• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Fyrning
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2019 í máli nr. E-2178/2018:

Vindakór 2-8 ehf.

(Gunnar Sturluson lögmaður)

gegn

Björgvini Þorsteinssyni

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

 

1.        Mál þetta var höfðað 22. júní 2018 og tekið til dóms 8. apríl 2018. Stefnandi er Vindakór 2-8 ehf., Lágmúla 5 í Reykjavík. Stefndi er Björgvin Þorsteinsson, Lindargötu 27 í Reykjavík.

 

2.        Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 18.825.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. mars 2014 til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Stefndi krefst þess að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað með álagi að mati réttarins.

 

3.        Í ársbyrjun 2013 leitaði maður að nafni Halldór Kristinsson fulltingis stefnda, sem er lögmaður, til að koma í kring verkefni sem fólst í kaupum á hálfköruðu fjölbýlishúsi að Vindakór 2-8 í Kópavogi. Húsið hafði komist í eigu Íbúðalánasjóðs í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og hugðist Halldór, sem gert hafði tilboð í mannvirkið, ljúka byggingu þess og selja svo með hagnaði. Stefndi féllst á að leggja Halldóri lið og kom undirbúningi verkefnisins fyrir í einkahlutafélaginu Reynisvatni ehf., sem hann átti fyrir. Nafni þess félags var síðar breytt í Vindakór 2–8 ehf. og það félag er stefnandi í þessu máli. Fyrirætlanir Halldórs Kristinssonar gengu ekki eftir samkvæmt upphaflegum hugmyndum hans. Um sumarið 2013 var allt hlutafé stefnanda selt Snorrabúð ehf. og Momac (síðar Motown) ehf. þannig að hlutur hvors félags skyldi vera 50%. Um leið var umsamið að stefndi skyldi áfram sitja í stjórn stefnanda ásamt fulltrúa kaupenda, Jóni Óskari Carlssyni. Félögin Snorrabúð ehf. og Momac (síðar Motown) ehf. lánuðu svo stefnanda samtals 75.000.000 króna til að félagið gæti staðið að samstarfi við fleiri aðila um kaup á nefndu fjöl­býlis­húsi að Vindakór 2-8 í Kópavogi af Íbúðalánasjóði. Samhliða þessu voru gerðir samningar sem skyldu tryggja hlut stefnda og Halldórs Kristinssonar vegna hagsmuna þeirra af verkefninu. Í því fólst meðal annars réttur stefnda til að eignast aftur 50% hlut í stefnanda. Skömmu eftir þetta kom til þess að stefnandi skyldi greiða 20.000.000 króna til félags sem aðstoðað hafði stefnda eða Halldór Kristinsson við að útvega fjárfesta að verkefninu. Sú greiðsla var innt af hendi en samhliða henni undirritaði stefndi yfirlýsingu að kröfu fyrirsvarsmanna Snorrabúðar ehf. og Momac (síðar Motown) ehf. Í yfirlýsingunni kom fram að stefndi skuldbindi sig persónulega til að greiða stefnanda 25.100.000 krónur 10. mars 2014 ef þá væri ekki uppgerð skuld stefnanda við Snorrabúð ehf. og Momac (síðar Motown) ehf. Það er á grundvelli þessarar yfirlýsingar sem kröfugerð á hendur stefnda er reist í máli þessu.

 

4.        Framkvæmdir við að ljúka byggingu fjölbýlishússins að Vindakór 2-8 í Kópavogi og selja það drógust mjög á langinn. Greiðslur til stefnanda úr samstarfsverkefni þess og fleiri félaga um verkefnið fóru ekki eftir áætlun. Af þessu leiddi að greiðslur stefnanda á láni Snorrabúðar ehf. og Momac (síðar Motown) ehf. fóru heldur ekki fram samkvæmt því sem upphaflega var ráðgert og um samið. Þann 21. júlí 2016 var stefndi, með bréfi lögmanns eigenda stefnanda, krafinn um greiðslu á grundvelli framangreindrar ábyrgðaryfirlýsingar. Á hluthafafundi í stefnanda 16. febrúar 2017 var samþykkt að höfða mál á hendur stefnda til uppgjörs ábyrgðarinnar. Það mál, sem er málið sem hér er til úrlausnar, var svo höfðað 22. júní 2018, eins og að framan greinir.

 

5.        Stefnandi byggir á því að stefndi sé greiðsluskyldur gagnvart sér á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar samkvæmt sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu sem hann gaf út til stefnanda. Yfirlýsing stefnda sé skýr og afdráttarlaus og skuldbindandi fyrir stefnda að lögum. Stefndi, sem sé lögmaður með áratuga reynslu, hafi ekki getað gengið þess dulinn hvaða skuldbinding hafi verið fólgin í ábyrgðaryfirlýsingunni sem hann hafi gefið til að tryggja sína eigin hagsmuni þrátt fyrir að greiðsla sú sem varð til þess að ábyrgðaryfirlýsingin var gefin út hafi gengið til annars aðila. Þá sé skuldbinding samkvæmt yfirlýsingunni ófyrnd þrátt fyrir að meira en fjögur ár hafi verið liðin frá gjalddaga hennar er mál þetta var höfðað. Þá byggir stefnandi á því að af gögnum málsins sé augljóst að stefndi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að standa í vegi fyrir því að unnt yrði að reka mál á hendur honum til að heimta inn kröfu stefnanda. Hann hafi staðið því í vegi að haldinn yrði hluthafafundur til að fjalla um málið og loks er slíkur fundur hafði verið haldinn þvælst fyrir því að haldinn yrði stjórnarfundur stefnanda til að ganga frá ráðningu lögmanns sem gæti farið með málið.

 

6.        Stefnandi byggir á því að krafa hans sé ófyrnd með því að stefndi hafi viður­kennt skyldu sína til greiðslu, samanber 14. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Þá telur stefnandi að líta verði svo á að framannefndar hindranir sem stefndi hafi staðið fyrir og komu í veg fyrir eða töfðu að unnt yrði að boða til hlut­hafafundar og stjórnarfundar eigi að leiða til þess að viðbótarfrestur sam­kvæmt 2. mgr. 10. gr. fyrningarlaga verði talinn hafa orðið til. Þannig hafi ekki verið unnt að rjúfa fyrningu vegna óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki hafi byggst á atvikum sem hafi varðað kröfuhafa sjálfan og því verði að telja að fyrning hefjist í fyrsta lagi einu ári eftir þann dag er hindruninni lauk. Stefn­andi byggir á því að þetta hafi verið hinn 17. maí 2018.

 

7.        Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda sem röngum og villandi. Stefndi telur að í máli þessu séu eigendur 50% hlutafjár í stefnanda að freista þess að innheimta hjá stefnda, sem einnig eigi 50% hlutafjár í stefnanda, ábyrgð sem stefnda hafi verið óskylt að taka að sér fyrir stefnanda og sem að auki sé fyrnd. Óumdeilt sé með aðilum að gjalddagi kröfu eftir nefndri ábyrgð hafi verið í mars 2014 en þrátt fyrir það hafi stefnandi engar ráð­staf­anir gert til að rjúfa fyrningu fyrr en í lok júní 2018 er meira en þrír mánuðir voru liðnir frá því að hin umdeilda ábyrgðarkrafa var fyrnd. Stefndi telur að mála­til­bún­aður stefnanda um að hann hafi á einhvern hátt tálmað eða þvælst fyrir því að stefnandi gæti haldið fram kröfu sinni sé ekki einasta rangur heldur hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem bendi til þessa. Þá vísar stefndi til þess að jafnvel þó talið yrði að ábyrgðarkrafa á hendur hon­um væri ófyrnd þá liggi ekkert fyrir um það í málinu að þeim skilyrðum hafi verið fullnægt sem sam­kvæmt efni ábyrgðaryfirlýsingar stefnda voru for­senda þess að ábyrgð­arkrafa stefnanda yrði virk. Þá telur stefndi að stefn­andi hafi gerst sekur um tómlæti. Ábyrgðarkrafa stefnanda hafi aldrei verið færð á bækur félagsins og aldrei komið til meðferðar á vegum þess í meira en tvö ár eftir að gjald­dagi hennar hafi runnið upp. Stefnda hafi því verið rétt að líta svo á að aðilar væru sammála um að henni væri ekki til að dreifa framar.

 

Niðurstaða

8.        Málavextir máls þessa eru um margt afar tyrfnir og óljósir. Þannig virðast veigamiklir þættir málsatvikalýsingar tæpast liggja nægjanlega skýrt fyrir eða þættir atvikalýsingar ekki koma fram í málatilbúnaði stefnanda. Úr þessu er að nokkru bætt í greinargerð stefnda. Af hálfu stefnda hefur ekki verið krafist frávísunar á þessum grundvelli og dómurinn lítur svo á, í ljósi þess á hvaða grundvelli leyst er úr ágreiningi málsaðila, að ekki sé nægjan­leg ástæða til að láta óskýrleika í framsetningu leiða til sjálfkrafa frávísunar málsins. Samkvæmt upphaflegum samningi aðila var gert ráð fyrir að stefndi skyldi eignast aftur 50% hlutafjár stefnanda að tilgreindum skilmálum upp­fylltum. Meðal þess var að uppgerð væri skuld sú sem stefnandi telur samkvæmt málatilbúnaði sínum í þessu máli að sé ekki uppgerð og leiði til þess að ábyrgðaryfirlýsing stefnda hafi orðið virk. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir í málinu nákvæmlega með hvaða hætti talið var að þau atvik væru komin upp sem leiddu til þess að stefndi skyldi eignast aftur 50% hlutafjár stefnanda er ekki umdeilt með aðilum að stefndi er nú eigandi hlutarins.

 

9.        Meðstjórnarmaður stefnda í stjórn stefnanda sem sat þar á vegum sömu aðila og nú standa að þeirri málsókn sem hér er til meðferðar gat engar skýringar gefið á þeim drætti sem varð á málsókn á hendur stefnda. Ekkert er fram komið um að stefndi eigi einhverja „sök“ á þeim drætti eða hafi á einhvern hátt beitt sér óeðlilega til þess að leggja stein í götu slíkrar málsóknar. Í því sambandi verður að árétta að það gat ekki verið sérstök skylda stefnda að beita sér fyrir eða hafa forgöngu um að mál yrði höfðað á hendur honum sjálfum.

 

10.    Það er óumdeildur skilningur aðila máls þessa að gjalddagi ábyrgð­ar­skuld­bind­ingar stefnda sem um er deilt í þessu máli var 10. mars 2014. Sam­kvæmt 3. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur kröfu­réttinda fjögur ár. Samkvæmt því var ábyrgð­ar­skuld­binding stefnda fyrnd 10. mars 2018. Ráðstafanir stefnanda sem hefðu, ef krafan hefði enn verið ófyrnd, verið til þess fallnar að slíta fyrningu voru ekki gerðar fyrr en með birtingu stefnu 22. júní 2018. Ekki eru að mati dómsins skilyrði til að fallast á að atvik séu uppi í málinu sem eigi að leiða til þess að viðbótarfrestur eftir 2. mgr. 10. gr. fyrningarlaga verði talinn hafa orðið til. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi með ummælum sínum eða yfir­lýs­ingum á hluthafafundi stefnanda slitið fyrningu með því viðurkenna skyldu til greiðslu gagnvart stefnanda í skilningi 14. gr. fyrningarlaga, hvorki beinlínis né með atferli sínu. Samkvæmt þessu verður stefndi sýkn­aður af kröfum stefn­anda og stefnanda gert að greiða stefnda máls­kost­nað. Af hálfu stefn­anda flutti málið Gunnar Sturluson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Sigurð­ur G. Guðjónsson lögmaður. Málið dæmdi Ástráður Haraldsson héraðs­dóm­ari.

 

Dómsorð

Stefndi, Björgvin Þorsteinsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Vindakórs 2-8 ehf. Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.

 

Ástráður Haraldsson