• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Sakhæfi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 15. mars 2019 í máli nr. S-7/2019:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Einar Oddur Sigurðsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta sem dómtekið var 19. febrúar sl. var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara þann 10. janúar 2019 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 4. júní 2018, á göngustíg sem liggur frá Engjavegi að Suðurlandsbraut í Reykjavík, ráðist á A, kt. [...], og margsinnis slegið hann með krepptum hnefa, sparkað í hann og barið hann með reiðhjóli, en atlaga ákærða beindist aðallega að höfði A, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á augntóttargólfi vinstra megin, nefbeinsbrotnaði, hlaut 2 cm skurð til hliðar við vinstra auga, 4 cm skurð vinstra megin á hvirfli og 3 cm skurð hægra megin á hvirfli, marga yfirborðsáverka á höfði og mar á brjóstkassa.

            Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar en til vara er þess krafist að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun eða vægari öryggisráðstöfunum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

 

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði greiði honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 5.147.952 kr. með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. júní 2018, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan var birt ákærða til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærði greiði honum málskostnað að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24% virðisaukaskatti, fyrir að halda fram bótakröfu sinni í málinu.“

 

            Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara að ákærða verði ekki gerð refsing, auk hæfilegrar þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði. Þá krefst hann lækkunar bótakröfu.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2018 var ákærða gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Hann var þar fundinn sekur um fjölmörg brot sem framin voru á árunum 2016 til 2018. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu dómsins og verður ákærða því dæmdur hegningarauki í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði gekkst undir geðrannsókn B, geðlæknis og dómkvadds matsmanns. Í niðurstöðu hans, frá 30. júlí 2018, kom fram að ákærði hefði búið við erfiðar aðstæður undanfarin ár og ástand hans hefði farið verulega versnandi sl. ár. Taldi matsmaðurinn að hann ætti að líkindum við geðrofssjúkdóm að etja. Ljóst sé að ástand hans hafi verið slíkt, a.m.k. í hluta þeirra tilvika sem um ræði, að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við um hann. Svo sé að minnsta kosti þegar hann ráðist að fólki án nokkurs tilefnis. Hann upplifi þá skilaboð til sín sem aðrir verði ekki varir. Í matsgerðinni er atvik þessa máls til umfjöllunar. Kemur þar fram að ákærði kannast ekkert við málið. Hann virðist hafa verið í mjög annarlegu ástandi og hafa ráðist á brotaþola án nokkurs tilefnis en hafa talið brotaþola ávarpa sig og hlæja að sér. Læknirinn taldi víst að refsing myndi ekki bera árangur og taldi þörf á að vista ákærða á öryggisgeðdeild, en það væri víst að hann væri hættulegur öðrum gengi hann frjáls.

            Það er álit dómsins að ákærði hafi, á þeim tíma sem um ræðir í þessu máli, verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Ákæruvaldið krefst þess til vara að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun eða vægari öryggisráðstöfunum samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði má, ef 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eiga við um hagi ákærða, ákveða í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því að háski verði af manninum. Ef ætla má að vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, komi ekki að notum má ákveða að honum sé komið fyrir á viðeigandi hæli.

            Það var niðurstaða dómkvadds matsmanns að ákærði geti verið hættulegur öðrum eins og staða hans er nú og nauðsynlegt sé að hann sæti meðferð við veikindum sínum og áframhaldandi eftirliti. Ákærði hefur sætt öryggisgæslu frá 11. september sl. Sækjandi og verjandi ákærða greindu frá því að staða hans væri óbreytt frá þeim tíma. Þykir því nauðsynlegt, vegna réttaröryggis, að ákærði sæti áfram öryggisgæslu á viðeigandi stofnun og gangist undir viðeigandi meðferð vegna veikinda sinna. Meðferðin verður áfram undir eftirliti yfirlæknis öryggis- og réttargeðdeildar og er ákærða skylt að hlíta viðeigandi meðferð, hvort sem hún er í formi viðtala eða lyfjagjafar, þ.m.t. í sprautuformi, allt eftir nánari ákvörðun yfirlæknis hverju sinni.

            Af hálfu brotaþolans A er krafist skaðabóta að fjárhæð 4.582.962 krónur en krafan var lækkuð við fyrirtöku málsins. Krafan sundurliðast þannig að 45.962 krónur eru sjúkrakostnaður, 37.000 krónur vegna tjóns á fatnaði og 4.500.000 krónur vegna miska. Brotaþoli hefur lagt fram gögn vegna útlagðs sjúkrakostnaðar og verður krafa um hann tekin til greina. Krafa um greiðslu vegna tjóns á fatnaði er byggð á áætlun tjónþola en engin gögn liggja að baki kröfunni. Er því ekki hægt að taka hana til greina gegn mótmælum ákærða. Árás ákærða var tilefnislaus og gróf og beindist einkum að höfði brotaþola. Afleiðingarnar voru alvarlegar en hann hlaut brot og skurði í andliti auk margra yfirborðsáverka. Brotaþoli á rétt til miskabóta með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 900.000 krónur. Ber krafan vexti eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað eins og í dómsorði greinir.

            Í samræmi við 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Einars Odds Sigurðssonar lögmanns, 694.197 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, er sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins.

            Ákærði sæti áfram öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

            Ákærði greiði A 945.962 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2018 til 19. mars 2019, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, auk 300.000 króna í málskostnað.

            Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Einars Odds Sigurðssonar lögmanns, 694.197 krónur.