• Lykilorð:
  • Skattskylda
  • Skattsvik
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2018 í máli nr. S-331/2017:

Ákæruvaldið

(Ólafur Hallgrímsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Kristjáni Ólasyni.

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

Erni Björnssyni

(Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður)

og Sigtryggi A. Magnússyni

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 16. maí 2017 á hendur:

 

            „Kristjáni Ólasyni, kt. 000000-0000,

            [...] Reykjavík,

 

            Erni Björnssyni, kt. 000000-0000,

            [...] Reykjavík, og

 

            Sigtryggi A. Magnússyni, kt. 000000-0000,

            [...] Reykjavík,

 

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri einkahlutafélagsins ABHHH (áður Allt viðhald, kt. 000000-0000, nú þrotabú, á hendur ákærða Kristjáni sem framkvæmdastjóra og aðalmanni í stjórn frá 16. desember til 2. maí 2014 og sem daglegum stjórnanda frá 2. maí 2014 til 4. mars 2015 þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, á hendur ákærða Erni sem aðalmanni í stjórn og daglegum stjórnanda frá 2. maí 2014 til 21. desember 2014, og á hendur ákærða Sigtryggi sem framkvæmdastjóra og aðalmanni í stjórn frá 21. desember 2014 til 4. mars 2015,  með því að hafa eigi staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2013, maí, ágúst, september og október rekstrarárið 2014, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna nóvember til og með desember rekstrarárið 2013, janúar til og með desember rekstrarárið 2014 og janúar rekstrarárið 2015, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, samtals að fjárhæð kr. 15.259.285 hvað varðar ákærða Kristján, kr. 11.102.067 hvað varðar ákærða Örn og kr. 2.141.984 hvað varðar ákærða Sigtrygg, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Vangoldin                  Vangoldin                    Vangoldin

staðgr. hvað               staðgr. hvað                staðgr. hvað

varðar Kristján          varðar Örn                  varðar Sigtrygg

Árið 2013

nóvember                 kr.    614.804             kr. 0                             kr. 0

desember                  kr.    432.501             kr. 0                             kr. 0

                                 kr.  1.047.305            kr. 0                             kr. 0

 

Árið 2014

janúar                       kr.    474.240             kr. 0                             kr. 0

febrúar                      kr.    528.768             kr. 0                             kr. 0

mars                          kr.    698.891             kr. 0

apríl                          kr.    872.435             kr.    940.952               kr. 0

maí                           kr. 1.300.955             kr. 1.384.541               kr. 0

júní                           kr. 1.064.380             kr. 1.132.897               kr. 0

júlí                            kr. 1.595.373             kr. 1.663.890               kr. 0

ágúst                         kr. 1.145.743             kr. 1.214.260               kr. 0

september                 kr. 1.787.409             kr. 1.855.926               kr. 0

október                     kr. 1.206.892             kr. 1.275.409               kr. 0

nóvember                 kr. 1.535.422             kr. 1.634.192               kr. 0

desember                  kr. 1.089.325             kr. 0                             kr. 1.160.017

                                 kr. 13.299.833           kr. 11.102.067             kr. 1.160.017

Árið 2015

janúar                       kr.    912.147             kr. 0                             kr.    981.967

 

Samtals                    kr. 15.259.285          kr. 11.102.067            kr. 2.141.984

 

 

Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærða Kristjáns Ólasonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

            Verjandi ákærða Arnar Björnssonar krefst aðallega sýknu en til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

            Verjandi ákærða Sigtryggs A. Magnússonar krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

 

                                                                        I

            Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins dagsettu 12. desember 2016 var mál þetta sent embætti Héraðssaksóknara til rannsóknar vegna meintra brota ákærðu, sem allir voru fyrrum fyrirsvarsmenn ABHHH ehf., á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Til grundvallar lá rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna rekstraráranna 2013 til og með 2015. Samkvæmt fyrirtækjaskrá RSK var tilgangur félagsins skráður alhliða byggingastarfsemi o.fl. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2015 og var skiptastjóra búsins því tilkynnt um rannsóknina þann 12. apríl 2016.

            Ákærðu var tilkynnt með bréfi skattrannsóknarstjóra dagsettu 5. júlí 2016 um lok rannsóknarinnar og fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málinu og þeim veittur frestur til þess að tjá sig um hana á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Engar athugasemdir bárust frá ákærðu af þessu tilefni.

            Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi í ljós að ákærði Kristján hefði vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda ABHHH ehf. vegna greiðslutímabilanna nóvember og desember rekstrarárið 2013 og janúar til og með mars rekstrarárið 2014. Þá hafi ákærði Örn að sama skapi vanrækt skil á þeim gjöldum vegna greiðslutímabilanna apríl til og með nóvember rekstrarárið 2014. Einnig hafi ákærði Kristján vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á lögmæltum tíma á staðgreiðsluskilagrein vegna greiðslutímabilsins desember rekstrarárið 2013. Ákærði Örn hafi vanrækt hið sama á staðgreiðsluskilagreinum vegna greiðslutímabilanna maí, ágúst, september og október rekstrarárið 2014.

            Mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að lokinni rannsókn var að ákærðu hefðu í krafti stöðu sinnar brotið gegn lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og eftir atvikum almennum hegningarlögum með saknæmri háttsemi sinni. Vísað var til upplýsinga um fyrirsvar ákærðu fyrir ABHHH ehf. samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá RSK, allt frá stofnun félagsins og þar til það var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 4. mars 2015.

Þann 16. maí 2017 gaf héraðssaksóknari út ákæru í málinu.

 

                                                            II

            Ákærði Sigtryggur A. Magnússon játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Hann staðfesti að hann hefði verið skráður aðalmaður í stjórn félagsins og framkvæmdastjóri frá 21. desember 2014 þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 4. mars 2015. Kvaðst hann hafa keypt félagið af Kristjáni Ólasyni sem hefði verið eigandi þess. Hann hafi haft lítil samskipti við hann en hitt ákærðu báða á fundi er afsal vegna kaupanna var undirritað 19. desember 2014. Þá staðfesti hann það sem haft er eftir honum í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara um að ákærðu hefðu komið fram sem stjórnendur og eigendur félagsins gagnvart honum. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hversu slæm fjárhagsstaða félagsins hefði verið við kaupin, þ.e. að það hefði í raun verið gjaldþrota. Kvaðst hann hafa greitt 400.000 krónur fyrir það. Hefði hann hugsað sér að nýta tap félagsins í tengslum við annað verkefni og snúa rekstrinum við. Hafi honum m.a. verið sagt að félagið ætti útistandandi kröfur. Hann hafnaði því að tilgangurinn hefði verið sá að vera einhvers konar „útfararstjóri“ félagsins. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa tekið við neinum reikningum frá félaginu, borgað reikninga, laun eða annað. Hann hefði haldið að engin hreyfing væri á félaginu og kvaðst ekki geta útskýrt hvers vegna færslur hefðu verið gerðar eftir að hann tók við því. Það hafi ekki verið fyrir hans tilstilli.    

            Ákærði Kristján Ólason kvaðst hafa verið í fyrirsvari fyrir félagið tímabilið 16. desember 2013–2. maí 2014 í samræmi við skráningar í fyrirtækjaskrá RSK og borið ábyrgð sem slíkur. Í fyrstu hafi félagið verið lítið verktakafyrirtæki en hann hafi ráðið meðákærða í lok árs 2012 og við það hafi verkefnin breyst og félagið stækkað. Hafi Örn í raun tekið við framkvæmdastjórn mun fyrr þó ákærði hefði enn verið skráður í fyrirsvari. Þá hafi B verið ráðin í [...] 2014 á skrifstofuna.

            Ákærði kvaðst ekki vita hvort Örn hefði haft fyrirtækjaaðgang að bankareikningum, en vissi til þess að hann hefði notað aðgang ákærða. Félagið hafi haft einn aðalreikning sem ákærði hafi haft aðgang að, endurskoðendur og hugsanlega Örn þegar hann var framkvæmdastjóri. Þá hafi Örn verið með debetkort á reikning og einnig einhverjir verkstjórar. Aðspurður kvað hann Örn hafa séð um reksturinn og því haft yfirsýn yfir fjárstreymið. Hann hafi, rétt eins og ákærði, gefið B fyrirmæli um reikninga og hún ráðfært sig við þá báða. Örn hafi ekki haft aðgang að bókhaldi félagsins en það hafi ákærði haft, svo og endurskoðandi sem sá um það.

