• Lykilorð:
  • Lánssamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember í máli nr. E-1402/2018:

Landsbankinn hf.

(Arndís Sveinbjörnsdóttir lögmaður)

gegn

V3RK ehf.

(Lárus Sigurður Lárusson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 30. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík á hendur V3RK ehf., [...], Reykjavík, með stefnu birtri 27. mars 2018.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 9.193.892 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 26.049 kr. frá 5.9.2017 til 5.10.2017, af 98.630 kr. frá  5.10.2017 til  5.11.2017, af 170.127 kr. frá 5.11.2017 til 5.12.2017, af 241.355 kr. frá 5.12.2017 til 20.1.2018 og af 9.193.892 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

 

I

Hinn 15. maí 2012 gerðu stefnandi og Kuggur ehf. með sér samning um lán til 25 ára að fjárhæð 9.441.625 kr. og skyldi það greiðast með þrjúhundruð jöfnum greiðslum afborgana og vaxta (annuiet) á eins mánaðar fresti. Samkvæmt grein 2.1 skyldu hinn 10. maí 2012 vextir frá 18. október 2011 til 10. maí 2012 leggjast við höfuðstól og mynda þar með nýjan höfuðstól lánsins. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 5. júní 2012.

Samkvæmt gr. 3.1 lofaði stefndi að greiða stefnanda vexti, sem skyldu vera kjörvextir bankans samkvæmt kjörvaxtaflokki 1, eins og þeir yrðu ákveðnir á hverjum tíma af bankanum.

Í gr. 5.1 er kveðið á um að ef stefndi stæði ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga bæri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Kæmi til vanefnda stefnda samkvæmt samningnum þá skuldbatt stefndi sig, sbr. gr. 5.2, að greiða allan kostnað sem stefnandi legði út í vegna vanefndanna, málssókn eða önnur réttargjöld, lögmannsþóknun eða annað sem bankanum bar að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu lánsins.

Samkvæmt gr. 6.1 var það skilyrði fyrir útborgun lánsins að stefndi afhenti m.a. skriflega beiðni um útborgun samanber viðauka 1 með samningnum. Samkvæmt útborgunarbeiðni Kuggs ehf., dagsettri 15. maí 2012, var óskað eftir því að lánið yrði greitt út. Skyldi lánið greiðast inn á lán í nafni lántaka: [...] og skyldi greiðslan miðast við 18. október 2011. Í kjölfarið voru greiddar 9.300.001 kr. í samræmi við viðauka 1 og ákvæði samningsins.

Í 8. gr. lánssamningsins er að finna uppsagnarákvæði samningsins. Þar er gjaldfellingarákvæði sem heimilar stefnanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að fella lán skv. samningnum í gjalddaga einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Þessi heimild er m.a. til staðar ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta hafa varað í 14 daga eða lengur, sbr. a-lið gr. 8.1 í samningnum. Í öllum tilvikum gjaldfellingar samkvæmt gr. 8.1 bæru allar skuldir dráttarvexti í samræmi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, sbr. gr. 8.2 í samningnum.

 

II

Krafa stefnanda byggist á því að samninga skuli efna. Um samninginn gilda íslensk lög og skal mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. gr. 16  í samningnum.

Stefnandi byggir á því að elsti ógreiddi gjalddagi lánsins sé 5. september 2017. Hinn 20. desember 2017 hafi stefnda verið sent innheimtubréf þar sem fram kom að lánið hafi verið gjaldfellt. Lánið hafi þá staðið í 9.193.892 kr. sem sé stefnufjárhæð málsins auk dráttarvaxta og kostnaðar. Stefnufjárhæðin sundurliðast á eftirfarandi hátt: Eftirstöðvar höfuðstóls 8.994.275 kr. og samningsvextir 199.617 kr. Krafist sé dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá 20. janúar 2018 eða einum mánuði frá því að lántaka var sent innheimtubréf, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Byggt sé á meginreglum kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndarskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðjast við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

 

 

III

            Í greinargerð sinni lýsir stefndi margvíslegum viðskiptum sínum við stefnanda allt frá 11. desember 2002, er Kuggur ehf. gaf út tryggingarbréf til stefnanda að fjárhæð 7.000.000 kr. Stefndi hafi með kaupsamningi dags. 21. júní 2006 gengið frá sölu á öllum rekstri Kuggs. ehf. til Símans hf. og hafi félagið verið tómt í kjölfar sölunnar. Umsamið kaupverð hafi verið staðgreitt að fjárhæð 12.850.000 kr. og tekið mið af áætlaðri skuldastöðu félagsins 30. júní 2006. Stefndi kveður að stuttu síðar hafi stefnanda verið tilkynnt um fyrirætlanir Kuggs ehf. um að gera upp allar skuldir við bankann í samræmi við fyrrgreindan kaupsamning. Stefnandi hafi hins vegar ráðlagt stefnda að nýta kaupverðið til kaupa í svokölluðum „Peningabréfum Landsbankans“. Sú fjárfesting hafi verið markaðssett sem áhættulaus og traustur fjárfestingarkostur með örugga ávöxtun. Stefndi hafi verið hikandi og óráðinn hvað gera skyldi. Hann kveðst hafa látið undan og farið að ráði stefnanda og nýtt nær allt kaupverðið til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum bankans (peningamarkaðsbréfum) og það hafi verið 28. september 2006. Hinn 6. október 2008 hafi verið lokað fyrir allar innlausnir á hlutdeildarskírteinum sjóðsins og hafi ákvörðunin verið í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bankahrunsins. Sjóðnum hafi síðan verið slitið og hlutdeildarskírteinishöfum borist greiðsla vegna eftirstöðvar inneignar það er 68,8% af 100% verðmæti bréfanna. Sú fjárhæð sem innt hafi verið af hendi hafi verið lögð á reikning sem var handveðsettur stefnanda. Hinn 18. maí 2012 hafi verið gert samkomulag um uppgjör á skuldum Kuggs ehf. og sjálfskuldarábyrgð fyrirsvarsmanns. Uppgjörið hafi tekið til yfirdráttarheimildar, erlendrar lánalínu og skuldabréfs nr. [...]. Skuldabréfið samkvæmt stefnu sé hluti af uppgjöri þessu.

Sýknukrafa stefnda byggist á því, að hinn umdeildi lánssamningur aðila, dags. 15. maí 2012, sé ógildanlegur á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi telur að samningurinn sé ógildanlegur og óskuldbindandi fyrir félagið vegna háttsemi stefnanda, m.a. vegna þess hvernig staðið var að undanfara og stofnun hans.

Á því sé byggt að stefnandi hafi ekki virt skyldur sínar skv. II. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, en þau lög hafi verið í gildi er stefnandi veitti stefnda ráðgjöf sem leiddu til kaupa hans í peningabréfum bankans. Um hafi verið að ræða fjárfestingarráðgjöf um fjármálagerninga í skilningi 6. tl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 33/2003, sbr. c-lið 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna og vísar stefndi til 4. gr., 5. gr. og 9. gr. laganna. Lögin hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem tekið hafi gildi 1. nóvember 2007. Sambærilegar reglur um upplýsingagjöf og bestu framkvæmd séu nú í 5. gr. þeirra laga.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 4. gr. laga nr. 33/2003. Peningamarkaðssjóðurinn hafi verið kynntur sem áhættulaus fjárfesting með örugga ávöxtun. Stefnandi hafi viðurkennt sjálfur að markaðssetning sjóðsins hafi verið villandi og á köflum beinlínis röng og því ekki í samræmi við eðlilega viðskiptahætti, sbr. opið bréf stefnanda dags. 10. desember 2008.

Stefndi byggir á því að ef það hefði ekki verið fyrir framsetningu og markaðssetningu sjóðsins, hefði stefndi greitt upp skuldirnar í samræmi við tilgang kaupsamningsins þegar hann hafði burði til þess. Leggja verði til grundvallar að starfsmenn stefnanda hafi ráðlagt stefnda að fjárfesta í sjóðnum sem hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar. Telur stefndi það bæði óheiðarlegt og ósanngjarnt að stefnandi skuli nú bera fyrir sig umræddan samning eins og rakið sé í greinargerð.

Stefndi telur ljóst að lánssamningur nr. [...]  milli hans og stefnanda sé ógildanlegur á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi telur það óheiðarlegt af stefnanda að bera fyrir sig samninginn vegna atvika sem hafi verið fyrir hendi þegar samningurinn hafi komið til vitundar hans og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Skilyrði ákvæðisins sé uppfyllt. Einnig vísar stefndi til 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og byggir á því að víkja megi lánssamningnum til hliðar í heild sinni með sömu rökum, enda telji stefndi það bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig samninginn.

Þegar tekin sé afstaða til kröfu sem sé reist á 36. gr. fyrrnefndra laga verði að beita heildstæðu mati á atvikum með tilliti til þeirra atriða sem fram koma í 2. mgr. sömu lagagreinar. Í því mati verði öðru fremur að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Hvað efni samningsins varðar og atvik við samningsgerðina vísast til þess að stefndi hafi þurft að gangast undir umræddan lánssamning á mjög slæmum kjörum vegna ófullnægjandi handleiðslu stefnanda. Þar að auki var um mjög áhættusama fjárfestingu að ræða. Þegar litið sé til stöðu aðila verði að líta til þeirrar yfirburðarstöðu sem stefnandi hafi notið við samningsgerðina. Hann var og er fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli opinbers leyfis. Loks er bent á að stefndi hafi verið nauðbeygður til þess að gangast undir umræddan lánssamning af ótta við að bankinn myndi ganga að veðinu. Sá ótti var ekki að ástæðulausu enda hafi stefnandi verið iðinn að senda stefnda innheimtubréf og hótanir meðan á viðræðum stóð. Jafnframt hafi viðræður dregist um nokkurt skeið af hendi bankans sem leyfði sér þó að reikna sér dráttarvexti á sama tíma. Hvað atvik sem síðar komu til þá beri að líta til þess að stefndi var tómt félag og hafði enga burði til að standa undir greiðslubyrði samningsins á þessum tíma. Samkvæmt öllu framansögðu stendur heildarmat á þeim atriðum sem greinir í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 til þess að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda samkvæmt 1. mgr. sömu greinar að bera fyrir sig umræddan lánssamning.

 

 

IV

            Í málinu krefst stefnandi þess að stefndi standi við skuldbindingar samkvæmt lánssamningi frá 15. maí 2012. Lántaki samkvæmt lánssamningnum er Kuggur ehf. en kennitalan er sú sama og hjá stefnda. Ekkert liggur fyrir um hvenær nafnbreytingin átti sér staða. Hins vegar er ágreiningslaust í málinu að stefndi er réttur aðili þess.

            Af hálfu stefnda er því ekki borið við að hann skuldi ekki stefnanda hina umkröfðu fjárhæð. Auk þess liggur fyrir skuldbindandi undirritun á lánssamninginn og lánsfjárhæðinni var ráðstafað samkvæmt beiðni fyrirsvarsmanna stefnda. Málsástæður stefnda lúta að því að lánssamningurinn sé ógildanlegur með vísan til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerningar.

            Stefndi vísar til þess að hann hafi selt allan rekstur stefnda (Kuggs ehf.) til Símans fyrir 12.850.000 krónur í júní 2006 og hafi verið miðað við skuldastöðu félagsins við söluna. Stefndi byggir á því að ætlunin hafi verið að gera upp allar skuldir Kuggs ehf. við stefnanda. Hins vegar hafi stefnandi ráðlagt stefnda að festa kaup á svonefndum peningamarkaðsbréfum í stað þess að gera upp skuldirnar. Stefndi hafi gert það hinn 28. september 2006. Við þau viðskipti hafi stefnandi ekki virt ákvæði II. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og vísar stefndi til 6. tl. 2. mgr. 1. gr. laganna, sbr. c-lið, 2. tl. 1. mgr. 2. gr. Einnig 4. gr., 5. gr. og 9. gr. Þá vísar stefndi til 19. gr. laga 161/2002. Þetta hafi ekki reynst góð fjárfesting og stefndi tapað verulegum hluta peningamarkaðsbréfanna.

            Hér er til þess að líta að ásakanir stefnda á hendur stefnanda um ætlað brot stefnanda á lögum nr. 33/2003 og ætlaða stýringu bankans á kaupum stefnda á peningamarkaðsbréfunum eru hvorki studdar sýnilegum sönnunargögnum né vitnisburði fyrir dómi. Þá er engin grein gerð fyrir ætluðu tjóni stefnda vegna þessa. Málsástæður stefnda hvað þetta varðar eru því ósannaðar með öllu.

Í málinu liggur fyrir samkomulag frá 18. maí 2012 milli stefnanda annars vegar og Kuggs ehf. og fyrirsvarsmanns stefnda hins vegar, um uppgjör á skuldum félagsins og sjálfskuldarábyrgð. Samkomulagið náði til yfirdráttarheimildar að fjárhæð 2.300.000 kr., erlendrar lánalínu að fjárhæð 36.600.000 og skuldabréfs að fjárhæð 140.000 kr. Niðurstaða samkomulagsins var sú að stefnandi felldi niður allar sjálfskuldarábyrgðirnar og kröfur vegna ofangreindra lána, en fékk greiddar 13.115.600 kr. og gefið var út skuldabréf 15. maí 2012, sbr. stefnu málsins. Þannig munu rúmlega 16 millj. kr. hafa verið felldar niður auk sjálfskuldarábyrgðarinnar, allt til hagsbóta fyrir stefnda. Ekki er að sjá að stefndi hafi við þetta uppgjör borið fyrir sig þær málsástæður sem hér eru hafðar uppi varðandi kaupin á peningamarkaðsbréfunum árið 2006.

Stefndi byggir á 33. gr. laga nr. 7/1936 en þar segir að löggerning, sem ella mundi talinn gildur, geti sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Einnig er byggt á 36. gr. sömu laga um að víkja megi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta samningi, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við það mat skal skv. 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

Líta verður til þess að lánssamningur sá er krafist er efnda á var liður í skuldauppgjöri stefnda gagnvart bankanum. Skuldauppgjörið hafði það í för með sér að kröfur að fjárhæð rúmlega 16 millj. kr. voru felldar niður af hálfu bankans auk þess sem fallið var frá sjálfskuldaábyrgð fyrirsvarsmanna stefnda. Þegar litið er heildstætt á málið verður ekki talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju hjá stefnanda að bera fyrir sig samninginn. Verður honum því ekki vikið til hliðar eftir 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá verður heldur ekki talið að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga og krefjast efnda á honum.

Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina. Samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, V3RK ehf., greiði stefnanda, Landsbanka Íslands 9.193.892 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 26.049 kr. frá 5.9.2017 til 5.10.2017, af 98.630 kr. frá  5.10.2017 til 5.11.2017, af 170.127 kr. frá 5.11.2017 til 5.12.2017, af 241.355 kr. frá 5.12.2017 til 20.1.2018 og af 9.193.892 kr. frá þeim degi til greiðsludags og 500.000 kr. í málskostnað.

Sigrún Guðmundsdóttir.