• Lykilorð:
  • Gáleysi
  • Líkamsárás
  • Sönnun
  • Sönnunarmat

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur  12. apríl 2018 í máli nr. S-80/2016:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Jóni Valdimar Jóhannssyni

(Jón Egilsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars 2018, er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 9. febrúar 2016, á hendur Jóni Valdimar Jóhannssyni, kt. 000000-0000, búsettum í [...], fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt [...] 2014, á skemmtistaðnum [...], hrint A, kt. 000000-0000, með báðum höndum þannig að hann féll í gólfið, með þeim afleiðingum að A hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka, þar með talið heilamar í yfirborði ennisblaða og gagnaugablaða, yfirborðsáverka á litla heila vinstra megin, byrjandi blóðsöfnun undir heilahimnu á gagnauga hægra megin, blóð að framan vinstra megin og blæðingu milli heilahólfa framan til, innkýlt brot í hnakkablaðinu hægra megin og loft inni við bein rétt framan við Pétursbeinið, sem leiddi til heilaskaða, meðal annars með varanlegri heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi, auk skerðingar á andlegu og líkamlegu þoli og úthaldi.

            Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

            Af hálfu A var krafist skaða- og miskabóta í málinu, samtals að fjárhæð 51.595.416 krónur, auk vaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í þinghaldi 15. júní 2016 var bótakröfunni vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

           

            Dómur í máli þessu féll 31. október 2016 og var ákærði þá sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Dóminum var áfrýjað og var hann með dómi Hæstaréttar í máli nr. 844/2016, uppkveðnum 30. nóvember 2017, ómerktur frá upphafi aðalmeðferðar 4. október 2016 og vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

 

            Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að háttsemin verði talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                I.

Málsatvik

            Aðfaranótt þriðjudagsins [...] 2014, klukkan 3:06, var lögregla kvödd með forgangi að skemmtistaðnum [...], þar sem tilkynnt hafði verið um að maður væri meðvitundarlaus innandyra. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að á leiðinni á vettvang hafi borist frekari upplýsingar um að maðurinn væri meðvitundarlaus eftir að hafa verið hrint í gólfið. Er á vettvang var komið hafi lögreglumönnum verið vísað á brotaþola, A, þar sem hann lá meðvitundarlaus framan við sviðið á dansgólfi staðarins. Mikið blæddi úr höfði hans og eyra og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

            Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu B, sem kvaðst hafa séð gerandann. Lýsti hann því þegar maður í blárri skyrtu hefði hrint brotaþola sem hefði fallið harkalega aftur fyrir sig. Kvaðst vitnið hafa bent dyraverði á staðnum, C, á gerandann. Var C beðinn að aðstoða lögreglu við að finna gerandann og fór svo að hann benti á mann sem var á leið út um aðaldyrnar sem hann kvað vera manninn. Segir í skýrslu lögreglu að þegar sá hafi veitt því eftirtekt að verið væri að elta hann hefði hann reynt að hlaupa á brott. Hann hafi hins vegar náðst strax og hefði hann barist lítillega um þegar hann var færður í handjárn. Í viðræðum við lögreglu í kjölfarið greindi C lögreglumönnum frá því að ákærði hefði tjáð sér að hann væri gerandinn og borið við sjálfsvörn.

            Í skýrslu rannsóknarlögreglumanns, sem kom á vettvang kl. 4:16, er aðgerðum lýst. Rætt var við dyraverði staðarins en annar þeirra, fyrrnefndur C, lýsti geranda og atvikum frekar. Hinn dyravörðurinn, D, kvaðst hafa verið staddur annars staðar í húsinu er atvikið varð en hafa verið kallaður fram og hafi hann hlúð að brotaþola. Haft var eftir C að gerandinn hefði sagt að hann hefði skallað manninn í sjálfsvörn vegna derrings. Þá kvað hann N hafa komið til sín og sagt að það sem gerðist hefði verið sök brotaþolans sem hefði verið að reyna við hana eða klípa í hana og því hefði orðið slagur.

            Vettvangur var myndaður og sýni tekin. Á lögreglustöð var rætt við gerandann, Jón Valdimar Jóhannsson, en hann hafi verið illa viðræðuhæfur sökum ölvunar og ekki í ástandi til þess að gefa skýrslu.

            Engar eftirlitsmyndavélar reyndust vera við dansgólf skemmtistaðarins.

            Gerð var tilraun til þess að ræða við brotaþola [...] 2014 á Landspítalanum í Fossvogi, en hann reyndist ekki vera í ásigkomulagi til þess og kvaðst ekki muna atvik næturinnar.

            Í læknisvottorði E kemur fram að við komu á spítalann hafi brotaþoli ekki haft næga meðvitund til að greina sjálfur frá því sem gerst hefði. Við komu hafi sést blæðing úr hægra eyra og skurður ofarlega á hnakka. Tölvusneiðmynd hefði sýnt útbreitt mar í heila framan til beggja vegna og yfir gagnauga hægra megin. Þar hafi verið byrjandi blóðsöfnun undir heilahimnu, einnig hafi mátt sjá blóð að framan vinstra megin og blæðingu milli heilahólfa framan til. Í hnakkablaði hægra megin hafi verið innkýlt brot og loft inni við beinið, framan við Pétursbeinið. Þá segir í vottorðinu að um alvarlegt höfuðhögg hafi verið að ræða og blæðingar inni við heilahimnur sem hafi valdið meðvitundarskerðingu en enn sem komið er sjáist ekki merki um massaáhrif á heilann. Horfur voru sagðar óljósar.

 

            Ákærði var yfirheyrður af lögreglu daginn eftir atvikið, eftir að hafa gist fangageymslu. Hann kvaðst lítið sem ekkert muna eftir atburðum næturinnar sökum ölvunar. Hann myndi eftir því að einhver hefði verið sleginn, þá hafi sjúkrabifreið komið og síðar hafi lögreglan tekið hann. Kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa sjálfur slegið neinn og kvað alla hafa sagt að lögreglan hefði tekið rangan mann. Kvaðst hann ekki heldur minnast þess, vegna ölvunarástands síns, að hafa rætt við dyravörð á staðnum.

