• Lykilorð:
  • Fjármögnunarleiga
  • Fyrning
  • Innheimta
  • Lánssamningur
  • Leigusamningur
  • Tómlæti

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 13. mars 2019 í máli nr. E-2780/2018:

Landsbankinn hf.

(Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

gegn

Þrotabú Global Mission Network ehf.

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. september 2018 og dómtekið 13. febrúar sl. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11 í Reykjavík og stefndi er Global Mission Network ehf., Grensásvegi 8 í Reykjavík.

 

Stefndi skilaði greinargerð í málinu 11. október sl. Við fyrirtöku málsins 30. nóvember sl. upplýsti stefndi að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Við næstu fyrirtöku málsins féll niður þingsókn af hálfu stefnda þrátt fyrir að fyrirsvarsmaður þrotabús stefnda hefði verið löglega boðaður til þeirrar fyrirtöku en fyrir lá tilkynning frá lögmanni félagsins um að hann hefði sagt sig frá málinu. Var málinu frestað í því skyni að gefa stefnanda kost á að skila inn sókn skv. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Við fyrirtöku málsins 13. febrúar var lögð fram sókn og málið dómtekið að því búnu.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 3.580.350 japönsk yen og 6.056,79 evrur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. desember 2014 til greiðsludags. Auk þess krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar.

 

I.

Kröfur stefnanda byggja á fjármögnunarleigusamningi nr. SFL-012381, sem nú er númer 78486 og gerður var 14. febrúar 2007. Aðilar samningsins voru upphaflega SP-fjármögnun hf., sem nefndur er eigandi, og félagið Evrópsk fjölmiðlun ehf. sem nefnt er notandi. Stefnandi tók yfir réttindi og skyldur upphaflegs eiganda við samruna í janúar 2011 og nafni notanda hefur verið breytt í nafn stefnda. Hið leigða er Tandberg encoder og decoder sjónvarpsbúnaður ásamt fylgihlutum. Samningsverð er í samningi sagt 10.455 evrur og 6.623.292 japönsk jen eða samtals 4.609.811 krónur, sem bar að greiða með 60 greiðslum á 5 árum, eða á tímabilinu 1. apríl 2007 til 1. mars 2012. Leiguverðið er gengistryggt miðað við gengi evru, sem skyldi hafa 20% vægi og gengi jena sem skyldi hafa 80% vægi og bar nánar tilgreinda vexti, mismunandi eftir gjaldmiðlum. Þá var kveðið á um að framlengingargjald skyldi vera 10% af árlegri leigu fyrir hvert 12 mánaða tímabil.

 

Stefndi greiddi alls 29 greiðslur samkvæmt samningnum, þá fyrstu 15. nóvember 2007 og þá síðustu 23. mars 2010.

 

Stefnandi tilkynnti stefnda með bréfi dagsettu 11. desember 2014 að hann teldi að líta bæri á framangreindan leigusamning sem lánssamning og jafnframt, þar sem fjárhæð hans hefði verið greidd út í erlendri mynt, sem erlent lán. Vísaði stefnandi í þessu efni til niðurstöðu Hæstaréttar, annars vegar í máli nr. 430/2013 og hins vegar í máli nr. 337/2013. Því yrði fjárhæð samningsins ekki endurreiknuð á grundvelli ólögmætis gengistryggingar lána í íslenskum krónum. Í sama bréfi er greint frá því að stefnandi hafi ákveðið, í ljósi réttaróvissu sem þá hafði ríkt um framangreind atriði, að krefjast ekki dráttarvaxta á þegar gjaldfallnar greiðslur. Þess í stað hafi verið reiknaðir samningsvextir frá síðasta greidda gjalddaga fram að dagsetningu bréfsins og áföllnum vöxtum bætt við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti. Staða lánsins þannig reiknuð var sögð 3.580.350 jen og 6.056,79 evrur og nýr gjalddagi ákveðinn 12. desember 2014. Með bréfinu er stefnda veittur 21 dags frestur til að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar.

 

Þann 20. maí 2016 sendi stefnandi stefnda yfirlýsingu um riftun, greiðsluáskorun og áskorun um upplýsingar um greiðslu kröfunnar, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þann 2. nóvember s.á. lagði stefnandi fram í Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni um afhendingu leigumunanna með innsetningargerð. Með úrskurði dómsins 8. júní 2018 var það mál fellt niður að kröfu stefnanda og stefnda dæmdur málskostnaður. Í úrskurðinum kemur fram að ástæða þess að stefnandi féll frá kröfu sinni hafi verið sú að hann teldi að það svaraði ekki kostnaði að krefjast umráða þeirra til að selja þá vegna þess hve verðlitlir þeir munir væru.

 

Stefndi hefur ekki innt frekari greiðslu af hendi á grundvelli samningsins og er mál þetta höfðað til greiðslu eftirstöðva samningsskuldarinnar eins og stefnandi kveður hana vera.

 

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á samningi aðila og meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða. Stefnandi byggir á því að líta beri á samning aðila sem lánssamning í erlendum gjaldmiðli svo sem hann kynnti stefnda með bréfi 11. desember 2014 og að fjárhæð skuldarinnar sé sú sem greint er frá í sama bréfi að viðbættum dráttarvöxtum frá þeim degi.

 

III.

Stefndi reisir sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Líta beri á samning aðila sem leigusamning, hann hafi verið gerður í gildistíð laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. þeirra laga fyrnist krafa um leigu og vexti á fjórum árum. Síðasti gjalddagi leigu samkvæmt samningnum hafi verið 1. apríl 2012 og því hafi allar kröfur samkvæmt samningnum verið fyrndar fjórum árum síðar eða 1. apríl 2016.

 

Stefndi kveðst hafa greitt leigu í samræmi við efni samnings aðila þar til stefnandi hafi fyrirvaralaust hætt að innheimta hana eftir að greiðsluseðill með gjalddaga 1. febrúar 2010 hafi verið sendur. Þann greiðsluseðil hafi stefndi greitt eins og alla aðra greiðsluseðla sem stefnandi eða forveri hans hafi sent honum. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um greiðslu fyrr en með greiðsluáskorun sex árum síðar, eða 20. maí 2016. Þá þegar hafi krafan verið löngu fyrnd.

 

Stefndi byggir á því að við túlkun samnings aðila beri að byggja á traustkenningu fjármunaréttar, allan vafa eigi að túlka stefnda í hag enda hafi samningur aðila byggst á einhliða og stöðluðum samningsskilmálum sem stefnandi hafi samið og borið ábyrgð á. Stefnandi og forveri hans séu sérfræðingar í fjármálastarfsemi.

 

Stefndi byggir jafnframt á því að krafa stefnanda hafi ekki verið gjaldkræf þegar mál þetta var höfðað þar sem stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að reikna út leigugreiðslur í samræmi við gengistryggingarákvæði samnings aðila og innheimta þær úr hendi stefnda. Því geti samningurinn ekki talist hafa verið í vanskilum. Gjaldfelling samningsins og yfirlýsing stefnanda um riftun sé því ólögmæt auk þess sem krafan sé fallin niður fyrir tómlæti við málshöfðunina vegna þessa athafnaleysis stefnanda.

 

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður byggir stefndi til vara, verði litið svo á að samningurinn sé lánasamningur, að hann feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Stefndi andmælir því að fjárhæð samningsins hafi verið greidd út í erlendri mynt. Andvirði samningsins hafi stefnandi varið til kaupa á vöru sem hann hafi afhent stefnda. Stefndi hafi því fengið tiltekna muni í hendur en ekki erlenda mynt. Fjármunir voru ekki greiddir stefnda heldur þriðja aðila.

 

IV.

