• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Eignaspjöll
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Svipting ökuréttar
  • Skaðabætur
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í máli nr. S-52/2017:

Ákæruvaldið

(Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Grétari Eiríkssyni

(Páll Bergþórsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., er höfðað með tveimur ákærum, útgefnum af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ákæran er gefin út 24. janúar 2017, á hendur Grétari Eiríkssyni, kt. 000000-0000, óstaðsettum í hús,

 

I.

       Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 2. apríl 2015, inni á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Reykjanesbæ, haft í vörslum sínum 18,06 g af hassi, 2,57 g af marijúana og 4,77 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

 

       Telst þetta varða við 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974.

 

II.

       Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 3. janúar 2016 ekið bifreiðinni [---] ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 0,8 ng/ml), eftir Mímisbrunni við Úlfarstorg í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

       Telst þetta varða við 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.

       Fyrir eignaspjöll, með því að hafa sunnudaginn 15. maí 2016, í íbúðarhúsnæði að Möðrufelli 11 í Reykjavík, sparkað upp útidyrahurð, brotið gufugleypi í eldhúsi, gert göt á sófa, rispað parket á gólfi og brotið klósett á baðherbergi, þannig að tjón hlaust af.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

 

 

IV.

       Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 14. september 2016 ekið bifreiðinni [---] ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 315 ng/ml og MDMA 770 ng/ml) eftir Suðurlandsvegi á móts við Litlu kaffistofuna í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

       Telst þetta varða við 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

V.

       Fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. september 2016 ekið bifreiðinni [---] með áföstu röngu skráningarnúmeri og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 320 ng/ml, MDMA 890 ng/ml og terahýdrókannabínól 0,6 ng/ml) eftir Breiðholtsbraut við Ögurhvarf, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

       Telst þetta varða við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

VI.

       Fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 29. október 2016 stolið vörum að samtals söluverðmæti 11.576 kr. í verslun Hagkaups í Litlatúni í Garðabæ, en við líkamsleit lögreglu fannst 0,73 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem ákærði hafði haft í vörslum sínum.

 

       Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974.

 

VII.

       Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 30. október 2016 stolið vörum að samtals söluverðmæti 11.385 kr. í versluninni Adam og Eva að Kleppsvegi 150 í Reykjavík.

       Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

VIII.

       Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 2. nóvember 2016, við heimili sitt að [---] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 3,24 g af hassi og 3,39 g af marijúana, sem lögregla fann í úlpu- og buxnavasa ákærða.

 

       Telst þetta varða við 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og til að sæta upptöku á 25,42 g af kannabisefni samkvæmt heimild í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 65/1947 um ávana og fíkniefni.

 

       Síðari ákæran er gefin út á hendur ákærða 5. apríl 2017, fyrir eftirfarandi brot:

 

1.    Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 2. febrúar 2017 ekið bifreiðinni [---], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 625 ng/ml, alprazólam 5 ng/ml, nítrazepam 50 ng/ml, nordíazepam 25 ng/ml, oxazepam 130 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml), norður Strandgötu í Hafnarfirði, þar sem lögregla hafði afskipti af ökumanni á Reykjavíkurvegi við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

 

       Telst þetta varða við 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

 

2.    Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 6. september 2016, í Vínbúðinni, Skútuvogi 2, Reykjavík, stolið einni flösku af Einiberja gini, að verðmæti kr. 3.199.

 

       Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.    Föstudaginn 13. janúar 2017, í Vínbúðinni, Skeifunni 5, Reykjavík, stolið einni flösku af Hot n‘Sweet, að verðmæti kr. 990.

 

       Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.

 

       Þá gerir Erla Skúladóttir hdl., f.h. Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. 000000-0000, vegna ákærukafla 2, kröfu um að sakborningur verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð kr. 3.199, auk vaxta skv. 8. gr. l. nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 6. september 2016 til 21. október 2016. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaður að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

 

       Þá gerir Erla Skúladóttir hdl., f.h. Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. 000000-0000, vegna ákærukafla 3, kröfu um að sakborningur verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð kr. 990, auk vaxta skv. 8. gr. l. nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 13. janúar 2017 til 23. febrúar 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

 

       Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

       Ákærði er fæddur í júní 1969. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 25. janúar 2016, var ákærða gert að sæta sektarrefsingu fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir, samkvæmt I. og II. lið fyrri ákæru, voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds dóms og verður ákærða því dæmdur hegningarauki nú hvað þau brot varðar, samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir ítrekuð auðgunarbrot, umferðar- og fíkniefnalagabrot sem og fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Með hliðsjón af brotum ákærða, greiðri játningu hans og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru, einkum 1. og 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er ákærði sviptur ökurétti í fjögur ár frá birtingu dóms þessa að telja.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 25.42 grömm af kannabisefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Skaðabótakröfur eru nægjanlega rökstuddar og verða teknar til greina, ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir. Bótakrefjandi hefur ekki sótt þing og verður því ekki dæmdur málskostnaður úr hendi ákærða. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu og skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá þeim degi er liðnir eru 30 dagar frá þingfestingu.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Bergþórssonar lögmanns, 316.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 704.896 krónur í annan sakarkostnað.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Grétar Eiríksson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

       Ákærði er sviptur ökurétti í fjögur ár frá birtingu dómsins að telja.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 25,42 grömm af kannabisefni.

       Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 3.199 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. september 2016 til 5. október 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

       Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 990 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. janúar 2017 til 5. október 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Bergþórssonar lögmanns, 316.200 krónur og 704.896 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir