• Lykilorð:
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Virðisaukaskattur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september í máli nr. S-82/2018:

Ákæruvaldið

(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Haraldi Karli Reynissyni

(Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Guðnýju Hrefnu Leifsdóttur

(Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með ákæru embættis héraðssaksóknara, útgefinni 15. febrúar 2018, á hendur Haraldi Karli Reynissyni [kt...], og Guðnýju Hrefnu Leifsdóttur, [kt...], báðum til heimilis að [...].

            Í ákæru eru ákærðu sótt til saka fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, ákærða Guðný Hrefna sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins Aukaafls, kt. 431014-1140, nú afskráð, og ákærði Haraldur sem daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður félagsins, með því að hafa:

 

1. Ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna nóvember – desember rekstrarárið 2014, maí – júní til og með nóvember – desember rekstrarárið 2015 og janúar – febrúar rekstrarárið 2016 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutahlutafélagsins, vegna sömu uppgjörstímabila að viðbættum janúar – febrúar til og með mars – apríl rekstrarárið 2015, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 9.583.445 kr., sem sundurliðast svo:

 

Árið 2014:

nóvember – desember             kr.        2.923.399

           

Árið 2015:

janúar – febrúar                       kr.            815.615

mars – apríl                              kr.        1.104.699

maí – júní                                kr.        2.329.083

júlí – ágúst                               kr.        1.082.282

nóvember – desember             kr.            764.904

                                                kr.        6.096.583

 

Árið 2016:

janúar – febrúar                       kr.            563.463

 

Samtals                                   kr.       9.583.445

 

2. Ekki staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2014, febrúar og september til og með desember rekstrarárið 2015 og febrúar og mars rekstrarárið 2016 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2014, janúar til og með desember rekstrarárið 2015 og janúar til og með apríl rekstrarárið 2016, samtals að fjárhæð 18.843.934 krónur hvað varðar ákærðu Guðnýju og 19.762.238 krónur hvað varðar ákærða Harald, en þær fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu sundurliðast svo:

 

                                    Ákærða Guðný                     Ákærði Haraldur

Árið 2014

desember                     kr.             614.146                  kr.             614.146

 

Árið 2015                  

janúar                          kr.             702.794                  kr.             482.926

febrúar                         kr.             961.887                  kr.             961.887

mars                             kr.             317.478                  kr.             317.478

apríl                             kr.             453.635                  kr.             453.635

maí                              kr.          1.221.925                  kr.          1.221.925

júní                              kr.          1.231.817                  kr.          1.231.817

júlí                               kr.             987.132                  kr.             987.132

ágúst                            kr.          1.342.595                  kr.          1.404.395

september                    kr.          1.964.275                  kr.          2.041.526

október                        kr.          1.524.278                  kr.          1.845.950

nóvember                    kr.          1.995.390                  kr.          2.351.167

desember                     kr.          1.420.769                  kr.          1.742.441

                                    kr.       14.123.975                  kr.       15.042.279

 

Árið 2016

janúar                          kr.             898.593                  kr.             898.593

febrúar                         kr.          1.329.455                  kr.          1.329.455

mars                             kr.          1.356.918                  kr.          1.356.918

apríl                             kr.             520.847                  kr.             520.847

                                                  4.105.813                                4.105.813

 

Samtals                       kr.       18.843.934                  kr.       19.762.238

 

 

Framangreind háttsemi ákærðu telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir brot samkvæmt fyrsta lið ákæru, og sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir brot samkvæmt öðrum lið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði Haraldur Karl gerir þær kröfur að hann verði sýknaður en til vara að kröfulið 1 verði vísað frá dómi, ellegar verði ákærði sýknaður af þeim ákærulið. Til þrautavara er gerð krafa um lækkun á ákærulið 1. Til þrautaþrautavara er gerð krafa um vægustu refsingar verði ákærði sakfelldur. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærða Guðný Hrefna krefst þess að hún verði sýknuð en til vara að fyrri hluta ákæru verði vísað frá dómi. Þá er krafist vægustu refsingar verið ákærða sakfelld. Þá krefst hún málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

 

Ákærða Guðný Hrefna Leifsdóttir neitar sök. Byggir málsvörn hennar á því að hún hafi engin afskipti haft af rekstri félagsins heldur hafi hún verið skráð sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi að beiðni sambýlismanns hennar, meðákærða Haraldar Karls.

Ákærði Haraldur Karl hefur viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Sýknukrafa hans byggist á því að verði meðákærða sakfelld sé ekki unnt að sakfella hann. Einungis einn maður geti talist bera ábyrgð á skattskilum félagsins.

Frávísunar- og lækkunarkröfur ákærðu hvað varðar fyrsta lið ákæru byggjast á því að ekki sé tekið tillit til tapaðra krafna í þeim lið.

 

 

 

Málavextir:

Ákæra í málinu styðst við rannsókn héraðssaksóknara sem fór fram á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til héraðssaksóknara 12. maí 2017 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Í bréfi skattrannsóknarstjóra kom fram að ákærða Guðný Hrefna hefði vanrækt að standa innheimtumanni skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra í málinu sneri eingöngu að ákærðu sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa Aukaafls ehf. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra kvaðst ákærða ekki geta svarað því hver hefði séð um fjármál félagsins. Hún hafi verið skráð fyrir félaginu að beiðni Mariusz Skora. Yfirmaður hennar hafi verið Halldór Hlíðar Bergvinsson en hann mun hafa verið skráður sem stjórnarformaður félagsins í maí 2016. Í skýrslu hjá lögreglu bar ákærða hins vegar að sambýlismaður hennar, meðákærði í málinu og varamaður í stjórn félagsins, hefði borið ábyrgð á fjármálum félagsins. Hún hafi aðeins verið skráð fyrir félaginu að nafninu til. Meðákærði var í kjölfar þessa yfirheyrður og staðfesti hann framburð meðákærðu um aðkomu hans að félaginu. 

 

Í framburði ákærðu Guðnýjar Hrefnu fyrir dómi kom fram að hún hefði ekki komið að rekstri félagsins þótt hún hefði verið skráð sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess. Meðákærði hefði séð um allt sem rekstrinum tengdist, en hann fólst í því að útvega menn til verka á sviði byggingariðnaðar. Hann hafi stýrt daglegum rekstri félagsins, þ.m.t skattskilum og öllum fjármálum. Að nafninu til hafi hlutir í félaginu verið skráðir á hana en meðákærði hafi í raun átt þá. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir ábyrgð sinni og viti ekki af hverju þessu hafi verið svona háttað. Hún hafi sinnt venjulegum skrifstofustörfum fyrir félagið, skrifað bréf og fært tímaskýrslur. Þá hafi hún verið í námi hluta þess tímabils sem ákæran taki til. Hún hafi undirritað leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts að beiðni meðákærða og einnig stofnað bankareikning að beiðni hans. Hún hafi ekki nýtt sér notandaaðgang sinn í bankanum heldur hafi látið meðákærða hafa gögn þar að lútandi. Meðákærði hafi annast millifærslur. Hvað varði skráningar á svokallaða Linkedin-samfélagssíðu á netinu, þar sem ákærða er skráð sem framkvæmdastjóri (e. managing director) Aukaafls ehf., þá sé um að ræða tilbúning. Hún kannist við að hafa átt í samskiptum við Tollstjóra að beiðni meðákærða og hafi hún fengið allar upplýsingar frá meðákærða. Hún hafi mætt við fyrirtöku aðfararbeiðni hjá sýslumanni þar sem hún hafi verið skráð sem fyrirsvarsmaður. Hvað varðar tölvupóstsamskipti við lögmannsstofuna LAG vegna launamála Aukaafls ehf. þá hafi þau verið að beiðni meðákærða og hafi hún fengið upplýsingar frá honum. Meðákærði hefði átt við veikindi að stríða og hefði hún verið undir pressu vegna þessa með að aðstoða hann. Hún kvaðst ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við fjárhæðir í ákæru. Af hálfu verjanda hennar voru hins vegar gerðar athugasemdir og lagðir fram reikningar úr bókhaldi félagsins sem sagðir voru tapaðir.

            Í framburði ákærða Haraldar kom fram að hann rengdi tölur í ákæru þar sem ekki væri tekið tillit til tapaðra krafna í ákærulið 1. Hann gerir ekki athugsemdir við ákærulið 2. Hann kveður að Aukaafl ehf. hafi starfað á sviði byggingariðnaðar og selt út starfsmenn á verkstað í ýmis verkefni, en ákærði er húsasmíðameistari. Ákærði kveðst hafa verið kominn langt niður vegna veikinda sinna og ekki hafa treyst sér til að fara inn í félagið, hvorki í stjórn né sem eigandi. Allt sem laut að rekstrinum hafi hann samt sem áður séð um, að afla verkefna o.fl. Til hafi staðið að breyta skráningunni en veikindi hans hafi ágerst. Meðákærða hafi þegið laun vegna þess að hún hafi séð um launamál, skráningu tíma o.fl. Þá hafi hún séð um fleiri verkefni að hans beiðni. Enn fremur hafi hann skráð á hana laun þar sem hún hafi verið í námi. Hvað varðar tapaðar kröfur félagsins þá bar ákærði að félagið hefði tapað kröfum á hendur Vissu ehf., sbr. framlagða reikninga og afrit úr bókhaldi félagsins. Honum var ekki kunnugt um að félagið hefði tapað fleiri kröfum. Ekki hafi verið útgefnar leiðréttar virðisaukaskattsskýrslur vegna tapaðra krafna. Ákærði lagði fram læknisvottorð þar sem fram kom að hann hefði verið vistaður á sjúkrahúsi 15. febrúar til 4. mars 2015.

 

            Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af vitnunum Ö, G, K og Æ.

Í framburði Ö kom fram að hún starfaði á lögmannsstofunni LAG. Hún staðfesti að hún hefði átt í tölvupóstsamskiptum við ákærðu Guðnýju Hrefnu hvað varðaði kröfur launþega á hendur Aukaafli ehf. Hún hafi ekki átt í samskiptum við ákærða.

Í framburði G kom fram að hún starfaði hjá Tollstjóra við innheimtu. Aukaafl ehf. hefði gert greiðsluáætlun og hefði hún verið í tölvupóstsamskiptum við ákærðu Guðnýju Hrefnu vegna þess. Þeir sem væru í forsvari fyrir viðkomandi félag gætu komið að samningum um greiðslu. Hún hafi ekki átt í samskiptum við ákærða.

Í framburði K kom fram að hann hefði verið ráðinn af ákærða sem verkstjóri hjá Aukaafli ehf. í byggingarstarfsemi. Öll samskipti hafi verið við ákærða. Hann hafi ekki talað um fjármál við ákærða en skilað tímaskýrslum til hans.

Í framburði Æ kom fram að hann hefði starfað sem undirverktaki fyrir Aukaafl ehf. Hann kannaðist við að ákærði hefði verið veikur á ákveðnu tímabili. Þá hafi allt farið í uppnám enda verk í vinnslu. Hafi hann haft samband við ákærðu vegna þess að hann vantaði greiðslu og hafi hún eiginlega ekki vitað neitt, hvað var í vinnslu o.s.frv. Ákærði hafi stjórnað starfseminni. Vitnið kveðst ekki hafa þekkt til daglegs reksturs félagsins, þ.e. skrifstofuhalds.

 

Við upphaf aðalmeðferðar 5. júní 2018 lögðu verjendur ákærðu fram reikninga Aukaafls ehf. á hendur Vissu ehf., dags. 28. nóvember og 6. desember 2014, samtals að fjárhæð 12.520.000 kr., sem sagðir eru vegna vinnu Aukaafls ehf. í þágu Vissu ehf. Þá var lagður fram hreyfingalisti skuldunauta þar sem fram kom að félagið hefði kreditfært 10.538.146 kr. vegna Vissu ehf. Telja ákærðu að þetta sýni fram á að ákæruliður nr. 1 sé ekki tölulega réttur þar sem ekki sé tekið tillit til þessara töpuðu krafna. Ákæruvaldið lagði í framhaldinu fram vottorð fyrirtækjaskrár þar sem fram kom að ákærðu hefðu verið skráð í stjórn Vissu ehf., þ.e. ákærða sem stjórnarmaður og ákærði sem varamaður í stjórn og framkvæmdastjóri, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 4. febrúar 2015. Vegna framlagningar verjenda á reikningum á hendur Vissu ehf. taldi dómurinn rétt að að upplýsa málið frekar hvað þetta varðar. Var málið því endurupptekið 14. júní 2018 og beindi dómari því til ákæruvaldsins að afla gagna um tapaðar kröfur vegna ákæruliðar nr. 1. Gögnin voru lögð fram í þinghaldi 9. júlí 2018. Vegna þess tíma sem tók að afla gagnanna og sumarleyfa varð að endurflytja málið og var það gert 31. ágúst 2018. Ekki kom fram að fleiri viðskiptakröfur væru tapaðar en ákæruvaldið gerir athugasemdir við afskriftir vegna reikninganna á hendur Vissu ehf.

 

Niðurstaða:

Hvað varðar frávísunarkröfu ákærðu og kröfu um lækkun ákæruliðar 1, sem byggjast á því að ekki sé tekið tillit til tapaðra krafna í ákærulið 1, þá er til þess að líta að samkvæmt dómaframkvæmd veldur þetta atriði ekki frávísun máls, heldur er heimilt að horfa til þessa við ákvörðun refsingar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að öðrum skilyrðum þeirrar lagagreinar uppfylltum, sbr. t.d. dóm Landsréttar í máli nr. 477/2018, frá 22. júní 2018. Er því hafnað að vísa málinu frá eða lækka þann kröfulið á þeim grunni að ekki hafi verið tekið tillit til tapaðra krafna.

            Ákærða Guðný Hrefna hefur borið að að hún hafi ekki komið að rekstri félagsins þótt hún væri skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess. Það hafi verið ákærði sem hafi borið ábyrgð á rekstrinum, þ.m.t. skattskilum. Eins og rakið hefur verið bar ákærða í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra að hún hefði ekki vitað hver hefði borið ábyrgð á skattskilum en vísaði til manns að nafni Halldór Hlíðar Bergvinsson. Ekkert hefur komið fram um að Halldór þessi hafi komið að rekstri félagsins á því tímabili sem ákæra málsins tekur til. Í skýrslu hjá héraðssaksóknara og fyrir dóminum bar ákærða hins vegar að ákærði hefði alfarið séð um rekstur félagsins, allt sem hún hefði gert hefði verið að beiðni hans. Hún hafi einungis sinnt skrifstofustörfum fyrir félagið. Hefur meðákærði staðfest þennan framburð ákærðu. Að mati dómsins er þessi framburður ákærðu í andstöðu við gögn málsins. Þvert á móti gefa gögnin til kynna að ákærða hafi starfað sem framkvæmdastjóri og verið ágætlega inni í rekstri félagsins, en hún var í tölvupóstsamskiptum við Tollstjóra haustið 2015 þar sem hún leggur drög að samkomulagi um greiðslur opinberra gjalda og útskýrir að slæm fjárhagsleg staða sé tilkomin vegna þess að félagið hafi tapað stórri kröfu af völdum gjaldþrots viðskiptavinar. Nú sé hins vegar bjartara útlit fyrir félagið. Ekki stenst að að ákærða hafi átt í þessum samskiptum við Tollstjóra sem og lögmannsstofuna LAG algjörlega fjarstýrð af ákærða, eins og hún lætur að liggja. Auk þessara samskipta er til þess að líta að ákærða stofnaði bankareikning fyrir félagið og var skráð sem prókúruhafi reikningsins. Þá ritaði ákærða undir leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts. Enn fremur voru ákærðu greidd laun fyrir vinnu sína fyrir félagið, tæpar fjórar milljónir kr. Framburður verktakanna K og Æ breytir ekki þessari niðurstöðu, enda gátu þeir ekki borið hvernig skrifstofuhaldi félagsins hefði verið háttað heldur laut framburður þeirra einungis að því að meðákærði Haraldur hefði stjórnað framkvæmdum þess. Samkvæmt framangreindu er framburði ákærðu hafnað og verður hún því sakfelld fyrir háttsemi þá sem henni er gefin að sök í ákæru. Þegar litið er til fjárhæða eru brotin talin meiri háttar og réttilega heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

            Hvað varðar ákærða Harald Karl þá verður að horfa til játningar hans, sem fær stoð í framburði vitnanna K og Æ, og leggja til grundvallar að hann hafi stýrt daglegum rekstri félagsins ásamt ákærðu. Sú málsástæða ákærða að einungis sé unnt að sakfella einn mann fyrir brot þessi er ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þegar litið er til fjárhæða eru brotin talin meiri háttar og réttilega heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

 

           

            Refsing og sakarkostnaður:

Kemur þá til skoðunar hvort taka eigi tillit til tapaðra krafna Aukaafls ehf. á hendur Vissu ehf. við ákvörðun refsingar í málinu og hvort heimilt sé að fara niður fyrir sektarlágmark það sem kveðið er á um í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þ.e. fésekt sem nemur tvöfaldri skattfjárhæð. Skilyrði þess að tekið sé tillit til þessara töpuðu krafna er að verulegur hluti skattfjárhæðar hafi verið greiddur og að skýrsluskil hafi verið fullnægjandi. Hinar töpuðu kröfur byggjast á reikningum sem falla undir uppgjörstímabilið nóvember – desember 2014 og er sannað að ákærðu stóðu ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna þess uppgjörstímabils. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til skoðunar að fara niður fyrir sektarlágmarkið.

 

            Ákærði Haraldur Karl var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. mars 2017 í málinu nr. S-717/2016, dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað til tveggja ára héldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá var hann dæmdur til að greiða 87.300.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. Voru brotin sem hann var sakfelldur fyrir gegn sömu lagaákvæðum og í þessu máli. Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds refsidóms. Verður dómurinn því tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 60. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði, eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 145.100.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. 

Refsing ákærðu Guðnýjar Hrefnu þykir hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði, eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða dæmd til að greiða 56.000.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákærðu verða dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Haraldur Karl Reynisson, sæti fangelsi í 18 mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað til tveggja ára haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 145.100.000 króna í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í 12 mánuði. 

            Ákærða, Guðný Hrefna Leifsdóttir, sæti fangelsi í átta mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað til tveggja ára haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærða greiði 56.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í 12 mánuði. 

            Ákærði Haraldur Karl greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, 400.000 krónur.

            Ákærða Guðný Hrefna greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns, 1.000.000 króna.

 

                                                     Kolbrún Sævarsdóttir (sign)