• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Vanaafbrotamaður
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019 í máli nr. S-67/2019:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóhanni Geir Karlssyni

(Kristján Stefánsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 28. janúar 2019 á hendur ákærða; „Jóhanni Geir Karlssyni, kt. […], […], […], fyrir eftirtalin brot, framin á árinu 2018 í Reykjavík:

 

1.

Þjófnað og fjársvik með því að hafa á tímabilinu 24. apríl til 25. apríl, á bifreiðastæði við Laugardalshöll á Engjavegi, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin að aftan og þaðan stolið dælulykli frá Orkunni, í eigu A, kt. […], og í framhaldi í blekkingarskyni og án heimildar, notað dælulykil A til að greiða fyrir varning samtals að fjárhæð kr. 16.000,- í tveimur tilvikum. Með háttsemi sinni blekkti ákærði starfsmenn neðangreindra verslana um heimild til skuldfærslu og fékk í té varninginn auk auk þess sem andvirði hans var skuldfært á greiðslukortareikning A sem hér segir:

Tilvik

Dagsetning

Staðsetning

Fjárhæð kr.

1

25.04.2018

Orkan/10-11, Miklubraut

4000,-

2

25.04.2018

Orkan/10-11, Bústaðarvegi

12.000,-

 

 

 

 

Samtals fjárhæð kr.

16.000,-

 

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-26369

 

2.

Þjófnað og fjársvik með því að hafa á tímabilinu 24. apríl til 25. apríl, á bifreiðastæði við Smurstöðina Klöpp í Vegmúla 4, í auðgunarskyni farið inn í bifreiðina […], og þaðan stolið dælulyki frá Orkunni og dælulykli frá Olís, í eigu B, kt. […], og í framhaldi, í blekkingarskyni og án heimildar, notað dælulykla B til að greiða fyrir varning samtals að fjárhæð kr. 68.186,- í sjö tilvikum. Með háttsemi sinni blekkti ákærði starfsmenn neðangreindra verslana um heimild til skuldfærslu og fékk í té varninginn auk auk þess sem andvirði hans var skuldfært á greiðslukortareikninga B sem hér segir:

Tilvik

Dagsetning

Dælulykill:

Staðsetning

Fjárhæð kr.

1

25.04.2018

Olís

Olís, Garðabæ

5.180,-

2

25.04.2018

Orkan

10-11/Skeljungur, Garðabæ

648,-

3

25.04.2018

Orkan

10-11/Skeljungur, Dalvegi

7.885,-

4

25.04.2018

Orkan

10-11/Skeljungur, Kleppsvegi

15.197,-

5

25.04.2018

Olís

Olís, Sæbraut

13.780,-

6

25.04.2018

Orkan

10-11/Skeljungur, Smárinn í Kópavogi

17.496,-

7

25.04.2018

Orkan

Orkan, Skemmuvegur í Kópavogi

8.000,-

 

 

 

Samtals fjárhæð kr.

68.186,-

 

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-26302

 

3.

Nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 26. apríl, í heimildarleysi notað bifreiðina […], sem áður hafði verið stolið við Almenna bílaverkstæðið, Skeifunni 5, uns lögregla hafði afskipti af ákærða er hann hafði ekið bifreiðinni sviptur ökurétti norður Kringlumýrarbraut, við Listabraut, og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. (í blóði mældist amfetamín 135 ng/ml og metamfetamín 30 ng/ml).

 

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Mál 007-2018-26301

 

4.

Nytjastuld, þjófnað, fíkniefnalagabrot og brot á lyfjalögum með því að hafa á tímabilinu 28. maí 2018 til 11. júní 2018 í heimildarleysi notað bifreiðina […], sem áður hafði verið stolið fyrir utan Bílaleigu Akureyrar í Skeifunni 9.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-35945

 

5.

Fjársvik með því að hafa, á tímabilinu 28. júní til 1. júlí, í blekkingarskyni og án heimildar notað greiðslukort útgefið á C, kt. […], við greiðslu á varningi samtals að fjárhæð kr. 86.851,- í sex tilvikum. Með háttsemi sinni blekkti ákærði starfsmenn neðangreindra verslana um heimild til skuldfærslu og fékk í té varninginn auk auk þess sem andvirði hans var skuldfært á greiðslukortareikning C sem hér segir:

 

Tilvik

Dagsetning

Staðsetning

Fjárhæð kr.

1

28.06.2018

Hagkaup, Spöng

21.207,-

2

28.06.2018

Hagkaup, Spöng

20.249,-

3

30.06.2018

Bónus Faxafeni

595,-

4

30.06.2018

Hagkaup, Spöng

20.000,-

5

01.07.2018

Hagkaup, Spöng

20.000,-

6

30.06.2018

Hagkaup Garðabæ

4.800,-

                                                                                    Samtals fjárhæð kr.        86.581,-

 

Telst háttsemi þessi varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-48908

 

6.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin að aftan og þaðan stolið sólgleraugum að óþekktu verðmæti.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-77343

 

7.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, í auðgunarskyni brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu við hliðarspegil á hægri framhurð bifreiðarinnar.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

Mál 007-2018-77343

 

8.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu hægra megin að aftan og þaðan stolið Nike skólatösku sem í var Macbook air fartölva að áætluðu verðmæti kr. 260.000 og kjólum að óþekktu verðmæti.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-77343

 

9.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin að aftan og þaðan stolið 66° Norður Snæfell parka úlpu að áætluðu verðmæti kr. 59.000 kr.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-77343

 

10.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin á bifreiðinni, án þess að taka úr henni muni.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

Mál 007-2018-77343

 

11.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin að aftan og þaðan stolið Fender Stratocaster rafmagnsgítar, Wasburn rafmagnsgítar og tösku sem innihélt Boss RV3 - Reverb/Delay hljóðpedal að verðmæti 135$ , TC electronic Vintage hljóðpedal að verðmæti 220$, Korg Pitchblack tuner að verðmæti kr. 11.900,- og Electro Harmonix Little Big Muff að verðmæti 79$.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-77343

 

12.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin á bifreiðinni, án þess að taka úr henni muni.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

Mál 007-2018-77343

 

13.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 11. nóvember, í bifreiðageymslu við Vesturgötu 6, brotist inn í bifreiðina […] með því að brjóta rúðu vinstra megin að aftan og þaðan stolið Fender Stratocaster rafmagnsgítar, Wasburn rafmagnsgítar og tösku sem innihélt Boss RV3 - Reverb/Delay hljóðpedal að verðmæti 135$ , TC electronic Vintage hljóðpedal að verðmæti 220$, Korg Pitchblack tuner að verðmæti kr. 11.900,- og Electro Harmonix Little Big Muff að verðmæti 79$.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-773430

 

14.

Nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 21. desember, í heimildarleysi notað bifreiðina […], sem áður hafði verið stolið við Háskóla Íslands að Sæmundargötu, uns lögregla hafði afskipti af ákærða er hann ók bifreiðinni án ökuréttar suður Klapparstíg við Njálsgötu, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. (í blóði mældist amfetamín 1400 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Mál 007-2018-86470

 

15.

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 30. desember, brotist inn í bifreiðina […] þar sem hún stóð í bifreiðageymslu Fosshótels að Þórunnartúni og þaðan tekið smámynt óþekktrar fjárhæðar og á sama tíma haft í vörslum sínum, á almannafæri, útdraganlegan hníf sem ákærði dró upp í kjölfar afskipta starfsmanna sem þá höfðu fylgt honum í anddyri hótelsins.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-87774

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

            Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið fallið frá 13. ákærulið. Þá hefur það hvað varðar 4. ákærulið fallið frá ákæru vegna þjófnaðar, fíkniefnalagabrots og brots gegn lyfjalögum og hvað varðar 5. ákærulið vegna fyrsta tilviksins sem þar er greint, að fjárhæð 21.207 krónur. Loks var, hvað varðar 15. ákærulið, fallið frá þeim hluta lýsingar á ákæruefni að ákærði hefði verið með útdraganlegan hníf sem hann hefði dregið upp í kjölfar afskipta starfsmanna hótelsins sem þá höfðu fylgt honum í anddyri hótelsins.

            Að ákæru þannig breyttri játar ákærði sök samkvæmt 3., 4., 14. og 15. ákærulið en neitar sök að öðru leyti. Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna þeirra brota sem hann hefur játað, en verði sýknaður af ákæru að öðru leyti. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, í samræmi við framlagða tímaskýrslu. Loks krefst ákærði þess að sakarkostnaður vegna 3. og 14. ákæruliðar verði lækkaður þar sem tekin hafi verið blóðsýni og rannsókn framkvæmd á þeim án þess að á niðurstöðu rannsóknar væri byggt við meðferð málsins.

 

II

Ákærði hefur skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 3., 4., 14. og 15. ákærulið. Játning ákærða fær fulla stoð í gögnum málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.

 

III

Málsatvik vegna 1., 2., 5. og 6. til 12. ákæruliðar

Ákærði er í máli þessu ákærður fyrir auðgunar- og umferðarlagabrot framin á árinu 2018. Hann hefur alfarið neitað sök samkvæmt 1., 2., 5. og 6. til 12. ákærulið.

Ákærði er í fyrsta og öðrum ákærulið ákærður fyrir þjófnað og fjársvik, í báðum tilvikum fyrir að fara inn í bifreiðar og stela þaðan dælulyklum og nota þá síðan í þeim tilvikum sem greinir í ákæru. Samkvæmt skýrslu lögreglu var brotist inn í bifreiðina […], þar sem hún var staðsett á bifreiðastæði fyrir utan Laugardalshöllina, á tímabilinu eftir klukkan 12.00, 24. apríl 2018. Þegar eigandi bifreiðarinnar kom að vitja hennar daginn eftir var búið að brjóta rúðu í bifreiðinni hægra megin aftur í. Það eina sem var tekið úr bifreiðinni var bensínlykill frá Skeljungi, Orkulykill. Þá kom fram hjá eiganda bifreiðarinnar að samband hefði verið haft við hann frá þjónustuveri Skeljungs og honum tilkynnt að lykilinn hefði verið notaður tvisvar sinnum. Samkvæmt framlögðum gögnum var lykilinn notaður 25. apríl 2018 á Orkunni Miklubraut og Orkunni Bústaðavegi.

Samkvæmt skýrslu lögreglu var brotist inn í nokkrar bifreiðar aðfaranótt 25. apríl 2018 á bifreiðastæði við Smurstöðin Klöpp við Vegmúla 4. Þar á meðal var bifreiðin […] og var stolið þaðan tveimur eldsneytislyklum, annars vegar frá Orkunni og hins vegar frá Olís. Samkvæmt gögnum málsins voru lyklarnir notaðir samtals sjö sinnum 25. apríl 2019, á sjö mismunandi stöðum, fyrir samtals 68.186 krónur.

Þann 16. júlí 2018 tilkynnti C um að kortaveski hennar hefði verið stolið eftir 12. júní 2018. Í því var m.a. debetkort frá Íslandsbanka sem tengt var við bankareikning hennar. Hafi starfsmenn Borgunar haft samband við hana 10. júlí 2018 og tilkynnt henni að karlmaður hefði þá um morguninn greitt fyrir vörur með kortinu í Samkaupum í Suðurveri. Í framhaldi af símtalinu hafi hún skoðað bankareikning sinn og séð að búið var að svíkja út samtals 243.187 krónur, í 22 færslum, í ýmsum verslunum og þjónustufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 1.22 aðfaranótt 26. júní sl. til 2. júlí sl. Hún kvaðst ekki hafa vitað betur en að kortið væri í kortaveski heima hjá henni en hefði ekki fundið veskið þegar hún leitaði. Kvaðst hún síðast hafa verið með veskið í Costco 12. júní sl. og ekki vita hvenær því var stolið en ekkert á heimili hennar benti til þess að þar hefði verið brotist inn.

Við rannsókn framangreindra mála aflaði lögregla upptöku úr eftirlitsmyndavélum þeirra verslana þar sem ákærði er grunaður um að hafa notað framangreinda lykla og greiðslukort. Á þeim megi sjá einstakling nota lyklana og kortið og taldi lögregla víst að um væri að ræða ákærða í öllum tilvikum. Í þeim skýrlsum sem teknar hafa verið af ákærða vegna málsanna hefur hann ýmist neitað sök hvað eða neitað að tjá sig um málin.

Lögregla var 11. nóvember sl. kölluð í bifreiðageymsluna á Vesturgötu vegna innbrots í bifreið. Í ljós kom að brotist hafði verið inn í sjö bifreiðar og munir teknir úr fjórum þeirra, eins og nánar er rakið í ákæru. Lítil þríhyrningslaga afturrúða vinstra megin hafði verið brotin í sex þeirra en í einni sambærileg rúða hægra megin að framan. Við skoðun á myndum úr eftirlitsmyndavélum bifreiðageymslunnar mátti ætla að sami aðili hefði verið að verki í öllum tilvikum. Taldi lögregla, með hliðsjón af útliti viðkomandi, að þar hefði ákærði verið að verki. Ákærði var yfirheyrður vegna málsins 13. nóvember sl. og neitaði hann sök.

 

IV

Framburður ákærða og vitna

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði neitaði að mestu að tjá sig, bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann kvaðst ýmist ekki vera sá einstaklingur sem sést á þeim upptökum sem lagðar hafa verið fram í málinu eða neitaði að tjá sig um það. Fram kom hjá ákærða í framburði hans fyrir dómi að hann hefði á því tímabili sem brotin taka til almennt dvalist í gistiskýlinu á Lindargötu og hefði þá verið í neyslu, með hléum. Hann viðurkenndi að hafa tekið bifreið í Skeifunni, eins og lýst er í 3. ákærulið, og kvaðst minna að hann hefði þá verið einn. Aðspurður um þau atvik sem greinir í 1. og 2. ákærulið sagði hann, eftir að hafa verið bent á að bifreiðin sem hann viðurkenndi að hafa tekið í Skeifunni sæist þar á myndum, að hugsanlega hefði einhver annar verið á bifreiðinni þá. Kvaðst hann ekki geta nafngreint þann aðila. Aðspurður um 5. ákærulið kvaðst ákærði ekki kannast við hring, úlpu og skó þess sem sést á upptökum nota stolið kort. Loks kvaðst ákærði ekki kannast við þau hljóðfæri sem sjást á myndum í málsgögnum og talið er að hafi verið stolið, eins og lýst er í 11. ákærulið.

Vitnið D lögreglumaður sagði að grunur hefði komið upp um að ákærði hefði stolið Orkulykli en hann hefði þekkst á myndum þar sem hann hefði komið akandi á […]-bifreið. Daginn eftir hafi ákærði svo verið handtekinn á sömu bifreið sem hann hafi viðurkennt að hafa stolið. Þegar ákærði var handtekinn hefði hann verið í sömu fötum og hann var í þegar hann notaði Orkulykilinn daginn áður. Vitnið sagði að lögreglumenn hefðu þekkt ákærða á myndum sem aflað var vegna rannsóknarinnar og tiltók sérstaklega að hann hefði greinilega þekkt ákærða á myndunum frá Kleppsvegi og sagði aðra lögreglumenn hafa sagt það sama. Þá hafi ákærði einnig þekkst á þeim myndum sem komu úr eftirlitskerfinu í stigahúsinu á Vesturgötunni en þar hafi hann verið í brúnni úlpu og hvítum strigaskóm. Aðspurður sagði vitnið að ekki hefði verið rætt við starfsmenn á þeim stöðum sem greinir í 1. og 2. ákærulið. Þá kom fram hjá vitninu að þegar myndirnar voru skoðaðar hefðu þeir verið með til samanburðar myndir af ákærða úr eftirlitsmyndavélum í fangageymslu lögreglu.

Vitnið E lögreglumaður kvaðst hafa fengið málið til rannsóknar eftir að búið var að afla gagna frá Högum og hefði hann farið yfir upptökur. Hann kvaðst hafa greint ákærða á upptökum þar sem hann sæist nota illa fengið greiðslukort. Það kort hafi verið notað meira en lýst er í ákæru en ekki hafi tekist að afla frekari gagna. Vitnið kvaðst hafa talið, á grundvelli fyrri afskipta sinna af ákærða, að þetta væri hann á upptökunum og einnig þekkt hann af myndum úr fangamóttökunni. Þá hafi klæðnaður hans verið svipaður. Fleiri mál hafi verið til rannsóknar og þegar farið var yfir þau í heild hefði hann talið allt benda til þess að um ákærða væri að ræða.

Vitnið F kvaðst hafa komið að rannsókn mála ákærða sem stjórnandi rannsóknardeildar. Málin hafi komið inn á mismunandi vöktum þannig að sömu lögreglumenn hafi ekki komið að þeim öllum. Vitnið kveðst þekkja ákærða í sjón og hafa þekkt hann strax á þeim myndum sem hann skoðaði og vísaði m.a. til höfuðlags.

Vitnið G lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang á Vesturgötu þegar tilkynnt var um innbrot í bifreið í bifreiðageymslu. Búið var að brjóta litla rúðu í vinstri afturglugga. Hann hafi skoðað bifreiðina með eiganda hennar og verið á leið út þegar í ljós kom að farið hefði verið inn í aðra bifreið í geymslunni. Í framhaldi af því hafi þeir farið um húsið og séð þá hinar fimm bifreiðarnar sem búið var að fara inn í. Þá hafi verið haft samband við tjónþola sem allir hafi komið á vettvang. Í ljós hafi komið að eitthvað hefði verið tekið úr fjórum bifreiðum. Eigendur hinna þriggja bifreiðanna hafi sagt lögreglu að ekkert verðmæti hefði verið í bifreiðunum. Vitnið sagði að farið hefði verið eins inn í sex af bifreiðunum. Brotin hafi verið lítil hliðarrúða fyrir aftan afturhurð. Í sjöundu bifreiðinni hafi þríhyrningslaga hægri hliðarrúða við framsæti verið brotin. Hafi þessar bifreiðar verið ýmist á efri eða neðri hæð hússins. Allar bifreiðarnar hafi verið komnar inn í húsið klukkan 23.00 um kvöldið en lögregla hafi verið kölluð til um tíu eða ellefuleytið morguninn eftir. Vitnið sagði lögreglu ekki hafa fundið neitt þýfi á staðnum en eigendur bifreiðanna hefðu rakið fyrir þeim hvað hefði verið tekið. Ekki hafi verið leitað að fingraförum á bifreiðunum.

Vitnið H lögreglumaður kvaðst hafa verið stjórnandi á vettvangi vegna innbrota í bifreiðar í bifreiðageymslunni á Vesturgötu. Sífellt hafi komið í ljós fleiri bifreiðar sem brotist hefði verið inn í. Lítil afturrúða hefði verið brotin í mörgum bifreiðanna. Þá sagði vitnið að sjaldnast væri leitað að fingraförum í tilvikum sem þessum.

Vitnið I lögreglumaður kvaðst hafa verið beðinn um að fara í gistiskýlið og handtaka ákærða. Hann sagði ákærða hafa verið í þremur úlpum þegar hann var handtekinn og hafi lögreglan haldlagt a.m.k. eina úlpu. Þá sagði vitnið að síðar hefði fundist ætlað þýfi úr innbroti milli hæða í bifreiðageymslunni við Vesturgötu, gítar og magnari.

Vitnið J kvaðst hafa skilið bifreið sína eftir í bifreiðageymslunni 10. nóvember og farið að spila á tónleikum. Milli klukkan 22.00 og 23.00 um kvöldið hafi hann farið með „græjurnar“ í bifreiðina. Lögreglan hafi svo haft samband við hann morguninn eftir og þá hafi verið búið að brjótast inn í bifreiðina. Tveim gítörum hafi verið stolið og tösku með gítarpedölum. Hljómborð og annað „effectaborð“ hafi verið skilið eftir. Ekkert hafi verið endurheimt af þessum munum. Vitninu var sýnt mynd af munum sem fundust á vettvangi og sagði hann þá líta út eins og þeir sem voru teknir. Hann sagði verðmætamatið í ákæru vera frá sér komið. Hann kvaðst hafa farið í helstu hljóðfæraverslanir Reykjavíkur til að kanna verðið. Hann hafi fengið mat hjá sérfræðingum í þessum verslunum á því hvert verðið væri og síðan hafi þeir slegið af miðað við að um notaða muni var að ræða. Þá sagði vitnið að í ákæru væru ekki taldir upp tveir munir til viðbótar sem hefðu verið teknir, straumbreytir og einn pedali. Þá var vitninu sýnd mynd af einstaklingi með töskur úr eftirlitskerfi bifreiðageymslunnar og sagði hann lögun taskanna þannig að þetta gætu verið munirnir sem teknir voru úr bifreið hans.

Vitnið K sagði lögreglu hafa haft samband við sig 11. nóvember vegan innborgs í bifreið hennar og hafi hún þá farið í gegnum það hvað vantaði í bifreiðina. Meðal þess sem var tekið hafi verið tölva, hleðslutæki, snyrtivörur, tveir Cintamani-jakkar, heyrnartól, sundföt og aðrir smámunir. Þá var vitninu sýnd mynd úr eftirlitsmyndavélum bifreiðageymslunnar af manni með tösku og sagði vitnið að stærð og litur passaði við tösku sem hefði verið í bifreið hennar.

 

V

Niðurstaða vegna ákæruliða 1 og 2

Þau brot sem lýst er í 1. og 2. ákærulið eru öll framin á sama hátt með notkun á stolnum lyklum. Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sem aflað var vegna þessara tilvika má sjá bifreiðina […] á vettvangi. Ákærði hefur játað að hafa notað bifreiðina í heimildarleysi fimmtudaginn 26. apríl 2018 en bifreiðinni hafði verið stolið við Almenna bílaverkstæðið, Skeifunni 5, Reykjavík. Hafði lögregla afskipti af ákærða þennan dag þegar hann ók bifreiðinni norður Kringlumýrarbraut. Það var fyrst fyrir dómi sem ákærði sagði að annar einstaklingur hefði verið á bifreiðinni í umrætt sinn en dómurinn metur þann framburð ákærða ekki trúverðugan í ljósi annarra gagna.

Þá má á upptökunum sjá einstakling sem líkist ákærða nota dælulyklana til kaupa á varningi. Þegar bornar eru saman þær myndir sem liggja fyrir í málinu af einstaklingi versla með lyklunum má ætla að í öllum þeim tilvikum sem greinir í 1. og 2. ákærulið sé um sama einstakling að ræða. Ákærði hefur ýmist sagt að hann sé ekki sá einstaklingur sem sést á upptökunum eða hann hefur neitað að tjá sig um það. Þegar þær myndir eru svo bornar saman við myndir sem liggja fyrir í málinu úr eftirlitskerfi í fangageymslu lögreglu sem sýna ákærða eftir að hann var handtekinn, daginn eftir ætluð brot, 26. apríl 2018, verður að ætla að um sama einstakling sé að ræða sé miðað við útlitseinkenni á andliti og líkamsvöxt almennt. Það má sjá að ákærði er í eins fötum, þ. á m. sams konar úlpu og sá sem sést á upptökum úr verslununum auk þess að vera í báðum tilvikum hettupeysu innan undir úlpu. Þá er til þess að líta að lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins og áður höfðu hitt ákærða þekktu hann strax við skoðun á upptökum, eins og fram kom í framburði vitnisins D lögreglumanns.

Þegar tímasetningar og staðsetningar atvika eru skoðaðar þá má einnig sjá ákveðið samhengi. Bifreiðinni […] var stolið 25. apríl 2018 klukkan 6.18 frá Almenna bílaverkstæðinu, Skeifunni 5. Ákærði var handtekinn daginn eftir, 26. apríl, klukkan 16.50 á bifreiðinni. Gögn málsins sýna að í millitíðinni voru lyklarnir notaðir í verslunum ýmissa bensínstöðva í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi, og í einhverjum tilvika má þar sjá bifreiðina á vettvangi.

Það er mat dómsins, eins og rakið hefur verið, að mikil líkindi séu með ákærða og þeim manni sem sést á upptökunum nota lyklana. Þegar einnig er litið til framangreindra atriða varðandi notkun bifreiðarinnar […] og fatnaðar ákærða við handtöku er mat dómsins að það sé hafið yfir allan vafa að um sama einstakling sé að ræða.

Þá er ákærði ákærður fyrir að hafa brotist inn í bifreiðina […] á bifreiðastæðinu við Laugardalshöll og bifreiðina […] við Smurstöðina Klöpp við Vegmúla 4 og stolið úr þeim dælulyklunum. Samkvæmt framangreindu telur dómurinn sannað að ákærði hafi notað þá lykla sem stolið var úr bifreiðunum á þann hátt sem greinir í ákæru. Ekki liggja fyrir frekari gögn til sönnunar um að það hafi verið ákærði sem braust inn í framangreindar bifreiðar og tók lyklana úr þeim. Gegn neitun ákærða verður sakfelling vegna innbrots ekki byggð á fyrirliggjandi gögnum. Með vísan til þess verður því ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í 1. og 2. ákærulið greinir. Verður ákærði því sýknaður af þeim brotum.

            Framangreindar upptökur sýna einstakling sem dómurinn telur að sé ákærði nota þá lykla sem stolið var. Þá staðfesta gögn notkun lykanna þeim tilvikum sem greinir í 1. og 2. ákærulið. Með vísan til þess og alls framangreinds telur dómurinn, þrátt fyrir neitun ákærða, nægilega sannað þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um að hafa brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga eins og greinir í 1. og 2. ákærulið. Eru þau brot ákærða því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

VI

Niðurstaða vegna ákæruliðar 5

Ákærði er í 5. ákærulið ákærður fyrir fjársvik 28. júní til 1. júlí 2018 í fimm tilvikum, merkt 2-6 í ákæru. Ákærði neitar sök. Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að það sé ákærði sem sjáist nota kortið á myndum úr eftirlitsmyndavél. Á upptökunum má sjá einstakling sem líkist ákærða nota kort til kaupa á varningi. Kortið er alltaf notað eins. Því er stungið nokkrum sinnum í posa en tekið jafnharðan út aftur. Síðan er greitt með því að strauja segulrönd kortsins og er ekki krafist leyninúmers. Þá staðfesta gögn notkun lykanna þeim tilvikum sem greinir í 5. ákærulið.

Þegar bornar eru saman þær myndir sem liggja fyrir í málinu af því þegar kortið er notað má ætla að í öllum tilvikum sé á ferðinni sami einstaklingur. Viðkomandi er í flestum tilvikum með hettu á höfði og horfir yfirleitt niður þannig að lítið sést í andlit hans. Þó má af því sem þó sést ráða að um sama mann sé að ræða og einnig af fatnaði. Á sumum myndunum má sjá að sá einstaklingur sem notar kortið er með hring á hægri hendi og en er eins klæddur. Þá má ætla að um sé að ræða sama einstakling og sjá má á upptökum vegna í 1. og 2. ákæruliðar. Þegar þær myndir eru svo bornar saman við myndir sem liggja fyrir úr eftirlitskerfi í fangageymslu lögreglu og sýna ákærða eftir að hann var handtekinn, daginn eftir ætluð brot samkvæmt 1. og 2. ákærulið, eða 26. apríl 2018, verður að ætla að um sama einstakling sé að ræða sé miðað þau útlitseinkenni sem sjást á andliti. Þá er til þess að líta að lögreglumaður, E, sem kom að rannsókn málsins, þekkti hann strax við skoðun á upptökum.

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn, þrátt fyrir neitun ákærða, nægilega sannað þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem greinir í 5. ákærulið og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

VII

Niðurstaða vegna ákæruliða 6-12

Í þessum ákæruliðum er ákærði ákærður fyrir að brjótast inn í sjö bifreiðar. Fyrir liggur upptaka úr eftirlitskerfi bifreiðageymslunnar við Vesturgötu sunnudaginn 11. nóvember sl. Þar má sjá mann með svartan bakpoka koma inn í húsið og ganga þar um, skoða bifreiðar, brjótast inn í sumar þeirra og fara á brott með muni úr þeim, m.a. stóra svarta hliðartösku og töskur sem miðað við lögun þeirra gætu verið notaðar fyrir gítara. Var það staðfest fyrir dómi af eigendum munanna að það gætu verið þeirra munir sem viðkomandi var með. Eins og að framan er rakið er farið inn í allar bifreiðarnar á sama eða sambærilegan hátt. Ákærði hefur neitað að tjá sig um það hvort hann sé sá maður sem þar sést.

Þegar skoðaðar eru þær myndir sem liggja fyrir í málinu má ætla að þar sé á ferðinni sami einstaklingur í öllum tilvikum og má sjá andlit hans á upptökunum. Ætla má, miðað við útlit viðkomandi, að þar sé um að ræða sama aðila og sést á upptökum sem liggja frammi vegna 1., 2. og 5. ákæruliðar. Þegar þær myndir eru svo bornar saman við myndir sem liggja fyrir í málunum úr eftirlitskerfi í fangageymslu lögreglu sem sýna ákærða eftir að hann var handtekinn áður, eða 26. apríl 2018, verður að ætla að um sama einstakling sé að ræða sé miðað þau útlitseinkenni sem sjást á andliti og líkamsstöðu. Ákærði var handtekinn í gistiskýlinu við Lindargötu 13. nóvember 2018, grunaður um að hafa brotist inn í bifreiðarnar. Hann var þá með svartan bakapoka og í honum var m.a. tölva. Einnig var hann þá með þrjár úlpur þar af eina frá 66 Norður, svipaða þeirri sem stolið var en nákvæmara tegundarheiti úlpunnar kemur ekki fram í málsgögnum og Cintamani-jakka. Ákærði neitaði því að um stona hluti væri að ræða. Þá er til þess að líta að lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins og áður höfðu hitt ákærða þekktu hann strax við skoðun á upptökum, eins og fram kom í framburði D lögreglumanns.

Úr fjórum bifreiðana var stolið munum en ekkert reyndist hafa verið tekið úr þremur þeirra. Samkvæmt málsgögnum báru eigendur bifreiðanna um það við lögreglu að ekki hefði verið verðmæti í þessum bifreiðum. Þegar framangreind atvik í bifreiðageymslunni umrætt sinn eru skoðuð heildstætt er ekki hægt að ætla annað en að tilgangurinn með því að brjóta rúður í bifreiðunum hafi verið að komast inn í þær til að kanna hvort þar leyndust verðmæti. Verður því fallist á það með ákæruvaldinu að ásetningur ákærða hafi, í þeim tilvikum sem greinir í 7., 10. og 12. ákærulið, staðið til auðgunar.

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn, þrátt fyrir neitun ákærða, nægilega sannað þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem greinir í 6. til 12. ákærulið og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

VIII

       Ákærði er fæddur í […]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði að baki nokkurn sakaferil. Var honum m.a. með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 19. október 2015, gert að sæta fangelsi í 60 daga fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, þ. á m. auðgunarbrot, og gegn lögum um meðferð ávana- og fíkniefna o.fl. Þá var ákærða með dómi sama dómstóls, uppkveðnum 28. október 2016, gert að sæta fangelsi í tíu mánuði fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um meðferð ávana- og fíkniefna og umferðarlögum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og aksturs án gildra ökuréttinda. Með dómnum var hann sviptur ökurétti í eitt ár frá 25. nóvember 2016 að telja. Þá var ákærði með dómi sama dómstóls, 19. maí 2017, dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og sviptur ökurétti í sex mánuði vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, aksturs sviptur ökurétti og brots gegn 148. gr. almennra hegningarlaga. Voru þau brot talin vera hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, vegna dómsins frá 28. október 2016.

       Við ákvörðun refsingar ákærða nú er litið til þess, honum til málsbóta, að hann játaði sök hvað varðar þau brot sem hann er ákærður fyrir í 3., 4., 14. og 15. ákærulið. Til refsiþyngingar er horft til þess að um töluverð verðmæti var að ræða og mikinn fjölda brota sem framin voru á skömmum tíma. Einnig er til þess að líta að ákærði er vanaafbrotamaður og ber við ákvörðun refsingar hans að horfa til 255. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt ákvæðinu má, hafi maður áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, þyngja refsingu um allt að helmingi af þeirri refsingu sem hann hefði annars hlotið, og hafi hann áður verið dæmdur oftar en einu sinni fyrir auðgunarbrot má refsing vera tvöfalt þyngri. Við beitingu 255. gr. almennra hegningarlaga skal þess gætt að fullnægt sé almennum ítrekunarskilyrðum 71. gr. laganna. Telst því skilyrði fullnægt í ljósi þess sem rakið hefur verið um sakaferil ákærða. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Vegna sakaferils ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 31. desember 2018. Þá er ákærði sviptur ökurétti í þrjú ár frá dómsuppsögu að telja.

      

IX

            Samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvaldsins hefur við rannsókn málsins fallið til sakarkostnaður að upphæð 275.249 krónur vegna 3. og 14. ákæruliðar. Ákærði krefst þess að sakarkostnaður vegna þessara ákæruliða verði lækkaður þar sem tekin hafi verið blóðsýni og rannsókn framkvæmd á þeim án þess að á niðurstöðu hennar væri byggt við meðferð málsins. Í báðum tilvikum er sakarkostnaður tilkominn annars vegar vegna töku blóðsýnis og hins vegar vegna matsgerðar rannsóknarstofu HÍ vegna rannsóknar á blóðsýni frá ákærða, þ. á m. hvort þar mældist alkóhól. Með vísan til málsatvika og 53. gr. og 233. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki fallist á athugasemdir ákærða og verður hann dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar í samræmi við yfirlit ákæruvaldsins. Þá er ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, eins og í dómsorði greinir, og hefur þá verið höfð hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins og tekið tillit til virðisaukaskatts, vinnu lögmannsins á rannsóknarstigi og útlagðs kostnaðar vegna aksturs að fjárhæð 12.540 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Guðmundur Þ. Steindórsson aðstoðarsaksóknari.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jóhann Geir Karlsson, sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 31. desember 2018.

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.387.789 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 1.112.540 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir