við sakar­matið.

Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að stefndi hafi skipulagt vinnuna og vinnustaðinn með þeim hætti að þeir þættir væru almennt öruggir, einkum með tilliti til skipulags vöruhússins. Þar með talin eru skilgreind lestunar­hólf og lestunar­reitir, sbr. yfirborðsmerkingar á gólfi vöruhússins, auk nýliða­hand­bókarinnar og ný­liða­þjálfunarinnar. Stefnandi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því að framan­greindar ráðstafanir hafi verið ófull­nægjandi með tilliti til öryggis, vinnuverndar og hollustuhátta á vinnu­staðnum og fram­kvæmdar vinnunnar svo það hafi sérstaka þýð­ingu við sakarmat vegna umrædds vinnuslyss, eins og atvikum var háttað. Í nýliða­handbókinni var meðal annars kveðið á um mikilvægi þess að starfsmaður væri vak­andi fyrir umhverfinu og gætti varúðar. Þá liggur auk þess fyrir, sam­kvæmt því sem fram kom hjá stefn­anda og vitninu Bergvini, og fær stoð í fram­burði vitnis­ins Hans, að stefnandi fékk við upphaf starfsins til­­sögn um hvernig ætti að nota bretta­tjakkinn. Einnig liggur fyrir að til­sjónar­­­­maður stefnanda var með honum á vinnu­­­­svæðinu á slys­degi og ber mynd­upptakan með sér að hann hafi farið með verk­stjórn á staðnum. Enn fremur ber að hafa í huga í þessu sam­bandi að stefnandi var með fyrr­greind vinnu­­véla­réttindi til nokk­urra ára og hafði starfsreynslu af stjórnun lyft­ara frá fyrri vinnustað, auk þess sem honum var ljóst að almennar umferðar­reglur giltu á svæðinu. Verður þannig ekki fallist á með stefnanda að kennslu á brettatjakkinn hafi verið áfátt né heldur að honum hafi ekki verið leiðbeint fyrstu dagana í starfi hjá stefnda.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn enn fremur á því, til viðbótar við hin almennu ákvæði laga nr. 46/1980, sem áður greinir, að stefndi hafi vanrækt að grípa til nánar til­greindra ráðstafana samkvæmt reglugerð nr. 367/2006 til að tryggja góðan aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustaðnum. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki gert nauðsynlegar ráð­stafanir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., 5. gr. reglu­gerðar­innar til að tryggja að tæki sem starfsmönnum var ætlað að nota innan fyrir­tækis­­ins hæfði því verki sem ætti að vinna eða væri hæfi­lega lagað að því þannig að starfsmenn gætu notað tækið án þess að öryggi þeirra væri hætta búin. Við úrlausn á þessu atriði er til þess að líta að fyrir liggja ljósmyndir af bretta­­tjakki í eigu stefnda, hinum sama og notaður var í umrætt skipti af stefnanda eða sam­­bæri­legu tæki. Þá liggur einnig fyrir fyrrgreind myndupptaka sem sýnir notkun brettatjakksins hjá stefn­anda í umrætt skipti. Við aðalmeðferð var upplýst að um væri að ræða raf­­knúið tæki. Mynd­efnið sýnir að þetta er tæki á hjólum sem er búið gaffli að framan og lyftibúnaði til að lyfta upp vöru­bretti. Þá verður ráðið að tækið henti vel til aksturs á sléttu og hörðu undir­­lagi, eins og háttar til í vöruhúsi stefnda. Stjórn­­búnaður er aftan­vert á tæk­inu fyrir stjórn­anda til að stýra því og er miðað við að hann standi á sér­­stökum palli úr málmi með rifflaðri gúmmímottu áfastri ofan á. Þá eru hlífar beggja megin við stjórn­anda rétt neðan við mjaðmir og verður ráðið að þeim sé ætlað að styðja við jafnvægi stjórnanda og varna falli af tækinu. Auk þess er neyðarhemill, svokölluð bumbu­bremsa, fyrir miðju í stjórnbúnaðinum samkvæmt því sem fram kom hjá vitninu Hans Þorsteinssyni við aðalmeðferð. Vitnið Hans bar einnig um að bretta­tjakkar væru almennt notaðir í vöru­húsum og að þeir væru fremur algeng tæki. Þá eru brettatjakkar skoð­unar­skyldir ár­lega hjá Vinnueftirliti ríkisins en fyrir dóminn hafa verið lögð fram gögn sem stafa frá Vinnu­eftirlitinu og benda þau fremur til þess að tæki í eigu stefnda af fyrrgreindri tegund, sem kemur til greina að hafi verið í notkun í umrætt skipti, hafi verið í lagi á umræddum tíma. Að mati dóms­­ins verður því ekki annað ráðið en að tækið hafi hæft vel þeirri vinnu sem um ræðir, nánar til­­tekið að færa til hlaðin vöru­­bretti í vöruhúsi stefnda o.fl. Hið sama á við um öryggisbúnað tækisins. Þá ber auk þess að taka mið af því sem áður hefur verið lagt til grundvallar, að umrætt slys verði ekki rakið til ástands tækis­ins.

Í annan stað byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki veitt stefnanda upplýsingar í skilningi 7. gr. fyrrgreindrar reglugerðar, og hafi þannig ekki upplýst starfsmenn um notkunar­­­­­­­­­skilyrði tækisins, óvenjulegar og fyrirsjáanlegar aðstæður og reynslu sem hafi fengist við notkun hlutaðeigandi tækja. Þá hafi stefndi til viðbótar átt að sjá til þess að skrif­­­­legar leið­­­­­­beiningar lægju fyrir á vinnustaðnum með framangreindum upp­lýs­ing­um. Við úr­lausn á þessu atriði er til þess að líta sem áður hefur verið lagt til grund­vallar að stefn­andi fékk til­sögn um það hvernig ætti að nota bretta­tjakkinn og sam­­rýmist það fyrr­greindri skráningu á áðurnefndan gátlista. Þá liggur auk þess fyrir að stefn­­­­andi fékk almenna kynningu á vinnustaðnum með nýliðaþjálfuninni, sbr. meðal annars framburð hans sjálfs um það fyrir dómi. Að öðru leyti hefur stefndi ekki sýnt fram á það að hann hafi fullnægt framangreindri upplýsingaskyldu. Að mati dómsins þykir þessi vöntun á upplýsingum hins vegar ekki hafa sérstaka þýðingu fyrir úr­lausn málsins þar sem slysið verður ekki rakið til virkni eða eiginleika tækisins, eins og áður greinir. Þá var notkun tækisins og aðstæður, eins og háttaði til í umrætt skipti, ekki óvenjulegar í almennu tilliti hefði stefnandi gætt meiri varúðar.

Í þriðja og fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi átt að taka fullt tillit til líkamsstöðu starfsmanna við notkun tækja þegar vinnuverndarreglum var framfylgt og í því sambandi hafi átt að líta til meginreglna vinnuvistfræði, auk þess sem stefndi hafi átt að tryggja notkun tækis svo hætta stafaði ekki af því, skipuleggja réttar lyftingar o.fl., svo samrýmist 9. gr. og gr. 1.1 og gr. 3.2.5 í II. viðauka fyrrgreindrar reglu­gerðar. Að mati dómsins hefur stefn­andi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að þessi atriði hafi sérstaka þýðingu fyrir úrlausn málsins, eins og atvikum er háttað. Eins og áður greinir leggur dómurinn til grundvallar að meginorsök slyssins hafi verið sú að stefn­andi bakkaði tækinu án þess að líta nægjanlega aftur fyrir sig og gæta betur að um­hverfi sínu. 

Stefnandi byggir á því að við sakarmat verði að hafa í huga að stefndi tilkynnti ekki um vinnuslysið til Vinnueftirlitsins fyrr en 25. maí 2012, eða tveimur dögum eftir að það átti sér stað. Þá verði að taka tillit til þess við sönnunarmatið. Fallast má á það með stefnanda að stefndi hafi ekki gætt þess nægjanlega að tilkynna vinnuslysið án tafar svo betur samrýmdist 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Stefnda var eða mátti vera ljóst þegar í upphafi að stefnandi hafði fótbrotnað og því væri líklegt að um væri að ræða langvinnt og varanlegt heilsutjón. Vitnið Bergvin öryggis­stjóri bar um það að honum hefði verið tilkynnt um slysið daginn eftir að það varð og hann hefði næsta dag þar á eftir sent tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Þá hefði hann ekki talið þörf á að fylgja þeirri til­kynn­ingu eftir. Að mati dómsins hafa haldbærar skýringar ekki fengist frá stefnda á því hvers vegna það tók svo langan tíma að tilkynna um slysið og hvers vegna til­kynn­ingunni var ekki fylgt eftir. Í máli þessu þykir hins vegar skortur á rannsókn Vinnu­eftirlitsins ekki koma að sök, eins og hér stendur á, við mat á að­stæðum og orsök­­um slyssins, þar sem fyrir liggur skýr myndupptaka af því. Að því virtu er nægjan­­lega upp­­lýst um aðstæður á slysstað, notkun tækisins og orsakir slyss­­ins, eins og áður greinir.

Þessu til viðbótar þá er það mat dómsins að almenn leiðbeiningarsjónarmið við sakarmat, sem viðurkennd hafa verið í skaðabótarétti, og stefnandi vísar til í tengslum við sakarmat stefnda, til viðbótar við framangreinda hlutlæga þætti, eigi ekki nægjan­lega við fyrir úrlausn málsins, eins og atvikum var háttað sem urðu þess valdandi að umrætt slys varð. Almennar umferðar­reglur giltu í vöruhúsinu, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1987. Þá var umræddur brettatjakkur vélknúið ökutæki í skilningi 2. gr. sömu laga. Rík að­gæslu­skylda hvíldi á stefn­anda, sem ökumanni tækisins, þegar hann ók því aftur á bak og bar honum að gæta að því að það væri gert án þess að valda hættu, sbr. 1. mgr. 17. gr. fyrrgreindra laga. Þá ber einnig að líta til þess að þó að stefnandi væri nýr í starfi hjá stefnda þá hafði hann vinnuvélaréttindi á lyftara o.fl. og nokkra starfs­reynslu af stjórnun slíks tækis úr fyrra starfi, sem hefði átt að nýtast honum í starfi hjá stefnda. Að þessu virtu er það mat dómsins að aðgæsluleysi stefn­anda hafi valdið slys­inu. Stefndi verður ekki látinn bera ábyrgð á því. Að öllu framan­greindu virtu verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Í máli þessu liggur fyrir að stefndi synjaði stefnanda um aðgang að fyrrgreindri mynd­upptöku áður en til málshöfðunar kom. Myndupptakan var fyrst lögð fram með greinargerð stefnda, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefur til skýr­ingar á synjuninni vísað til almennra vinnureglna hjá fyrirtækinu, sbr. framburð vitnis­­­ins Berg­­vins þess efnis fyrir dómi, auk þess sem stefndi hefur vísað til þágildandi laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006. Notkun eftirlitsmyndavélar á vinnusvæði stefnda þar sem stefnandi var við störf var rafræn vöktun í skilningi framangreindra laga. Að mati dóms­­ins þykir framan­­greind afstaða stefnda ekki samrýmast nægjanlega meginreglu einka­­­lífsréttar um upplýsinga­rétt stefnanda, sem hins skráða, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. áður 18. gr. laga nr. 77/2000. Framan­­greind afstaða stefnda var því reist á hæpnum lagagrundvelli og var hún til þess fallin að torvelda málatilbúnað stefnanda og að hann gæti lagt full­nægjandi mat á réttarstöðu sína. Þá hefði mögulega mátt komast hjá málshöfðuninni hefði upptakan verið látin af hendi þegar eftir því var leitað af stefnanda. Að þessu virtu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að fella niður máls­kostnað milli aðila.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­­­­þóknun lögmanns hans, Höskuldar Þórs Þórhallssonar, sem þykir með hliðsjón af eðli og umfangi málsins hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur að meðtöldum virðis­auka­skatti.

Af hálfu stefnanda flutti málið Höskuldur Þór Þórhallsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Lilja Sigurðardóttir lögmaður fyrir hönd Lilju Jónasdóttur lög­manns.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Samskip hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Ólafs Kristjánssonar, í máli þessu.

       Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir héraðs­­­­­­­dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Höskuldar Þórs Þórhallssonar, 1.800.000 krónur.

 

                                                                                    Daði Kristjánsson