• Lykilorð:
  • Gjafsókn
  • Gæsluvarðhaldsvist
  • Handtaka
  • Lögreglurannsókn
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Mannréttindi
  • Niðurfelling máls
  • Sakborningur
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • Sönnun
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 12. september 2018 í máli nr. E-2873/2017:

A

(Ólafur V. Thordersen lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 14. september 2017 og dómtekið 21. ágúst 2018. Stefnandi er A, óstaðsettur í hús, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið, Stjórnar­­­­­­ráðinu við Lækjargötu, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum miskabætur að fjár­hæð 5.450.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 23. nóvember 2014 til 28. maí 2017, en með dráttarvöxtum sam­­­­­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefn­­­andi málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á máls­­­­kostnað, til samræmis við framlagðan málskostnaðarreikning en að öðrum kosti sam­kvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi greiði honum málskostnað að mati réttarins. Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 27. júní 2017, var stefnanda veitt gjaf­­­­sókn fyrir héraðsdómi með vísan til 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð saka­mála, sbr. nú 248. gr. sömu laga, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 17/2018.

 

 

 

 

 

II.

Málavextir:

1.

Að kvöldi 23. nóvember 2014 barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um slasaðan mann að [...] í Reykjavík. Þegar lögregla kom á staðinn var talið að maður hefði verið stunginn í framanvert brjóst­­hol. Maðurinn var lífshættulega slas­­­aður og vart hugað líf við komu á slysadeild. Meðal þeirra sem voru á staðnum hjá hinum slasaða voru B, sem var húsráðandi, og C. Skömmu síðar kom stefnandi á staðinn, auk D, og sögðust þeir ætla að heim­­­sækja húsráðanda. Þeir voru báðir handteknir og fluttir í fanga­­­­geymslu. Hinn slasaði maður fékk réttar­stöðu brota­­þola við rannsókn málsins.

Við handtökuna var stefnandi með sár á höfði og voru hann og D missaga um hvernig það hefði atvikast. Þá var stefn­andi einnig með sár á höndum sem talið var geta bent til þess að hann hefði lent í átökum. Einnig var blóð á fatnaði hans og hönd­­­­­um. Við upphaf rannsóknar lá fyrir framburður manns sem lýsti því að stefn­­­­­­andi hefði fyrr um daginn rifist við brotaþola. Þá bar vitni um mannaferðir til og frá um­ræddu hús­næði fyrr um daginn og að stefnandi hefði verið meðal þeirra sem áttu leið í hús­næðið.

Stefnandi gaf skýrslu í kringum miðnætti sama kvöld á lögreglustöðinni við Hverfis­­­­­­götu með réttarstöðu sakborn­ings vegna rannsóknar á meintu ofbeldisbroti. Við skýrslutökuna kvaðst stefnandi ekki hafa neina vitneskju um þau atvik sem vörð­uðu áverka brotaþolans. Stefnandi kann­aðist hins vegar við að hafa verið fyrr um dag­­inn í því húsnæði þar sem umrædd atvik áttu sér það. Þar hafi hann neytt áfengis og meitt sig á höfði fyrir slysni. Stefnandi gerði með nokkuð óljósum hætti grein fyrir ferð­­um sínum frá því að hann var í hús­næð­inu uns hann var handtekinn en gat ekki með skýr­um hætti borið um tíma­setn­ingar. Þá kannaðist stefn­­­andi ekki við brotaþola þegar honum var sýnd ljós­­­mynd af honum við skýrslu­tökuna.

Á meðan stefnandi sætti handtöku og vistun í fangageymslu neitaði hann lögreglu um heimild til að gangast undir réttarlæknisfræðilega líkams­rann­sókn án þess að út­skýra það nánar. Að því virtu krafðist lögregla þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 24. nóvember 2014, dag­­­­­inn eftir handtöku, með vísan til 1. mgr. 77. gr., sbr. 2. mgr. 78. gr., laga nr. 88/2008, að hann sætti slíkri rannsókn. Með úrskurði héraðsdóms sama dag, í máli nr. R-306/2014, var fallist á þá kröfu. Að kvöldi sama dags var stefn­anda, að kröfu lög­­­reglu, með úrskurði sama héraðs­dóms, í máli nr. R-308/2014, gert að sæta gæslu­varðhaldi og einangrun vegna rannsóknarhagsmuna á grund­velli a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá var tilhögun gæsluvarð­halds­­­­­­ins að öðru leyti ákveðin með takmörkunum samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Sama dag var fyrrgreindur D, sem einnig hafði réttar­stöðu sak­­­­­born­ings, úrskurðaður í gæsluvarðhald á sama laga­grund­velli.

Með yfirlýsingu 26. nóvember 2014 veitti stefnandi, sem rétthafi tiltekins síma­númers, lögreglu heimild til að afla upplýsinga um notkun símanúmersins á tímabili frá 23. til 24. sama mánaðar. Um var að ræða gagnaöflun í þágu rannsóknar máls á grund­­velli 80. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 84. gr., laga nr. 88/2008.

 

2.

Við skýrslutöku af stefnanda 2. desember 2014 í fangelsinu Litla-Hrauni var farið yfir framburð hans frá fyrri skýrslutöku 23. nóvember sama ár. Í skýrslunni greinir meðal annars að stefnandi hefði við byrjun skýrslutökunnar ekki talið sig þurfa að breyta eða bæta neinu við fyrri framburð. Farið var nánar yfir ferðir stefnanda og sam­skipti hans við aðra menn um­ræddan dag og kom þá meðal annars fram að hann hefði verið í för með tveimur eða þremur mönnum eftir að hann yfirgaf umrætt húsnæði. Við skýrslu­tökuna var haldlagt myndefni úr öryggis­mynda­vél­um á ætlaðri gönguleið hans borið undir stefn­anda. Stefnandi nafngreindi þá sam­ferða­menn sína og kannaðist við eða greindi frá hvert þeir voru að fara og hvar leiðir skildi og fékkst þá betri mynd á ferðir hans o.fl. Þá kannaðist stefnandi við að átök hefðu verið í umræddri íbúð fyrr um dag­inn þegar hann var þar inni en að brotaþoli hefði ekki verið í þeim átök­um. Stefn­­andi kann­aðist ekki við að hníf hefði verið beitt í átökunum eða að stefnandi hefði tengst þeim á nokkurn hátt. Mátti ráða af framburði stefn­anda að átökin hefðu átt sér stað sama dag en á öðrum tíma en þegar hin meinta hnífs­stunga átti sér stað. Stefn­­andi kannaðist við að eiga og ganga stundum með hníf á sér en að hann hefði hins vegar ekki verið með hnífinn á sér um­ræddan dag. Þá kannaðist hann ekki við fram­burð vitnis um að hann hefði verið að sveifla hníf í húsnæðinu. Stefnandi bar um að hníf­­ur­­inn hefði verið í leigu­herbergi sem hann hefði til umráða en var tregur til að veita lögreglu heimild til húsleitar og upp­lýsa með skýrum hætti hvar hann ætti heima en gerði það þó að lok­um. Stefnandi varð hins vegar við beiðni lögreglu um að teikna mynd af hnífnum. Þá bar stefnandi um að hann hefði verið í sam­skiptum við sam­leigjanda sinn um­ræddan dag en hann var hins vegar ekki að öllu leyti fús til að greina nánar frá þeim samskiptum eða hvenær dagsins þau hefðu átt sér stað.

Við skýrslutöku 7. desember 2014 í fangelsinu Litla-Hrauni taldi stefnandi að hann væri búinn að greina frá allri vitneskju sem hann hefði um sakarefni málsins. Stefn­­andi var til að byrja með ófús að greina frá atvik­­um á umræddum stað skömmu áður en hann fór þaðan burtu og vísaði til fyrri fram­­burðar sem hann hafði gefið. Þegar stefnanda var kynntur framburður nafngreinds vitnis kannaðist hann með semingi við að fyrrgreindur C hefði komið með gest með sér inn í íbúð­­ina, brotaþola málsins. Jafnframt virtist stefnandi með sama hætti kannast við að hafa verið ósáttur út í C fyrir það að hafa komið með brota­þola á staðinn og þeir hefðu farið að rífast út af því. Einnig hefði komið til nei­kvæðra orða­­skipta milli stefn­anda og brotaþolans út af þeim atvikum. Þá kannaðist stefnandi fremur treglega við að í framhaldi hefði komið til átaka eða stimpinga milli hans og C en jafn­framt að annar maður, E, hefði á sama tíma átt í úti­stöð­um við brota­þola. Stefn­andi vildi hins vegar ekki kannast við að brotaþoli hefði ætlað að koma C til varnar þegar hann var í átökum við stefnanda og þá verið stung­inn. Bar stefn­­andi því meðal annars við að hann hefði ekki verið með hníf á sér en var ófús að greina frá því hvort E kynni að hafa stungið brotaþola. Stefn­andi kann­­aðist ekki við neina hnífs­stungu eftir að hann og samferðamenn hans hefðu yfirgefið stað­inn eða að talað hefði verið um að kalla þyrfti til sjúkra­bifreið vegna slíkra atvika. Framan­greind svör stefn­­­anda virtust ein­kennast af nokkurri tregðu hans til að upplýsa málið, og þá kvaðst hann ekki hafa vit­neskju um hvað gerðist inni í íbúð­inni þar sem hann hefði ekki séð það eða að hann hefði verið farinn þaðan út. Stefn­andi kannaðist aftur ekki við að hafa verið að hand­leika hníf á staðnum en taldi hugsan­legt að vitni, sem hefði borið um það, hefði verið að greina frá slíku atviki sem kynni að hafa átt sér stað tveimur eða þremur vikum áður en meint hnífsstunga átti sér stað.

 

3.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2014, í máli nr. R-336/2014, var fallist á kröfu lögreglu um framlengingu á gæsluvarðhaldi og einangrun stefnanda til 15. sama mánaðar sem reist var á sama laga­grund­velli og verið hafði áður, nánar til­tekið vegna rannsóknarhagsmuna, auk þess sem tilhögun gæsluvarðhaldsins var ákveðin óbreytt varðandi aðrar takmarkanir. Þá var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæsta­réttar Íslands 10. desember 2014, í máli nr. 798/2014.

Í greinargerð lögreglu með fyrrgreindri gæsluvarðhaldskröfu, sem reifuð er í úr­skurði héraðsdóms, greinir meðal annars að samkvæmt upplýsingum lögreglu á þeim tíma hefðu stefn­­­­­­­­­andi og D komið að [...], ásamt þriðja manninum, E, skömmu áður en lögreglu bar að garði. Það hefði verið grunur lög­reglu út frá upplýsingum á þeim tíma að þeir þrír hefðu verið valdir að áverkum brota­þola. E hefði síðan verið handtekinn nokkrum dögum síðar, hann fengið réttar­­stöðu sak­­bornings og í framhaldi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna rann­sóknar máls­ins. Þá hefði lög­regla verið með upplýsingar um að fyrrgreindir þrír sak­born­ingar hefðu ráðist með höggum á brotaþola og annan mann á fyrrgreindum stað í um­rætt skipti. Í kjölfar barsmíðanna hefði brotaþoli verið stunginn og ekki væri ljóst hver hefði verið að verki en út frá gögnum lög­reglu og framburði manna sem hefðu verið á staðnum þá hefði grunur fallið á stefnanda og E. Einnig greinir að stefnandi hafi á þess­um tíma verið búinn að gefa fyrr­greindar skýrslur hjá lögreglu þar sem hann hefði neitað sök en þó kannast við að hafa verið á vettvangi og lent þar í átökum. Fram­­burðir sakborninga hefðu verið óstöð­ugir og reikulir en ítrekað hefði komið í ljós að þeir hefðu ekki greint rétt frá atvikum máls og ferð­um sínum umrætt kvöld. Mikil vinna hjá lög­reglu hefði farið í að rannsaka sann­­leiks­­gildi frásagna og þá hefði ekki legið ljóst fyrir hvort fleiri einstaklingar hefðu upp­lýsingar um málsatvik.

 

4.

Við skýrslutöku 12. desember 2014 í fangelsinu Litla-Hrauni var farið aftur yfir atvik málsins með stefnanda og hann spurður nánar út í þau. Í skýrslunni greinir meðal annars að stefnandi hafi aftur kannast við að hafa verið í átökum við fyrrgreindan C en að enginn hnífur hefði komið þar við sögu. Stefnandi hefði ekki getað borið um hvort eða hvað hefði gerst milli brotaþola og E og vísaði meðal annars til þess að það hefði verið dimmt á staðnum. Stefnanda var kynntur framburður brota­þola um að það hefði verið hann sem hefði stungið brotaþola og að hann hefði borið kennsl á stefn­anda eftir ljós­mynd­um við myndsakbendingu. Stefnandi vísaði þeim fram­­burði á bug og benti á að það hefði verið myrkur þegar atvik áttu sér stað. Þá taldi hann mögulegt að C hefði haft áhrif á fram­burð brotaþolans og það væri verið að reyna að koma á hann sök. Ítrekaði stefnandi að hann hefði ekki verið á staðnum þegar meint hnífs­stunga átti sér stað. Stefnandi kannaðist ekki við að einhver annar hefði verið með hníf á staðnum og þá kvaðst hann ekki hafa vit­neskju um það hver hefði stungið brotaþola.

 

 

5.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur 15. desember 2014, í máli nr. R-336/2014, var stefnanda, að kröfu lög­reglu, gert að sæta áfram gæslu­varðhaldi til 12. jan­úar 2015 á grundvelli almannahagsmuna með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldið var án einangrunar og annarra takmarkana sem verið höfðu áður. Þá var úrskurðurinn stað­festur með dómi Hæstaréttar Íslands 17. des­ember 2014, í máli nr. 829/2014.

Í greinargerð lögreglu með fyrrgreindri gæsluvarðhaldskröfu, sem reifuð er í úr­skurði héraðsdóms, var rannsókn máls­ins á þessum tíma rakin með sama hætti og áður greinir vegna undangengins gæsluvarðhalds en þó tekið fram að sak­born­ingarnir D og E hefðu verið leystir úr gæslu­varðhaldi nokkrum dögum áður. Tekið var fram að samkvæmt upp­lýs­ing­um lög­reglu á þeim tíma hefði legið fyrir að stefnandi hefði verið í átökum við fyrr­greindan C á umræddum stað, heimili áður­nefnds B. Brota­þoli hefði blandast í þau átök og í kjölfarið hefði hann verið stung­inn í brjóstið. Sak­borningar hefðu allir neitað því að hafa stungið brotaþola og ekki sagst vita hver hefði verið að verki. Á fatnaði E og stefn­anda hefði hins vegar fundist blóð sem lögregla hefði talið að rekja mætti til brotaþola en á þessum tíma hefði verið beðið eftir niður­stöðu rann­sóknar á lífsýnum. Brota­þoli hefði á þessum tíma verið búinn að gefa skýrslu en það hefði gengið erfið­­lega í fyrstu að fá framburð frá honum þar sem hann hefði verið mikið slasaður eftir árásina. Við skýrslu­töku vik­una á undan hefði brotaþoli hins vegar borið um að hann hefði blandast í átök milli stefn­­­anda og C umrætt skipti og það hefði verið stefnandi sem hefði stungið hann. Tekið var fram að vitnið B hefði borið um að hafa séð stefn­­anda sveifla hnífi á heimili hans skömmu fyrir átökin. Þá var vísað til fram­burðar­­skýrslna stefn­anda og afstöðu hans til sakar­efnis­ins.

 

6.

Með úr­skurði Héraðs­dóms Reykjavíkur 12. janúar 2015, í máli nr. R-13/2015, var stefn­­anda, að kröfu lögreglu, gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 9. febrúar sama ár á grundvelli almanna­hags­­muna, og áfram án takmarkana.

Í greinargerð lögreglu með fyrrgreindri gæsluvarðhaldskröfu, sem reifuð er í úr­skurði héraðsdóms, var rannsókn máls­ins á þessum tíma lýst með sama hætti og áður greinir. Til viðbótar var tekið fram að lög­regla hefði á þessum tíma aflað læknis­­vottorðs sér­fræðings við Landspítalann um afleið­ingar árás­ar­innar, og þar hefði komið fram að hún hefði verið mjög alvarleg og að mikil mildi hefði verið að brotaþoli hefði komist lífs af. Þá var auk þess tekið fram að rannsókn máls­­ins hefði á þess­um tíma verið langt á veg komin.

 

7.

Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 22. janúar 2015, í málum nr. R-26/2015 og R-27/2015, var lögreglu, með vísan til a-liðar 82. gr., sbr. 83. gr., laga nr. 88/2008, veitt heimild til að hlusta, hljóðrita og nema sam­­töl og önnur hljóð í heim­­sóknarherbergi í fangelsinu Litla-Hrauni sem stefnandi not­aði við móttöku gesta heimsóknardag­ana 23. og 24. sama mánaðar. Einnig var lög­reglu veitt heimild til að koma fyrir búnaði á svæði fangelsisins á þessum tíma í framan­­­­greindu skyni án vit­neskju stefn­anda o.fl. Með úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur 26. janúar 2015, í máli nr. R-31/2015, 27. janúar 2015, í máli nr. R-33/2015, 3. febrúar 2015, í málum nr. R-41/2015 og R-42/2015, og 5. febrúar 2015, í máli nr. R-44/2015, voru lögreglu áfram veittar sams konar heimildir til hlustunar o.fl. á sama stað vegna heim­sóknar­­daganna 27. og 28. janúar 2015 og 3., 4. og 5. febrúar sama ár.

Í greinargerðum lögreglu með fyrrgreindum kröfum, sem reifaðar eru í úr­skurðum héraðsdóms, var rannsókn málsins á þess­um tíma lýst með sama hætti og áður hafði verið gert vegna fyrri gæsluvarðhaldskrafna. Til viðbótar var tekið fram að lögreglu hefðu á þessum tíma borist upplýsingar um að hún væri hugsanlega með rangan mann í haldi og að sá sem hefði stungið brotaþola hefði verið D, sem upphaflega hafði sætt gæslu­varð­haldi á grund­velli rannsóknarhagsmuna. Lögregla hefði rætt við nokkra menn vegna þessa og upplýsingagjafar greint frá því að D hefði sjálfur verið að stæra sig af því, meðal vina sinna, að hafa stungið brotaþola. Enginn hefði þó fengist til að bera um slíkt í skýrslutöku hjá lögreglu og D neitaði alfarið sök. Að þessu virtu og þar sem sak­borningar og vitni hefðu verið treg til samstarfs við lögreglu vegna rannsóknar máls­ins þá hefði hún talið brýnt að reyna að upplýsa nánar um þann orðróm að lögregla hefði rangan mann í haldi. Einnig var tekið fram að lögregla hefði meðal annars á þess­um tíma hlerað símasamskipti sakborninganna D og E og að þeir hefðu rætt saman í síma en að þeir hefðu verið mjög orðvarir í sam­töl­um sínum. Lögregla hefði fengið upplýsingar um að stefn­­­­andi hefði óskað eftir að fá nokkra menn til sín í heim­sókn í fangelsið og að hann hefði fengið sam­þykki Fangelsis­­­­mála­stofnunar ríkisins fyrir þeim heim­­sóknum. Þá hefði það verið mat lög­­­reglu á þeim tíma að stefn­andi myndi ræða meinta árás við umrædda heimsóknar­gesti en meðal þeirra væri fólk sem hefði sjálft greint lögreglu frá því, utan skýrslu­töku, að D hefði stungið brota­­þola. Þá hefðu einnig verið meðal væntan­legra heim­sóknar­­­­gesta einstaklingar sem við rannsókn máls­­­­ins hefðu gefið skýrslu vitnis en verið mjög tregir til sam­­­starfs við lögreglu.

 

8.

Í samantekt um framangreindar herbergishlustanir greinir meðal annars að stefn­andi hafi í framangreindum heimsóknum rætt við heimsóknargesti um málsatvik o.fl. Í þeim samtölum hefði meðal annars komið fram vitneskja stefnanda um að hníf hefði verið beitt gegn brotaþola og hver hefði beitt hnífnum, auk þess sem stefn­andi hefði verið viðstaddur og nálægur þegar meint árás átti sér stað. Stefn­andi hefði rætt að­drag­anda meintrar árásar og sam­skipti sín við nafngreinda menn á staðnum, þar á meðal við brota­þola, og átök sem þar hefðu átt sér stað. Rætt hefði verið um þátt D og að hans aðkoma að málinu hefði verið önnur og meiri en hann hefði sjálfur borið um hjá lögreglu. Rætt hefði verið um ráð­stafanir til að fá framburði brotaþola o.fl. breytt og vit­­neskju sem fyrir lægi um hver hefði í raun verið að verki og í því sambandi hefði verið rætt um D sem meintan geranda. Í samtölum hefði einnig komið fram að stefn­­andi hefði talað um að hann hefði ekki greint frá þáttum nafn­­greindra manna varð­­­andi atvik máls til að koma í veg fyrir að þeir lentu í vand­ræðum. Þá hefði auk þess verið rætt um hefndar­ráðstafanir gagnvart brotaþola, D og C vegna fram­­­­burða sem þeir hefðu gefið og verið óhagstæðir fyrir stefnanda og leitt til þess að hann sætti gæslu­varðhaldi.

 

9.

Með úr­skurði Héraðs­dóms Reykjavíkur 9. febrúar 2015, í máli nr. R-56/2015, var stefn­­anda, að kröfu lögreglu, gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli almanna­hags­­muna og án sérstakra takmarkana, eins og verið hafði áður, fram til 16. febrúar sama ár, og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 12. sama mán­aðar, í máli nr. 109/2015.

Í greinargerð lögreglu með fyrrgreindri gæsluvarðhaldskröfu, sem reifuð er í úr­skurði héraðsdóms, var rannsókn máls­ins á þessum tíma lýst með sama hætti og áður. Til viðbótar var tekið fram að D, E og stefnandi hefðu gefið skýrslu fimm til sex sinnum og að þeir hefðu neitað að hafa stungið brotaþola og ekki sagst geta upplýst lögreglu um hver hefði verið að verki. Þá hefðu D og annar nafn­greindur maður borið um óvild og pirring stefnanda í garð C og að þeim hefði lent saman og átök orðið á milli þeirra þegar C hefði komið á staðinn. Stefn­andi hefði neitað sök og borið um að hann hefði ekki verið þekktur fyrir að slást með hníf­um en hann hefði hins vegar kannast við að ganga stundum með hníf á sér. Upplýst var um niðurstöður DNA-rannsóknar á blóði á fatnaði og höndum stefnanda, sem á þessum tíma hafði verið beðið eftir, og kom fram að sú rann­­sókn hefði ekki að öllu leyti skilað tilætluðum árangri, ekki hefði verið unnt að fá niðurstöður vegna hluta sýnanna. Hluti þeirra hefði staðfest blóð úr stefnanda sjálfum en einnig hefði greinst blóð úr öðrum manni en blóðsýnið hefði verið svo takmarkað að ekki hefði reynst unnt að samkenna það tilteknum manni. Þá var að nokkru vikið að fyrr­greindum her­bergis­­­hlustunum í fangelsinu Litla-Hrauni og tekið fram að stefn­andi hefði skýrt heim­­­sóknargesti frá því að það hefði verið D sem hefði stungið brota­þola. Stefn­anda hefði í framhaldi af hlustunum verið boðið að gefa nýja skýrslu vegna máls­ins sem hann hefði afþakkað. Framkomnar upp­lýsingar um meinta aðkomu D að hnífsstungunni hefðu verið bornar undir hann við skýrslu­töku 9. febrúar 2015 en hann hefði alfarið neitað sök og ekki sagst skilja hvað stefnanda hefði gengið til með frá­sögn sinni. D hefði vísað til framburðar brota­­þola um að stefnandi hefði veitt honum áverkana með hnífnum. Þá var tekið fram að rannsókn málsins hefði verið langt á veg komin á þessum tíma en beðið hefði verið eftir skýrslu réttarmeina­fræðings og að kapp hefði verið lagt á að ljúka rannsókninni og senda málið til með­ferðar hjá ríkis­­­saksóknara.

Stefnandi gaf skýrslu sakbornings fyrir héraðsdómi 9. febrúar 2015 að kröfu verj­anda síns og fór sú skýrslugjöf fram í þinghaldi samhliða fyrir­töku á fyrr­greindri kröfu um áfram­­­hald­andi gæsluvarðhald. Við þá dóm­skýrslu mun stefn­­­andi hafa borið um að það hefði verið D sem hefði verið að verki þegar brota­þoli hefði verið stunginn með hníf.

 

10.

Við skýrslutöku 11. febrúar 2015 í fangelsinu Litla-Hrauni breytti stefnandi fram­­burði sínum til samræmis við það sem komið hafði fram hjá honum við fyrrgreinda dómskýrslu tveimur dögum áður. Í skýrslunni greinir meðal annars að stefnandi hafi verið á staðnum þegar atvik áttu sér stað. C hefði komið með brotaþola í íbúðina og þeir tveir farið að rífast. Brotaþoli hefði verið með ögrandi framkomu við stefn­anda en hann ekki látið það á sig fá. Brotaþoli hefði tekið fram hníf og lagt hjá stefnanda og hvatt hann til að nota hann gegn sér. Stefnandi hefði tekið hnífinn og lagt hann frá sér á borð og beðið brotaþola að fara. Til frekari orðaskipta hefði komið en D hefði skyndilega risið upp og tekið hnífinn og beitt honum gegn brota­þola. Á þeim tíma hefði stefnandi hins vegar ekki gert sér grein fyrir því að hnífur­inn hefði verið opinn og að um hnífs­­stungu hefði verið að ræða. Brotaþoli hefði ekki sýnt merki þess að hafa fengið í sig hnífsstungu og þeir hefðu meðal annars rætt saman eftir atvikið. Brotaþoli hefði síðar verið liggjandi og þegar stefnandi hefði farið úr íbúðinni þá hefði hann sagt við C að það þyrfti að kalla til sjúkrabifreið. Stefn­andi hefði þá haldið að brotaþoli væri veikur eða beinbrotinn. Stefnandi hefði í fram­haldi farið af staðnum en komið til baka til að sækja dót sem hann hefði gleymt. Lög­regla hefði þá verið kom­in á staðinn og hann verið handtekinn. Stefnandi tók fram að hann hefði á þeim tíma þegar hann gaf skýrsluna haft vitneskju um að búið væri að ræða við brota­þola um að breyta framburði sínum og til stæði að hann drægi til baka framburð sinn varð­andi stefnanda. Þá upplýsti stefnandi einnig að búið hefði verið að ræða við C um hið sama og að stefnandi væri sak­laus og að C gerði sér grein fyrir því. Hið sama ætti við um fleira fólk sem tengdist brotaþola. Þeir sem hefðu vitneskju um málið og gætu staðfest framburð stefnanda væru hins vegar hræddir við að tala við lögreglu vegna mögulegra hefndar­aðgerða.

 

11.

Brotaþoli dró framburð sinn um stefnanda til baka undir lok rann­sóknarinnar en gögn málsins voru send til ríkissaksóknara með bréfi lög­reglu 12. febrúar 2015. Gæslu­­­­varðhald stefnanda rann út 16. sama mánaðar án þess að krafist væri fram­leng­ingar á því. Þann sama dag var stefnandi látinn laus en hann var þá búinn að sæta gæslu­varðhaldi samfellt í tólf vikur án þess að ákvörðun ákæranda um máls­höfðun eða niður­fellingu væri komin fram, sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með bréfi ríkis­saksóknara 20. febrúar 2015 var stefnanda tilkynnt að mál hans hefði verið fellt niður á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 þar sem það teldist ekki nægjan­­­legt eða lík­­legt til sakfellis.

Við aðalmeðferð gáfu skýrslu vitnis F lögreglumaður og G rannsóknarlögreglumaður.

 

 

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann hafi að ósekju sætt handtöku 23. nóv­ember 2014 ásamt líkamsrannsókn og í framhaldi gæslu­varðhaldsvist óslitið frá 24. sama mánaðar til og með 16. febrúar 2015. Þá hafi lögregla aflað upp­lýsinga úr símtæki hans ásamt því að hlusta á og hljóðrita samtöl hans í heimsóknarherbergi í fangelsi. Stefn­andi hafi samkvæmt framan­greindu nánar tiltekið verið látinn sæta frelsis­­sviptingu á grund­velli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 24. nóvember 2014 til 15. desember sama ár, en síðan á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga frá 15. desember 2014 til 16. febrúar 2015. Stefn­andi hafi frá fyrstu yfirheyrslu haldið fram sakleysi sínu og neitað allri aðild að mál­inu. Stefnanda hafi því verið gert að sæta frelsissviptingu að ósekju í alls 85 daga. Þá hafi stefnandi sætt algjörri einangrun hluta gæsluvarðhalds­vistar­innar, nánar tiltekið á tímabili frá 24. nóvember 2014 til 15. desember sama ár, auk heim­sóknar­­­banns, bréfaskoðunar og fjölmiðlabanns samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Stefnandi byggir á því að frelsissvipting sem þessi sé alvarleg skerðing á mann­rétt­­indum fyrir þann sem fyrir henni verði, þar með talið persónufrelsi, og teljist til þving­unar­­­­ráðstöfunar í þágu rannsóknar sakamáls sem gangi hvað lengst. Á sama hátt feli líkamsrannsókn og hlustun á samtölum í sér röskun mikil­vægra hags­muna og persónu­­­­réttinda er njóti friðhelgi og verndar, sbr. 71. gr. stjórnar­skrár Lýð­veldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum og alþjóðlega mannréttindasáttmála.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti, sbr. 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 17/2018, sbr. áður 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, þá eigi maður rétt á skaðabótum fyrir fjár­­­­­­hagslegt tjón og miska vegna að­gerða samkvæmt IX.–XIV. kafla sömu laga, þar með talið vegna handtöku, líkams­rannsóknar, gæsluvarðhalds o.fl., er beinist gegn honum sem sakborningi, að ósekju, vegna þess að þær sakargiftir sem á hann séu bornar reynist ekki vera réttar eða að sönnun hafi ekki fengist um þær. Því aðeins komi til álita að lækka bætur eða fella þær niður hafi sakborningur sjálfur valdið eða stuðlað að því að til aðgerða var gripið gagn­­­­vart honum eða þeim við­haldið, sbr. seinni málslið 2. mgr. 246. gr. laganna. Heimildir til frelsis­­skerðingar, án þess að áður hafi verið staðreynt hvort sakborningur hafi unnið til hennar, helgist fyrst og fremst af hagsmunum þjóð­félagsins af því að upplýsa afbrot í því skyni að unnt sé að beita refsingum lögum sam­­­­kvæmt. Heimildir lögreglu til að­gerða samkvæmt X. og XIII. kafla laga nr. 88/2008 helgist og af sömu ástæðum. Standi augljós rök til þess að maður sem þurfi að sæta frelsis­sviptingu og alvarlegri skerðingu á persónuréttindum í þágu almanna­­­­­­­hagsmuna eigi rétt á bótum eftir á frá ríkinu ef niðurstaða máls verður sú að rann­­­sókn þess leiði ekki til mál­sóknar gegn honum. Í slíkum bótarétti felist einungis að almenn­ingur, sem eigi þá hagsmuni sem kalli á frelsissviptingu og þvingunar­aðgerðir, greiði bætur til ein­staklings sem þurfi að fórna frelsi sínu tímabundið í þágu hans. 

Stefnandi vísar til 1. – 5. mgr. 67. gr. og 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár, sbr. 5. og 9. gr. laga nr. 97/1995, og 5. mgr. 5. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Stefnandi byggir á því að skilyrði bóta séu fyrir hendi enda hafi mál á hendur honum verið fellt niður, sbr. 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi hann hvorki valdið né stuðlað að aðgerðum ríkisvaldsins gagnvart sér. Stefn­andi vísar til þess að hann hafi allt frá fyrstu skýrslutöku 24. nóvember 2014 neitað nokkurri aðild að mál­inu og iðulega svarað spurningum rannsakenda.

Stefnandi byggir bótakröfu sína á þeim miska sem hann hafi orðið fyrir vegna framangreindra þvingunarráðstafana gagnvart honum sem sakborningi, nánar tiltekið vegna handtöku, líkamsrannsóknar, hlustunar og síðast en ekki síst vegna gæslu­varðhalds. Stefnandi vísar til alvarlegra sakargifta sem á hann hafi verið bornar, en málið hafi verið rannsakað sem meint brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegn­­ingarlaga nr. 19/1940. Stefnandi byggir á því að þessar alvarlegu sakar­giftir hafi valdið honum mikilli vanlíðan. Miski stefnanda felist auk þess í mann­orðs­­­missi, þján­ing­­um og óþægindum vegna umræddrar rannsóknar og frelsis­svipt­ingar sem hann eigi rétt á að fá bætt að svo miklu leyti sem unnt sé. 

Stefnandi krefst skaðabóta vegna ólögmætrar gæsluvarðhaldsvistar að fjárhæð 4.950.000 krónur. Þá gerir hann kröfu um bætur vegna ólögmætrar hlustunar og hler­unar og annarra rannsóknarúrræða lögreglu að fjárhæð 500.000 krónur. Samtala þess­ara tveggja krafna nemi 5.450.000 krónum sem sé stefnufjárhæð í málinu.

Stefnandi telur að ekki verði ráðið af lögum nr. 88/2008 hvað teljist vera hæfi­legar miska­bætur. Stefnandi vísar til meginsjónarmiða sem almennt gildi um miska­bætur í íslensk­um rétti en leggja verði til grundvallar að markmið með þeirri reglu sem komi fram í 5. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 feli það í sér að greiða skuli þeim sem sætt hefur gæsluvarðhaldi að ósekju bætur vegna tjóns sem ekki sé mögu­­­legt að meta til fjár eftir almennum mælikvarða, sbr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993. Í því sam­bandi byggir stefnandi á því að taka verði tillit til þess að hann hafi sætt gæslu­varðhaldi í fyrrgreindan dagafjölda uns mál hans var fellt niður með ákvörðun ríkis­­saksóknara 20. febrúar 2015. Á þeim tíma hafi stefnandi einnig sætt framan­greind­um takmörkunum.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi lagt fram bótakröfu hjá embætti ríkis­lög­manns 28. apríl 2017 þar sem gerð hafi verið krafa um mun lægri bótafjárhæð en sem nemi miskatjóni stefnanda. Sú krafa hafi verið lögð fram í þeirri von að sátt næðist í mál­inu. Af því hafi hins vegar ekki orðið. Að því virtu hafi stefnandi talið sig til­neyddan til þess að höfða mál þetta og gera ítrustu kröfur.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008. Þá byggir hann á 95. og 97. gr. sömu laga og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár.

Við málflutning við aðalmeðferð kom fram að stefnandi byggði einnig á því, til við­bótar við framangreindar málsástæður, að ef talið yrði að umræddar rannsóknar­aðgerðir hefðu að einhverju leyti átt rétt á sér miðað við atvik máls og skyldur lög­reglu í þeim efnum og það hvernig stefn­andi kom fram gagnvart lögreglu og hagaði fram­burði sínum, þá hafi aðgerðirnar engu að síður gengið of langt eða staðið of lengi yfir. Af hálfu stefnda var því ekki mót­mælt að máls­ástæður þessar kæmust að í málinu, þrátt fyrir að þær væru ekki hafðar uppi í stefnu. Að þessu virtu koma þær til úrlausnar í mál­inu að því marki sem við á. 

Með hlið­sjón af niðurstöðu málsins þykja ekki efni til að greina frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefnanda til stuðnings vaxtakröfu, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Varðandi kröfu um máls­kostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og að öðru leyti til ákvæða XXI. kafla sömu laga, auk laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt og tekur fram að stefnandi sé ekki virðisauka­skatt­sskyldur aðili. Þá vísar stefn­­andi til framangreinds gjafsóknarleyfis.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á því að ekki séu skilyrði til að dæma bætur á þeim lagagrundvelli sem stefnandi byggi mála­tilbúnað sinn á eða öðrum sem stefnandi kunni að vísa til í stefnu, þar með taldar eru almennar reglur skaðabótaréttar. Þá telur stefndi óljóst hvort stefnandi reisi mála­tilbúnað sinn á 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi telur ekki uppfyllt skilyrði til að taka kröfur stefnanda að neinu leyti til greina og mót­mælir hann öllum kröfum hans og máls­­ástæðum.

Stefndi vísar til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og þeirra lagaskilyrða sem þar greinir varðandi handtöku. Stefndi vísar til þess að frumskilyrðið fyrir handtöku sé að fyrir hendi sé rök­studdur grunur um að maður hafi framið brot sem sætt geti ákæru. Í tilviki stefn­anda þá hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hann hefði framið slíkt brot en frásögn hans og annarra manna á vettvangi hafi verið misvísandi. Þá hafi stefnandi við fyrstu skýrslu­­­­töku verið afar óskýr og ekki virst láta allt uppi. Stefndi telur að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um rökstuddan grun sé óskýrt en þó sé ljóst að eitthvað meira en grun­semdir einar og sér þurfi að liggja fyrir. Stefndi bendir á að við handtöku hafi fundist blóð á fatnaði og höndum stefnanda og þá hafi hann og vitni verið með mis­­­vísandi frá­sagnir af því hvernig það atvikaðist. Einnig liggi fyrir í málinu að stefn­andi hafi verið á vettvangi. Stefndi telur þannig ljóst að skilyrði fyrir handtöku um rök­­studdan grun hafi verið uppfyllt eins og atvikum var háttað. Jafn­framt byggir stefndi á því að ekki þurfi að liggja ljóst fyrir við handtöku hvað nákvæmlega það sé sem viðkomandi hafi gerst sekur um, né heldur þurfi að liggja ljóst fyrir hver sé þáttur hans í því broti sem sé til rannsóknar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 17. febrúar 2005, í máli nr. 370/2004. Þá hafi handtaka stefnanda verið nauð­synleg til að tryggja návist hans, eins og fram komi í frumskýrslu, sem og til að koma í veg fyrir spillingu sönnunargagna vegna áframhaldandi rannsóknar málsins, svo sem með því að hafa áhrif á aðra grunaða, af­má merki eftir brot eða skjóta undan munum. Stefndi tekur fram að við umrædda handtöku hafi ekki verið búið að afla allra tiltækra sönnunar­gagna, þar á meðal hafi ekki verið búið að taka skýrslur af stefnanda eða öðrum mönn­um sem tengdust málinu. Í því sambandi vísar stefndi til þess að taka þurfi tillit til þess að fjöldi manns hafi verið á vettvangi þegar lögregla kom á staðinn í upphafi og máls­atvik verið afar óljós. Í öllu falli hafi hegðun stefnanda og skýringar hans á blóði á fatnaði, sárum á höfði, auk annarra atriða, verið afar óljós. Stefnandi hafi verið undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola með hníf, stungið hann í brjóstið og veitt honum áverka sem hæglega hefðu getað banað honum. Meint brot stefn­anda hafi verið talið sérstaklega alvarlegt og það talið getað varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 19/1940 en refsing við slíku broti geti verið fangelsi í 16 ár eða ævilangt. Stefndi byggir þannig á því að fullnægt hafi verið öllum skilyrðum 90. gr. laga nr. 80/2008 fyrir um­ræddri handtöku og að ekki hafi verið gengið of langt við fram­kvæmd hennar. Að því virtu mótmælir stefndi því að brotið hafi verið gegn skilyrðum 90. gr. laga nr. 88/2008.

Stefndi byggir á því að allar þvingunarráðstafanir lögreglu og aðrar aðgerðir við rann­sókn málsins hafi verið lögmætar og fullyrðingum stefnanda sem gangi gegn því sé mót­­mælt sem röngum. Stefndi vísar til þeirra ákvæða laga nr. 88/2008 sem eigi við varð­andi hverja þvingunarráðstöfun fyrir sig og til þeirra úrskurða sem liggi þar að baki. Nánar tiltekið vísar stefndi til IX., X., XI., XIII. og XIV. kafla laga nr. 88/2008, auk þeirra lag­a í heild.

Stefndi reisir sýknukröfu meðal annars á því að stefnandi eigi ekki rétt á bótum þar sem hann hafi valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi bótakröfu sína á, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Um hafi verið að ræða meint alvarlegt brot gagnvart brotaþola og miklu hafi varðað fyrir framhald máls­ins hvernig skýringum stefnanda og framferði að öðru leyti var háttað miðað við þær aðstæður sem voru uppi í málinu. Stefnanda hafi við þessar að­stæður mátt vera ljóst mikil­vægi þess að skýra undanbragðalaust og greinilega frá öll­um atvikum varð­andi málið og aðkomu hans að málinu og að framburðurinn væri með þeim hætti að unnt væri að afla staðfestingar á því að hann væri réttur.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið samvinnuþýður og telur hann að at­vik máls sýni fram á hið gagnstæða. Lögregla hafi ítrekað þurft að leita úrskurða héraðs­­­­­­dóms fyrir rannsóknaraðgerðum þar sem stefnandi hafi neitað að verða við rann­­­­­­sóknar­­beiðnum. Stefnandi hafi verið mjög ósamvinnuþýður við skýrslutökur og fram­­­burður hans verið óstöðugur og reikull og ítrekað hafi komið í ljós að hann greindi ekki rétt frá atvikum. Í því sambandi vísar stefndi til að mynda til þess að það hafi fyrst verið 9. febrúar 2015, við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi, að hann hafi greint frá því hver það hefði verið sem hefði stungið brotaþola. Stefndi telur þannig að máls­­atvik sýni fram á það að stefnandi hafi með framferði sínu sjálfur stuðlað að þeim að­gerðum sem gripið var til. Allar aðstæður við rannsókn málsins, þar með talið hegðun stefnanda, óljósar skýringar, útúrsnúningar og breyttur framburður, hafi kallað á að­gerðir lögreglu. Þá vísar stefndi sérstaklega til hlustunargagna, sem aflað var síðar undir rekstri málsins, en þar komi skýrlega fram að stefnandi hafi verið ósamvinnu­­­­þýður, ekki skýrt rétt frá atvikum og að hann hafi reynt að greina ranglega frá þeim.

Stefndi áréttar að hann haldi því þó ekki fram að stefnandi sé þrátt fyrir allt sekur um þann verknað sem hafi verið til rannsóknar. Stefndi mót­mælir því að stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt þeim réttarheimildum sem vísað sé til í stefnu. Stefndi byggir jafnframt á því að ósönnuð séu sjónarmið stefnanda um van­líðan, mann­orðs­missi, þján­ingar og óþægindi. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki verið lengur í haldi en nauðsyn var á og að tími sem hafi farið í rannsókn málsins hafi verið vel nýttur.

Með hlið­sjón af niðurstöðu málsins þykja ekki efni til að greina frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefnda vegna vaxtakröfu stefnanda, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Hið sama á við um málaástæður og lagarök stefnda vegna varakröfu hans.

Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstöður:

Í 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að maður sem borinn er sökum í sakamáli eigi rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 246. gr. lag­­anna skal dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.–XIV. kafla téðra lag­a ef skilyrði 1. mgr. 246. gr. laganna eru fyrir hendi. Af þessu leiðir að bætur vegna saka­­máls verða ákveðnar á hlutlægum grundvelli og skiptir þá ekki máli þótt fullt til­efni hafi verið til ráðstafana gagnvart sakborningi eins og málið horfði við lögreglu þegar gripið var til aðgerða. Þó er sá fyrirvari settur í 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. laganna að fella megi bætur niður eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim að­­­gerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Af framangreindu leiðir að úrlausn þess hvort stefnandi hafi fyrirgert rétti þeim til bóta sem mælt er fyrir um í 1. málsl. 2. mgr. 246. gr. téðra laga, eða hvort bætur skuli sæta lækkun, veltur á því hvort stefnandi hafi í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bóta­kröfur hans eru reistar á. Er í þessu sambandi til þess að líta að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnar­skrár og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem stefn­andi vísar einnig til bótakröfu sinni til stuðn­ings, ber að túlka, eins og rakið er í dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. október 2000, í máli nr. 175/2000, með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal eigin sök.

Stefnandi var handtekinn umrætt kvöld eftir að hafa komið á brotavettvang stuttu eftir hina meintu hnífaárás og gaf hann skýrslu undir miðnætti sama kvöld á lögreglu­stöð­­­inni við Hverfisgötu sem handtekinn maður með réttarstöðu sakbornings. Þá var hand­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­tökunni viðhaldið eftir skýrslutökuna uns hann var færður fyrir dómara að kvöldi næsta dags og úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhald stefnanda var síðan fram­­lengt í fjögur skipti, þar af í eitt skipti á sama grundvelli og áður, auk þess að hann var látinn vera í einrúmi, en eftir það í þrjú skipti á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga og án einangrunar og annarra takmarkana, uns það var ekki framlengt frekar og hann lát­inn laus 16. febrúar 2015. Á gæsluvarðhalds­tíma frá 24. nóvember 2014 til 15. desember sama ár sætti stefnandi einnig tak­mörk­un­­um samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 samkvæmt ákvörðun lögreglu. Með þessu var skertur réttur stefnanda til persónu­­­frelsis sem almennt er varinn af 67. gr. stjórnar­skrár, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995 og 5. gr. mann­rétt­­inda­­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Stefnanda var gert að sæta líkams­rannsókn á grundvelli 1. mgr. 77. gr., sbr. 2. mgr. 78. gr. laga nr. 88/2008, að fengnum dómsúrskurði 24. nóv­em­ber 2014. Einnig liggur fyrir að stefnandi féllst á það tveimur dögum síðar, sem rétthafi til­tekins far­síma­­­­­­­­­­­númers, að veita lögreglu heimild til að afla upp­lýsinga um notkun síma­númers­ins frá fjar­­­­­­­­­­skipta­fyrirtæki vegna tímabilsins 23. til 24. nóvember 2014 en sú upp­­lýsinga­­­­­­­­öflun var reist á heimild samkvæmt 80. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 84. gr., laga nr. 88/2008. Við meðferð sakamála er alkunna að með hinni síðar­­­­nefndu rannsóknaraðgerð er lög­reglu meðal annars gert kleift að fá yfirlit frá fjar­skipta­­­­fyrirtæki um símasamskipti úr og í símanúmer, tímalengd sím­tala, upp­­lýsingar um skráða rétt­hafa annarra símanúmera sem tengjast síma­­­númeri, auk þess sem unnt er að afla upp­lýsinga um staðsetningu á sím­tæki á fjarskiptasendi á til­teknum tíma þegar símanúmer er í notkun. Þá var stefnanda auk þess að fengnum dóms­­­úrskurðum gert að sæta herbergis­hlust­unum í fangelsinu Litla-Hrauni á grundvelli a-liðar 82. gr., sbr. 83. gr., laga nr. 88/2008 vegna heim­­­­sóknar­dag­anna 23., 24., 27. og 28. janúar 2015 og 3., 4. og 5. febrúar sama ár. Með framangreindum rannsóknaraðgerðum var skert frið­helgi einka­lífs stefnanda sem nýtur almennt verndar sam­kvæmt 71. gr. stjórnar­­­­­­skrár, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995, og 8. gr. mann­­réttinda­­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Ágreiningslaust er að framan­greindar rannsóknaraðgerðir sem stefn­andi sætti falla undir bóta­skyldu sam­kvæmt 1. málsl. 2. mgr., sbr. 1. mgr., 246. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ágrein­ings­laust að ákvörðun ríkissaksóknara 20. febrúar 2015 um niður­­fellingu máls stefn­anda var loka­­­­­­ákvörðun í skilningi 1. mgr. sömu lagagreinar.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið um máls­­­atvik þá liggur fyrir að lög­regla taldi rétt og nauðsynlegt að hand­­­­­­­­­­­­­­taka stefnanda og láta hann sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna fram til 15. desember 2014. Við mat dómsins á því er rétt að líta til þess að þegar lögregla kom á vettvang hafði meint brot ný­lega verið framið og brota­þoli var þá alvarlega slasaður með áverka sem bentu til hnífs­­stungu. Þá kom stefn­­­andi á vett­vang stuttu síðar ásamt öðrum manni og taldi sig eiga erindi á staðnum. Málsatvik voru óljós í upphafi og stefnandi var sjálfur með áverka á sér o.fl. sem gat bent til þess að hann tengdist meintri árás með sak­næm­um hætti. Þá gerði stefn­andi takmarkaða grein fyrir ferðum sínum fyrir og eftir meint brot. Við slíkar aðstæður er lög­­­­­­reglu samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 almennt rétt að hand­­­taka mann ef rök­­studdur grunur leikur á því að hann hafi framið brot sem sætt geti ákæru enda sé hand­­­­­­taka nauðsynleg til að tryggja návist sakbornings og koma í veg fyrir að sakar­gögnum verði spillt. Hið sama á við um beitingu gæslu­varðhalds samkvæmt a-lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Að mati dómsins voru slíkar aðstæður uppi umrætt kvöld og næstu þrjár vikur á eftir fram til 15. desember 2014 varð­andi stefn­­­­­­­­­­anda, eins og gögn málsins bera með sér. Um var að ræða meint alvarlegt brot sem gat leitt til ákæru og varðað þungri fangelsisrefsingu. Á þessu tímabili var óljóst um meintan geranda og rann­sókn skammt á veg komin en meint atvik skýrðust eftir því sem leið á gæslu­varðhaldstímann, einkum eftir að brotaþoli gaf skýrslu undir lok tímabilsins og bar kennsl á stefnanda við mynd­sakbend­ingu. Fram að þeim tíma var hætta á því að stefnandi gæti samræmt fram­­burð sinn miðað við framburði annarra, haft áhrif á vitni eða skotið undan sönn­unar­­­gögnum. Að þessu virtu verður fallist á það með stefnda að lög­reglu hafi í um­­rætt skipti verið rétt og nauð­­­synlegt að handtaka stefn­anda á framan­greindum grund­­velli og við­­­halda hand­­­­­­­­­tök­unni uns hann var færður fyrir dómara innan sólarhrings frests, sbr. 1. málsl. 94. gr. laga nr. 88/2008. Hið sama á við um gæslu­varðhald og einangrun stefn­anda vegna rann­sóknar­hagsmuna næstu þrjár vikur, auk annarra fyrrgreindra tak­markana vegna til­högunar gæslu­varðhalds á sama tímabili, og verður ekki fallist á með stefnda að lögregla hafi gengið of langt í þess­um efnum enda ríkir rannsóknar­hags­­munir í húfi, framburðir misvísandi og rannsóknin nokkuð um­fangis­mikil. 

Við mat á bóta­skyldu stefnda vegna framangreindrar hand­töku og gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna er til þess að líta að stefn­­­­andi ákvað sjálfur, ásamt fleiri mönnum, að snúa til baka á brotavettvang og þá blóð­­­­­­­ugur og með áverka á höfði og höndum eftir að hafa hafst þar við stuttu áður. Að mati dómsins var þetta til þess fallið að lögregla hefði rétt­­mæta ástæðu til að ætla að stefnandi væri undir rök­studd­um grun um aðild að meintri hnífa­árás. Einnig kom fram síðar undir rannsókn máls­­ins, miðað við framburð stefnanda sjálfs, einkum þess framburðar sem hann gaf 11. febrúar 2015, sem að framan er rakið, að stefn­­­andi vissi frá upp­­hafi að átök áttu sér stað í hús­­næðinu sem beindust að brotaþola, hann hafði sjálfur horft upp á það að annar maður notaði hníf eða hnífs­skaft gegn brota­­þola auk þess sem hann hafði sjálfur, í beinu framhaldi af þeim atvik­um, sagt öðrum manni, sem þar var staddur, að það þyrfti að kalla til sjúkra­­bifreið vegna brota­þolans. Þess­­­­­­um upp­­lýsing­um leyndi stefn­­andi hins vegar þegar hann var hand­tekinn og þegar hann gaf skýrslu hjá lög­reglu um­rætt kvöld eftir handtöku og var það and­­­stætt skyldu hans sem sak­born­­ings til að skýra satt og rétt frá hjá lögreglu kysi hann á annað borð að tjá sig um sakar­efnið, sbr. 2. og 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Hið sama á við um síðari skýrslur stefnanda hjá lög­reglu 2., 7. og 12. desember 2014 á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli rann­­­­­­sóknar­hagsmuna. Gögn málsins bera með sér að stefnanda var kynnt réttarstaða sakbornings við framangreindar skýrslutökur og hann áminntur um sann­sögli, auk þess sem hann naut aðstoðar verjanda við skýrslutökurnar. Að öllu þessu virtu er það mat dóms­­­­­ins að rétt sé að fella niður bætur til stefn­­anda þar sem hann hafi sjálfur stuðlað að framan­­­greindri hand­­töku og gæslu­­­­varð­haldi á framangreindu tíma­bili.

Stefnandi sætti gæsluvarðhaldi án einangrunar og annarra takmarkana frá 15. des­ember 2014 til 16. febrúar 2015 vegna almannahagsmuna á grund­velli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Á þessu níu vikna tímabili lá fyrir að sakarefni málsins var talið varða við 211. gr., sbr. 1 mgr. 20. gr. laga nr. 19/1940, sem meint tilraun til mann­dráps, en efri mörk refsiramma vegna slíks brots eru allt að 16 ára eða ævilangt fang­elsi. Um var að ræða meinta lífshættulega hnífs­stungu í hjartastað samkvæmt læknis­fræði­­legum gögn­um sem þá lágu fyrir og sakar­efnið var því talið vera mjög alvarlegt á almennan mæli­kvarða og gat mögulega varðað við framangreind refsiákvæði. Þá var sönnunarstaða málsins auk þess talin vera sterk gagnvart stefnanda, einkum með hlið­sjón af því að brotaþoli hafði borið kennsl á stefnanda við mynd­sakbend­ingu sem meintan ger­­­anda í málinu. Við þessar aðstæður var lögreglu rétt að krefjast áfram­hald­andi gæslu­­­­­varðhalds á grund­velli almanna­hagsmuna og var ekki gengið of langt í því efni enda féllust dóm­­­­­stólar í þrjú skipti á það mat lög­­reglu eins og áður greinir og laga­skilyrði gæsluvarðhaldsins voru talin vera uppfyllt. 

Við mat dómsins á bótaskyldu stefnda vegna framan­greinds gæsluvarðhalds á grund­­­­­­velli almanna­hags­muna þykja sömu sjónarmið eiga við og lögð hafa verið til grund­­­vallar í tengslum við framangreint mat á bótaskyldu út af handtöku og gæslu­varðhaldi vegna rann­sóknar­­hagsmuna. Stefn­­andi var undir rökstuddum grun um framn­­­­­ingu meints brots og bera málavextir með sér að grunur lögreglu hafi styrkst eftir því sem leið á rann­sóknina. Þá stuðlaði hann sjálfur að hinu fram­lengda gæslu­varðhaldi með því að liggja á mikil­væg­um upp­­­lýs­ingum og greina rangt frá mikil­­vægum atvikum máls, and­stætt fyrrgreindri sann­leiks­­skyldu, uns hann gaf skýrslu fyrir dómi 9. febrúar 2015 og hjá lögreglu 11. sama mán­aðar. Við mat á við­brögð­um lögreglu eftir 9. og 11. febrúar 2015 og því hvort stefnanda hafi verið haldið of lengi í gæsluvarðhaldi, eftir að hann breytti fram­burði sínum, er til þess að líta að rannsókn málsins var á þeim tíma á lokastigi og lá fyrir að senda rann­sóknar­­­gögn til ríkis­saksóknara til ákvörðunar um saksókn, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi hafði á þessum tíma sætt óslitnu gæslu­varð­haldi í ellefu vikur og hafði framburður hans verið óskýr á köflum og ekki nægjan­lega stöðugur og auk þess í nokkru ósam­ræmi við framburði annarra. Sönn­unar­staða málsins var talin vera sterk, meðal annars þar sem brotaþoli hafði áður borið kennsl á stefnanda við mynd­sakbendingu og sagt hann vera meintan árásar­mann. Þá höfðu dómstólar tekið undir sönnunar­mat lögreglu í þá veru með því að verða við kröfum um fram­lengingu gæslu­varðhalds á framan­greind­­um laga­grund­velli. Stefnandi hafði nokkrum dögum fyrir 9. febrúar 2015 af­þakkað boð lög­reglu um að gefa nýja skýrslu eftir að hlustanir og hljóð­­ritanir í heim­­­­sóknar­herbergi lágu fyrir. Í skýrslu vitnisins G rannsóknar­lögreglu­manns við aðalmeðferð kom fram að úr­vinnsla hlustunar á hljóð­rituðum samtölum, sem fram fóru á pólsku, með aðstoð túlks hjá lög­reglu, hefði legið fyrir hjá lög­reglu nokkrum dögum eftir að hljóð­ritanir fóru fram. Fyrir liggur að í þeim hljóð­ritunum voru meðal annars samtöl stefnanda við heimsóknargesti um að gera ætti ráð­stafanir til að fá brota­­þola o.fl. til að draga framburði til baka, auk mögulegra hefndar­­ráðstafana vegna fyrri fram­­burðar brota­þola og annars manns hjá lög­reglu. Þá bar G um að brotaþoli hefði undir lok rannsóknar málsins gefið skýrslu hjá lögreglu og hann ekki talið víst að stefnandi hefði verið sá maður sem stakk hann en jafn­framt tekið fram að framburður hans væri að öðru leyti réttur. Þá hefði brotaþoli auk þess upplýst að fyrrgreindur C hefði verið búinn að ráðleggja honum að breyta fram­burðinum. Skýrsla vitnisins F lögreglumanns við aðalmeðferð um hinn breytta framburð brotaþola og atvik í tengslum við breyttan framburð var af svip­uðum toga. Þá kom einnig fram í skýrslu G og F við aðalmeðferð að nauð­synlegt hefði verið á þessum tíma, í ljósi breytts framburðar, að fara vel yfir rann­­­sóknar­gögn málsins næstu daga á eftir en umfangið hefði verið mikið.

Í ljósi þessara sérstöku atvika undir lok rannsóknar málsins og með vísan til framburða vitnanna F og G er það mat dómsins að lög­reglu og ákæru­valdi hafi verið nauðsynlegt að fá hæfi­legt svigrúm næstu daga á eftir til að fara vel yfir þá stöðu sem upp var komin í málinu, yfirfara rannsóknargögnin og leggja mat á áreiðan­­leika breytts fram­burðar stefn­­anda og brota­þola á meðan gæsluvarðhald stefn­anda var enn í gildi, allt fram til 16. febrúar 2015. Verður því ekki fallist á það með stefn­anda að gæsluvarðhald hans hafi varað lengur eða gengið hafi verið lengra en þörf var á, sbr. 3. mgr. 53. gr. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Að öllu þessu virtu er það mat dóms­­ins að rétt sé að fella niður bætur til stefn­­anda þar sem hann hafi sjálfur stuðlað að framan­­­­­greindu gæslu­­­­varð­haldi.

Að því er varðar líkamsrannsókn og öflun upplýsinga um símanúmer þá liggur fyrir að stefn­andi var ásamt fleiri mönnum undir rökstuddum grun um sak­næma aðild að meintu alvar­legu ofbeldisbroti. Á þeim tíma sem umræddar rann­sóknar­aðgerðir fóru fram var rannsókn málsins skammt á veg komin. Að mati dómsins voru málsatvik á þeim tíma verulega óljós, stefnandi neitaði allri aðild að meintu broti og framburður hans var óskýr, þar með talið um ferðir hans og samskipti við aðra menn á þeim tíma sem um ræðir. Þá var stefnandi auk þess með áverka á sér sem gátu hugsanlega tengst atvikum máls. Að mati dómsins var lögreglu því rétt og nauðsyn­legt á þessum tíma að ganga úr skugga um hvort blóð úr brota­þola eða öðrum væri á honum eða fatnaði hans. Þá var auk þess rétt og nauð­synlegt að afla upp­lýsinga um síma­sam­skipti stefnanda við aðra menn og staðsetningu símtækis hans með tilliti til þess hvar hann var staddur fyrir og eftir meint brot svo betri mynd fengist á málið. Er því fallist á með stefnda að framan­greindar rannsóknaraðgerðir hafi verið lög­mætar og nauð­synlegar og er ekki fallist á með stefnanda að of langt hafi verið gengið í þeim efnum. Með vísan til þess sem að framan er rakið um eigin sök stefnanda varð­­­­andi hand­töku og gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna þá er það mat dómsins að hið sama eigi við um framan­­greinda líkams­rannsókn og rann­­­sókn á notkun á síma­númeri hans og að rétt sé að fella niður bætur til hans þar sem hann hafi sjálfur stuðlað að þeim rann­sóknar­­aðgerð­um.

Eins og áður greinir sætti stefnandi hlustun og hljóðritun samtala í heimsóknar­herbergi í fangelsinu Litla-Hrauni, að undangengnum dómsúrskurðum, vegna heim­sóknar­­­dagana 23., 24., 27. og 28. janúar 2015 og 3., 4. og 5. febrúar sama ár. Eins og rakið er í málavöxtum hér að framan þá var tilefni umræddra rannsóknar­aðgerða að lögregla fékk upplýsingar frá nokkrum einstaklingum um að stefnandi sætti ranglega gæsluvarðhaldi, annar sakborningur, sem hefði verið látinn laus, hefði í raun verið að verki og þá hefðu umræddir upplýsingagjafar ekki fengist til að koma fram undir nafni og gefa skýrslu. G rannsóknar­lögreglu­maður og F lögreglumaður báru báðir um það fyrir dómi að erfiðlega hefði gengið að fá vitni til samstarfs við lögreglu. Miðað við þá stöðu sem var uppi við rann­sókn málsins á þessum tíma og með hliðsjón af skyldum lögreglu samkvæmt 1. og 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 má telja að henni hafi verið rétt og skylt að grípa til um­ræddra rannsóknar­aðgerða í því skyni að bregðast við framkomnum upp­lýs­ing­um og leitast við að upplýsa málið. Þá liggur auk þess fyrir að umræddar hlustanir rúmuðust innan heimilda sam­kvæmt a-lið 82. gr., sbr. 83. gr., laga nr. 88/2008 enda var fallist á þær kröfur lögreglu fyrir Héraðs­dómi Reykja­víkur við rann­sókn málsins á þeim tíma. Með sömu rökum verður ekki fallist á það með stefnanda að of langt hafi verið gengið í þeim efnum. Með vísan til þess sem áður er rakið um eigin sök stefn­anda og einkum og sér í lagi þar sem hann á þessum tíma lá á mikil­væg­um upp­lýsingum og greindi rangt frá mikilvægum atvikum, andstætt áðurnefndri sann­leiks­­skyldu, þá er það mat dómsins að hann hafi sjálfur stuðlað að um­ræddum hlust­­unum og því sé rétt að fella niður bætur til hans vegna þeirra.

Stefnandi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því að framangreindar rann­­sóknar­aðgerðir, eða rannsókn málsins að öðru leyti, hafi falið í sér ólögmæta mein­gerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26 gr. laga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þá er auk þess ósannað að rannsóknin hafi valdið honum vanlíðan, mannorðsmissi, þján­ing­um og óþægindum.

Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­­­þóknun lögmanns hans, Ólafs V. Thordersen, sem þykir hæfilega ákveðin 1.240.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostn­aðar, 11.993 króna með virðisaukaskatti, samtals 1.251.993 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur V. Thordersen lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen lögmaður.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

       Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir héraðs­­­­­­­dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ólafs V. Thorder­­sen, 1.240.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar, 11.993 króna, samtals 1.251.993 krónur.

 

                                                                        Daði Kristjánsson