• Lykilorð:
  • Manndráp

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2018 í máli nr. S-722/2017:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Khaled Cairo

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 21. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af  héraðssaksóknara 12. desember sl. á hendur Khaled Cairo, ríkisborgara Jemen, fyrir manndráp, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 21. september 2017, í risíbúð að Hagamel … í Reykjavík, veist með ofbeldi að A, slegið hana ítrekað í andlit og höfuð með tveimur til þremur glerflöskum og slökkvitæki sem vó 9,7 kg og hert kröftuglega að hálsi hennar, allt með þeim afleiðingum að A lést vegna röskunar á blóðstreymi til heila vegna margra högg- og skurðáverka á höfði sem ollu mörgum áverkum á hörundi, brotum á höfuðkúpu og kúpugrunni ásamt blæðingu innan höfuðkúpu auk þess sem hún hlaut punktblæðingar í táru og glæru augnloka og í innanvert munnhol og blæðingar í hálsvöðva.

Er þetta talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu brotaþolans B, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 21. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Af hálfu brotaþolans C, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Af hálfu brotaþolans D, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Af hálfu brotaþolans D, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Af hálfu brotaþolans F, fyrir hönd ófjárráða sonar síns, G, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði ekki gerð refsing í málinu. Til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa, háttsemi felld undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, ellegar að bótakröfur verði lækkaðar. Loks krefst hann þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.   

 

Samkvæmt gögnum málsins barst lögreglu tilkynning kl. 21.38 að kvöldi fimmtudagsins 21. september 2017 um heimilisófrið að Hagamel … í Reykjavík. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að á leið á vettvang hafi borist þær upplýsingar að mikil læti væru á staðnum og að tilkynnandi þyrði ekki að skipta sér af. Fram kemur að skömmu síðar hafi borist önnur tilkynning um að verið væri að hóta að drepa einhvern. Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi farið rakleitt upp í risíbúð á Hagamel … . Hafi þeir kallað að lögregla væri komin og reynt að opna dyr að íbúðinni en þær reynst vera læstar. Hafi þeir kallað áfram að lögregla væri komin og að opna ætti dyrnar. Þá hafi þeir reynt að sparka upp hurðinni. Dyrnar að íbúðinni hafi síðan skyndilega opnast, sennilega við það að ákærði hafi tekið hurðina úr lás.

Í frumskýrslu kemur fram að umrædd íbúð hafi verið í risi á þriðju hæð. Hafi íbúðin skipst í þrjú herbergi, salerni og eldhús, sem öll hafi legið að litlum gangi. Útidyr íbúðarinnar hafi opnast inn á ganginn. Þegar komið sé inn séu tvö herbergi til vinstri, en salerni beint á móti útidyrum. Til hægri við útidyr hafi verið herbergi og síðan eldhúsið. Ákærði hafi staðið á ganginum en A legið á grúfu. Útidyrnar hafi einungis opnast að hluta þar sem A hafi legið með fætur nálægt hurðinni. Hafi A legið á ganginum og höfuð vísað frá útihurð. Gólfið hafi verið þakið blóði, blóðslettur verið upp um veggi og slökkvitæki staðið á ganginum nálægt höfði A. Ákærði hafi staðið yfir A en bakkað inn í eldhús þegar hann hafi séð lögreglu. Hafi lögreglumenn skipað ákærða að bakka og leggjast niður. Þar sem ákærði hafi ekki gert sig líklegan til að hlýða hafi varnarúða verið úðað á hann. Lögreglumenn hafi óttast að ákærði gæti náð í hnífa eða önnur vopn í eldhúsi og hafi hann því verið færður í handjárn. Hann hafi verið í nærbuxum einum klæða og mjög blóðugur. Athugað hafi verið með lífsmörk A, en engin fundist. Óskað hafi verið eftir sjúkrabifreið á staðinn. Sá er tilkynnt hafði um atvikið hafi verið inni í herbergi sínu í íbúðinni. Hafi hann verið mjög skelkaður og miður sín. Rætt hafi verið við íbúa á fyrstu hæð og fram hafi komið að þeir hefðu um kl. 20.00 þetta kvöld hleypt gestum inn til sín. Á sama tíma hafi komið að ungur maður sem hafi sagt að hann væri kominn til að hitta „konuna uppi“. Hafi honum verið hleypt inn í húsið. Hafi þau lýst því að þau hefðu heyrt mikil öskur koma að ofan úr íbúðinni og þá hringt á Neyðarlínuna. 

Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir er lögregla tók úr íbúðinni að Hagamel. Eru myndirnar af A þar sem hún liggur á gangi í íbúðinni. Eins eru myndir af veggjum á ganginum og úr herbergi A. Mikið blóð er á veggjum og í rúmi. Tæknideild lögreglu hefur tekið saman skýrslu um rannsókn á vettvangi. Þá hefur tæknideildin gert skýrslu um blóðferlagreiningu í íbúðinni. Í niðurstöðu kemur fram að A hafi verið ráðinn bani með nokkrum þungum höggum í höfuðið, veittum með 9,7 kg handslökkvitæki, þar sem hún lá á grúfu í holinu framan við baðherbergi íbúðarinnar. Hún hafi áður hlotið nokkur högg í höfuðið með tveimur til þremur glerflöskum inni í svefnherbergi sínu. Tvær glerflöskur hafi brotnað og blóðug glerbrot verið í og við rúm A. Ein óbrotin en blóðug glerflaska hafi legið við hliðina á rúminu. Áverkar á höfði A, skurðir eftir glerbrot og þungt áhald, beri þessa merki. Á vettvangi hafi verið blóðferlar sem séu einkennandi fyrir barsmíðar með áhaldi, þ.e. höggslettur og frákastsblettir. Þá hafi mátt sjá útandaða blóðferla á herbergishurð í holinu sem og neðst á handslökkvitækinu. Í íbúðinni hafi verið margir blóðugir yfirfærslublettir, á veggjum og hurðum, sem séu skýrðir nánar í blóðferlakafla skýrslunnar.

Gerð hefur verið lögregluskýrsla um upptöku frá Neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöð lögreglu á símtölum tilkynnenda þetta kvöld. Fram kemur að tilkynnandi, íbúi í risíbúð að Hagamel …, hafi að kvöldi 21. september 2017 hringt í Neyðarlínu kl. 21.38. Óski hann eftir aðstoð því að maður sé að lemja konu. Neyðarvörður segi honum að hinkra og gefi honum samband við lögreglu. Fær tilkynnandi samband við lögreglu kl. 21.38. Ítrekar tilkynnandi ósk um aðstoð. Það sé heimilisofbeldi í gangi. Fram kemur í skýrslunni að heyra megi óp í konu í bakgrunni í símtalinu, og hún æpi á ensku „help me please“. Tilkynnandi segist ekki þora fram, það sé brjálaður maður inni í íbúðinni en hann sé sjálfur staddur í herbergi sínu. Það sé meðleigjandi hans sem verið sé að lemja. Tilkynnandi segist heyra að árásarmaðurinn sé að drepa konuna, hann heyri hann segja að hún verði að deyja. Er því lýst að tilkynnandi opni dyrnar fram á gang og tali þar við mann sem segi honum að hringja á lögreglu. Tilkynnandi komi aftur í símann og segi að maðurinn sé að lemja konuna með slökkvitæki og það sé allt í blóði. Fram kemur að samtalið við tilkynnanda taki 4.52 mínútur. Þá segir í skýrslunni að annar tilkynnandi af Hagamel hafi hringt kl. 21.41 og sagt að verið væri að berja konu á efstu hæð. Konan sé búin að öskra og öskra en sé hætt. Það heyrist bara dynkir. Viðkomandi hringi aftur kl. 21.43 og spyrji hvort lögregla sé á leiðinni, verið sé að drepa konuna á hæðinni fyrir ofan. Framangreint símtal fyrri tilkynnanda var spilað í heyranda hljóði undir aðalmeðferð málsins.

Samkvæmt gögnum málsins fór fram réttarlæknisfræðileg skoðun á ákærða 21. september 2017. Fram kemur að læknir á héraðsvakt hafi séð um skoðunina. Ákærði hafi verið ljósmyndaður og fatnaður hans verið haldlagður. Í læknisvottorði Þ læknis kemur fram að allt samstarf við ákærða hafi verið gott. Hafi hann svarað öllum spurningum greiðlega og kurteislega og virst vera fyllilega áttaður á stað og stund. Hann hafi augljóslega verið undir áhrifum áfengis, en verið áberandi glaður, grínast og hlegið og nánast fíflast. Hafi hann stillt sér upp með stælum fyrir myndatökur rannsóknarlögreglumanna. Inni á milli í skoðuninni hafi hann spurst fyrir um afdrif A, þ.e. hvort hún væri látin. Hafi hann lýst afbrýðisemi vegna kunningsskapar A við aðra. Þrátt fyrir undarlega léttlyndislega og kæruleysislega framkomu alblóðugs mannsins hafi læknirinn ekki greint merki geðrofs hjá honum meðan skoðun fór fram.

Ákærði hafi verið nánast alblóðugur frá höfði niður á tær. Blóð hafi verið í andliti, á höfði, hálsi, bol og öllum útlimum. Nokkrar örgrunnar rispur hafi verið á ákærða. Ein rétt ofan og hægra megin við nafla, önnur rétt neðan við öxlina og sú þriðja utan á vinstri handlegg, rétt ofan við olnboga. Hafi verið tekið blóðsýni úr ákærða kl. 00.50 og aftur kl. 02.05. Þvagsýni hafi verið tekið kl. 00.50. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 25. september 2017 mældist í þvagsýni úr ákærða 0,91 o/oo alkóhóls. Í fyrra blóðsýni 1,32 o/oo og í því síðara 1,15 o/oo. Ólögleg ávana- og fíkniefni hafi ekki verið mælanleg. Fram kemur að hann hafi verið ölvaður um kl. 1.00 þegar blóð- og þvagsýni hafi verið tekin. Hlutfall milli þvags og blóðs hafi verið 0,7 sem segi til um að ekki hafi verið langur tími liðinn frá því að drykkju lauk, eða um ein til tvær klukkustundir.

Sýni er tekin voru úr ákærða við réttarlæknisfræðilega skoðun voru send til DNA-rannsóknar hjá Nationellt Forensisk Centrum í Svíþjóð. Í niðurstöðum úr þeirri rannsókn frá 4. janúar 2018 kemur fram að 28 sýni hafi verið send í rannsókn. Greining á stroksýnum teknum við réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða hafi leitt í ljós að í þrem sýnum, teknum af hægri og vinstri lófa, svo og af andliti hægra megin, hafi komið fram blanda DNA-sniða. Um hafi verið að ræða blöndu DNA-sniða A og ákærða.

Sérfræðingur í réttarmeinafræði krufði lík A 25. september 2017. Í niðurstöku krufningar kemur fram að A hafi látist með óeðlilegum og líklega saknæmum hætti af völdum röskunar á blóðstreymi til heila vegna margra högg- og skurðáverka á höfði sem valdið hafi brotum á höfuðkúpu og kúpugrunni ásamt innvortis blæðingum. Merki hafi verið um marga höggáverka á ýmsum hlutum líkamans. Staðsetning, ákefð og formfræði áverka bendi sterklega til þátttöku annars aðila. Formfræði og skipan áverka bendi enn fremur til þess að þeir séu af völdum tveggja ólíkra hluta hið minnsta. Annar sé með harðan flöt og hinn með óreglulegan, beittan flöt. Möguleg vopn gætu verið stór harður hlutur eins og slökkvitæki og brotin vínflaska. Höggáverkar með hörðum hlut hafi verið veittir minnst tvisvar á hnakka og minnst þrisvar á hvirfilbein. Höggáverkar með beittum hlut hafi verið veittir minnst tvisvar ofarlega á enni, minnst þrisvar á efra miðandlit og minnst einu sinni, líklega oftar, á hægra gagnaugasvæði andlits. Höggáverkar með hnefa eða högg með hörðum hlut, t.d. heilli flösku, hafi verið veittir minnst einu sinni á miðandlit og á hægra auga og gagnaugasvæði. Enn fremur hafi verið merki um ákafan þrýsting á háls sem leitt hafi til punktblæðinga í táru augnloka og glæru og í innanverðu munnholi sem og blæðingar í hálsvöðvum. Það gefi til kynna ákafa kyrkingu með höndum í tiltölulega langan tíma. Á höfuðkúpu séu víða brot. Skert brot séu á framhveli og ásetin brot á gagnaugasvæði. Einnig séu brot á hnakka. Heili líti óreglulega út og loft sé inni í höfuðkúpu. Mikil þétting sé á heilasvæði sem geti táknað blæðingar. Brot séu í kinnholum báðum megin. Þá sé brot í gagnaugabeinsklakki sem samsvari „Le Fort II“- broti. Blóðsýni var tekið úr A. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 9. október 2017 mældist etanól ekki í mælanlegu magni, né amfetamín, kannabínóíðar, kókaín/benzóýlekónín eða morfínlyf. Þá hafi leit að benzódíazepínsamböndum og skyldum lyfjum verið neikvæð.

Þann 22. september 2017 var kveðinn upp úrskurður um að ákærði skyldi sæta geðrannsókn. Z geðlæknir rannsakaði geðheilbrigði ákærða. Í skýrslu hans frá 8. nóvember 2017 kemur fram að ákærði hafi sýnt matsmanni ágæta samvinnu við geðskoðanir. Hann hafi verið eðlilega fljótur með verkefni og vandað sig við þau. Engar vísbendingar hafi verið um einkenni geðrofs, ranghugmynda, rugls eða ofskynjana við skoðanir. Ákærði sé örugglega eðlilega gefinn. Greind hans sé örugglega meðalgreind eða meiri. Hann viti um og skilji reglur og lög samfélagsins og þekki því muninn á réttum og röngum athöfnum. Hann hafi ekki greinst með nein merki um persónuleikaveilu. Hann hafi sagt að hann notaði lítið áfengi og sjaldan en hafi neitað notkun fíkniefna. Þó hafi hann drukkið verulega rétt fyrir atburðinn. Ákærði þurfi engin lyf að staðaldri og vilji í raun engin lyf. Hafi hann virst reyna að vera hreinn og beinn og ekkert hafi komið fram í frásögn hans um að hann reyndi að fegra sig eða fela eitthvað. Virtist hann því á flestan hátt eðlilegur. Eini vandinn sé hvernig túlka eigi viðbrögð hans þegar hann lendi í mótlæti í ástarsamböndum. Það sé niðurstaða geðlæknisins að ákærði sé örugglega sakhæfur samkvæmt 15. gr. laga nr. 19/1940 verði hann fundinn sekur. Einkenni þau sem lýst sé í matinu leiði ekki til ósakhæfis samkvæmt 16. gr. laga nr. 19/1940. 

Með úrskurði héraðsdóms 21. desember 2017 voru geðlæknarnir X og Y dómkvaddar til yfirmats á geðheilbrigðisrannsókn ákærða. Í niðurstöðu skýrslu þeirra, frá 28. febrúar 2018, kom fram að það væri niðurstaða þeirra að ákærði væri sakhæfur samkvæmt 15. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði væri ekki með geðsjúkdóm og ekkert í sögu hans benti til þess að hann hefði átt við alvarlegan geðrænan vanda að stríða um ævina, eins og geðrof eða geðrofssjúkdóm, hvorki fyrir atburðinn, á meðan á honum stóð, né eftir það. Hann væri ekki með merki hrörnunar né rænuskerðingar, hvorki nú né á verknaðarstundu, og væri með eðlilega greind. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis á verknaðarstundu. Matsmenn töldu að 16. gr. laga nr. 19/1940 ætti ekki við.

Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 22. september 2017. Hefur hann sætt gæsluvarðhaldi síðan. 

 

Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi um tveim mánuðum fyrir atburðinn að Hagamel kynnst A og þau þá sofið saman einu sinni. Ákærði hafi í framhaldi sent A skilaboð en hún ekki svarað og forðast að hitta ákærða. Hafi hún jafnan sagt að hún væri upptekin. Ást ákærða á A hafi kviknað strax. Hann hafi síðan verið í sambandi við hana 21. september 2017 og hafi hann ætlað að hitta hana umræddan dag. Hafi hann beðið eftir henni við strætóskýli síðdegis í nágrenni við heimili hennar, eða frá kl. 18.30 til 19.30. A hafi ekki svarað skilaboðum ákærða og hafi hann þá ákveðið að fara heim til hennar. Kalt hafi verið í veðri þetta kvöld og ákærði léttklæddur. Hafi hann hringt dyrabjöllu heima hjá A, en nágranni svarað. Hann hafi spurt eftir A en viðmælandinn sagt að hún væri ekki við. Hafi ákærði sagt að hún væri víst heima og viðkomandi síðan hleypt ákærða inn í húsið. Ákærði hafi farið inn í herbergi A, sem hafi verið ólæst. Þar hafi tölva verið í gangi. Að auki hafi sími A verið í herberginu. Hafi verið tvenn skilaboð í tölvunni og önnur þeirra verið frá þeldökkum manni frá Afríku. Hafi A svarað þessum manni þannig að hann gæti komið núna. Ákærði hafi reiðst við að sjá þessi skilaboð. A hafi verið með vínflöskur í herbergi sínu og hafi ákærði opnað eina flöskuna og drukkið úr henni. Hann hafi ekki verið vanur áfengi. A hafi síðan komið inn í herbergið og hafi henni brugðið við það að sjá ákærða í herberginu. Hafi ákærði þóst vita að A væri í sambandi við fleiri en hann og slegið hana í tvígang með lófa í andlitið til að hegna henni fyrir samskiptin við þessa menn. Hann hafi vitað að A hefði áður farið með manni frá Sýrlandi heim. Ákærði hafi þarna verið búinn að drekka töluvert áfengi. A hafi sagt að hún væri „evrópsk“ og að enginn hefði slegið hana svona áður. Hafi ákærði spurt A hvort hún ætti annan kærasta, en hún sagt svo ekki vera. Ákærði hafi þarna verið búinn að drekka eina flösku en tekið aðra og byrjað að drekka úr henni. Hafi A ætlað að taka flöskuna af honum en hann sagt að hann yrði að drekka áfengi vegna þess að hann væri kominn í svo mikið uppnám. Hann hafi sagt A að það væri að koma til hennar maður og spurt hvort hún væri í ástarsambandi við flóttamenn frá mörgum ríkjum. A hafi hlegið að því en ekki áttað sig á því að með þessu væri hún að særa ákærða. Hún hafi leyft fólki að elska sig án þess að endurgjalda ástina. Hafi hún ekki verið með mannlegar tilfinningar að því leyti. Hafi hún verið að skemmta sér með flóttafólki, en ekkert skeytt um ástina. Ákærði hafi reynt að biðja A að hitta engan annan en hann.

Á þessum tíma dags hafi strætisvagnar verið hættir að ganga þangað sem ákærði bjó og hann beðið um að fá að vera þarna um nóttina. Hafi A sagt að annar maður væri að koma. Ákærði hafi talið sig vera í ástarsambandi við A og þótt hann hefði séð á skilaboðum í tölvu hennar að annar maður væri að koma hefði hann ekki trúað því. A hafi spurt ákærða hvað hann vildi. Hafi hann sagt að hún hefði töfrað sig og að hún gæti ekki losnað við hann. Í því hafi hurð herbergisins opnast. Ákærði hafi verið með flöskuna í hendi og séð þeldökkan mann í dyragættinni. Viti ákærði í raun ekki hvað hafi gerst næst og muni hann það ekki. Hann hafi verið alveg á valdi tilfinninga. Myndi hann einungis brot af atburðarásinni. Kvaðst ákærði muna að hann hefði ætlað að kasta flöskunni, sem hann hélt á, í þennan mann, en hann hefði hins vegar slegið A með flöskunni, sem hafi við það brotnað. Allt hafi gerst án hugsunar og vissi ákærði í raun ekki hvað hefði gerst.

Næst muni hann eftir því að hafa verið á gangi íbúðarinnar. Þar hafi hann haldið á slökkvitæki, milli beggja handa og hafi sveiflað því upp og niður, en ekki af miklu afli. A hafi legið á gólfinu. Hann muni líka að einhver hafi opnað dyr að íbúðinni og hann sagt viðkomandi að loka dyrunum. Næst muni ákærði eftir því að lögregla hafi sprautað einhverju framan í hann. Ákærði kvaðst ekki telja að A hefði látist af sínum völdum þetta kvöld. Hún hefði farið í fylgd sjúkraliðs á slysadeild og gæti hún allt eins hafa látist vegna þess að sérfræðingar hefðu ekki meðhöndlað hana rétt. Ákærði kvaðst telja að komið hefði saman hjá sér þetta kvöld ást, reiði, afbrýðisemi, áfengi og hungur, en hann hafi verið mjög svangur. Þessar tilfinningar hafi allar farið af stað er hann hafi séð þennan þeldökka mann koma til A. Ákærði hafi ekki farið á Hagamel … þetta kvöld til að skaða A. Hann kvaðst vera flóttamaður hér á landi og hefði hugur hans staðið til að búa áfram hér. 

Nágranni, sem fyrstur tilkynnti lögreglu um árásina á A, kvaðst hafa leigt herbergi í risíbúð að Hagamel …, en hann hefði deilt íbúðinni með A. Hann hafi komið heim að kvöldi fimmtudagsins 21. september 2017 og verið inni í herbergi sínu í íbúðinni. Bankað hafi verið á dyr herbergisins og viðkomandi sagt að maður væri að lemja A í herberginu hennar með flösku. Sá sem bankaði hafi síðan farið á brott. Nágranninn sagðist síðan hafa hringt á lögreglu og sagt að heimilisofbeldi væri í gangi. Þetta hafi verið mikil læti og flaska greinilega verið notuð í árásinni. Hafi hann merkt það af þeim hljóðum er hann hafi heyrt. Hann hafi haldið sig í eigin herbergi af ótta við að mæta einhverju óvæntu frammi. Lætin hafi aukist og hafi sér virst eins og verið væri að kyrkja A. Hann hafi verið í símasambandi við lögreglu meðan á þessu stóð og sett hátalarann á til að lögregla gæti heyrt það sem fram fór. Á einhverjum tímapunkti hafi hann opnað dyrnar á herbergi sínu og kíkt fram. Maður hafi setið ofan á A frammi á gangi, með slökkvitæki í hendi sem hann hafi lamið ofan á höfuð A. Hafi þetta að lágmarki verið eitt högg.  

Fyrrverandi kærasti A sagði að þau A hefðu þarna verið búin að vera í ástarsambandi í um níu mánuði. Hafi hann farið heim til hennar að Hagamel að kvöldi fimmtudagsins 21. september 2017, opnað dyrnar að herbergi hennar og séð þar karlmann inni hjá henni. Manninn hafi hann ekki þekkt. Maðurinn og A hafi verið að rífast út af símtali, en vitnið kvaðst hafa reynt að hringja í A áður en hann kom, auk þess að hafa sent henni símaskilaboð um að láta opna fyrir sér útidyrnar niðri. Nágranni hafi hins vegar opnað fyrir honum. Kvaðst vitnið einfaldlega hafa ákveðið að loka herberginu og fara af staðnum. Hafi hann alltaf gengið út frá því að A gæti verið í sambandi við aðra menn. Hann hafi komist í mikið uppnám við að sjá þetta. A hafi verið hrædd og maðurinn verið í nærfötum einum klæða. Þau hafi verið uppi í rúmi í herberginu og maðurinn hafi brjálast við að sjá annan mann koma inn. Kvaðst vitnið hafa haft það á tilfinningunni að eitthvað slæmt myndi gerast og hefði því beðið nágranna A að hringja á lögreglu. Síðan hafi hann farið á brott. Kvaðst vitnið ekki hafa búist við því að maðurinn myndi ganga svo langt að bana A.

Undir rannsókn málsins hjá lögreglu var tekin skýrsla af vitninu fyrir dómi. Lýsti vitnið atvikum á þann veg að eftir að inn í húsið kom hafi vitnið heyrt öskur koma af efri hæð, farið inn í herbergi A og séð þá mann þar inni. Einnig hafi hann séð blóð þar inni. Hafi hann orðið skelfingu lostinn og beðið meðleigjanda A að hringja í lögregluna. Hann hafi síðan einnig beðið fólk sem hann hitti á neðri hæð hússins að hringja á lögreglu. Maðurinn í herbergi A hafi verið með brotna flösku hjá sér og hafi vitnið séð hann liggja ofan á A og sitja á rúmbríkinni með flöskuna í hendi. Hafi A legið á bakinu og reynt að verjast flöskunni sem maðurinn hafi notað sem vopn. Er hann hafi yfirgefið húsið hafi hann heyrt stöðug vein frá A alla leið út á götu Hafi hann þá ákveðið að snúa aftur en ekki komist inn um aðaldyr hússins þar sem hann hafi ekki verið með lykil að útidyrahurðinni.

Fyrir dóminn kom læknir er gerði réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða í framhaldi af handtöku. Fram kom að ákærði hefði verið mjög blóðugur er læknirinn skoðaði hann og í nærbuxum einum fata. Hafi framkoma ákærða verið léttúðug og hann fíflast og spurst fyrir um afdrif A. Hann hafi ekki verið í geðrofi á þeim tíma og ekki verið með neinar ranghugmyndir. Hann hafi hins vegar verið ölvaður. Ákærði hafi sjálfur verið með þrjár rispur á líkamanum.

Þá kom fyrir dóminn læknir sem tók á móti A við komu á slysadeild. Staðfesti læknirinn að A hefði verið látin er hún kom á slysadeild og strax verið úrskurðuð látin. Réttarmeinafræðingur er krufði lík A staðfesti krufningarskýrslu sína og gerði grein fyrir einstökum þáttum í skýrslunni.

X geðlæknir staðfesti geðrannsókn sína á ákærða og gerði grein fyrir einstökum þáttum í matinu. Þá staðfestu geðlæknarnir X og Y yfirmat sitt á geðrannsókn á ákærða. Lýsti X einstökum þáttum í matinu.

Lögreglumenn er komu að rannsókn málsins komu fyrir dóminn og staðfestu einstök atriði í rannsókninni.

Loks kom fyrir dóminn starfsmaður Rauða kross Íslands og gerði grein fyrir samskiptum við ákærða í tengslum við stöðu hans sem flóttamanns, en fram kom að ákærði hefði sótt um hæli á Íslandi.

 

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök manndráp með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 21. september 2017, í risíbúð að Hagamel … í Reykjavík, veist með ofbeldi að A, slegið hana ítrekað í andlit og höfuð með tveimur til þremur glerflöskum og slökkvitæki og hert kröftuglega að hálsi hennar, allt með þeim afleiðingum að A lést vegna röskunar á blóðstreymi til heila. Er háttsemi ákærða talin varða við 211. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði neitar sök. Hann kannast við að hafa verið í íbúðinni hjá A umrætt kvöld og hefur viðurkennt að hafa slegið hana utanundir í tvígang með flötum lófa. Eftir að hafa séð þeldökkan mann koma til A muni ákærði ekki nema brot úr atburðarásinni. Hann muni eftir því að hafa slegið A með flösku og að hafa verið á gangi íbúðarinnar. Þar hafi hann haldið á slökkvitæki sem hann hafi sveiflað upp og niður og A hafi legið á gólfinu.    

Fyrir dóminn kom nágranni er fyrstur tilkynnti lögreglu um atburðinn. Lýsti hann því að hann hefði litið fram á gang íbúðarinnar eftir að hafa heyrt mikil óp og hróp á hjálp. Hafi maður setið ofan á A og slegið hana að minnsta kosti einu sinni með slökkvitæki í höfuðið. Þá komu fyrir dóminn lögreglumenn er fyrstir komu á vettvang. Lýstu þeir því að ákærði hefði staðið alblóðugur yfir A er þeir ruddust inn í íbúðina. Slökkvitæki hafi staðið á ganginum nálægt höfði A.  