            Ákærði var yfirheyrður aftur [...] 2014. Hann ítrekaði að hann myndi atvik illa sökum ölvunar og aðeins „gloppur“. Hann myndi eftir því að hafa dansað við félaga sína og svo hefðu verið einhver læti sem hann myndi óljóst eftir. Þá hafi hann setið við borð með [...] og fleira samferðafólki þegar sjúkrabíllinn hafi komið. Einnig hafi hann ítrekað sagt við lögreglumenn að þeir væru með vitlausan mann og það hafi N gert fyrir utan staðinn. Hann kvaðst ekki hafa séð neinn sleginn heldur dregið þá ályktun fyrst sjúkrabifreið hefði komið á vettvang.

            Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn [...] 2014, og fram kom hjá honum að hann myndi eftir því að hafa farið á skemmtistaðinn [...] ásamt félögum sínum en ekki eftir atvikinu sjálfu.

            Teknar voru skýrslur af vitnum, gestum og starfsmönnum skemmtistaðarins, á tímabilinu frá [...] til [...] 2014. Tvö vitni tóku jafnframt þátt í myndsakbendingu hjá lögreglu, B þann [...] 2014 og F þann 8. sama mánaðar. Hvorugt vitnið bar kennsl á árásarmanninn við þá rannsóknaraðgerð. Upphaflega áttu B og G að mæta til sakbendingar [...] 2014. Mun G hafa færst undan og gefið þá skýringu að hún hefði séð mynd af meintum geranda á fésbókinni.

            Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af fatnaði ákærða sem hann klæddist við handtöku, ljósbláröndóttri skyrtu, bláum jakka, ljósum buxum og svörtum strigaskóm. Rannsókn tæknideildar lögreglu á fatnaðinum leiddi í ljós að sýni hefði verið til staðar í skyrtu, sem hefði gefið jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem blóð, en frekari rannsókn fór ekki fram. 

 

            Samkvæmt vottorði T, sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum, dagsettu [...] 2014, hlaut A lífshættulegan höfuðáverka umrætt sinn. Myndgreining hafi sýnt höfuðkúpubrot og talsverða heilaáverka, bæði mar og bólgu, og blæðingar hafi verið víða í heilavef. Hann hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsinu 11 dögum eftir atvikið. Í vottorðinu segir að líkleg varanleg mein verði heyrnarskerðing á hægra eyra, lyktarskynsbrottfall og bragðskynstruflanir. Þá sé ekki óvarlegt að álykta að heilaskaðinn muni hafa áhrif á minni og hegðun og takmarka þannig færni hans í leik og starfi í framtíðinni.  

            Þá er á meðal gagna málsins örorkumatsgerð H taugaskurðlæknis og I lögfræðings, dagsett [...] 2015, vegna brotaþola. Kemur þar m.a. fram að mælanlegar afleiðingar heilaáverkans séu hæging í hugsun, gloppótt minni, kvíði, þunglyndi og skert andlegt og líkamlegt þol og úthald. Þá hafi lyktartaug rifnað með þeim afleiðingum að lyktar- og bragðskyn hafi tapast. Eftir skurðaðgerð til lagfæringa á miðeyrnabeini hafi heyrn hægra megin verið um 35% af því sem eðlilegt sé talið og mjög þreytandi ískur verið í eyranu, sem hafi þó minnkað. Í niðurstöðukafla kemur fram að líkamlegt ástand brotaþola sé varanlegt og því megi ætla að atvikið muni hafa áhrif á framtíðarvinnugetu hans þar sem líkamleg og andleg geta hans hafi skerst. Varanleg örorka var metin 40%.

            Einnig er meðal gagna málsins greinargerð J, sérfræðings í klínískri taugasálfræði, um taugasálfræðilega athugun sem brotaþoli gekkst undir [...] 2014. Kemur þar fram að prófun hafi gefið til kynna góða almenna greind. Árangur á mörgum prófum hafi verið í meðallagi eða vel það. Í niðurstöðum einstakra prófa hafi komið fram vísbendingar um taugasálfræðilega veikleika, m.a. hvað snerti hraða í máltjáningu, sjónræna úrvinnslu og rúmáttun, ákveðna heyrnræna minnisþætti og fínhreyfifærni handa. Leshraði hafi verið frekar hægur. Ætla megi að þessir taugasálfræðilegu veikleikar séu að verulegu leyti afleiðingar heilaskaðans sem hann hlaut umrætt sinn.

            Í vottorði K sálfræðings er gerð grein fyrir viðtalsmeðferð brotaþola vegna tilfinningalegrar vanlíðunar í kjölfar atviksins. Kemur þar m.a. fram að hann hafi greinst með aðlögunarröskun, kvíða og þunglyndi. Leitast hafi verið við að draga úr áfallaeinkennum með hugrænni atferlismeðferð og að efla sjálfsmynd brotaþola og getu til að takast á við og aðlagast nýjum aðstæðum. Líkamsárásin og afleiðingar hennar hafi valdið honum töluverðri vanlíðan og grafið undan sjálfsmynd hans og sjálfstrausti. Er sérstaklega tekið fram að skerðing á heyrn, bragð- og lyktarskyni geti reynst brotaþola erfið til lengri tíma litið og sé til þess fallin að draga verulega úr lífsgæðum hans.  

 

                                                                II.

            Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærði lýsti því að hann hefði verið hægra megin á dansgólfinu fyrir framan sviðið með O [...] og P, [...], þegar kveikt hefði verið á ljósunum. Hann hefði sest við borð hægra megin við dansgólfið ásamt þeim, en þar hefðu glös þeirra verið og dökkblár blazerjakki sem hann hefði farið úr þegar hann fór að dansa. Þá hafi sjúkraflutningamenn komið og lögreglan um tíu mínútum síðar. Hafi hann þá ákveðið að fara, en dyravörður þá sagt að hann hefði slegið einhvern með flösku í höfuðið eða skorið hann í andliti. Eftir þetta hefði lögreglan fært hann í lögreglubifreiðina. Þá kvaðst hann muna eftir því að barið hefði verið í bifreiðina og kallað að lögreglan væri með vitlausan mann. Ákærði kvaðst ekki hafa séð nein átök á dansgólfinu og í raun ekkert vitað um að brotaþola hefði verið hrint fyrr en fimm dögum síðar í gæsluvarðhaldi. Spurður út í framburð sinn hjá lögreglu um að hann myndi eftir látum á dansgólfinu kvaðst hann ekki hafa orðið var við nein læti, heldur hefði hann verið að draga ályktanir af því sem hann hefði áður heyrt hjá lögreglunni. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið drukkinn þetta kvöld en hann hefði bara verið hamingjusamur og glaður, enda að fagna útskrift sinni. Kvaðst hann muna eftir flestöllu sem gerðist umrætt sinn og hann hefði ekki verið minnislaus vegna ölvunar. Borið var undir hann það sem haft er eftir honum í skýrslum lögreglu um hið gagnstæða, og að hann myndi bara „gloppur“ í atburðarásinni og jafnframt að vegna ölvunarástands síns hefði hann ekki munað eftir því að dyravörður hefði komið að máli við hann. Kvaðst ákærði eiga erfitt með að skýra þetta misræmi því hann myndi allt í dag enda hefði hann haft tíma til að hugsa um þetta. Hann hefði verið í „sjokki“ hjá lögreglu og hefði ekki munað eftir því sem borið hefði verið upp á hann. Þá hefði hann ekki talið að það skipti máli að nefna dyravörðinn eða ekki áttað sig á því að hann væri í raun dyravörður. Spurður um viðbrögð hans þegar lögreglan hefði komið kvaðst hann hafa viljað koma sér burt, enda treysti hann ekki lögreglunni vegna fyrri samskipta við hana, sér í lagi þegar hann var yngri og í óreglu. Þrátt fyrir slíka fortíð væri hann ekki ofbeldishneigður.

            Ákærði kvaðst vera 173 cm á hæð og hann hefði verið 73 kg á þeim tíma sem um ræðir. Hann lýsti klæðaburði sínum umrætt sinn og kvaðst hafa farið úr dökkbláum blazerjakka þegar hann fór á dansgólfið. Hann hefði verið með slaufu fyrr um kvöldið en ekki á skemmtistaðnum.

            A kvaðst hafa farið með [...] á skemmtistaðinn umrætt sinn og hafa verið drukkinn. Hann kvaðst ekki muna eftir sér fyrr en hann vaknaði á spítalanum. Hann ætti erfitt með að aðgreina í dag það sem væri raunveruleg minning eða eitthvað sem hann hefði lesið eða heyrt eftir atburðinn. Hann myndi ekki eftir því sem gerðist á skemmtistaðnum eða dagana á eftir. Hann lýsti afleiðingum árásarinnar sem hefðu haft veruleg áhrif á allt hans líf. Nefndi hann í þessu sambandi skerta heyrn, skert skilningarvit og verulegt tap á lyktar- og bragðskyni.

            O, [...], kvaðst hafa verið að dansa við kærasta sinn hægra megin á dansgólfinu nálægt sviðinu. Ákærði hefði einnig verið á dansgólfinu, og hópur fólks. Allt í einu hafi ljósin kviknað. Kvaðst vitnið ekki hafa vitað hvað gerst hefði og hefðu þau fengið sér sæti. Hefði vitnið beðið kærasta sinn að athuga hvar N [...] væri og hefði komið í ljós að hún var að hlúa að brotaþola. Hefði vitnið síðan viljað fara heim en ákærði hefði viljað sitja áfram. Þegar þau hafi verið að fara út af staðnum hafi lögreglumaður komið og handtekið ákærða. Hefði ákærði sagt að hann hefði ekkert gert og að lögreglan væri með rangan mann. Vitnið kvaðst ekki hafa drukkið áfengi þetta kvöld enda verið á bíl. Ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis en verið hamingjusamur og í góðu skapi. Borinn var undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu um að kærasti hennar hefði dregið hana af dansgólfinu svo að hún myndi ekki lenda í einhverjum átökum. Kvað vitnið kærasta sinn hafa ákveðið að þau myndu fara af dansgólfinu af ástæðum sem henni væru ókunnar. Þá staðfesti hún að ákærði hefði verið við hurð við sviðið og hún og kærasti hennar hefðu farið til hans en síðan hefðu þau sest saman Vitnið kvaðst hafa talað við eitthvert fólk fyrir utan staðinn á eftir en hún myndi ekki við hvern. Hún hafi líka sagt lögreglu að ákærði hefði sagt sér að þeir væru með rangan mann.

            P kvaðst hafa verið hægra megin á dansgólfinu með O kærustu sinni. Ákærði hafi líka verið á dansgólfinu með vinum sínum fyrir aftan þau og hafi vitnið snúið baki í hann. Ljósin hafi skyndilega verið slökkt á sviðinu. Þau hafi sest við borð hægra megin við sviðið og þá hafi ljósin verið kveikt í salnum. Hann hefði farið að finna N sem var að sinna brotaþola. Aðspurður kvað hann O hafa beðið ákærða að koma og setjast með þeim. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við átök á dansgólfinu á meðan hann var þar. Hefði hann drukkið áfengi þetta kvöld en ekki verið ölvaður. Ákærði hefði ekki heldur verið ölvaður heldur glaður. Kvað hann ákærða hafa verið með axlabönd og slaufu fyrr um kvöldið en þegar komið var á skemmtistaðinn hefði hann verið í blárri skyrtu. Borið var undir vitnið það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu um að hann hafi heyrt hávaða eða læti koma frá sviðinu og að hann hafi þá ýtt O burt af dansgólfinu. Kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því í dag. Hann kvaðst muna að hafa fært O lengra til hægri eða beðið hana að koma þangað til þess að fá meira rými. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið að forða henni frá neinu.

            B kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum umrætt sinn, nálægt sviðinu á dansgólfinu, og þá séð mann hrinda brotaþola sem hafi skollið aftur fyrir sig. Gerandinn hafi sett báðar hendur ofarlega á bringu brotaþola og hrint honum. Minnti hann að aðdragandinn hefði verið sá að brotaþolinn hefði rekið sig utan í gerandann sem sneri sér við og hrinti honum. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð atvikið vel. Taldi vitnið gerandann síðan hafa gengið út. Lýsti vitnið gerandanum svo að hann hefði verið aðeins hærri en vitnið, sem kvaðst vera 172–173 cm., og þybbnari, en hann en gæti ekki sagt til um það hvort hann hefði verið „massaður“ eða vöðvastæltur. Hann hafi þó ekki verið feitur. Minnti vitnið að gerandinn hefði ekki verið með mikið hár og nefndi brodda en kvaðst ekkert muna eftir fötunum. Þá hafi hann verið hálfkringluleitur og giskaði hann á 23–26 ára. Kvað hann gerandann hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki hafa litið út fyrir að vera glaður. Brotaþoli hefði líka virst hafa verið að drekka. Þá kvaðst vitnið hafa fengið sér að drekka en ekki mikið. Vitnið kvaðst hafa séð gerandann aftur fyrir utan skemmtistaðinn. Borin var undir vitnið lýsing hans á gerandanum hjá lögreglu, að hann hefði verið með mjög stutt hár, mjög breiður í bláum bol eða ljósbláum og flatur í andliti með þykkan og breiðan haus. Hárið hafi verið dökkt en ekki hafi verið mikið ljós inni en það hafi ekki verið ljóst. Hann hafi verið á bilinu 173–180 cm á hæð. Kvaðst vitnið hafa munað atvik betur þegar hann gaf skýrsluna.

            Vitnið bar um að hafa talað við dyravörð sem hann þekkti ekki, en síðan Palla, dyravörð sem hann kannaðist við. Kvaðst hann ekki muna hvorum þeirra hann hefði bent á gerandann. Einnig hefði hann talað við lögreglu síðar, en hann hefði ekki séð hver hefði verið handtekinn. Þá var borið undir vitnið það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu, að hann hefði náð í dyraverði og bent á gerandann án þess að sá yrði var við það. Gerandinn hafi enn staðið á sama stað. Hafi vitnið staðfest við annan dyravörðinn að gerandinn væri þessi „í bláa“. Þá var borinn undir hann framburður hans um að hann hefði bent lögreglu á tvo menn sem þá stóðu saman, mjög líkir, nánast eins og tvíburar, en lögreglan hefði ekki óskað eftir frekari aðkomu hans við að bera kennsl á gerandann. Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessu í dag en kvaðst hafa munað atvik betur þegar hann gaf skýrsluna.

            C, dyravörður á skemmtistaðnum, sagði frá því að strákur hefði komið til hans og greint honum frá því að annar strákur lægi í gólfinu alblóðugur. Hann hefði legið nálægt sviðinu og vitnið og félagi hans D hlaupið til. Fyrrnefndur strákur hefði svo komið og bent honum á gerandann sem hefði staðið hægra megin við sviðið nærri útidyrahurð. Sá hafi verið viss um hver gerandinn væri. Kvaðst vitnið hafa fengið þær upplýsingar að brotaþolinn hefði verið barinn með glerflösku eða glasi í höfuðið. Vitnið kvaðst hafa sagt félaga sínum frá þessu. Vitnið kvaðst hafa gengið upp að meintum geranda og spurt hann út í þetta. Kvaðst vitnið ekki muna í dag nákvæmlega hvað þeim hefði farið á milli. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að strákurinn hefði verið í „smásjokki“ og sagt að hann hefði skallað hinn í sjálfsvörn því sá hefði verið að ýta eitthvað í hann og með derring. Þá var einnig borið undir hann að upphaflega hefði fyrrgreint vitni sagt honum að gerandinn hefði kýlt strákinn. Kvaðst vitnið hafa munað atvik betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki muna í dag eftir samtali við [...] fyrir utan skemmtistaðinn.

            Vitnið lýsti því jafnframt að eftir að lögregla kom á vettvang hefði hann bent lögreglumanni á gerandann, sem hefði brugðist þannig við að hann reyndi að flýta sér burt. Hann hafi þá verið á leið út eða verið úti. Aðspurður kvaðst hann vera viss um að hann hefði bent lögreglu á þann mann sem honum var upphaflega bent á sem gerandann. Sá aðili hefði ekki bent honum á tvo aðila sem líklega gerendur. Aðspurður kvað hann engin önnur árásartilvik hafa komið upp þetta kvöld eða nótt. Vitnið kvaðst ekki geta lýst gerandanum í dag en myndi eftir bláum blazerjakka. Staðfesti vitnið að hann hefði lýst klæðnaðinum þegar lögreglan ræddi við hann. Þá kvaðst hann ekki muna eftir samtali sem hann greindi lögreglu frá, við [...] fyrir utan skemmtistaðinn.

            R, [...], kvaðst hafa verið á dansgólfinu með konu sinni, sennilega fyrir miðju hægra megin, þegar einhver lá eftir á gólfinu. Rámaði vitnið í einhver læti á dansgólfinu í aðdragandanum. Aðspurður kvaðst hann muna eftir ákærða líka á dansgólfinu á einhverjum tímapunkti. Kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa séð hann í átökum, en kvaðst hafa séð ákærða einhvers staðar í þeirri atburðarás. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að allt hefði orðið tryllt á dansgólfinu og verið að ráðast að ákærða og ýta honum burt og hann hefði gengið á milli og reynt að stöðva þetta. Eftir það hafi hann séð mann liggja í gólfinu án þess að gera sér grein fyrir því hvenær hann hefði tekið eftir honum. Það hafi ekki liðið sekúndur, fremur mínútur eða mínúta. Kvaðst vitnið ekki muna þetta í dag en hann hefði munað atvik betur þegar hann gaf skýrsluna enda þá ekki langt liðið frá atvikinu. Þá greindi vitnið frá því fyrir dóminum að eftir þetta hefði kviknað á ljósunum og hljómsveitin hætt að spila. Minnti vitnið að þá hefðu þau nokkur sest við borð og hefði ákærði verið með þeim. Vitnið kvaðst hafa verið ölvaður og ákærði líka þó hann myndi ekki eftir þeim lýsingum sem bornar hefðu verið undir hann um ölvunarástand hans og háttalag. Spurður um klæðaburð ákærða umrætt sinn minnti hann að ákærði hefði verið í ljósum fötum á dansgólfinu.

            S, [...], kvaðst muna eftir einhverjum hamagangi eða „barningi“ á dansgólfinu. Hann hafi ekki séð almennilega hvað gerðist. Kveikt hafi verið á ljósunum og fát hafi komið á fólk. Kvaðst hann minna að hann hefði spurt ákærða hvort hann hefði lent í einhverju veseni og að hann hefði svarað því neitandi. Aðspurður kvaðst hann „í minningunni“ ekki hafa séð ákærða illan eða árásargjarnan. Eftir þetta hafi hann, ákærði og fleira fólk sest niður við borð. Vitnið kvaðst hafa verið frekar ölvaður umrætt sinn. Einnig hafi ákærði verið ölvaður. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að hann minnti að hann hefði mætt ákærða að koma af dansgólfinu. Hann hafi séð að upplausn hafi verið á dansgólfinu, allir bent á alla, og að strákur hafi legið í gólfinu. Hann hefði talað við ákærða og spurt hvort hann hefði slegið strákinn eða gert eitthvað við hann, kannski ýtt honum eða eitthvað, og ákærði hefði svarað því játandi. Vitnið hefði spurt hann hvort hann vildi ekki bara fara út og róa sig, minnti hann, og talað eitthvað við hann. Stuttu seinna hafi lögreglan komið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu í dag en örugglega hafa munað atvik betur þegar skýrslan var tekinn enda skemmra liðið frá atvikum. Þá hefði hann örugglega greint satt frá og eftir bestu vitund. Hafi honum fundist sem athyglin beindist að ákærða eftir atvikið og því spurt hann hvað hefði gerst. Jafnframt var borin undir vitnið lýsing hans á háttalagi ákærða, þ.e. að hann hafi virst „frústreraður“ eftir atvikið, og taldi vitnið það örugglega rétt eftir sér haft.

            Þ kvaðst muna eftir að hafa séð brotaþolann á dansgólfinu. Hann hafi verið mjög drukkinn og verið að atast í stelpunum. Hafi hópurinn verið framarlega á dansgólfinu vinstra megin. Skyndilega hafi hann komið „fljúgandi“ inn í hópinn frá hægri hlið. Nánar spurð sagði hún að hann hefði í raun bara dottið flatur fyrir framan þau og höfuðið á honum skollið í gólfið. Hefði brotaþoli verið svo drukkinn að hann hefði getað dottið um sjálfan sig. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neinn árásarmann en frétt síðar að ákærði, sem hún vissi hver var, hefði verið handtekinn. Vel gæti verið að hún hefði sagt G vinkonu sinni frá því.

            G kvaðst hafa verið á dansgólfinu ásamt vinkonum sínum, framarlega við sviðið vinstra megin. Brotaþoli, sem hafi verið mjög ölvaður, hafi verið á dansgólfinu að atast í öllum, m.a. henni og vinkonum hennar. Hann hafi svo verið kominn inn í aðra þvögu og þar hafi orðið einhverjar stimpingar og hann hafi skyndilega „flogið fram hjá“, þ.e. fallið beint niður á gólfið. Nánar spurð kvaðst hún hafi séð þegar maður ýtti brotaþola svo að hann lenti í gólfinu. Borin var undir vitnið lýsing hennar í fyrri skýrslutökunni hjá lögreglu á því hvernig gerandinn hefði ýtt brotaþola með báðum höndum við axlirnar og í framhaldinu hefði brotaþoli dottið. Kvaðst vitnið hafa munað þetta betur þegar skýrslan var tekin og staðfesti að hún hefði borið um atvikið eftir bestu vitund.

            Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir klæðaburði ákærða á dansgólfinu en hún myndi eftir slaufu. Borin var undir hana lýsing á gerandanum í fyrri skýrslutöku hjá lögreglu en þar er haft eftir henni að hann hafi verið ljóshærður eða skolhærður, með hárið greitt aftur og niður, myndi ekki hvort það hefði verið rakað í hliðunum en mikið gel, um 1,75 cm. á hæð, frekar kringlóttur en ekki feitur, „þéttur einhvern veginn svona kubbaður“, með kringlóttan haus og slaufu og um 20–25 ára. Kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu í dag.

            Vitnið kvað vinkonu sína hafa sagt sér að ákærði væri sá sem hefði verið handtekinn eftir árásina. Hún hafi skoðað mynd af honum á fésbókinni og hafi vitnið þekkt hann aftur sem manninn sem ýtti brotaþola. Þetta hafi gerst eftir fyrri skýrslutöku hjá lögreglu.

            F kvaðst hafa fylgst með brotaþola, sem hefði verið nokkuð ölvaður, ganga inn á dansgólfið. Hafi brotaþoli vaggað en góður bragur verið á honum og hafi hann ekki verið með nein leiðindi. Hafi vitnið séð brotaþola rekast á gerandann og virtist hann biðjast afsökunar. Þetta hafi verið framarlega við sviðið nálægt miðju, en þó meira til hægri. Gerandinn hefði snúið sér við með stæla og þrýst brotaþola viljandi í gólfið, nokkuð harkalega aftur á bak. Hefði vitnið strax séð að þetta var þungt fall. Kvaðst hann þá hafa hlaupið að og reynt að hlúa að brotaþola og spurt gerandann „hvað væri málið“. Hann hafi fundið að brotaþoli væri meðvitundarlaus og séð að það blæddi úr hnakka og höfði. Hringdi hann strax á neyðarlínuna en lögreglan hefði komið á staðinn á að giska 5–10 mínútum eftir atvikið. Hann hafi ekki leitt hugann að gerandanum á meðan en eftir að lögreglan kom hefði hann séð mann handtekinn fyrir utan. Nánar spurður kvaðst vitnið hafa séð atvikið greinilega og ljós komið frá sviðinu. Vitnið kvað gerandann hafa verið í þykkari kantinum, um 180–190 cm. á hæð, í dökkbláum jakka og snögghærðan. Vitnið kvaðst hafa drukkið fyrr um kvöldið en hafa átt að vinna næsta morgun og því hafi hann verið rólegur. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hversu ölvaður gerandinn hefði verið.

            Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að gerandinn hefði þrýst á brotaþola með báðum höndum, líklegast á bringuna, svo og lýsing hans á gerandanum sem hann kvað hafa verið í bláum jakka eða dökkum, ljósri skyrtu og ljósum buxum, svolítið þybbinn og ljóshærður. Þá hefði hann verið aðeins lægri en vitnið, sem væri 1,80 cm. Hafi hann séð gerandann handtekinn og fundist um leið að hann líktist mjög þeim sem hann hefði séð. Vitnið kvaðst hafa munað atvikið talsvert betur er hann gaf skýrslu hjá lögreglu, enda nær í tíma, og að hann hefði sagt satt og rétt frá. Kvaðst hann lítið muna í dag eftir samtölum eftir atvikið fyrir utan skemmtistaðinn.

            U kvaðst hafa verið að skemmta sér með [...] og staðið aftarlega hægra megin við sviðið. Hann hafi horft yfir salinn enda verið að leita að vinum sínum. Hann hafi séð fólk „ýtast“ á dansgólfinu framarlega vinstra megin við sviðið. Hann hafi séð tvo karlmenn ýta hvorn í annan og muni hann eftir því að annar hafi verið dökkhærður en sá hafi ekki verið hærri en vitnið, sem sé 185–186 cm. á hæð. Stuttu síðar, á sama stað, virtist eitthvað hafa gerst

            N, [...], og V, [...], komu einnig fyrir dóminn en ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð þeirra.

            Þá báru vitni fyrir dóminum lögreglumennirnir M og L, sem komu á vettvang í umrætt sinn. Ekki þykja efni til að rekja framburð þeirra.

            Læknarnir E, T og H gáfu skýrslur fyrir dóminum og gerðu grein fyrir læknisvottorðum og matsgerð. Sálfræðingarnir J og K gerðu grein fyrir vottorðum sínum, sem liggja fyrir í málinu, og helstu niðurstöðum.

 

                                                               III.

Niðurstaða

            Atvik máls þessa áttu sér stað aðfaranótt [...] 2014 á skemmtistaðnum [...], en ákærði var þar staddur ásamt samferðafólki sínu. Lögreglan var kvödd á staðinn er upplýsingar bárust í gegnum neyðarlínu um að manni hefði verið hrint í gólfið, hann hefði rotast og hlotið skaða. Ákærði var handtekinn á staðnum og rannsókn málsins hófst í kjölfarið.

            Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Krafa hans um sýknu byggir fyrst og fremst á því að hann hafi ekki verið að verki umrætt sinn.

            Brotaþoli man ekki eftir aðdraganda að atvikinu eða atvikinu sjálfu.

            Eins og fram hefur komið er langt liðið frá atvikum. Rannsókn málsins lauk í [...] 2014 en ákæra var gefin út 9. febrúar 2016. Aðalmeðferð í málinu fór fram 4. október 2016 og féll dómur í því 31. október 2016. Með dómi Hæstaréttar frá 30. nóvember 2017 var dómurinn ómerktur og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar. Aðalmeðferð í málinu fór fram að nýju 14. og 15. mars 2018. Sá langi tími sem liðinn er frá atvikum setur óneitanlega mark sitt á framburð vitna. Fram kom hjá þeim öllum að þau hefðu munað atvik að hluta til eða öllu leyti betur þegar þau gáfu skýrslu hjá lögreglu, en þær voru teknar á tímabilinu frá [...] til [...] 2014. Líta ber til þess að hafi vitni gefið skýrslu hjá lögreglu og staðfest það sem þar hefur verið eftir því haft við skýrslutöku fyrir dómi, með þeim hætti sem kveðið er á um í 3. mgr. 122. gr. laganna, verður sá framburður eftir atvikum lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu. Í slíkum tilvikum metur dómari sönnunargildi þess gagns en niðurstaða ræðst af heildstæðu mati á sönnunargögnum í málinu.

            Engar öryggismyndavélar sneru að dansgólfi skemmtistaðarins og myndsakbendingar sem vitnin B og F tóku þátt í rúmum mánuði eftir atvikið komu ekki að gagni, en þeir treystu sér ekki til að benda á gerandann. Til þess er jafnframt að líta við sönnunarmat að nánast öll vitni voru undir áhrifum áfengis þegar atvik áttu sér stað, eins og fram kom í skýrslum þeirra hjá lögreglu, sjónarhorn þeirra mismunandi og birtuskilyrði að einhverju leyti skert. Því hafa lýsingar þeirra á útliti gerandans takmarkað sönnunargildi einar og sér.

 

            Fyrir liggur að atvikið átti sér stað á dansgólfinu. Í kjölfar þess var kveikt á ljósum skemmtistaðarins, viðstaddir hlúðu að brotaþola og dyraverðir voru kallaðir til aðstoðar. Samkvæmt framburði ákærða og vitnisburði O, P og R hér fyrir dómi var ákærði á dansgólfinu. O og P vissu af honum í námunda við sig en P kvaðst hafa snúið baki í hann. Voru þau staðsett framarlega við sviðið til hægri.

            Ákærði bar hér fyrir dómi að hann hefði ekki orðið var við nein læti á dansgólfinu heldur hefði hann sest niður með O og P eftir að ljós staðarins voru kveikt. Er þetta í ósamræmi við það sem hann bar um í skýrslutöku hjá lögreglu þar sem hann kvaðst hafa munað eftir látum á dansgólfinu, einhver hefði verið sleginn, en auk þess tók hann það fram hjá lögreglu að hann myndi lítið eftir atburðum næturinnar. Skýringar ákærða á breyttum framburði eru að mati dómsins ótrúverðugar, en hann greindi frá atvikum umrætt sinn í frjálsri frásögn.

            O og P kváðust hvorug hafa orðið vör við læti eða vitað af látum á dansgólfinu og drógu úr því sem þau höfðu greint frá hjá lögreglu um þetta atriði. Báru þau á sama veg um að P hefði svipast um eftir N, [...] O og ákærða, sem reyndist vera að hlúa að brotaþola. Þá bar O að hún hefði farið til ákærða, sem hefði þá staðið hægra megin við sviðið og þau öll sest. Ákærði hafi ekki borið nein merki um að hafa átt í útistöðum við einhvern.

            Við mat á trúverðugleika framburðar vitnanna um þetta atriði ber að líta til tengsla þeirra við ákærða sem þykja rýra sönnunargildi framburðar þeirra. Leggur dómurinn til grundvallar framburð þeirra hjá lögreglu um að þau hefðu orðið vör við einhvers konar læti á dansgólfinu, sem hefði orðið til þess að P færði O af því. Í þessu sambandi vísast til framburðar R hjá lögreglu, en hann varð var við læti á dansgólfinu og að ákærði hefði verið þar nærstaddur og athyglin beinst að honum.

            Sá hópur sem vitnin Þ og G tilheyrðu var, samkvæmt framburði þeirra, framarlega til vinstri á dansgólfinu. Var brotaþoli í námunda við þær og féll hann flatur á gólfið fyrir framan þær.

 

            Nokkur vitni voru að atvikinu og gáfu lýsingu á því sem gerðist. G og B, sem voru á dansgólfinu, og F, sem stóð álengdar, báru um að gerandinn, sem var karlmaður, hefði ýtt brotaþola það harkalega aftur fyrir sig að hann lenti í gólfinu. Báru G, Þ og F um að brotaþolinn hefði verið áberandi ölvaður. Þá báru F og B um að líkamsárásin hefði verið að tilefnislausu, en brotaþoli hefði rekist utan í gerandann.

            Í kjölfarið hringdi F á neyðarlínuna og hlúði að brotaþola en B kallaði eftir aðstoð dyravarðarins C. Bar þeim saman um að B hefði bent C á gerandann, sem að sögn C stóð þá hægra megin við sviðið, þ.e. á sama stað og vitnið O vísaði til hér fyrir dómi og ítarlegar í skýrslutöku hjá lögreglu.

            Ákærði kannast við að dyravörður hafi komið að máli við hann og borið á hann þær sakir að hann hefði slegið einhvern með flösku eða skorið í andlit. Kemur það heim og saman við framburð C um samtalið. Í skýrslu rannsóknarlögreglu á vettvangi og aftur í skýrslutöku C hjá lögreglu daginn eftir atvikið er jafnframt haft eftir vitninu að ákærði hafi gengist við því að hafa ráðist á brotaþola með því að skalla hann í sjálfsvörn. Hér fyrir dómi kvaðst vitnið hafa munað atvik betur á þeim tíma er hann gaf skýrslurnar.

            Vitnið S bar fyrir dómi að hann hefði séð einhvern hamagang á dansgólfinu og sér hefði fundist sem athyglin beindist að ákærða eftir atvikið. Því minnti hann að hann hefði spurt ákærða hvort hann hefði lent í einhverju veseni en hann svarað því neitandi. Framburður vitnisins um þetta tiltekna atriði er í ósamræmi við það sem hann bar í skýrslutöku hjá lögreglu [...] 2014, er hann greindi frá atvikum í frjálsri frásögn og kvað þá ákærða hafa svarað fyrirspurn hans játandi. Aðspurt kvaðst vitnið örugglega hafa munað atvik betur þá en í dag. Í lögregluskýrslunni kom einnig fram að ákærði hefði verið að koma af dansgólfinu þegar vitnið átti þetta samtal við hann.

            Ákærði kvaðst ekki muna eftir samtali við dyravörð þegar hann var inntur eftir því í skýrslutökum hjá lögreglu. Eins og áður greinir kvaðst hann hins vegar hér fyrir dómi muna eftir því að dyravörðurinn hefði borið upp á hann framangreindar sakir. Ítrekað spurður kvaðst hann muna vel í öllum meginatriðum atburði kvöldsins og næturinnar og að hann hefði ekki lent í útistöðum við neinn. Er þetta í andstöðu við það sem hann bar um í skýrslutökum hjá lögreglu, þar sem hann vísaði ítrekað til þess að hann hefði verið ofurölvi og myndi því atvik illa eða aðeins brot af því sem gerðist. Að mati dómsins voru þær skýringar sem hann gaf á þessum umskiptum ótrúverðugar og mjög á reiki. Í þessu sambandi vísast til þess sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu um ástand ákærða, hann hafi verið óviðræðuhæfur sökum ölvunar og fór því fram næsta dag.

 

            Vitnið B bar hér fyrir dómi að eftir að lögregla hefði komið á vettvang hefði hann bent henni á tiltekinn mann sem gerandann, þann sama og hann vísaði C á. Bar C afdráttarlaust fyrir dómi að aðilinn sem B hefði bent honum á hefði verið sá aðili sem lögreglan handtók eftir að hún kom á vettvang. Hefði hann sjálfur gripið í hann þegar hann var á leiðinni út. Einnig bar vitnið F hjá lögreglu að hann hefði séð hinn handtekna og þekkt hann aftur sem gerandann. Jafnframt bar vitnið G að vinkona hennar Þ hefði greint henni frá því að ákærði hefði verið handtekinn. Hefði hún skoðað mynd af honum á fésbókinni eftir að hún fór í fyrri skýrslutökuna til lögreglu og taldi afdráttarlaust að það hefði verið sá maður sem hún hefði séð ýta brotaþola á dansgólfinu. Er þetta í samræmi við framburð hennar í seinni skýrslutöku hennar hjá lögreglu, en hér fyrir dómi kvaðst hún hafa munað atvik betur þegar hún gaf lögregluskýrsluna.

            Fyrir liggur í frumskýrslu, sem staðfest var af lögreglumönnunum M og L, sem komu á vettvang, að ákærði reyndi að komast hjá handtöku. Þær skýringar sem hann gaf á viðbrögðum sínum við því að sjá lögregluna koma á vettvang og ástæður þess að hann vildi koma sér burt eru að mati dómsins langsóttar og ótrúverðugar.

 

            Á heildina litið telur dómurinn framburð ákærða fyrir dómi ótrúverðugan af þeim ástæðum sem áður hefur verið gerð grein fyrir og verður hann ekki lagður til grundvallar niðurstöðu málsins. Þá vísast til þess sem áður segir um mat á trúverðugleika vitnanna O og P og tengsl þeirra við ákærða. Þrátt fyrir ákveðin tengsl vitnisins R og S við ákærða var framburður þeirra trúverðugur og drógu þeir ekki í efa framburð sinn hjá lögreglu á sínum tíma þegar hann var undir þá borinn.

            Vitnin B, C, F og G eru ótengd ákærða og brotaþola auk þess sem þau tengjast ekki innbyrðis. Dómurinn telur framburð þeirra vera trúverðugan og ekkert vera fram komið sem rýri hann. Lögregluskýrslur af vitnunum voru allar teknar upp í hljóði og mynd og er sönnunargildi þeirra því ríkara en ella, en eins og áður greinir staðfestu vitnin, þegar efni lögregluskýrslnanna var borið undir þau, að þau hefðu munað atburði betur þegar þær voru teknar.

 

            Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn sannað með framburði B, C, F og G að ákærði hafi verið sá aðili sem veittist að brotaþola á dansgólfinu, eins og nánar er lýst í ákæru, og var handtekinn í kjölfarið. Vísað er til þess er áður segir um gildi lýsinga vitna á útliti gerandans. Lýsingar þeirra vitna sem sáu gerandann veitast að brotaþola, þ.e. B, F og G, hjá lögreglu voru keimlíkar, sérstaklega hvað varðar holdafar eða líkamsvöxt og andlitsfall gerandans. Að mati dómsins þykja þær styrkja þá niðurstöðu að ákærði hafi verið að verki umrætt sinn. Þá telur dómurinn sannað með vitnisburði C og S hjá lögreglu að ákærði hafi gengist við verknaðinum áður en hann var handtekinn.

            Læknisfræðileg gögn og vitnisburður E læknis sanna að brotaþoli hlaut alvarlega áverka sem raktir eru til falls eftir hrindingu ákærða. Með hliðsjón af þeim gögnum, skýrslu sálfræðings og að öðru leyti með vísan til vitnisburðar E, H og J og K telst einnig sannað að líkamlegar og andlegar afleiðingar árásarinnar hafi verið þær sem þar eru tilgreindar.

            Brot ákærða er rétt heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en sannað er að ákærði hafði ásetning til þess að beita brotaþola ofbeldi. Samkvæmt ákvæðinu er nægilegt að afleiðingar verknaðarins verði raktar til gáleysis. Ákærða mátti vera ljóst að það að hrinda ölvuðum manni fyrirvaralaust aftur fyrir sig gæti haft í för með sér afleiðingar. Hins vegar verður að telja varhugavert að honum hafi mátt vera ljóst að þær yrðu svo alvarlegar og víðtækar sem raun bar vitni. Verða afleiðingarnar því að mati dómsins raktar til gáleysis ákærða. Í þessu sambandi er jafnframt litið til þess að ákærði hrinti brotaþola frá sér en sló hann ekki. Ekki er með öllu ljóst hversu kröftug hrindingin var, en ætla má að samspil þess og að brotaþoli hafi ekki verið eins viðbragðsfljótur og allsgáður maður er alla jafna hafi gert það að verkum að hann féll beint aftur fyrir sig án þess að geta borið hendur fyrir sig. Þá er brotaþoli hávaxinn og varð höfuðhöggið því þyngra fyrir vikið.

           

                                                              IV.

Refsiákvörðun

            Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Sakaferill hans samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ekki áhrif á refsingu. Hann hefur nú verið sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás sem hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Þá liggur ekki annað fyrir en að líkamsárásin hafi verið tilefnislaus.

            Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

            Eins og áður greinir áttu atvik máls þessa sér stað í [...] árið 2014 og virðist rannsókn málsins hafa lokið í [...] það ár. Ákæra var gefin út í febrúar árið 2016. Eftir það hefur aðalmeðferð málsins farið fram í tvígang, eins og áður er rakið. Þegar litið er til dráttar á málinu hjá ákæruvaldinu, sem á fyrst og fremst rætur að rekja til anna hjá embættinu, svo og reksturs málsins fyrir dómi, sem einnig hefur dregist á langinn, verður fullnustu refsingarinnar frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Komi til fullnustu refsingarinnar dregst gæsluvarðhald ákærða frá [...] til [...] 2014 frá henni.

 

            Einkaréttarkrafa brotaþola var skilin frá öðrum þáttum málsins í þinghaldi 15. júní 2016 og vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli, að gættum ákvæðum lokamálsliðar 1. mgr. 175. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafan er því ekki til úrlausnar í málinu.

            Verjandi ákærða lagði fram grófsundurliðaða tímaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð þess og umfang, svo og það að málið hefur verið undirbúið og flutt tvisvar áður, sem að einhverju leyti hefur nýst verjandanum, þykja málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jóns Egilssonar lögmanns, hæfilega ákveðin 637.500 krónur.

            Ákærði greiði 134.880 krónur í annan sakarkostnað. 

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir saksóknarfulltrúi.

                       

            Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Sigríður Hjaltested, Ragnheiður Snorradóttir og Ásgerður Ragnarsdóttir.

 

                                                            Dómsorð:

            Ákærði, Jón Valdimar Jóhannsson, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá [...] til [...] 2014 komi til fullnustu refsingarinnar.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar lögmanns, 637.500 krónur.

            Ákærði greiði 134.880 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                                        Sigríður Hjaltested (sign.)

                                                                        Ragnheiður Snorradóttir (sign.)

                                                                        Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)