• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2018 í máli nr. S-794/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Þóri Þráinssyni

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. nóvember 2018, á hendur Þóri Þráinssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa að kvöldi mánudagsins 12. mars 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Fákafen á móts [...] uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall.  Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 14. nóvember 2018, hefur ákærði nú í þriðja sinn verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Með hliðsjón af sakarefni þessa máls og í samræmi við dómvenju, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjátíu daga.

Benedikt Smári Skúlason, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Þór Þráinsson, sæti fangelsi í 30 daga.