Þegar litið er til framburðar ákærða sjálfs, til framburðar nágranna sem var í þessari sömu íbúð þetta kvöld og bar um að ákærði hefði lamið A með slökkvitæki í höfuðið, sem og framburðar lögreglumanna sem fyrstir mættu á vettvang og komu að ákærða standandi alblóðugum yfir A er hafið yfir allan vafa að ákærði hafi veist að A þetta kvöld með því að slá hana ítrekað í höfuðið bæði með flösku og slökkvitæki. Skýrsla réttarmeinafræðings um krufningu á A og blóðferlagreining lögreglu leiðir atburðarásina nánar í ljós. Miðað við þá greiningu hefur ákærði slegið A ítrekað í höfuðið með glerflöskum inni í rúmi í herbergi hennar. Af því hlaut hún mjög alvarlega áverka í andliti og á höfði. Henni hefur tekist að komast fram á gang íbúðarinnar og ákærði sest ofan á hana þar sem hún lá á maganum. Í þeirri stöðu hefur ákærði með höndum þrengt kröftuglega að hálsi hennar. Framburður nágranna, sem heyrði hljóð úr íbúðinni í þessa veru, er í samræmi við þetta. Að endingu hefur ákærði slegið A með slökkvitæki, sem vó 9,7 kg, í höfuðið aftanvert. Samræmist þetta krufningarskýrslu, en samkvæmt henni voru höggáverkar með hörðum hlut veittir minnst tvisvar á hnakka A og minnst þrisvar á hvirfilbein..

Árás ákærða á A var hrottafengin. Blóðferlar í íbúðinni og áverkar á henni leiða það í ljós. Ítrekuð högg í andlitið með glerflösku í herberginu voru með þeim hætti að ákærða gat ekki dulist að slík högg myndu geta leitt til dauða. Var það upphafið að hinni ofsafengnu atburðarás sem síðar leiddi til dauða A. Verður við það miðað að það hafi orðið ásetningur ákærða að bana A er hann sló hana ítrekað með glerflöskum í andlitið í svefnherberginu. Upptökur af samtali tilkynnanda við lögreglu leiða í ljós langdregna atburðarás þar sem A hrópar sífellt á hjálp á milli þess sem hún biður ákærða að þyrma sér. Miðað við upphaf árásarinnar og  hvernig hún endar, með hliðsjón af þessum hljóðupptökum, var það einbeittur ásetningur ákærða að bana A. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir manndráp og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í febrúar 1979. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði er sakhæfur og á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af hinni hrottafengnu og langvinnu árás sæti ákærði fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald hans frá 22. september 2017.

            Foreldrar A og börn hennar hafa hvert um sig sett fram miskabótakröfu á hendur ákærða, hvert að fjárhæð 3.000.000 króna. Ákærði hefur með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni valdið öllum þessum brotaþolum miska. Miska brotaþolanna verður, í ljósi verknaðar ákærða, að telja mikinn. Bætur verða ákveðnar að álitum og með hliðsjón af dómvenju. Miskabætur til foreldra A verða ákveðnar 1.600.000 krónur til hvors um sig. Miskabætur barna A verða ákveðnar 3.000.000 til hvers um sig. Um vexti fer sem í dómsorði greinir, en í því efni er til þess að líta að skaðabótakröfur voru birtar ákærða 20. desember 2017. Undir aðalmeðferð málsins var að auki gerð krafa um kostnað við útför A. Sú krafa kemur ekki fram í ákæru og er því ekki unnt að fella um hana dóm. 

Ákærði greiði sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþolanna, sem nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þóknun réttargæslumanns er ákveðin í einu lagi fyrir alla brotaþolana.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Símon Sigvaldason og Ingiríður Lúðvíksdóttir og Kristinn Tómasson geðlæknir.

 

                                                              D ó m s o r ð:

            Ákærði, Khaled Cairo, sæti fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 22. september 2017.

            Ákærði greiði B 1.600.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 21. september 2017 til 20. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði C 1.600.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 til 20. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði D 3.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 til 20. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði E 3.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 til 20. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði F, fyrir hönd ófjárráða sonar síns, G, 3.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. september 2017 til 20. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði 11.594.000 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 7.378.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþolanna, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, samtals 2.108.000 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason

                                                            Ingiríður Lúðvíksdóttir

                                                            Kristinn Tómasson