• Lykilorð:
  • Frelsissvipting
  • Handtaka
  • Húsleit
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Mál þetta, sem höfðað var með birtingu stefnu 28. mars sl., var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 16. október sl. Stefnandi er Linda Mjöll Þorsteinsdóttir, Kríuási 33, Hafnarfirði. Stefndi er dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 6.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. nóvember 2016 til 12. apríl 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst lækkunar kröfu stefnanda og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Krafa stefnanda er á því reist að hún hafi að ósekju verið handtekin af vopnuðum lögreglumönnum á heimili sínu árla morguns 3. nóvember 2016, gerð hafi verið húsleit á heimili hennar, síma- og tölvugögn hennar skoðuð, munir í eigu hennar og barna haldlagðir og hún látinn sæta gæsluvarðhaldi, í einangrun, til 7. sama mánaðar eða allt þar til Hæstiréttur Íslands felldi úr gildi gæsluvarðahaldsúrskurð héraðsdóms uppkveðinn 3. sama mánaðar. Eigi hún því rétt á skaðabótum samkvæmt reglum XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. einkum þágildandi 1. og 2. mgr. 228. gr. laganna. Einnig vísar stefnandi til reglna stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála, einkum þeirra sem lúta að friðhelgi einkalífs og rétti sakaðra manna. Hún leggur áherslu á þá alvarlegu skerðingu mannréttinda sem hér hafi verið um að ræða og þá andlegu þrekraun sem hún hafi orðið fyrir.

Stefndi mótmælir ekki bótaskyldu samkvæmt þágildandi 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 80/2008 en telur fjárhæð kröfu stefnanda langt úr hófi með hliðsjón af fyrirliggjandi dómaframkvæmd. Stefndi mótmælir því að óforsvaranlegur dráttur hafi orðið á afhendingu muna til stefnanda sem lagt var hald á en þeir hafi verið afhentir 1. desember 2016 eða sama dag og kveðinn var upp úrskurður í héraðsdómi um skyldu lögreglunnar til að afhenda munina. Þá er vísað til þess að stefnandi hafi ekki verið aðili að því dómsmáli sem laut að afhendingu munanna og ekkert liggi fyrir um að hún sé eigandi þeirra muna sem þar var um fjallað. Að lokum er bent á að stefnandi geti ekki krafist bóta vegna hugsanlegs miska barna sinna vegna aðgerða lögreglu.

Atvik málsins eru ágreiningslaus, en við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu lögmanns stefnanda að fallist væri á með stefnda að engin símhlustun hefði farið fram af hálfu lögreglu svo sem fram kom í stefnu málsins.

Ekki var um skýrslutökur að ræða við aðalmeðferð málsins.

 

Niðurstaða

            Í málinu liggur fyrir að rannsókn þess máls sem varð tilefni áðurgreindra rannsóknaraðgerða lögreglu gegn stefnanda, þ.á m. kröfu um gæsluvarðhald, var hætt og málið endanlega fellt niður með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 29. ágúst 2017. Af hálfu stefnda er bótaskyldu samkvæmt þágildandi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sem hér á við, sbr. nú 246. gr. sömu laga eins og þeim var breytt með lögum nr. 17/2018, ekki mótmælt en á því byggt að fjárhæð kröfu stefnanda sé úr hófi, einkum með hliðsjón af fyrirliggjandi dómaframkvæmd. Því er ekki haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisir kröfu sína á þannig að lækka beri bætur af þeim sökum. Á hinn bóginn er ekki á því byggt af hálfu stefnanda að hún hafi verið beitt harðýðgi af hálfu lögreglu eða að reglur hafi verið brotnar við rannsókn umrædds máls.

            Í málinu verður að horfa til þess að stefnandi var handtekin af vopnuðum lögreglumönnum á heimili sínu þar sem hún dvaldi ásamt eiginmanni sínum og börnum. Þá fór fram leit á heimili hennar þar sem hald var lagt á muni auk þess sem persónuleg gögn hennar í síma voru skoðuð samkvæmt heimild í úrskurði héraðsdóms þess efnis. Við þessar aðstæður verður stefnandi ekki látin bera sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni að munir í hennar eigu hafi í reynd verið haldlagðir og hún eigi rétt á einhverjum miska af þeim sökum. Svo sem áður greinir var stefnandi í haldi lögreglu frá því snemma morguns fimmtudagsins 3. nóvember 2016 fram á mánudag 7. sama mánaðar. Er ekki um það deilt að allan þann tíma var stefnandi í einangrun og fjölmiðlabanni. Að virtri þessari tímalengd, svo og öðrum þeim atriðum sem áður greinir, þykir miski stefnanda hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna og er þá horft til fyrirliggjandi dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands að því marki sem hún getur veitt leiðbeiningu við mat á atvikum málsins samkvæmt téðri 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu stefnda hefur upphafsdegi vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, svo og upphafsdegi dráttarvaxta, ekki verið sérstaklega mótmælt. Verða vextir því dæmdir í samræmi við kröfugerð stefnanda svo sem í dómsorði greinir.

            Stefnandi nýtur gjafsóknar við rekstur málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 14. nóvember 2017. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Karls Georgs Sigurbjörnssonar lögmanns, hæfilega ákveðin 620.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Er þá tekið tillit til þess að samhliða þessu máli er rekið annað dómsmál vegna hliðstæðra atvika. Með hliðsjón af gjafsókn stefnanda þykir ekki ástæða til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar.

Af hálfu stefnanda flutti málið Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Soffía Jónsdóttir lögmaður.

Skúli Magnússon kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Lindu Mjöll Þorsteinsdóttur, 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. nóvember 2016 til 12. apríl 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Karls Georgs Sigurbjörnssonar, að fjárhæð 620.000 krónur.

           

                                                                             Skúli Magnússon