Í sókn stefnanda er framangreindum málsástæðum stefnda mótmælt og ítrekaðar fyrri málsástæður. Líta beri á samning aðila sem lánssamning, fyrningarfrestur krafna á grundvelli slíkra samninga sé 10 ár skv. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 og síðasta greiðsla samkvæmt samningnum hafi verið greidd 23. mars 2010. Þá hafnar stefnandi sjónarmiðum varðandi tómlæti og vísar til þess að ljúka hafi átt við greiðslu samkvæmt samningnum 1. mars 2012. Það geti ekki verið tómlæti af hálfu stefnanda þótt stefndi hafi hætt að greiða samkvæmt honum tveimur árum fyrir þann tíma. Að auki vísar stefnandi til efnahagshrunsins 2008 og þess óvissuástands sem skapast hafi um sambærilega samninga í kjölfar gengislánadóma Hæstaréttar. Eftir að dómur réttarins í máli 337/2013 hafi gengið hafi stefnandi sent stefnda bréf 11. desember 2014 þar sem nýr gjalddagi hafi verið ákveðinn og fallið frá kröfu um greiðslu dráttarvaxta fyrir þann tíma.

 

Þá andmælir stefnandi því að hann hafi ekki innt af hendi greiðslu í erlendri mynt á grundvelli samningsins. Stefnandi hafi efnt samningsskuldbindingu sína með greiðslu samningsfjárhæðarinnar í erlendri mynt inn á reikning Tandberg Television LTD vegna fjármögnunar á sjónvarpsbúnaði.

 

V.

Í máli þessu er deilt um greiðslu eftirstöðvar fjármögnunarleigusamnings sem samkvæmt efni sínu felur í sér leigugreiðslur fyrir framsal afnotaréttar af sjónvarpsbúnaði frá forvera stefnanda til stefnda.

 

Samkvæmt skýrri niðurstöðu Hæstaréttar í dómum sem varða samninga, sem í öllum atriðum sem máli skipta eru eins og sá samningur sem hér um ræðir, verður að líta svo á að um lánssamning sé að ræða sem forveri stefnanda klæddi í búning leigusamnings. Vísast í þessu efni m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 430/2011 sem kveðinn var upp 12. desember 2013. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd á grundvelli 2. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda enda verður að líta svo á að um hana gildi 10 ára fyrningarfrestur, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, en ekki er ágreiningur um að þau lög gilda um lögskipti aðila. Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að það geti leitt til þess að krafan sé fallin niður á þeim grundvelli. En í því efni verður að miða við að stefndi hafi gert reka að því að innheimta eftirstöðvar kröfunnar með bréfi 11. desember 2014 þar sem skorað er á stefnda að greiða eða semja um greiðslu kröfunnar innan tiltekins frests.

 

Samkvæmt framangreindu verður umdeildur samningur talinn lánasamningur. Í samningnum sjálfum er lánsfjárhæðin ákveðin í erlendum myntum og skyldi hún greidd til baka í sömu myntum, með tilteknum vöxtum. Þá liggur fyrir að lánsfjárhæðin var að mestu greidd út í erlendri mynt, enda varið til kaupa á vöru erlendis frá. Þá er ósannað að önnur atvik við samningsgerðina hafi verið með þeim hætti að unnt sé að líta svo á, þrátt fyrir framangreint, að lánið hafi í raun verið í íslenskum krónum sem með ólögmætum hætti hafi verið bundið við gengi erlendra mynta. Sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu hvílir á stefnda.

 

Með framangreindum rökum er fallist á það með stefnanda að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda til þeirrar fjárhæðar sem krafist er, enda hefur fjárhæð kröfunnar eða upphafstíma dráttarvaxta ekki verið mótmælt á grundvelli annarra málsástæðna en þeim sem þegar hefur verið fjallað um og hafnað. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm.

 

Dómsorð:

Stefndi, þrotabú Global Mission Network ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 3.580.350 japönsk jen og 6.056,79 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. desember 2014 til greiðsludags auk 450.000 króna í málskostnað.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir