• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2018 í máli nr. S-42/2018:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kaleb Joshua Hermannssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 23. janúar 2018, á hendur Kaleb Joshua Hermannssyni, kt. 000000-0000, [--], Reykjavík fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa að morgni sunnudagsins 16. júlí 2017 ekið bifreiðinni [--] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,14 ‰) um Suðurlandsveg við Gunnarshólma uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

       Telst þetta varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

       Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

       Ákærði er fæddur í janúar 1973. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 19. janúar 2018, var honum gerð sektarrefsing með lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrota, meðal annars fyrir brot gegn 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 28. júní 2011 og aftur 25. september 2012.

       Með hliðsjón af framangreindu og dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru, einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssyni lögmanni, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 24.255 krónur í annan sakarkostnað.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Kaleb Joshua Hermannsson, sæti fangelsi í 30 daga.

       Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssyni lögmanni, 105.400 krónur og 24.255 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir