• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skilorðsbundnir dómar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2018 í máli nr. S-72/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ágústi Elí Ólafssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 6. febrúar 2018, á hendur:

 

            „Ágústi Elí Ólafssyni kt. 000000-0000,

            [...], Reykjavík,

           

Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, að morgni [...] 2015, að [...] í Reykjavík, veist að A og skorið hann í andlitið, með glerbroti úr flösku sem ákærði hafði áður brotið, með þeim afleiðingum að A hlaut skurð á neðri vör og fyrir neðan neðri vör sem sauma þurfti með 5 sporum. 

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

[...]“ 

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að hún verði að öllu leyti bundin skilorði. Þá krefst hann þess að fjárhæð miskabóta verði lækkuð. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur [...] og hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir ofbeldisbrot. Við ákvörðun refsingar horfir til málsbóta að ákærði hefur gengist við broti sínu og viðurkennt bótaskyldu sína. Þá hefur hann sýnt iðrun bæði í orði og verki og gerði sér strax far um að sættast við brotaþola. Enn fremur er litið til ungs aldurs hans, en atvik áttu sér stað [...] 2015, þegar ákærði var [...] gamall. Vísast hvað þetta varðar til 4. tl., 5. tl. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga Til þyngingar horfir að um alvarlega líkamsárás var að ræða þar sem ákærði notaði glerbrot sem vopn. Hlaut brotaþoli af því áverka í andliti eins og nánar greinir í ákæru. Þó að fyrir liggi að ákærði hafi verið afar ölvaður umrætt sinn leysir það hann ekki undan refsiábyrgð. Vísast í þessu sambandi til 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 17. gr. laganna.

            Eins og áður segir áttu atvik sér stað í [...] 2015. Ákæra var ekki gefin út í málinu fyrr en 6. febrúar 2018 en ákærða verður ekki kennt um þann drátt málsins.

            Samkvæmt framansögðu þykir hæfileg refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

            Af hálfu brotaþola var þess krafist að ákærða yrði gert að greiða honum miskabætur. Brotaþoli féll frá bótakröfu sinni eftir að sættir náðust milli hans og ákærða um greiðslu miskabóta.

            Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 252.960 krónur, þar með talið vegna vinnu hans á rannsóknarstigi. Hliðsjón er höfð af framlagðri tímaskýrslu verjandans. Þá greiði ákærði 36.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, Ágúst Elí Ólafsson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 252.960 krónur og 36.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)