            Hvað varði skráningu í fyrirtækjaskrá tímabilið 2. maí til 21. desember 2014 kvaðst hann ekki geta útskýrt hvers vegna Örn hefði ekki verið skráður sem framkvæmdastjóri heldur aðeins aðalmaður í stjórn. Hann hafi í reynd gegnt stöðu framkvæmdastjóra og verkaskipting á milli þeirra hafi verið nokkuð skýr. Örn hafi borið ábyrgð á skattskilum en ákærði hafi aðstoðað hann. Hafi þeir m.a. farið og samið við Tollstjóra. Kvað hann Örn ekki hafa verið mikinn bankamann, þ.e. hann hefði ekki verið mikið að skoða heimabankann en fengið allar upplýsingar frá B sem hann þurfti. Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið verkefnastjóri og m.a. haft daglega umsjón með gæðamálum og aðstoðað eins og hægt hefði verið. Hann hafi ekki séð um launagreiðslur en stundum greitt út laun. Endurskoðandi og bókari hafi haldið utan um skil á staðgreiðslu. Fyrirmæli um slíkt hafi komið frá Erni en það hafi komið fyrir að ákærði greiddi staðgreiðslu eftir að Örn hefði tekið við. Hvað varði afdregna en vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launatímabila þeirra sem tilgreind eru í ákæru kvað hann hana hafa runnið í reksturinn. Það eigi bæði við um þá staðgreiðslu sem hann telji sig með réttu bera ábyrgð á og þá sem Örn hafi borið ábyrgð á. Spurður um veikindi meðákærða Arnar kvað hann þau ekki hafa haft áhrif á störf hans.

            Eftir að hann seldi Sigtryggi félagið minnti hann að aðkomu hans hefði lokið að félaginu. Hafi Sigtryggur verið upplýstur um fjárhagsstöðu félagsins við kaupin.

            Ákærði Örn Björnsson kvaðst ekki hafa tekið neinar fjárhagslegar ákvarðanir vegna félagsins Allt viðhald ehf. Hann hafi komið inn í félagið og með 15% hlutdeild. Hann hafi aflað viðskiptavina og haldið utan um verkefni. Hafi hann í raun verið eins og hver annar verktaki og þegið verktakagreiðslur. Kristján hafi verið eigandi og framkvæmdastjóri á þessu tímabili og líka á því tímabili er Sigtryggur hafi verið skráður í fyrirsvari. Nánar spurður kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sinni samkvæmt formlegum skráningum fyrr en síðar. Hann hafi samþykkt skráningarnar en það hafi verið ákveðið hirðuleysi. Kvaðst hann ekki rengja þær.

            Ákærði kvaðst ekki hafa haft aðgang að reikningum félagsins, utan reikningi til efniskaupa, og hafi verið meinaður aðgangur að þeim af B. Þá hafi hann ekki haft aðgang að bókhaldskerfi félagsins. Hann hafi ekki séð um skattskil. Kvaðst hann hafa litið á B sem gjaldkera og verið í samskiptum við hana. Hafi komið fyrir að hann hafi gefið fyrirmæli um greiðslu reikninga eða óskað eftir peningum til efniskaupa en B hafi ávallt borið slíkt undir Kristján. Kvaðst hann hafa varið hluta af deginum á skrifstofunni en annars verið á verkstað. Kvaðst hann ekki hafa tekið að sér eða sóst eftir því að vera framkvæmdastjóri.

            Ákærði kannaðist við að hafa farið ásamt Kristjáni á fund Sigtryggs er gengið var frá sölu félagsins en Kristján hefði greitt Sigtryggi fyrir að „bera félagið til grafar“. Kvaðst hann aðeins hafa komið með á fundinn því hann hefði ekki haft neitt betra að gera. Ákærði kvaðst hafa unnið eitthvað hjá félaginu eftir 21. desember 2014 þar til það varð gjaldþrota en Sigtryggur hafi séð alveg um það.

            Ákærði kvaðst hafa fengið kransæðastíflu og hafi vinnuþrek hans verið skert. Hafi Kristján þá stýrt skrifstofunni.

            B kvaðst hafa starfað fyrir umrætt félag frá 1. mars 2014 og fram til þess tíma er það var tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi Kristján ráðið hana til starfa á skrifstofu. Hún kvaðst hafa litið á ákærðu báða sem yfirmenn sína. Þann tíma sem hún starfaði hjá félaginu hefði engin breyting orðið á rekstrinum og ekki heldur eftir að Endurbætur ehf. tók við. Örn hafi verið á skrifstofunni en þó meira á verkstað. Hafi verið allur gangur á því til hvors hún hafi leitað. Hafi hún alltaf borið ákvarðanir varðandi fjármál undir annan hvorn og sá sem „var nær“ hefði svarað henni. Kvað hún Örn hafa séð um fjármálastjórn að mestu og þeir báðir um daglegan rekstur. Hann hafi verið titlaður framkvæmdastjóri en Kristján eigandi. Hafi Örn haft betri yfirsýn yfir verkin og haldið utan um innheimtuna. Aðspurð kvað hún ákærðu báða hafa séð um skattinn en hún vissi ekki hver hefði gert skýrslur og skilagreinar. Hún hafi hins vegar sent út launakeyrsluna. Hafi ákærði Örn verið ágætlega upplýstur um fjárhagsstöðu félagsins og stundum fengið útprentun af stöðu. Hann hafi ekki haft aðgang að aðalreikningi félagsins og ekki beðið um að fara inn á hann. Hún hafi alltaf gefið honum upplýsingar um stöðu reikninga og annað sem hann hafi beðið um. Til þess hafi hún ekki þurft leyfi Kristjáns. Þá hafi Örn notað aðgreindan reikning til að kaupa inn vöru.

            Þá kvað B rétt vera að hún hefði verið starfsmaður Kristjáns og síðast starfað í félagi í hans eigu. Nú sé hún hins vegar atvinnulaus enda hafi það félag liðið undir lok um áramótin.

            B kvað sér hafa verið kunnugt um að Örn hefði verið veikur á tilteknu tímabili en taldi hann þó ekki hafa verið fjarverandi lengi. Þau hafi haft samskipti símleiðis um ákvarðanir.

 

                                                            III

            Ákærðu er, eins og áður er rakið, gefið að sök brot á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki, hver um sig á þeim tíma er þeir voru í fyrirsvari fyrir félagið, staðið skil á skilagreinum ABHHH ehf. á lögmæltum tíma og eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á þeim tímabilum sem nánar greinir í ákæru. Rannsókn málsins beindist að tímabilinu frá 16. desember 2013 fram til þess tíma er félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 4. mars 2015.

            Ákærði Sigtryggur A. Magnússon hefur játað brot sín skýlaust fyrir dómi. Sannað er með játningu hans og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök, þ.e. að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna desember 2014 og janúar rekstrarárið 2015. Verður nánar fjallað um þátt hans síðar.

 

            Ákærðu Kristján Ólason og Örn Björnsson neita sök. Ákærði Kristján er, samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK, framkvæmdastjóri og aðalmaður í stjórn félagsins frá 10. desember 2008 til 2. maí 2014 og prókúruhafi frá 10. desember 2008 til 21. desember 2014. Hann játar að hafa ekki staðið skil á skilagreinum félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma og að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins, er heyrir undir framangreint tímabil fyrirsvars hans eða nánar tiltekið tímabilið frá 16. desember 2013 til 2. maí 2014. Krafa ákærða um sýknu er reist á því að hann beri ekki ábyrgð á skattskilum utan þess tímabils, en þá beri meðákærðu ábyrgðina í samræmi við skráningu í fyrirtækjaskrá. Því beri að lækka þá fjárhæð sem tilgreind er í ákæru og hann er talinn bera ábyrgð á vegna vanframtalinna skatta. Þess má geta að augljós villa er í ákærutexta; þar hefur fallið út ártalið 2013 eftir 16. desember en í ljósi framangreindrar játningar voru ekki gerðar athugasemdir við það.

            Ákærði Örn er, samkvæmt fyrirtækjaskrá RSK, aðalmaður í stjórn og prókúruhafi frá 2. maí 2014 til 21. desember 2014. Hann telur sig ekki bera ábyrgð á skattskilum sem falla innan tímabils hinnar formlegu skráningar. Hann reisir kröfu sína um sýknu fyrst og fremst á því að hann hafi ekki haft tök á að ráðstafa eða taka ákvarðanir tengdar fjármunum félagsins nema að afar takmörkuðu leyti. Dagleg stjórn félagsins hafi alfarið verið í höndum Kristjáns sem hafi verið eigandi og framkvæmdastjóri félagsins. Þá ber ákærði fyrir sig vanþekkingu á þeirri ábyrgð er hvíldi á honum sem aðalmanni í stjórn.

 

            Ágreiningslaust er að skráningar um fyrirsvar ákæru í fyrirtækjaskrá RSK eru réttar, en þær eru í samræmi við tilkynningar frá félaginu. Þá er ekki uppi tölulegur ágreiningur.

            Samkvæmt 1.–3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, ber félagsstjórn ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Bera stjórnarmenn ábyrgð á meðferð og eftirliti með fjármunum félagsins og bókhaldi. Samkvæmt framangreindum ákvæðum ber framkvæmdastjóri einnig ábyrgð og skal hann annast daglegan rekstur og sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félags sé með tryggilegum hætti. Þannig bera félagsstjórn og framkvæmdastjóri einkahlutafélags ábyrgð á því að skattskilum sé hagað í samræmi við lög eða í þessu tilviki í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Gildir hér einu þó öðrum hafi verið falið að sinna þeim verkefnum fyrir félagið.

            Ákærði Kristján hefur viðurkennt ábyrgð sína að hluta, eins og áður er rakið. Hann telur sig hins vegar ekki bera ábyrgð á skattskilum á árinu 2014 nema frá janúar til og með apríl, en ekki til 4. mars 2015, eins og í ákæru greinir.

            Samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK var enginn skráður framkvæmdastjóri tímabilið 2. maí til 21. desember 2014. Ákæruvaldið byggir á því að ákærðu Kristján og Örn beri í krafti stöðu sinnar sameiginlega ábyrgð á skattskilum það tímabil, þ.e. á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem þeir báru í raun sem daglegir stjórnendur og Örn þar að auki á grundvelli formlegrar skráningar sem aðalmaður í stjórn félagsins.

            Vitnið B hefur borið á sama veg á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi um að ákærðu hafi í sameiningu stýrt félaginu og tekið ákvarðanir um fjárhagstengd málefni. Þá hafi launamál og skattskil fallið undir ábyrgð þeirra beggja. Hún hafi litið á ákærða Kristján sem eiganda félagsins og Örn sem framkvæmdastjóra og hafi staða þeirra ekki breyst allan þann tíma er hún starfaði hjá félaginu. Að mati dómsins er ekkert fram komið sem dregur úr trúverðugleika vitnisins og vandséð hvaða hagsmuni hún hefur af því að bera rangt um þessi atriði. Hvað varðar ákærða Örn þá telur dómurinn einu gilda þó að hann hafi haft takmarkaðan rafrænan aðgang að reikningum félagsins enda voru heimildir hans víðtækar og hann hafði alla möguleika til þess að nýta sér þær. Sú málsvörn ákærða að skráning í Fyrirtækjaskrá RSK hafi verið til málamynda er sömuleiðis í andstöðu við framangreint og þátttöku hans í rekstrinum og er því haldlaus með öllu. Þá liggur ekki fyrir sönnun þess að hann hafi ekki getað sinnt störfum sökum heilsubrests það tímabil sem ákæra lýtur að.

            Með vísan til framangreinds telst það vera sannað að ákærðu báru sameiginlega ábyrgð á rekstri félagsins, þ.m.t. skattskilum þess, tímabilið 2. maí til 21. desember 2014.

 

            Samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK var ákærði Sigtryggur einn skráður í fyrirsvari fyrir félagið frá 21. desember 2014 og fram til þess tíma er félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Ákæruvaldið byggir á því að ákærði Kristján hafi auk Sigtryggs borið ábyrgð á skattskilum það tímabil, í krafti stöðu sinnar, þ.e. á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem hann bar í raun sem daglegur stjórnandi. Kristján bar hins vegar að hann hefði ekkert haft með félagið að gera eftir að hafa selt það til Sigtryggs, sem bar fyrir dómi að hann hefði haft lítil sem engin samskipti við Kristján og Örn og þá aðeins við kaupsamningsgerð. Hafi þeir þá báðir komið fram sem stjórnendur en Kristján verið eigandinn. Kvað hann sér ókunnugt um að einhver hefði höndlað með fjármál félagsins, m.a. með því að halda staðgreiðslu opinberra gjalda eftir af launum starfsmanna, eftir að hann tók við félaginu. Enginn hafi verið á launaskrá hjá honum enda hafi hann ætlað félagið í annað.

            Eins og áður er komið fram bar vitnið B að aðkoma ákærðu Kristjáns og Arnar að fjármálum félagsins og samskipti við hana vegna þeirra hafi verið óbreytt allt til þess að félagið var tekið til skipta. Hún kvaðst aldrei hafa séð ákærða Sigtrygg. Þrátt fyrir neitun ákærða Kristjáns verður ekki litið fram hjá vitnisburði B sem styður að rekstur félagsins hafi verið með óbreyttu sniði þrátt fyrir söluna til Sigtryggs. Verður ákærði Kristján því sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn skyldum sínum sem daglegs stjórnanda það tímabil sem hér um ræðir.

 

            Dómurinn telur sannað, með vísan til þess sem rakið hefur verið og með stoð af gögnum málsins, að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Brot ákærðu voru fullframin á lögboðnum eindaga tímabilanna. Ákærðu bar að sjá til þess að fjármál félagsins væru í góðu horfi og þar með skattskil í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður að virða háttsemi ákærðu til stórkostlegs hirðuleysis.

            Þegar litið er til fjárhæða verða brot ákærðu Kristjáns og Arnar talin meiri háttar. Þau verða því heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður þeim því gerð fangelsisrefsing. Það sama á hins vegar ekki við um brot ákærða Sigtryggs hvað varðar fjárhæð, en í þessu sambandi er litið til þeirra viðmiðana er fram koma í 37. gr. A í reglugerð nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. rg. um breytingu á reglugerðinni. Þá vísast einnig til 37. gr. A og 38. gr. í rg. nr. 373/2001 um þær viðmiðanir aðrar sem skipt geta máli þegar metið er hvort brot teljist stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum er ósannað að slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi er auki mjög á saknæmi verknaðar ákærða Sigtryggs eða séu til marks um harðan brotavilja hans. Verður honum því ekki gerð fangelsisrefsing í málinu.

 

                                                            IV

Refsiákvörðun

            Ákærðu hafa samkvæmt framlögðum sakavottorðum ekki áður gerst sekir um refsiverðan verknað.

            Með vísan til þess sem áður er rakið um þátt ákærða Sigtryggs og að virtri skýlausri játningu hans verður hann dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 2.282.496 kr. en um vararefsingu fer eins og nánar greinir í dómsorði.

            Með hliðsjón af þeim brotum sem ákærðu Kristján og Örn hafa verið sakfelldir fyrir, dómvenju á þessu sviði og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða Kristjáns vera ákveðin fimm mánaða fangelsi og ákærða Arnar fjögurra mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar verður frestað skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

            Ákærðu verða samhliða skilorðsbundinni refsingu dæmdir til greiðslu sektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður sekt miðuð við lögbundið lágmark í samræmi við kröfu ákæruvaldsins, eða tvöfalda skattfjárhæð af þeirri fjárhæð sem vangreidd var, eða samtals 16.840.361 kr. hvað ákærða Kristján varðar en 11.695.525 kr. hvað varðar ákærða Örn. Um vararefsingu fer eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ákærði Sigtryggur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 632.400 kr.

            Ákærði Kristján, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars M. Valdimarssonar lögmanns, 779.960 kr., og Ólafs Kristinssonar lögmanns, 442.680 kr.

            Ákærði Örn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurbjörns Þorbergssonar lögmanns, 864.280 kr.

            Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til vinnu lögmanna á rannsóknarstigi, en Ólafur Kristinsson lögmaður var tilnefndur verjandi ákærða Kristjáns á rannsóknarstigi og að hluta til fyrir dómi. Litið er til þess hagræðis sem óhjákvæmilega hefur fylgt því að mál þetta var tengt og í mörgu sambærilegt við mál S-570/2017 sem var rekið samhliða máli þessu. Nýr verjandi ákærða, Ómar R. Valdimarsson, kom fyrst að málinu 6. desember 2017. Þá er litið til þess hagræðis sem var af fyrirkomulagi við málflutning verjenda Kristjáns og Arnar, vegna samhliða flutnings máls S-570/2017 sem höfðað var gegn þeim. Einnig er litið til umfangs málsins.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, Sigtryggur A. Magnússon, greiði 2.282.496 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 64 daga.

            Ákærði, Kristján Ólason, sæti fangelsi í fimm mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði Kristján greiði 16.840.361 krónu sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 240 daga.

            Ákærði, Örn Björnsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði Örn greiði 11.695.525 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 180 daga.

            Ákærði Sigtryggur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 632.400 krónur.

            Ákærði Kristján greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars M. Valdimarssonar lögmanns, 779.960 krónur, og Ólafs Kristinssonar lögmanns, 442.680 krónur.

            Ákærði Örn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurbjörns Þorbergssonar lögmanns, 864.280 krónur.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)