• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 5. júlí 2018 í máli nr. S-120/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Gísli Kr. Björnsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara þann 8. mars sl. „á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. maí 2015, framan við [...], slegið A með glerflösku í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut um 3ja sm langan skurð í hársverði á hnakka sem sauma þurfti saman.

            Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 800.000,- í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 9. maí 2015 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

 

            Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Jafnframt krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.

 

Málsatvik

            Samkvæmt gögnum málsins barst lögreglu tilkynning um átök milli nokkurra aðila í [...] aðfaranótt 9. maí 2015. Er lögregla kom á vettvang voru þar nokkrir aðilar en allt var með ró og spekt. Einn mannanna var blóðugur á höfði. Lögreglumennirnir ræddu við mennina sem sögðu að málið væri búið og aðilar væru orðnir sáttir. Mennirnir voru allir undir áhrifum áfengis, en mismiklum. Svo virtist sem komið hefði til deilna milli ákærða og brotaþola við almenningssalerni á götuhorni, sem hefðu endað með átökum. Ekki hefði fengist botn í það hver ástæða eða upphaf deilunnar hefði verið. Þegar ákærði hefði slegið frá sér hefðu þrír vinir brotaþola stokkið til og virst ætla að vaða í ákærða. Ákærði hefði verið sakaður um að hafa slegið í höfuðið á brotaþola með glerflösku er brotaþoli hefði tekið undir sig stökk að honum. Brotaþoli hefði verið með lítils háttar skurð á höfði, vinstra megin ofan við eyra. Rætt hefði verið við B, vin brotaþola, sem hefði sagt brotaþola hafa verið sleginn í höfuðið með flösku. C, vinkona ákærða, hefði talið að fjórir aðilar hefðu ráðist á ákærða. Hún hefði ekki séð upptökin en talið að ákærði hefði verið í sjálfsvörn. Hvorki hún né ákærði hefðu viljað kannast við að hann hefði slegið frá sér með flösku.

            Mánudaginn 11. maí 2015 kom brotaþoli á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna líkamsárásar. Hann skýrði svo frá að hann hefði verið að skemmta sér í miðbænum ásamt vinum sínum. Hann hefði verið nokkuð við skál og beðið með vinum sínum á götuhorni eftir því að vera sóttur. Einhverjir strákar hefðu gengið framhjá og spjallað við þá. Einn þeirra hefði svo kallað til þeirra og B, félagi brotaþola, hefði farið til hans til að heyra betur hvað hann væri að segja. Honum hefði fundist eins og ákærði væri að bölsótast út í þá svo hann hefði stokkið til og reynt að draga B burt, enda hefði hann séð ákærða hella úr og tæma glerflösku sem hann hefði verið með í höndunum. Þegar hann hefði ætlað að ræða við B hefði ákærði slegið brotaþola a.m.k. tvisvar sinnum í höfuðið með glerflöskunni. Fyrra höggið hefði komið vinstra megin á höfuðið svo sprungið hefði fyrir. Hann kvaðst ekki hafa gefið ákærða neitt tilefni til að ráðast á sig og hefði aldrei séð hann áður. Brotaþoli taldi að hann hefði vankast, því hann myndi ekki vel það sem gerst hefði eftir þetta. Hann myndi þó eftir því að hafa borið hendur fyrir höfuðið til að verjast. Síðan hefði lögreglan komið og hann hefði farið á slysadeild þar sem saumuð hefðu verið þrjú spor í höfuð hans. Hann hefði þjáðst af höfuðverkjum síðan.

            Í málinu liggur fyrir læknisvottorð D, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi, frá 18. maí 2015, þar sem fram kemur að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku 9. maí 2015. Hann hefði lýst því að hafa verið sleginn endurtekið í höfuðið með flösku. Brotaþoli hafi verið skýr og vakandi. Í hársverði á hnakka hafi verið um þriggja cm línulaga skurður í gegnum húð, sem hafi samræmst lýsingu hans á atvikum. Skurðurinn hafi verið hreinsaður og saumaður á bráðadeild í staðdeyfingu og saumataka hafi verið áætluð sjö til tíu dögum síðar.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

            Ákærði greindi frá því að hann hefði umrætt sinn verið að fara heim af skemmtistað ásamt kærustu sinni og tveimur vinum. Þau hefðu öll verið eitthvað við skál. Í [...] hefðu þau hitt þrjá stráka. Einn þeirra hefði rekist utan í hann og hellt á hann bjór. Hann hefði því öskrað á eftir þeim. Þá hefðu þeir snúið við og ráðist á hann. Hann hefði beygt sig fram og farið á grúfu. Þá hefði hann fengið högg á bakið og brugðist við með því að slá flösku, sem hann hefði verið með í höndunum, upp á við. Hann hefði heyrt brothljóð í flöskunni og skyndilega hefði allt hætt. Hann vissi ekki hvar flaskan hefði lent en hún gæti hafa lent í einum stráknum, enda hefði blætt úr honum. Það hefði þó ekki verið viljandi, en hann hefði verið að verjast árás með þessu. Hann kvaðst ekki hafa hellt úr flöskunni heldur hefði sullast úr henni í átökunum. Strákarnir hefðu svo viljað sættast og allt hefði virst vera í lagi. Hann hefði sjálfur haft verki í baki eftir átökin en hann hefði ekki látið skoða það nánar.

            Brotaþoli kvaðst hafa beðið með vinum sínum eftir að vera sóttur. Hann hefði verið drukkinn en muni þó vel eftir atvikum. Nokkrir krakkar hefðu gengið fram hjá og átt einhver samskipti við þá. Einn þeirra, ákærði, hefði verið æstur og virst vera undir áhrifum örvandi lyfja. B, félagi hans, hefði sagt að hann ætlaði að fara að róa hann. Hann hefði þá séð hvar ákærði hefði snúið við glerflösku, sem hann hefði haldið á, og hellt úr henni. Hann hefði þá farið og ætlað að togað félaga sinn burt. Ákærði hefði þá togað í hann og lamið hann tvisvar sinnum í höfuðið með flöskunni. Hann hefði vankast við höggin en félagar hans hefðu komið fljótt og gengið á milli þeirra. Hann kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við ákærða fyrir þetta. Hann hefði ekki veist að ákærða og ekki séð neinn annan gera það. Hann hefði fengið skurð og stóra kúlu aftarlega á höfuðið en hann hefði jafnað sig eftir þetta.

            Vitnið B kvað þá félagana hafa verið á leiðinni heim er ákærði hefði komið þar og verið með öskur og læti. Hann hefði farið til hans og beðið hann að hætta. Það næsta sem hann hefði vitað var að brotaþoli var kominn fyrir aftan hann og fékk högg á höfuðið. Hann hefði reynt að toga brotaþola frá svo hann fengi ekki fleiri högg. Úr því hefði komið til stympinga. Hann hefði ekki tekið eftir því fyrr en þarna að ákærði héldi á flösku. Hann hefði ekki séð neinn veitast að ákærða og taldi að þeir hefðu ekki verið ógnandi. Vitnið kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra þetta kvöld en ekki hafa verið mjög drukkinn.

            Vitnið E greindi frá því að þeir félagarnir fjórir hefðu beðið eftir því að vera sóttir þegar ákærði og vinir hans hefðu komið. Þeir hefðu spjallað á vinalegum nótum. Ákærði hefði farið að útiklósetti á móti og farið að rífa kjaft. Félagi hans, B, hefði farið og beðið hann að fara. Ákærði hefði haldið á glerflösku og farið að hella úr henni. Brotaþoli hefði fyrstur áttað sig á því og þess vegna komið fyrstur til þeirra. Hann hefði reynt að draga B frá ákærða en þá fengið tvö högg aftan á sig. Hann hefði ekki merkt að ákærða gæti stafað ógn af félögum hans og ákærði hefði ekki orðið fyrir höggum, en hann hefði þó ekki heyrt orðaskil. Í kjölfarið hefði brotaþoli verið allur í blóði og mikil læti hefðu orðið. Vitnið kvaðst hafa verið lítið ölvaður þessa nótt.

            Vitnið F kvað þá félagana hafa verið að fara heim úr bænum og B hefði verið aftastur. Hann hefði farið að tala við fólk sem hann hefði ekki átt að tala við. Ákærði og félagar hans hefðu virst vera í annarlegu ástandi. Brotaþoli hefði farið að sækja B en ákærði hefði þá slegið hann með flösku og í kjölfarið hefði allt orðið brjálað. Engin átök hefðu hins vegar verið þegar höggin hefðu átt sér stað. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hefði verið laminn en taldi hugsanlegt að hann hefði haldið að eitthvað væri að fara að gerast þegar brotaþoli hefði komið að til að draga B í burtu.

            Vitnið C, fyrrverandi kærasta ákærða, kvaðst hafa verið drukkin umrædda nótt, auk þess sem langt væri liðið síðan. Hún hefði því ekki skýra minningu frá þessari nótt. Hún hefði séð hvar ákærði hefði verið að ræða við þrjá stráka hinum megin við götuna frá henni. Þeir hefðu rifist og komið hefði til slagsmála. Hún hefði séð ákærða slá í höfuðið á brotaþola með flösku og þá hefði hún hlaupið yfir götuna. Fljótlega eftir það hefði þetta stöðvast og lögreglan komið. Hún kvaðst ekki muna til þess að hafa séð ákærða verða fyrir höggum, en hún gæti hafa munað þetta betur við skýrslugjöf hjá lögreglunni. Hún mundi þó ekki eftir skýrslugjöfinni.

            Vitnið G kvaðst ekki muna vel eftir þessari nótt þar sem hann hefði verið í glasi. Hann hefði ekki séð upphaf átakanna, þar sem hann hefði staðið hinu megin við götuna með kærustu ákærða, en myndi þó eftir því að hafa séð ákærða fara í jörðina með hendur fyrir andliti og þrír strákar hefðu hlaupið í hann. Ákærði hefði staðið upp og haldið á flösku til að verja sig. Hann hefði þó ekki séð neinn verða fyrir höggum með flöskunni og ekki séð áverka á neinum. Átökunum hefði lokið þegar lögreglan hefði komið.

            Vitnið H kvaðst hafa verið með ákærða þessa nótt. Langt væri síðan og lögregla hefði ekki haft samband við hann vegna þessa. Hann myndi því ekki vel eftir þessu, en myndi þó eftir því að ákærði hefði lent í átökum sem u.þ.b. sex menn hefðu tekið þátt í. Átökin hefðu byrjað með rifrildi. Ákærði hefði kastað áldós í átt að mönnunum og tveir eða þrír menn hefðu þá komið að honum. Ákærða hefði fundist sér ógnað þar sem mennirnir hefðu ráðist að honum. Hann hefði ekki séð nein högg. Þeir vinir ákærða hefðu hins vegar verið á staðnum og komið og stöðvað þetta. Vitnið mundi ekki eftir að hafa séð flösku eða áverka á mönnum.

            Vitnið D, bráðalæknir á Landspítala, staðfesti vottorð sitt vegna brotaþola. Brotaþoli hefði verið með þriggja cm langan skurð í hnakka sem hefði ekki náð inn að beini. Ekki hefðu sést merki um frekari áverka, en kúlur geti komið fram síðar. Ekki hefði verið um alvarlegan áverka að ræða en verkir geti varað í einhvern tíma.

 

Niðurstaða

            Ákærða er í ákæru gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa slegið brotaþola með glerflösku í höfuðið. Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa slegið frá sér með glerflösku í átökum við brotaþola og félaga hans, en kveðst ekki hafa slegið brotaþola viljandi heldur hafi hann verið að verja sig í átökunum. Því hafi verið um neyðarvörn að ræða.

            Samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er verk refsilaust að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til. Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar og ástæða þess er sú að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða að hann gat ekki fullkomlega gætt sín skal honum ekki refsað.

            Atvikið sem um ræðir gerðist að nóttu til fyrir rúmlega þremur árum og ber framburður fyrir dóminum óhjákvæmilega keim af því. Allir þeir sem voru á vettvangi voru undir einhverjum áhrifum áfengis og muna misvel eftir atvikum. Ákærði lýsti því að hann hefði öskrað að mönnunum sem hann hefði mætt og þeir hefðu þá snúið við og ráðist á hann. Hann hefði strax farið í vörn, beygt sig fram á við og fengið högg á bakið. Hann hefði svo slegið frá sér með flösku til að verjast árásinni.

            Brotaþoli lýsti því hins vegar að félagi hans hefði farið að ákærða til að ræða við hann. Hann hefði séð ákærða gera sig líklegan til vandræða, með því að hella úr glerflösku sem hann hefði haldið á, og því farið að sækja félaga sinn. Hann hefði þá fengið högg á höfuðið. Enginn hefði veist að ákærða. Þrír félagar brotaþola hafa lýst atvikum með sama hætti og brotaþoli. Þeir hafi ekki séð ákærða fá nein högg eða vera ógnað nema ef vera skyldi að honum hefði þótt sér ógnað með því að brotaþoli hefði komið hratt að honum þegar hann hefði farið að sækja félaga sinn. Ryskingar milli aðila hefðu ekki átt sér stað fyrr en eftir að ákærði hefði veitt brotaþola höggin og þau hefðu verið tilefni þeirra.

            Þau þrjú sem voru með ákærða lýstu atvikum ekki með jafn skýrum hætti. Fyrrum kærasta ákærða sagði hann hafa slegið mann með flösku en mundi ekki til þess að hann hefði orðið fyrir höggum. Hún kvaðst hugsanlega hafa munað þetta betur hjá lögreglu. Í lögregluskýrslu frá 1. febrúar 2016 er haft eftir henni að hún hafi séð þrjá stráka fara að ákærða og lemja hann. Hún hefði þá hlaupið strax af stað. Ákærði hefði lagst á grúfu en hún og félagar þeirra hefðu ýtt strákunum frá. Ekki kemur fram í lögregluskýrslunni að hún hafi séð ákærða slá til einhvers eða séð flösku beitt. Það er því ekki samræmi í skýrslu hennar hér fyrir dóminum og hjá lögreglu.

            Tveir félagar ákærða lýstu því að ákærði hefði verið að verja sig. Þeir mundu atvik þó ekki greinilega og sáu ekki aðdraganda atvikanna. Annar þeirra greindi frá því að þrír strákar hefðu ráðist að ákærða, sem hefði farið í jörðina með hendur fyrir andliti, en hann hefði svo stokkið upp með glerflösku til að verja sig. Hann hefði þó ekki séð nein högg. Hinn félagi ákærða kvaðst hins vegar ekki muna eftir flösku en ákærða hefði verið ógnað af þremur mönnum sem hefðu veist að honum. Lýsingar þessara tveggja vitna eru ekki í samræmi við framburð ákærða, sem greindi skýrt frá því hvernig hann hefði beygt sig fram þegar mennirnir hefðu veist að honum.

            Ekkert kemur fram í framangreindum framburði vitna, að undanskildum einum félaga ákærða, sem styður að um byrjaða eða yfirvofandi ólögmæta árás hafi verið að ræða í þessu tilviki sem geti réttlætt aðgerðir ákærða umrætt sinn. Einungis eitt vitnanna ber um að ákærði hafi orðið fyrir höggum en fjögur vitni hafa hafnað því að svo hafi verið og tvö kannast ekki við það. Verður því að hafna því að svo hafi verið. Hafi ákærða þótt sér ógnað er í öllu falli ljóst að aðfarir hans voru mun harkalegri en tilefni var til. Getur háttsemi ákærða samkvæmt þessu ekki réttlæst af neyðarvörn. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brot samkvæmt ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Hann hefur fjórum sinnum gengist undir lögreglustjórasátt, eina ákærufrestun og einu sinni undir viðurlagaákvörðun vegna umferðar-, fíkniefna- og hegningarlagabrota. Í september 2016 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára í [...] vegna hegningarlagabrota. Brot ákærða nú var framið fyrir uppkvaðningu dómsins. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður dómurinn nú tekinn upp og dæmdur með máli þessu og refsing tiltekin eftir 77. og 78. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að um tilefnislausa og hættulega árás, sem beindist að höfði, var að ræða. Hins vegar er óhjákvæmilegt að líta til þess að verulegar tafir urðu á rannsókn og ákærumeðferð málsins. Brotaþoli lagði fram kæru strax eftir atvikið í maí 2015. Skýrsla var tekin af ákærða í nóvember 2015 en símaskýrslur voru teknar af fjórum af þeim sex sem urðu vitni að atvikum í janúar og febrúar 2016. Ekki voru teknar skýrslur af hinum tveimur. Ákæra var svo gefin út í mars 2018. Ákærða verður ekki kennt um þessar tafir. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði en með hliðsjón af framangreindum töfum þykir rétt að fullnustu refsingarinnar verði frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur. Brotaþoli á rétt á miskabótum með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá á brotaþoli rétt til málskostnaðar sem ákveðinn verður 250.000 krónur.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla Kr. Björnssonar lögmanns, 632.400 krónur, og þóknun verjanda á rannsóknarstigi, Leifs Runólfssonar lögmanns, 66.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 14.000 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í tíu mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði A 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 9. maí 2015 til 23. desember 2015, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla Kr. Björnssonar lögmanns, 632.400 krónur, þóknun verjanda á rannsóknarstigi, Leifs Runólfssonar lögmanns, 66.960 krónur, og 14.000 krónur í annan sakarkostnað.