• Lykilorð:
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Kröfulýsingarfrestur
  • Skuldabréf
  • Tryggingarbréf
  • Vanlýsing

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. janúar 2019 í máli nr. X-12/2018:

 

A

(Bjarni Aðalgeirsson lögmaður)

gegn

B

(Helgi Birgisson lögmaður)

 

Mál þetta hófst með því að skiptastjóri varnaraðila Helgi Birgisson lögmaður sendi kröfu til dómsins með bréfi 31. júlí sl. sem barst dómnum 8. ágúst. Þar er óskað eftir úrlausn um ágreining undir skiptum samkvæmt 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Sóknaraðili er A og varnaraðili þb B.

 

Sóknaraðili krefst þess að krafa að fjárhæð 150.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. október 2014 og til greiðsludags, á grundvelli skuldabréfs, útgefnu af þrotamanni 3. október 2008, verði við skipti varnaraðila viðurkennd sem veðkrafa þannig að hún njóti veðtryggingar á 2. veðrétti í eign varnaraðila að ...., og sé skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá er krafist málskostnaðar.

 

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun varnaraðila að synja kröfu sóknaraðila á grundvelli skuldabréfs útgefnu 3. október 2008 og hafna því að hún njóti veðréttar í fasteigninni ..., samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 3. mars 2009. Þá er krafist málskostnaðar.

 

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum ... 2017 var bú B, tekið til gjaldþrotaskipta og var Helgi Birgisson lögmaður skipaður skiptastjóri þrotabúsins á úrskurðardegi. Innköllun birtist í Lögbirtingablaðinu fyrra sinni ... 2017 og lauk kröfulýsingarfresti 30. janúar 2018. 

 

Þann 8. febrúar 2018 sendi skiptastjóri þrotabúsins tölvuskeyti á lögmann A og tilkynnti honum að hún ætti tryggingarbréf á 2. veðrétti í eign þrotabúsins, .... Eignin væri veðsett Íslandsbanka hf. en á 2. veðrétti hvíldi tryggingarbréf frá sóknaraðila. Tryggingarbréfið var útgefið af B 3. mars 2009, að fjárhæð 160.000.000 kr., til tryggingar skuldum B við A, eins og þær kynnu að vera „á hvaða tíma sem er“. Hafði A þarna ekki lýst kröfu í þrotabúið vegna þess og til stæði af hálfu þrotabúsins að ráðstafa eigninni. Í kjölfarið mun skiptastjóra að sögn hafa verið gerð grein fyrir þeirri afstöðu sóknaraðila að hún ætlaði ekki að aðhafast neitt í málinu.

 

Í framhaldinu sóttist skiptastjóri eftir því að sóknaraðili aflýsti tryggingarbréfinu. Kveðst skiptastjóra hafa gengið erfiðlega að fá beiðnina uppfyllta. Hafi svo farið á endanum að sóknaðili hafnaði því að aflýsa bréfinu af eigninni þar sem hún taldi að ekki hefði verið þörf kröfulýsingar þar sem krafa hennar nyti veðréttar í ofangreindri fasteign.

    

Þann 14. júní 2018 átti skiptastjóri síðan fund vegna ágreiningsins með fulltrúa lögmanns sóknaraðila. Á fundinum var ágreiningurinn ræddur en þrotabúið bar fyrir sig að kröfur sem sóknaraðili A kynni að hafa átt í búið og tryggðar voru með umræddu tryggingabréfi væru fallnar niður vegna vanlýsingar, en jafnframt hafi sóknaraðili lýst því sérstaklega yfir í erindi til skiptastjóra að hún hygðist ekki „aðhafast neitt“ út af kröfu sinni. Þessu mótmælir sóknaraðili sem röngu.

 

Lögmaður kröfuhafa hélt því fram að umbjóðandi hans hefði ekki verið búin að taka endanlega ákvörðun um afskrift kröfunnar, enda hefði ekki legið fyrir hvort hún hefði fjárhagslega hagsmuni af því að halda kröfunni við. Skiptastjóri tilkynnti að hann héldi við afstöðu sína varðandi málið. Lögmaður kröfuhafa mótmælti þeirri afstöðu skiptastjóra, sem í kjölfarið vísaði ágreiningnum til héraðsdóms til úrlausnar.    

 

Skiptastjóri kveður ágreining aðila tvíþættan. Annars vegar sé deilt um það hvort sóknaraðili eigi í raun lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila og hins vegar hvort slík krafa, ef viðurkennd yrði, njóti veðréttar í fasteign þrotabúsins á grundvelli tryggingarbréfs sem gefið var út 3. mars 2009.

 

II.

Sóknaraðili byggir á því að hann eigi gilda kröfu á hendur varnaraðila sem tryggð sé með veði í eign varnaraðila að .... Þá byggir sóknaraðili á því að krafa hans komist að við skipti varnaraðila og sölu eignarinnar á grundvelli 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, og almennra reglna eignarréttar.

 

Sóknaraðili byggir á því að vanlýsing geti aldrei haft áhrif á eignarréttindi hans sem felast í tryggingarréttindum sem þinglýst séu á fasteign varnaraðila. Slík réttindi njóti áfram verndar á grundvelli eignarréttar og geti sóknaraðili því leitað fullnustu krafna sinna í þeim réttindum enda hafi þrotabúið aldrei getað eignast frekari eignarrétt yfir fasteignum þrotamanns en þrotamaður átti. Eignarréttur þrotamanns og varnaraðila yfir fasteigninni að ... hafi því, frá því tryggingarbréfi var þinglýst á eignina, verið takmarkaður af tryggingarrétti sóknaraðila.

 

Í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991 sé mælt fyrir um að krafa á hendur þrotabúi, sem ekki er lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga, falli niður gagnvart því nema svo standi á, sem í einhverjum af sex töluliðum fyrrnefndu lagagreinarinnar segi, enda sé ekki unnt að fylgja kröfunni fram gagnvart þrotabúinu eftir 116. gr. laganna. Í 4. mgr. sömu lagagreinar felist sú meginregla að lánardrottinn, sem nýtur heimildar til fullnustu fjárkröfu á hendur þrotabúi án frekari dóms, sáttar eða aðfarar í skjóli tryggingarréttinda fyrir henni í eign þess, geti fylgt þeim rétti sínum eftir án tillits til þess hvort hann hafi lýst kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin.

 

Sóknaraðili njóti því heimildar til fullnustu fjárkröfu sinnar á hendur varnaraðila í samræmi við 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Kröfulýsingar hafi því ekki verið þörf.

 

Tryggingarbréf sóknaraðila hvíli ennþá á fasteigninni að ... enda hafi sóknaraðili ekki gefið neina þá yfirlýsingu sem veitt gæti varnaraðila heimild til að fara fram á aflýsingu tryggingarbréfsins. Sóknaraðili hafnar því að hafa gefið nokkrar skuldbindandi yfirlýsingar um að hann hygðist ekki nýta tryggingarrétt sinn í eigninni. 

 

Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 111. gr. og 116. gr. laganna. Þá byggir sóknaraðili enn fremur á almennum reglum eigna- og kröfuréttar og meginreglum skiptaréttar um úthlutun. Aukinheldur byggir sóknaraðili á 72. gr. stjórnarskrárinnar, reglum um veðrétt sem meðal annars birtast í lögum nr. 75/1997 um samningsveð og þinglýsingalögum nr. 39/1978. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

 

III.

Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að einhver skuld sé að baki skuldabréfinu. Skuldabréfið sé sagt gefið út 3. október 2008, að fjárhæð 150.000.000 kr.. með einum gjalddaga 3. apríl 2009. Skuldabréfið sé með sjálfskuldarábyrgð C, bróður sóknaraðila, þrotamanns og fyrrum viðskiptafélaga. Varnaraðili kveður það óneitanlega vekja undrun að svo há krafa skuli fyrst koma fram rúmum níu árum eftir gjalddaga, þegar kröfulýsingarfrestur í þrotabú ætlaðs skuldara sé löngu runninn út.

 

Til þess að meta megi réttmæti kröfunnar sé, að mati varnaraðila, nauðsynlegt að sóknaraðili upplýsi um aðdraganda, ástæður og tilurð skuldabréfsins, og leggi fram gögn um allar greiðslur eða millifærslur sem tengjast stofnun kröfuréttarins. Jafnframt verði upplýst um innheimtuaðgerðir vegna skuldabréfsins, hvort sem þær hafi beinst að skuldara eða ábyrgðarmanni, C, og hvort greitt hafi verið af skuldinni af hálfu annars hvors. Þá er skorað á sóknaraðila að leggja fram staðfest afrit af skattframtölum sínum árin 2009-2018, svo staðreyna megi að kröfunnar umþrættu sé þar getið. 

 

Verði talið að sóknaraðili hafi við upphaf gjaldþrotaskipta átt lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila, þá byggir varnaraðili á því að henni hafi borið að framfylgja kröfu sinni á hendur þrotabúinu með því að lýsa henni fyrir skiptastjóra innan kröfulýsingarfrests, sbr. 117. gr. gjaldþrotalaga. Það gerði sóknaraðili ekki og hafi krafan þannig fallið niður gagnvart þrotabúinu, sbr. 1. mgr. 118. gr. laganna.  

 

Varnaraðili hafnar því að sóknaraðila hafi ekki borið að lýsa kröfu sinni.  Tryggingarbréfið hafi verið gefið út 3. mars 2009, fimm mánuðum síðar en skuldabréfið. Þar segi að iðnaðarfasteign varnaraðila við ..., ásamt fleiri fasteignum og lausafé, sé sett sóknaraðila að veði til tryggingar greiðslu á skuldum sem varnaraðili „nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda að ábyrgjast A vegna skulda skv. skuldabréfum, lánasamningum, svo og þær skuldir aðrar“ sem varnaraðili kunni að stofna til við sóknaraðila. Á skjali sem þinglýst hafi verið 26. september 2016 heimili sóknaraðili veðbandslausn af fasteigninni ..., sem hafi verið veðsett. Einnig komi fram í skjalinu og á afriti tryggingarbréfsins að áður hafi önnur veðandlög þ.e. þrjú ökutæki, hjólhýsi og sumarhús, verið leyst úr veðböndum. Eftir stæði því veðsetning ....

 

Í 118. gr. gjaldþrotalaga sé að finna þá meginreglu íslensks gjaldþrotaréttar að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingarfrests þá tapist krafan gagnvart þrotabúinu sökum vanlýsingar. Í 1.- 6. tl. ákvæðisins séu undantekningar frá framangreindri meginreglu, en ágreiningslaust sé að engin þeirra eigi við um kröfu sóknaraðila. Í upphafsorðum 118. gr. laganna felist einnig undantekning sem varði veðsetningar, en þar segi að krafa glatist ekki ef henni verður fylgt eftir gagnvart þrotabúinu eftir ákvæðum 116. gr. laganna. En af hálfu sóknaraðila sé á því byggt að hún njóti heimildar til fullnustu kröfu sinnar á grundvelli 4. mgr. 116. gr. Lagaákvæðið leyfi kröfuhafa að framfylgja rétti sínum óháð kröfulýsingu í þeim tilvikum er hann getur krafist nauðungarsölu á eign búsins á grundvelli 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Í 2. tl. 6. gr. sé heimild til nauðungarsölu á eign á grundvelli þinglýsts samnings um veðrétt í eign fyrir tiltekinni kröfu. Þar sé fyrst og fremst átt við veðskuldabréf sem heimili nauðungarsölu á gjaldfallinni greiðslu á skuld samkvæmt skuldabréfinu, þ.e. skv. þinglýstu veðskuldabréfi sem beri með sér hver skuldin sé. Í þessu máli sé því ekki að heilsa. Hið þinglýsta tryggingarbréf beri ekki með sér hvort eða hvaða kröfur sóknaraðili eigi á hendur varnaraðila. Krafa sóknaraðili sé samkvæmt 10 ára skuldabréfi sem ekki hafi notið veðréttar sem slíkt og tapaðist því gagnvart þrotabúinu þegar henni var ekki lýst.

 

Lýsing kröfu sóknaraðila hafi verið nauðsynleg til þess að tryggja veðréttinn. Þar sem krafa sóknaraðila á grundvelli skuldabréfsins sé fallin niður fyrir vanlýsingu leiði af því að veðrétturinn sem hún kann að hafa notið sé jafnframt fallin niður.

 

Þann 8. febrúar 2018 hafi skiptastjóri sent varnaraðila tölvupóst á lögmann sóknaraðila og tilkynnt honum að umbjóðandi hans ætti tryggingarbréf sem hvíldi á 2. veðrétti fasteignar þrotabúsins við .... Hún hefði ekki lýst neinni kröfu í þrotabúið og til stæði af hálfu þrotabúsins að ráðstafa eigninni. Í kjölfarið hafi sóknaraðili lýst því yfir að hún hygðist ekki „aðhafast neitt“ út af kröfu sinni og myndi verða við ósk skiptastjóra um að aflýsa tryggingarbréfinu. Nokkru síðar hafi sóknaraðila snúist hugur og hafnað því óvænt að aflýsa skjalinu þrátt fyrir fyrra loforð. Er á því byggt af hálfu varnaraðila að hvað sem öðru líði hafi sóknaraðili samþykkt að krafa henni væri niður fallin og skuldbundið sig til að aflýsa tryggingarbréfinu af eigninni. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu hennar í málinu.

 

Um helstu lagaákvæði er vísað til meginreglna kröfuréttar um stofnun kröfuréttinda.

Þá er byggt á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, um nauðsyn kröfulýsingar og um vanlýsingaráhrif. Um málsmeðferðina vísast til 24. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og almennra reglna um meðferð einkamála.

 

IV.

Enginn ágreiningur er um það að sóknaraðili lýsti engum kröfum í þrotabú B, varnaraðila þessa máls, á kröfulýsingarfresti. Engri kröfu á grundvelli veðréttinda og engum fjárkröfum. Þá er enginn sjáanlegur ágreiningur um að ákveðnar veðkröfur eru almennt ekki undirseldar meginreglum 1. mgr. 117. gr. sbr. 1. mgr. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 um að kröfum beri almennt að lýsa á kröfulýsingarfresti ef til greina á að koma að þær komist að við þá sameiginlegu fullnustugerð sem gjaldþrotaskipti eru. Sóknaraðili byggir á því að þessi sérstaða sem veðkröfur geta í vissum tilvikum haft eigi við um kröfu hennar. Undantekningarákvæði 1. mgr. 118. gr. sem vísar til 116. gr. laganna eigi þannig við. Í 4. mgr. 116. gr. sé þannig vísað til veðkrafna og heimildar til að krefjast nauðungarsölu á eign þrotabús, en sú grein hafi verið talin leiða til þess að veðkröfum þurfi ekki að lýsa á kröfulýsingarfresti til að þær haldi gildi sínu.

 

Dómurinn telur vafalaust að veðskuldabréf sem tryggð eru með veði í eign þrotabús halda alla jafnan gildi sínu þótt ekki sé lýst kröfu á grundvelli þeirra á kröfulýsingarfresti og þrotabú getur ekki varist nauðungarsölu eftir sex mánaða frestinn sem settur er í 4. mgr. þótt kröfu hafi ekki verið lýst. Komi enda fjárhæð kröfunnar skýrt fram og skilyrði um að hægt sé samkvæmt veðkröfunni að krefjast nauðungarsölu án frekari dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. niðurlag ákvæðisins, sé fullnægt.

 

Dómurinn telur á hinn bóginn að reglan gildi ekki í tilviki eins og um ræðir í þessu máli. Í málinu er sóknaraðili eigandi og handhafi tryggingabréfs sem hvílir á 2. veðrétti í eign þrotabúsins. Tryggingarbréfið sem gefið var út af B 3. mars 2009 er til tryggingar: ...„skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem ég, nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda eða ábyrgjast A ...., vegna skulda skv. skuldabréfum, lánasamningum, svo og þær skuldir aðrar, sem ég ábyrgist A sem lánveitanda eða eiganda slíkrar kröfur að samtals fjárhæð allt að IKR 160.000.000‟.

 

Eðli máls samkvæmt hefur veðréttur sem þessi, ekkert gildi og heftir í raun með engu móti raunveruleg eignarráð eiganda veðandlags, þ.e. þau sem máli skipta, ef sá sem nýtur veðréttarins, veðhafi, á enga kröfu á veðsala eða þann sem gaf tryggingarbréfið út. Vitaskuld getur slíkt bréf verið til trafala fyrir eiganda veðandlags á meðan það er áhvílandi, en raunveruleg eignarréttindi og hugsanleg hlutdeild í verðmæti hinnar veðsettu eignar er ekki til staðar.

 

Undir þessum kringumstæðum telur dómurinn að nauðsynlegt sé fyrir kröfuhafa að lýsa á kröfulýsingarfresti kröfum sínum á hendur þrotabúi ef hann hyggst nýta tryggingarbréf líkt því sem fjallað er um í máli þessu til að freista þess að fá lúkningu þeirrar kröfu hvort sem er að fullu eða að hluta. Krafa sú sem nú hefur verið lýst af hálfu sóknaraðila og krafist er greiðslu á af andvirði hinnar veðsettu eignar við ráðstöfun hennar, þ.e. ef og þá eins og verðmæti hennar hrekkur til, er í sjálfu sér ótryggð. Eina tryggingin er sjálfskuldarábyrgð C, bróður aðila, en bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir að kröfulýsingarfresti lauk var því staðan sú að krafan var sem slík fallin niður gagnvart búinu og kemur því sem slík ekki til álita undir skiptunum að óbreyttu samkvæmt 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991, en því er ekki haldið fram að einhver undantekningarákvæði þeirrar greinar eigi við í málinu.

 

Dómurinn telur þegar af þessari ástæðu ótækt að krafan í raun vakni til lífsins þegar kröfuhafa hentar og sé það á skjön við þá meginreglu að kröfuhafar við þá sameiginlegu fullnustugerð sem gjaldþrotaskipti eru, skuli sitja við sama borð, að því slepptu að þeim er skipað með mismunandi hætti í réttindaröð samkvæmt 109. til og með 114. gr. laga nr. 21/1991.

 

Einnig verður horft til þess að kröfuhafar, sem og skiptastjóri þrotabús, eiga undir hefðbundnum kringumstæðum að geta jafnan áttað sig til fulls á stöðu þrotabúsins við lok kröfulýsingafrests, sbr. framangreindar meginreglur um kröfulýsingu. Kröfuhafar eiga, beri þeir sig eftir björginni, hægt um vik að staðreyna til að mynda fjárhæðir veðskulda þar sem um raunverulega skuld er að ræða sem er þá áhvílandi á tilteknu veðandlagi í eigu þrotabús. Þessi kostur er kröfuhöfum eða skiptastjóra undir venjulegum kringumstæðum ekki tækur ef um tryggingarbréf er að ræða eins og í þessu máli, fyrir ótilteknum og óþekktum skuldum, ef slíkum kröfum er ekki lýst. Ef kröfuhafi telur sig þannig á einhverjum tímapunkti geta heimfært, kröfu sem væri í eðli sínu ótryggð, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, undir ákvæði tryggingarbréfs sem hvílir á eign þrotabús, þá beri honum að lýsa slíkri kröfu á kröfulýsingarfresti. Að öðrum kosti sé krafa niður fallin gagnvart búinu og verði þannig heldur ekki komið að með þeirri leið að fella hana undir ákvæði tryggingarbréfs sem þess er hér um ræðir. Dómurinn telur með rökum hægt að líkja þessu saman við lögveðrétt, sem vissulega er tryggður með lögum eðli máls samkvæmt, en ætti engin áhrif að hafa, t.a.m. á síðari veðhafa eða eftir atvikum aðra kröfuhafa bús, sé slíkum kröfum ekki lýst á kröfulýsingarfresti. Gildir það þótt slík krafa hafi sannanlega verið til áður en til gjaldþrots kom eða orðið til undir gjaldþrotaskiptunum sjálfum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 222/2001. Þar sagði m.a.: „Þótt kröfur varnaraðila, sem um ræðir í málinu, kunni að hafa verið þess efnis að þær gætu hafa notið sjóveðréttar í fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51 samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga, verður ekki horft fram hjá því að slíkur veðréttur gæti aðeins staðið til tryggingar kröfum, sem varnaraðilarnir ættu á hendur þrotabúi fyrrum vinnuveitanda síns og eiganda skipsins, Sæunnar Axels ehf. Samkvæmt áðursögðu eru kröfur, sem varnaraðilar kunna að hafa átt á hendur þrotabúinu og þeir rekja til áðurgreindra atvika, fallnar niður vegna vanlýsingar. Er þá sjálfgefið að sjóveðréttur, sem varnaraðilar kunna að hafa notið, sé jafnframt fallinn niður.“

 

Þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðili lýsti ekki kröfu í þrotabú varnaraðila innan kröfulýsingarfrests eins og honum bar að mati dómsins samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 verður kröfum sóknaraðila því hafnað og staðfest afstaða skiptastjóra undir búskiptunum, til kröfunnar.

 

Er þá ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili eða fulltrúar hennar hafi með yfirlýsingum sínum til skiptastjóra skuldbundið sig með óafturkræfum hætti gagnvart þrotabúinu að lýsa engum kröfum á grundvelli tryggingarbréfsins heldur hafi þess í stað áformað að aflýsa bréfinu.

 

Jafnframt er þá ekki ástæða til að fjalla um þá málsástæðu varnaraðila, um hvort krafa sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu frá 3. október 2008 sé með slíkum ólíkindablæ og hvort meðferð hennar á kröfunni, eða öllu heldur aðgerðarleysi allt til dagsins í dag, bendi til þess að ekki sé um raunverulega kröfu að ræða, jafnvel málamyndagerning.

 

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðili dæmd til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilegur 500.000 krónur.

 

Fyrir sóknaraðila flutti málið Bjarni Aðalgeirsson lögmaður og fyrir varnaraðila Helgi Birgisson lögmaður.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. október sl.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, A, er hafnað. Staðfest er sú ákvörðun varnaraðila að synja kröfu sóknaraðila á grundvelli skuldabréfs útgefnu 3. október 2008 og jafnframt sú ákvörðun skiptastjóra að hafna því að hún njóti veðréttar í fasteigninni ..., samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 3. mars 2009.

 

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi B, 500.000 krónur í málskostnað.

 

                 Lárentsínus Kristjánsson