• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2019 í máli nr. S-783/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Herði Sigurðssyni

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. nóvember 2018, á hendur Herði Sigurðssyni, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot í Reykjavík á árinu 2018, nema annað sé tekið fram, með því að hafa:

 

I

            Laugardaginn 30. desember 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,45 ‰) og með 103 km hraða á klst. um Vesturlandsveg að Suðurlandsvegi, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst., uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

II

            Að kvöldi miðvikudagsins 17. janúar ekið sömu bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,72 ‰) suður Skútuvog uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar í Skútuvogi við Blómaval.

 

III

            Þriðjudaginn 20. mars ekið sömu bifreið sviptur ökurétti um Vesturlandsveg við Nóa Síríus uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

IV

            Að kvöldi fimmtudagsins 31. maí ekið sömu bifreið sviptur ökurétti norður Víkurveg við Veghús uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

V

            Föstudaginn 15. júní ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Víkurveg við KFC uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

            Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í liðum I og II auk þess við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og brot í lið I einnig við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

            Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið því dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

            Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 14. nóvember 2018, hefur ákærði tvívegis áður gerst sekur um að aka undir áhrifum áfengis- og ávana- og fíkniefna. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, dagsettum 1. desember 2011, var ákærði dæmdur til að greiða sekt vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá gekkst ákærði undir tvær lögreglustjórasáttir hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hinn 12. apríl 2012 fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem báðar teljast hegningaraukar við framangreindan dóm. Þá var ákærði fundinn sekur um ölvunarakstur með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn 26. nóvember 2015, auk annarra umferðarlagabrota. Við ákvörðun refsingar þar var miðað við að ákærði hefði þá í þriðja sinn verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis eftir því sem fram kemur í dóminum og hlaut hann 30 daga fangelsisdóm samkvæmt dómvenju. Þá var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.

            Með hliðsjón af því að þær lögreglustjórasáttir sem ákærði gekkst undir hinn 12. apríl 2012 voru hegningaraukar við fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Suðurlands frá 1. desember 2011 er hér við ákvörðun refsingar við það miðað að ákærði sé nú í þriðja sinn fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis, sbr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá er jafnframt tekið tillit til þess að ákærði var með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn 26. nóvember 2015 dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga.

            Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni málsins, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða nú þannig hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

            Þá er með vísan til lagaákvæða í ákæru áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja. Ákærði greiði jafnframt 48.510 krónur í sakarkostnað.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Hörður Sigurðsson, sæti fangelsi í 30 daga.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

            Ákærði greiði 48.510 krónur í sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal