• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Gripdeild
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot
  • Vörslur
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í máli nr. S-462/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Pétri Geir Óskarssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 12. júní 2018, á hendur Pétri Geir Óskarssyni, kt. 000000-0000, óstaðsettum í hús, fyrir eftirgreinda þjófnaði, tilraun til þjófnaðar, gripdeildir og brot gegn vopna- og fíkniefnalagabrot í Reykjavík með því að hafa:

 

1. Laugardaginn 16. júlí 2016 stolið skeggsnyrti, myntutöflum og hátalara að samtals söluandvirði 24.730 krónur úr verslun Elko í Skeifunni 7.

 

2. Þriðjudaginn 19. júlí 2016 gert tilraun til að stela buffi, skrautmun, hálsmeni og lyklakippu úr versluninni Ísbirninum við Laugaveg 38 og á sama tíma viðhaft vopnaburð á almannafæri.

 

3. Miðvikudaginn 27. júlí 2016 stolið sápu að söluandvirði 4.399 krónur úr verslun Hagkaups í Kringlunni.

 

4. Þriðjudaginn 27. desember 2016 stolið tveimur pakkningum af Eyja harðfiski að samtals söluandvirði 7.670 krónur úr verslun Krónunnar við Nóatún 17.

 

5. Þriðjudaginn 17. janúar 2017 stolið gleraugum að samtals söluandvirði 1.299 krónur úr verslun 10-11 við Laugaveg 116.

 

6. Mánudaginn 31. júlí 2017 brotist inn í bifreiðina [---] þar sem hún stóð ólæst á bifreiðastæði við [---] og stolið þaðan veiðihníf en eigandi bifreiðarinnar hljóp ákærða uppi og endurheimti hnífinn áður en lögregla kom og fyrir að hafa á sama tíma hafa í vörslum sínum 0,94 g af marijúana sem lögregla fann við leit á ákærða og lagði hald á.

 

7. Fimmtudaginn 12. október 2017 stolið hníf úr versluninni Brynju við Laugaveg 29 með því að stinga honum í úlpuvasa sinn og hlaupa út úr versluninni en starfsmaður hennar hljóp hann uppi og endurheimti hnífinn áður en lögregla kom á vettvang.

 

8. Miðvikudaginn 19. október 2017 tekið tvo silfurhringi, að samtals söluandvirði 16.000 krónur, ófrjálsri hendi úr versluninni Önnu Maríu við Skólavörðustíg 3.

 

9. Föstudaginn 10. nóvember 2017 stolið sex pakkningum af nautafilé að samtals söluandvirði 8.269 krónur úr verslun Bónus við Laugaveg 59.

 

10. Föstudaginn 8. desember 2017 stolið tösku úr versluninni Módjó í Mjódd að samtals söluandvirði 5.500 krónur.

 

11. Föstudaginn 8. desember 2017 tekið gullhring að andvirði 6.640 krónur ófrjálsri hendi úr versluninni Gull úrið í Mjódd.

 

Teljast brot í 1., 2., 3., 4., 5., 6., 7., 9. og 10. lið öll varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem brot í 2. lið telst varða við 20. gr. sömu laga og 1. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og brot í 6. lið telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001 og varða brot í 8. og 11. við 245. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001 og til að sæta upptöku á vasahníf skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í janúar 1972. Hann á að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 1993. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 6. júní 2018, hefur hann hlotið sex refsidóma en þar af hefur hann í fimm skipti verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Nú síðast hlaut hann þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað, 24. maí 2016. Við ákvörðun refsingar verður litið til 255. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur játað brot sín greiðlega og verður það virt til refsilækkunar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,94 g af marijúana og vasahnífur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarsson lögmanns, 210.800 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Engan annan sakarkostnað leiddi af málinu.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Pétur Geir Óskarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,94 g af marijúana og vasahnífur.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 210.800 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir