• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2019 í máli nr. S-30/2019:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Magdalenu Söndru D. Hilmisdóttur

(Björgvin H. Björnsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 17. janúar 2019 á hendur ákærðu; „Magdalenu Söndru D. Hilmisdóttur, kennitala 000000-0000, [--], [--], fyrir valdstjórnarbrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 23. júlí 2018, utandyra við [--]í Kópavogi, veist að lögregluþjóninum [A] með ofbeldi og slegið hana í vinstri upphandlegg, sparkað með hægra fæti í vinstri fót hennar og slegið hana hægra megin í höfuð með þeim afleiðingum að [A] hlaut af tvo marbletti aftan á vinstri upphandlegg neðan til, marblett að innanverðu við vinstra hné, marblett innanvert við vinstri hnéskel og eymsli og bólgur á hægra eyrnasnepli og ytri eyrnaboga.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Ákærða krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærðu kröfu um hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins er greiðist úr ríkissjóði og krefst þess sérstaklega að jafnvel þó ákærða verði sakfelld verði stór hluti sakarkostnaðar felldur á ríkissjóð í ljósi aðdraganda atviksins.

 

II

Málsatvik

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði lögregla afskipti af ákærðu aðfaranótt mánudagsins 23. júlí 2018. Lögreglumenn veittu bifreiðinni [--] athygli þar sem henni var ekið vestur Nýbýlaveg. Í skýrslunni kemur fram að þeir hafi séð að [B] var farþegi í bifreiðinni og að þegar bifreiðinni var flett upp hafi komið í ljós að hún var skráð stolin. Afskipti hafi verið höfð af ökumanni til að kanna ástand hans og réttindi og hvort bifreiðin væri stolin. Ákærða hafi reynst vera ökumaður bifreiðarinnar, framangreindur [B] hafi reynst vera í annarlegu ástandi í farþegasæti og [C] hafi staðið við hægri hlið bifreiðarinnar þegar lögreglu bar að. Ákærða hafi verið ósátt við afskipti lögreglu og sagt að bifreiðin væri ekki stolin. Lögreglumaður, D, hafi veitt athygli stóru sverði í slíðri í aftursæti bifreiðarinnar og opnað afturhurð bifreiðarinnar vinstra megin og fjarlægt sverðið. Við það hafi ákærða tryllst, teygt sig aftur í og gripið um hönd lögreglumannsins og klórað og tosað í hana.

Ákærða og [B] hafi síðan bæði stigið út úr bifreiðinni og hafi þau verið æst og hafi þá verið óskað eftir frekari lögregluaðstoð. Ákærða hafi verið ógnandi og dónaleg í garð lögreglumanna. Hún hafi staðið alveg ofan í lögreglumanninum [D] og öskrað á hann. Hann hafi þá ýtt ákærðu frá sér og hún þá slegið í hönd lögreglumannsins en hann hafi margoft verið búinn að segja ákærðu að halda sig fjær sér. Lögreglumaðurinn hafi þá dregið upp úðavopn og ógnað ákærðu með því og gefið henni skipun um að koma ekki nær og draga sig til hlés. Tveir lögreglumenn til viðbótar hafi þá verið komnir á vettvang, hafi annar þeirra á sama tíma reynt að róa [B] niður. Hann hafi reynt að losa sig frá lögreglumönnunum til að aðstoða ákærðu, sem hafi hlaupið í átt að [B] og lögreglumönnunum. Ákærða hafi aftur ýtt við sama lögreglumanni og hafi henni þá verið gefin skipun um að koma ekki nær. Hún hafi þá farið í átt að [B] og lögreglumönnunum sem voru að ræða við hann. Gaf lögreglumaður henni þá skipun um að koma ekki nær og ógnaði henni með úðavopni. Henni hafi síðan verið tilkynnt að hún væri handtekin en hún hafi engum skipunum fylgt þegar setja átti hana í handjárn og baðað út höndum þegar reynt var að taka hana í tök. Sprautaði þá [A] lögreglukona á ákærðu með piparúða og réðst ákærða þá á hana og kýldi hana í höfuðið og sparkaði í hana, en var í kjölfar þess yfirbugðuð af lögreglu. Eftir atvikin reyndist lögreglukonan vera með roða hægra megin í andliti eftir höggið og klórfar var á vinstri hendi lögreglumannsins.

Fyrir liggur skýrsla ákærðu hjá lögreglu. Þar neitar hún því að hafa veist að lögreglukonunni eins og lýst er í ákæru. Hún kveðst hafa verið reið þar sem bifreið hennar hefði verið lýst stolin hjá lögreglu þrátt fyrir að hún hefði fundist og lögregla afhent henni hana. Hafi hún þegar atvik gerðust ítrekað verið búin að benda lögreglu á þetta. Þá kvaðst hún telja að hefði hún veist að lögreglumönnum og valdið þeim áverkum hefði það verið eftir að hún var „meisuð“.

Meðal málsgagna eru eigin skýrslur lögreglumanna um atvikið. Í skýrslu lögreglukonunnar [A] lýsir hún því að ákærða hafi í umrætt sinn verið í miklu uppnámi, hafi öskrað á lögreglumenn og ekki hlýtt skipunum. Þegar lögreglumenn hafi verið að setja [B] í handjárn hafi ákærða hlaupið þar að en svo snúið sér að vitninu og [D] lögreglumanni, ógnandi, og sagt að hún ætlaði ekki að hlýða skipunum lögreglu frekar og farið í átt að bifreið sinni eins og hún ætlaði að fara á brott. Var henni þá tilkynnt að hún væri handtekinn og hafi vitnið og framangreindur lögreglumaður tekið hvort í sinn handlegg hennar. Hún hafi þá snúið sér við og slegið til þeirra og hafi vitnið þá sprautað piparúða sem hafnaði í andliti ákærðu. Hún hafi þá tekið fyrir andlitið og gengið snarlega til vitnisins og slegið hana í vinstri upphandlegg, sparkað með hægri fæti í vinstri fót vitnisins og slegið hana í hægra eyra þannig að roði hlaust af. Hafi ákærða þá verið færð í lögreglutök, yfirbuguð og sett í handjárn.

Þá liggur fyrir vottorð [H] læknis, dagsett 26. september 2018. Þar kemur fram að lögreglukonan hafi komið á læknavaktina klukkan 20:44 24. júlí 2018. Í vottorðinu segir:

[A] er lögreglukona sem var að fara að handtaka einstakling aðfaranótt 24.7 um tvöleitið. Hann hleypur þá að [A] og slær nokkur högg með krepptum hnefa á vi upphandlegg hennar og sparkar einnig í vi fótlegg. Slær hana loks á hæ eyra.

Skoðun sýnir tvo blárauða, þumalfingursblóma stóra marbletti aftan á vi upphandlegg neðan til. Aum þar og bólgin[] í kring.

Annar svipaður inna[n]verðu vi hné og annar minni innanverðri vi hnéskel. Aum en eðl hreyfigeta hné án teljandi verkja.

Hæ eyrnasnepill og ytri eyrnabogi[] er eldrauður, bólginn og aumur.

Skoðun sýnir marbletti og bólgu og eymsli vi upphandlegg og vi hné og bólgu hæ eyra sem vel geta samræmst þeim áverkum sem hún lýsir.

Þá liggur fyrir vottorð [G] sálfræðings, dagsett 9. apríl sl. Þar kemur fram að ákærða hafi greinst með áfallastreituröskun vegna kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir þegar hún var 19 ára gömul. Einnig lýsir hann því að í samtölum við ákærðu eftir handtöku hennar aðfaranótt 23. júlí 2018 hafi hún lýst því að hún hefði komist í mikið uppnám í umrætt sinn þegar lögreglumaður hefði ýtt á brjóstkassa hennar. Það hafi minnt hana á kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir. Þetta hafi valdið henni hræðslu og hafi henni fundist hún endurupplifa kynferðisofbeldið. Þá hafi hún greint frá glöppum í minni sínu um það sem gerðist í kjölfar handtökunnar og að hún hafi þá einnig upplifað einkenni áfallastreituröskunar.

 

III

Framburður ákærðu og vitna

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærða sagði að bifreið hennar hefði skömmu áður verið stolið og hún tilkynnt það til lögreglu. Bifreiðin hafi svo verið afhent henni þegar hún fannst. Eftir það hafi hún ítrekað verið stöðvuð af lögreglu sem virtist enn hafa verið með bifreiðina skráða sem stolna. Umrætt sinn hafi lögreglumaður rætt við hana vegna þessa. Annar lögreglumaður hafi farið í óleyfi í aftursæti bifreiðarinnar og tekið þaðan sverð og neitað að skila því. Þetta hafi valdið því að hún varð mjög reið og hafi farið út úr bifreiðinni. Kveðst hún viðurkenna að hún hefði mátt dempa sig niður. Lögreglumaður hafi ýtt á bringu hennar og hafi þá allt orðið mjög þungt fyrir hana, hún hafi orðið dofin og fundist allt vera meira ofan í henni en það var. Farþeginn í bifreiðinni, [B], hafi verið handtekinn fyrir framan hana og þá hafi lögreglumennirnir verið öskrandi á hana og hafi haldið á úðabrúsa. Hún hafi viljað komast aftur inn í bifreiðina og slaka á og hringja í móður sína eða lögmann [B] en lögreglan hafi neitað henni um að koma nálægt bifreiðinni. Ítrekað hafi verið ýtt á bringu hennar og hún þá fundið fyrir þrýstingi þar. Hún hafi séð lögreglumann og konu fyrir framan sig og þá hafi verið sprautað á hana, sem hafi verið mjög sárt. Hún hafi fundið mikið til alls staðar. Hún hafi verið standandi þegar sprautað var á hana og síðan legið á götunni grátandi og fundið að hún var sett í handjárn fyrir aftan bak og hafi ekkert séð. Kvaðst hún ekkert kannast við þau atvik sem lýst er í ákæru. Eftir þessi átök hafi hún verið með rifna nögl, hafi ekki getað gengið vegna verkja vinstra megin og verið með marblett á höfði. Þá hafi hún ekki munað allt sem gerðist. Ákærðu var sýnt framlagt myndband úr Eyewitness-búnaði lögreglubifreiðar sem sýnir hluta atvika. Hún kvaðst ekki muna eftir fyrirmælum lögreglu áður en ýtt var á bringu hennar og að ítrekað hefði verið hótað að sprauta á hana piparúða.

Vitnið [A] lögreglumaður kvaðst hafa verið í áhöfn lögreglubifreiðar sem kom til aðstoðar og hafi allt verið „komið í háaloft“ þegar þau komu. Ákærða hafi verið æst og ekkert róast þó að rætt væri við hana og hafi hún síðan ætlað að fara inn í bifreið sína. Hún og annar lögreglumaður hafi þá tekið hvort í sína hönd ákærðu til að hindra það en hún hafi þá slegið frá sér. Vitnið hafi þá losað tak sitt og stigið til hliðar og sprautað piparúða á ákærðu. Áður hefðu þau hótað því að nota piparúða og beðið hana að róa sig niður og vera kyrr. Við það að fá á sig úðann hafi ákærða orðið enn reiðari, fyrst gripið fyrir andlit sér og síðan stappað niður fæti og loks ráðist á vitnið og slegið í upphandlegg, sparkað í fót og slegið vitnið í höfuðið. Taldi vitnið að það hefði verið ásetningur ákærðu að ráðast á hana en hún hefði hlaupið í átt að vitninu eftir að hún notaði úðan n. Annar lögreglumaður hefði einnig staðið nálægt henni.

Vitnið [D] lögreglumaður sagði lögreglu hafa haft afskipti af ákærðu þar sem bifreiðin sem hún ók hefði verið tilkynnt stolin hjá lögreglu. Ákærða hefði setið í ökumannssæti þegar þeir komu að og karlmaður verið farþegi í framsæti. Þá hefði vitnið [C] verið fyrir utan bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa litið inn í bifreiðina og séð sverð í gólfi við aftursæti og farið inn í bifreiðina og tekið sverðið. Hann hafi talið að um ólöglegt vopn væri að ræða sem þyrfti að leggja hald á. Ákærða hafi þá orðið mjög æst og tekið í hönd hans þar sem hann hélt á sverðinu og farið út úr bifreiðinni, verið ógnandi og komið að honum. Hann hafi reynt að útskýra aðstæður fyrir ákærðu en hún hafi orðið hömlulaus og hann hafi svo ógnað henni með piparúða þegar hann hélt að hún ætlaði í hann. Hann hafi þá verið með vopnið í annarri hendi fyrir aftan bak og piparúðann í hinni, en náð að losa sig við vopnið eftir að þeim barst aðstoð. Ákærða hafi ítrekað komið nálægt honum, ógnað honum og sagt meiningu sína og hafi hann þurft að ýta henni frá sér. Fannst honum að reiði hennar hefði stigmagnast í gegnum atvikin. Ákærða hafi síðan reynt að komast inn í bifreiðina og þá hafi hann reynt að handtaka hana og hafi hún þá orðið mjög æst. Þá hafi lögreglukonan sprautað piparúða á ákærðu og virtist hún finna fyrir honum. Ákærða hafi verið eins og naut í flagi, og hafi hann séð að hún æddi að lögreglukonunni og hitti hana í vinstri hönd og vinstri fót og í andlit vinstra megin. Í kjölfarið hafi þeim tekist að snúa ákærðu niður og færa hana í handjárn.

Vitnið [E] lögreglumaður kvaðst hafa skráð frumskýrslu málsins. Áður en þeir höfðu afskipti af ákærðu hefði hann verið búinn að fá staðfest að bifreiðin væri skráð stolin hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa séð vopn í bifreiðinni og hafa ætlað að tryggja öryggi þeirra þar sem æsingur hefði verið á vettvangi. Ökumaður hafi óhlýðnast fyrirmælum þeirra og ætlunin hafi verið að handtaka hann en þau hafi orðið að nota piparúða. Hann hafi heyrt þegar piparúðanum var beitt og þá farið að fylgjast með atvikum. Í kjölfar þess hafi ákærða kýlt og sparkað í lögreglukonuna en hann kvaðst ekki geta sagt um það hvort þetta hefði verið ásetningur hennar eða ekki.

Vitnið [F] lögreglumaður kvaðst hafa verið að færa farþega bifreiðarinnar í handjárn þegar hann hefði heyrt mikil læti og litið til hliðar. Þá hafi hann séð að piparúða hafði verið sprautað á ákærðu og að í kjölfar þess hefði hún veist að lögreglukonunni og slegið og sparkaði í hana en hann vissi ekki hve oft. Hann hafi verið hinum megin við bifreiðina og ekki séð aðdraganda atvikanna. Hann hafi séð að högg ákærðu lentu á efri hluta líkama lögreglukonunnar en ekki nákvæmlega hvar þau lentu. Aðspurður kvaðst hann telja að þetta hefði verið ásetningsverk hjá ákærðu.

Vitnið [C] kvaðst hafa verið á vettvangi umrætt sinn en hann hefði verið í mikilli neyslu fíkniefna á þessum tíma og myndi ekki vel það sem gerðist. Hann sagði lögreglumann hafa leitað í bifreiðinni án heimildar og tekið þaðan einhvers konar listmun. Ákærða hafi þá farið út úr bifreiðinni og þá hafi lögreglumennirnir sprautað á hana piparúða og hún farið í jörðina og brugðist harkalega við með öskrum og látum. Kvaðst hann telja að málið hefði allt byggst á misskilningi og að lögreglumennirnir hefðu tekið harkalega á aðstæðum. Hann kvaðst ekki hafa séð að ákærða hefði verið að ráðast á lögreglumenn þar sem hún lá á jörðinni heldur hefði hún verið að baða út höndunum.

Vitnið [H] læknir staðfesti vottorð sitt og lýsti því að þeir áverkar sem hann sá á brotaþola hefðu verið í samræmi við það sem þar er lýst. Þá sagði hann áverkana samrýmast því að hún hefði orðið fyrir árás eins og hún lýsti.

Vitnið [G] sálfræðingur staðfesti vottorð sitt. Hann sagði að þegar atvik gerðust hefði ákærða verið byrjuð í greiningarferli vegna áfallastreituröskunar af völdum kynferðisbrots sem hún varð fyrir þegar hún var um 19 ára gömul. Þeirri meðferð hafi hún hætt vegna þessa máls. Þá lýsti vitnið því að þegar hendi hefði verið ýtt í ákærðu hefði það getað virkað á hana sem áminning og vakið upp líkamleg og tilfinningaleg viðbrögð tengd kynferðisbrotinu. Slík viðbrögð geti komið strax fram. Þá sagði hann þekkt að uppnám gæti valdið minnisleysi.

 

IV

Niðurstaða

Ákærða er ákærð fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa veist að lögreglukonu, [A], sem hafði afskipti af ákærðu vegna starfa sinna, og slegið hana í vinstri upphandlegg, sparkað með hægri fæti í vinstri fót hennar og slegið hana hægra megin í höfuðið. Ákærða neitar sök og kveðst ekki kannast við að hafa beitt lögreglukonuna ofbeldi eins og lýst er í ákæru. Hún lýsti því bæði í skýrslu sinni hjá lögreglu og fyrir dómi að hún hefði orðið æst, m.a. vegna þess að lögregla hefði áður verið ítrekað búin að stöðva bifreið hennar sem hefði verið skráð stolin hjá lögreglu þrátt fyrir að svo væri ekki. Ákærða byggir á því að ástand hennar megi rekja til þess að hún hafi verið orðin þreytt á sífelldum óþarfa afskiptum lögreglu sem stöfuðu af vanrækslu á því að breyta skráningunni. Hún bar því við að eftir að sprautað var á hana með piparúða hefði hún fallið niður og þá slegið tilviljunarkennt frá sér.

Ákærða byggir einnig á því að áður en atvik gerðust hafi lögreglumaður farið með ólögmætum hætti inn í bifreið hennar og án heimildar tekið sverð úr bifreiðinni. Það hafi verið upphafið að því að hún varð mjög reið. Sami lögreglumaður hafi einnig lagt hendur á hana með því að ýta henni fast frá sér. Þá hafi lögreglukonan rifið í ákærðu þegar hún ætlaði að fara inn í bifreið sína, sem hún telur að sér hafi verið heimilt, og síðan sprautað piparúða á hana. Loks ber hún því við að áfallastreituröskun sem hún glími við vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir þegar hún var 19 ára hafi haft áhrif á viðbrögð hennar þegar lögreglumaðurinn ýtti henni frá sér. Fyrir liggur vottorð og framburður [G] sálfræðings þar sem hann staðfestir að ákærða hafi greinst með áfallastreituröskun.

Óumdeilt er að lögregla hafði ítrekað stöðvað bifreið ákærðu skömmu áður en atvik gerðust. Fyrir liggur að bifreiðinni var stolið og þjófnaðurinn kærður til lögreglu en bifreiðin fannst og var skilað til ákærðu. Þrátt fyrir það var bifreiðin enn skráð stolin í kerfum lögreglu.

Fyrir liggur myndbandsupptaka úr Eyewitness-búnaði í lögreglubifreið þar sem afskipti lögreglu af ákærðu sjást. Hluti atburðarásarinnar er þó utan þess svæðis sem er í mynd, þ. á m. að einhverju leyti þau atvik sem ákært er fyrir. Af myndbandinu má m.a. sjá að tveir lögreglumenn koma á vettvang. Annar þeirrar stendur við bifreiðina og virðist vera að ræða við ökumann hennar, ákærðu, sem þá situr í ökumannssæti bifreiðarinnar. Hinn lögreglumaðurinn sést beina vasaljósi inn um glugga bifreiðarinnar og síðan teygja sig inn í bifreiðina um afturhurð og taka þaðan hlut sem lítur út fyrir að vera einhvers konar sverð. Þá má sjá að ákærða fer út úr bifreiðinni þegar hún verður vör við að lögreglumaðurinn fór inn í bifreiðina og hún virðist vera æst við lögreglumenn ef marka má hreyfingar hennar. Þá má sjá að fleiri lögreglumenn koma á vettvang og að ákærða virðist verða æstari og er hún ítrekað ógnandi við lögreglumennina, sem hörfa undan henni og ógna henni með piparúða og ýta á bringu hennar. Þá virðist sem ákærða ætli inn í bifreið sína en lögreglumennirnir reyna að stöðva hana og slær hún þá frá sér í lögreglumann. Í framhaldi af því sprautar lögreglukonan piparúða á ákærðu og virðist eitthvað af úðanum lenda á andliti ákærðu. Þá stansar ákærða örstutta stund en snýr sér síðan beint að lögreglukonunni, sem þá er stödd á sama stað og þegar hún sprautaði piparúða á ákærðu, og rýkur í áttina að henni. Af tilburðum ákærðu, miðað við hreyfingar hennar, mætti ætla að hún væri að veitast að lögreglukonunni. Hvað þá gerist sést hins vegar ekki þar sem ákærða og lögreglumennirnir tveir eru komnir út úr mynd. Nokkrum sekúndum seinna koma þau aftur í mynd, og er ákærða þá í átökum við lögreglukonuna og annan lögreglumann, virðast þau vera að reyna að yfirbuga hana og er ákærða þá komin niður í jörðina.

Framburður ákærðu samrýmist ekki að öllu leyti því sem fram kemur á myndbandinu. Framburð hennar er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að lögreglumenn hafi komið að henni og fært hana í handjárn í kjölfar þess að piparúða var sprautað á hana. Hún lýsir því að eftir að hún var færð í jörðina hafi einhver átök átt sér stað milli hennar og lögreglumannanna. Ekki kemur fram í framburði hennar, eins og sést á myndbandinu, að hún hafi farið beint að lögreglukonunni og veist að henni. Virðist því sem hluta atburðarásarinnar vanti inn í lýsingu hennar.

Á framangreindu myndbandi má sjá þegar lögreglumaður, [D], ýtir tvisvar sinnum á bringu ákærðu. Hann bar í framburði sínu fyrir dómi að þetta hefði hann gert til að fá fjarlægð milli sín og ákærðu, sem á þessum tíma hafi verið ógnandi. Er þessi framburður í samræmi við það sem sjá má á myndbandinu. Þá má þar einnig sjá, í báðum tilvikum, að hegðun ákærðu virðist ekki breytast þegar ýtt er við henni heldur sækir hún að lögreglumanninum á sama hátt og áður.

Af myndbandinu og framburði ákærðu og vitna er ljóst að ákærða var mjög æst þegar atvik gerðust og virtist sem hún hefði rokið upp þegar lögreglumaðurinn, [D], tók sverðið úr bifreiðinni. Í framburði lögreglumannsins kom fram að hann hefði fjarlægt vopnið til að tryggja öryggi lögreglumannanna auk þess sem hann hefði haft grun um vopnalagabrot. Engu að síður liggur fyrir að ákærðu bar að sinna fyrirmælum lögreglu, sem samkvæmt framburði lögreglumanna og því sem sjá má af framkomu lögreglumanna á myndbandinu, beindu tilmælum til ákærðu um að róa sig og ógnuðu henni með piparúða. Þessu sinnti ákærða ekki.

Sú atburðarás sem sést á myndbandinu er í samræmi við framburð lögreglumannanna [A], [E], [E] og [F], sem rakinn er hér að framan. Þá er framburður þeirra að öðru leyti um atburðarásina í samræmi við það sem sést á myndbandinu. Þó er ljóst að þeir fjórir lögreglumenn sem báru um atvik fyrir dómi sáu mismikið af atburðarásinni og höfðu ekki allan tímann beina sýn á atvik. Hvað sem því líður verður ekki af aðstæðum og myndbandinu ráðið að útilokað sé að þeir hafi séð þau atvik sem þeir lýsa í skýrslum sínum. Þá er framburður þeirra í samræmi við eigin skýrslur þeirra hjá lögreglu. Loks fær framburður [A] jafnframt stuðning í vottorði [H] læknis, sem skoðaði hana eftir atvikið og taldi þá áverka sem þá reyndust vera á henni samrýmast lýsingu hennar á atvikum og er það jafnframt í samræmi við þá verknaðarlýsingu sem í ákæru greinir.

Framkoma ákærðu verður ekki réttlætt með því að lögregla hafi vanrækt að breyta skráningu bifreiðarinnar í kerfum sínum þannig að hún væri ekki skráð stolin. Né heldur verða, með hliðsjón af atvikum, ítrekuð afskipti lögreglu af ákærðu fyrir atvikið eða taka lögreglumanns á vopninu úr bifreiðinni, talin réttlæta hana, án þess að tekin sé afstaða til þess atviks að öðru leyti. Ákærða ber því við að reiði hennar megi einnig rekja til viðbragða við því þegar lögreglumaðurinn ýtti á bringu hennar, en það hafi valdið því að einkenni áfallastreituröskunar vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir þegar hún var 19 ára komu fram. Samkvæmt framangreindu myndbandi ýtti lögreglumaður ítrekað á bringu ákærðu og lýsti hann því fyrir dómi að hún hefði verið ógnandi og verið komin of nálægt honum. Einnig sést þar að hegðun ákærðu var orðin ágeng áður en þetta gerðist og fæst ekki séð að hún hafi tekið sérstökum breytingum þegar lögreglumaðurinn ýtti ákærðu frá sér, heldur leitaði ákærða aftur í sömu aðstæður og fékk sömu viðbrögð frá lögreglumanninum. Þó dómurinn dragi ekki í efa framangreinda greiningu ákærðu eða að líðan hennar þegar atvik gerðust hafi að einhverju leyti markast af henni verður ekki á það fallist að sýnt hafi verið fram á að hún hafi í umrætt sinn ekki verið sjálfráð gerða sinna eða að henni, vegna annarra atvika, á grundvelli líðanar sinnar, verði ekki gerð refsiábyrgð vegna háttsemi sinnar.

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn nægilega sannað þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi gerst sek um það brot sem lýst er í ákæru og er það þar rétt heimfært til refsiákvæða.

            Ákærða er fædd í [--]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hún ekki verið dæmd til refsingar. Við ákvörðun refsingar á kærðu verður litið til þess, henni til málsbóta, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, að hún var í miklu uppnámi vegna atburða sem áður höfðu gerst. Þá er litið til þess að samkvæmt niðurlagi 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 varðar það þyngri refsingu, þ.e. fangelsi allt að átta árum, ef brot samkvæmt ákvæðinu beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærða greiða allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt því greiði ákærða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins H. Björnssonar lögmanns, 800.000 krónur, 16.000 krónur í annan sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvaldsins vegna áverkavottorðs, og útlagðan kostnað lögmanns, 36.000 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna er litið til eðlis og umfangs málsins og höfð hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins og tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, Magdalena Sandra D. Hilmisdóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði allan sakarkostnað málsins, 852.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins H. Björnssonar lögmanns, 800.000 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir