• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2018 í máli nr. S-505/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Davíð Þór Jónssyni

(Guðmundur Njáll Guðmundsson lögmaður)

 

          Mál þetta, sem dómtekið var 31. október sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 10. júlí 2018, á hendur Davíð Þór Jónssyni, [...], óstaðsettur í hús, 101 Reykjavík, fyrir eftirtalin brot, framin í Reykjavík á árinu 2017, sem hér segir:

1.            Þjófnað með því að hafa, laugardaginn 9. september, í auðgunarskyni farið í aðstöðu starfsmanna verslana við [...] og stolið úr yfirhöfn starfsmanns 5000 krónum, kortaveski, húslyklum og kveikjuláslyklum bifreiðar.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.            Fíkniefnalagabrot með því að hafa, föstudaginn 21. júní, haft í vörslum sínum 1 stk. LSD sem ákærði geymdi í buxnavasa og fannst við öryggisleit lögreglu og á sama tíma haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, samtals 72,8 grömm af amfetamíni, 2 stk. af ecstasy (MDMA) og 0,57 grömm af ecstasy (MDMA) sem lögregla fann við leit í munum sem ákærði hafði meðferðis við handtöku í umrætt sinn, í leigubifreið að Vínlandsleið. Nánar tiltekið fundust í kassa utan af farsíma 2 stk. af ecstasy (MDMA) og 19,91 grömm af amfetamíni og í bakpoka fundust 52,89 grömm af amfetamíni, og 0,57 grömm af ecstasy. Þá fannst í honum hnífur með 10 sm. blaði.

Telst þessi háttsemi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og 1. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að gerð verði upptæk framangreind fíkniefni, 1 stk. af LSD, 72,8 grömm af amfetamíni, 2 stk. af ecstasy og 0,57 grömm af ecstasy, auk farsímakassa sem inniheldur sýnapoka og sprautunálar (munur 45858), neftóbaksdósar sem inniheldur smelluláspoka (munur 45849), Proscale grammavogar (munur 44583) og stílabók (munur 44587), samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, testesteron stungulyfjaglas, samkvæmt heimild í    3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og hnífur með 10 sm. blaði, samkvæmt heimild í      1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og þóknunar samkvæmt framlagðri tímaskýrslu sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í september 1985. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 4. júlí 2018, á ákærði nokkurn sakaferil að baki, meðal annars vegna brots á lögum um ávana- og fíkniefni.

Með hliðsjón af framangreindu, umfangi þeirra ávana- og fíkniefna sem tilgreind eru í ákæru, sem og greiðri játningu ákærða, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 1 stk. af LSD, 72,8 grömm af amfetamíni, 2 stk. af ecstasy og 0,57 grömm af ecstasy, farsímakassi sem inniheldur sýnapoka og sprautunálar og neftóbaksdós sem inniheldur smelluláspoka, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Þá eru einnig gerð upptæk Proscale grammavog, stílabók, testesteron stungulyfjaglas og hnífur með 10 sm. blaði, sem lögregla lagði jafnframt hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Njáls Guðmundssonar lögmanns 201.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Davíð Þór Jónsson, sæti fangelsi í 90 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1 stk. af LSD, 72,8 grömm af amfetamíni, 2 stk. af ecstasy, 0,57 grömm af ecstasy, farsímakassi sem inniheldur sýnapoka og sprautunálar og neftóbaksdós sem inniheldur smelluláspoka, Proscale grammavog, stílabók, testesteron stungulyfjaglas og hnífur með 10 sm. blaði.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Njáls Guðmundssonar, 201.500 krónur.

 

                                                               Þórhildur Líndal