• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Önnur mál

 

DÓMUR

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2019 í máli nr. E-1023/2017:

Dagbjartur Bogi Ingimundarson

Rafn Ingimundarson

(Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

gegn íslenska ríkinu

(María Thejll lögmaður)

Landsneti hf.

(Lárus Blöndal lögmaður)

og Rarik ohf.

(Lárus Blöndal lögmaður)

 

I.        

Mál þetta sem þingfest var 28. mars 2017, höfða Dagbjartur Bogi Ingimundarson, Brekku í Núpasveit, og Rafn Ingimundarson, Grófarsmára 5 í Kópavogi á hendur Landsneti hf., Rarik ohf. og íslenska ríkinu. Aðalmeðferð málsins fór fram 25. mars sl. og var málið í kjölfarið tekið til dóms.

Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur í málinu 

 1) Að öllum stefndu verði sameiginlega gert að þola dóm um að fjarlægja öll mannvirki, þ.e. aðveitustöð og tengd spennuvirki, sem reist hafa verið í landi Brekku og eru inni á landi númer 154223 samkvæmt stofnskjali af landi stefnanda innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dóms í málinu að viðlögðum dagsektum 50.000 krónur fyrir hvern dag sem stefndu láta hjá líða að fjarlægja mannvirkin.

2) Að stefndu verði sameiginlega gert að lagfæra landsspjöll og koma í fyrra horf landi vegna jarðrasks vegna aðveitustöðvar og mannvirkja tengdum starfsemi vegna aðveitustöðvarinnar í landi Brekku, að viðlögðum dagsektum fyrir hvern dag sem stefndu láta hjá líða að koma landinu í fyrra horf.

3) Að viðurkennt verði með dómi að stefnendur eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefndu sameiginlega vegna afnota af landi stefnenda vegna aðveitustöðvarinnar og spennuvirkja henni tengdri frá árinu 1978 til þess dags er efndir hafa farið fram á kröfum samkvæmt fyrsta og öðrum lið dómkrafna stefnenda. 

Stefndu Landsnet hf. og Rarik ohf. krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum dómkröfum stefnenda og að stefnendur verði sameiginlega dæmdir til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist, verði fallist á aðra og þriðju kröfu stefnenda um að fjarlægja mannvirki og lagfæra „landsspjöll“, að frestur stefndu til að verða við skyldu um að fjarlægja mannvirki og lagfæra land verði 10 ár.

Stefndi íslenska ríkið krefst sýknu af öllum kröfum stefndu og að stefnendum verði gert að greiða málskostnað.

 

II.    Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins verður upphaf þess rakið til þess að á árunum 1976-77 hafi orðið ljóst að stækka þyrfti aðveitustöðina við Kópasker sem þá var í landi Brekku í Öxarfirði. Ágreiningslaust er að viðræður við þáverandi landeiganda á Brekku um að stækka aðveitustöðuna skiluðu ekki árangri og var því ákveðið að færa aðveitustöðina úr landi Brekku yfir á jörðina Snartarstaði, sem liggur að jörðinni Brekku að norðanverðu og er í eigu stefnda íslenska ríkisins.

Aðveitustöðin sem mál þetta snýst um var reist árið 1978 á landi sem þá var talið tilheyra Snartarstöðum og gerðu þáverandi landeigendur Brekku því ekki athugasemdir við þá staðsetningu. Á þeim tíma var einnig afmörkuð lóð undir aðveitustöðina eins og sjá má í uppdrætti sem fyrir liggur í málinu.

Fasteignin var síðan skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands (áður Fasteignamati ríkisins), með fastanúmer 216-6621 og landnúmer 154223, undir nafninu Snartarstaðir lóð undir aðveitustöð. Í skráningu fasteignamats kemur fram að um sé að ræða 5.600 fermetra viðskipta- og þjónustulóð sem á hvílir aðveitustöð, byggingarár sé 1979 og lóðarmat sé 171.000 kr. Þann 22. janúar 2007 var stofnskjali lóðarinnar þinglýst ásamt upphaflegri afstöðumynd frá 1978.

Árið 1997 gerði annar stefnenda athugasemdir af hálfu Brekku við stefnda um að lóðin sem aðveitustöðin stendur á væri innan jarðarinnar Brekku. Fyrir liggur að af hálfu stefnda Rarik ohf. og stefnenda fóru fram viðræður til lausnar deilunni. Í bréfi þáverandi lögmanns annars stefnenda, dags. 24. október 1997, var stefnda gert tilboð um að hafa afnot af landinu til 2010 gegn greiðslu tiltekins gjalds. Í bréfinu kemur fram að náist ekki samkomulag í samræmi við tilboðið sé áskilinn réttur landeiganda til þess að líta svo á að stefndi hafi „í raun tekið umráð lands hans, sbr. meginreglu 2. ml. 15. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og að [landeigandi] eigi þar með rétt til (ígildis) eignarnámsbóta.“ Jafnframt er í bréfinu áskilinn réttur „til að krefjast þess að matsnefnd eignarnámsbóta taki hugsanlegan ágreining aðila til úrlausnar, sbr. meginreglur 6. gr. sömu laga.“

Þá var í bréfinu tekið fram að þar „sem fyrra ástandi verður ekki komið á nema með mikilli eyðileggingu verðmæta, sbr. hæstaréttardóma H1949:407 (410) og H1955:67(69), sbr. og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu lögbann o.fl. verður [landeigandi] að láta sér nægja fébótarétt þann sem hann á samkvæmt almennum reglum, sbr. hæstaréttardóm H1949:407 (410)“. Ekki náðist samkomulag um endurgjald á þessum tíma.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnendur hafi leitað til núverandi lögmanns síns í mars 2002 og falið honum umboð til að gæta hagsmuna sinna. Með bréfi lögmannsins, dags. 11. mars 2002, til Rafmagnsveitna ríkisins, voru gerðar athugasemdir við staðsetningu aðveitustöðvarinnar og reifaðar nokkrar hugmyndir að lausn málsins. Ein þeirra væri að Rafmagnsveitur ríkisins fjarlægðu þegar öll mannvirki í landi Brekku og greiddi fyrir þau afnot sem þær hefðu haft af landinu, en einnig voru settar fram hugmyndir um að aðilar næðu samkomulagi um afnot af landinu eða leitað yrði til matsnefndar eignarnámsbóta. Þá settu stefnendur fram tillögur um að leitað yrði til sýslumanns til að staðreyna hvort aðveitustöðin væri í landi Brekku eða Snartarstaða. Samkvæmt gögnum málsins átti lögmaður stefnenda í samskiptum í framhaldinu við Rafmagnsveitur ríkisins og lögmann þeirra án þess að samningar næðust milli aðila.

Fyrir liggur að lögmaður stefnda Landsnets hf. ritaði landbúnaðarráðuneytinu bréf, dags. 29. desember 2005, þar sem bent var á að Rafmagnsveitur ríkisins hefðu afsalað 21,9% hlutdeild sinni í aðveitustöð/spennistöð við Kópasker í landi jarðarinnar Snartarstaða þann 21. desember 2005, en fasteignin hefði fastanúmerið 216-6621. Í afsalinu kemur fram að stöðin standi á 3.500 leigulóð með lóðarnúmeri 154223. Þá segir í afsalinu að Rafmagnsveitur ríkisins hf. og Landsnet hf. muni eiga fasteignina í óskiptri sameign. Þá kemur fram í afsalinu að hlutdeild Landsnets hf. í lóðaréttindum skuli vera önnur en í fasteigninni að öðru leyti og afsali Rafmagnsveitur ríkisins þar með 11,5% leigulóðarréttindanna til Landsnets hf.

Í bréfinu til ráðuneytisins frá 29. desember 2005 kemur fram að afsalið væri hluti stærri eignayfirfærslugernings, en samkvæmt 10. gr. raforkulaga nr. 65/2003 væri raforkufyrirtækjum skylt að selja eða leigja búnað sem ætlaður væri til raforkuflutnings til Landsnets hf. Væri það í samræmi við markmið raforkulaga um að greina á milli framleiðslu, dreifingar og sölu á raforku.

 Í framhaldinu er rakið í bréfinu að afsal vegna aðveitustöðvarinnar hafi verið lagt inn til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Húsavík og hafi þá komið í ljós að ekki væri formlega búið að ganga frá stofnun þeirrar lóðar sem aðveitustöðin stæði á, þ.e. með þinglýsingu stofnskjals í samræmi við lög nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Þar sem ráðuneytið færi með hagsmuni ríkisins vegna eignarinnar væri þess farið á leit við ráðuneytið að það gæfi út stofnskjal vegna lóðarinnar sem aðveitustöðin væri á og að jafnframt yrði gerður lóðarleigusamningur við eigendur stöðvarinnar, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsnet ehf. og að gögn um það yrðu send til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Húsavík.

Í kjölfar þessa gaf jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins út stofnskjal, dags. 18. janúar 2006, þar sem 5.600 m² lóð úr landi Snartarstaða var afmörkuð undir aðveitustöð. Um nánari afmörkun lóðarinnar var vísað til meðfylgjandi uppdráttar sem dagsettur var 13. september 1978. Skjalinu var þinglýst á jörðina 23. janúar 2007.

Stefnendur gerðu athugasemdir við útgáfu þessa skjals með bréfum, dags. 15. október 2008 og 12. nóvember 2008. Í framhaldinu reis ágreiningur á milli stefnenda og stefnda íslenska ríkisins um landamerki jarðanna með tilliti til spildunnar sem aðveitustöðin og spennuvirkin stóðu á.

Að beiðni skrifstofustjóra landbúnaðarráðuneytisins var Sigurður Þór Guðmundsson héraðsráðunautur fenginn til þess að leggja mat sitt á ágreiningsefnið. Í greinargerð Sigurðar, dags. 25. ágúst 2008, er vikið að því að ágreiningur sé milli ábúenda Snartarstaða og eiganda og ábúanda Brekku um hvar á Kollufjalli miða skuli landamerkjalínuna. Þannig hefðu ábúendur Snartarstaða haldið því fram að miða ætti við vörðu sunnan til í Kollufjalli, en stefnandi Dagbjartur Bogi teldi að miða ætti við topp fjallsins. Vegna þessa ágreinings teldu báðir aðveitustöðina standa í sínu landi. Taldi Sigurður sig ekki hafa forsendur til þess að skera úr um hvor hefði rétt fyrir sér um túlkun landamerkjalýsingarinnar.

Á meðan þessum bréfaskiptum stóð setti Alþingi lög nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, en lögin tóku gildi 3. maí 2006. Í 1. gr. þeirra laga var kveðið á um að ráðherra skyldi stofna hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og leggja til þess allar eignir þeirra og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Þá sagði í 1. mgr. 10. gr. laganna að hlutafélagið skyldi taka til starfa 1. ágúst 2006 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins skyldu lagðar niður frá og með þeim degi og þá jafnframt falla niður umboð stjórnar fyrirtækisins. 

Stefnendur höfðuðu mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á landamerkjum Brekku og Snartarstaða með stefnu sem þingfest var 20. mars 2013. Með dómi Hæstaréttar frá 10. september 2015 í máli nr. 637/2014 var fallist á kröfugerð stefnenda um að landamerki milli Brekku og Snartarstaða í Norðurþingi lægju eftir línu, sem dregin væri frá hnitapunkti A í kröfugerð stefnenda, við sjávarkambinn á Syðranesi, í hnitapunkt B samkvæmt kröfugerð þeirra, sem væri steinninn í Reiðgarði. Þaðan lægi merkjalínan í hnitapunkt C samkvæmt kröfugerð stefnenda, sem væri varða efst á Kollufjalli. Úr vörðunni lægi merkjalínan í mynni Klíningsskarðs í hnitapunkt D samkvæmt kröfugerð stefnenda, úr honum í hnitapunkt 3 samkvæmt kröfugerð stefnda, íslenska ríkisins, og þaðan í hnitapunkt E samkvæmt kröfugerð stefnenda, þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur niður í Blikalónsdal að vestanverðu.

Lögmaður stefnenda ritaði í framhaldi af dóminum bréf til sýslumannsins á Húsavík 29. febrúar 2016 þar sem gerð var krafa um að stofnskjal, dags. [18.] janúar 2006 yrði afmáð úr þinglýsingarbók á grundvelli 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Í bréfinu vísaði lögmaðurinn til þess að stofnskjalið hefði verið gefið út á þeirri forsendu að aðveitustöðin væri í landi Snartarstaða en í dómi Hæstaréttar frá 10. september 2015 hefðu verið „tekin af öll tvímæli og staðfest að spennistöð [...] [væri] í landi Brekku.“

Sýslumaður svaraði erindi lögmannsins með bréfi, dags. 13. apríl 2016. Í bréfi sýslumanns sagði meðal annars svo:

 

„Í 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 er kveðið á um að verði þinglýsingarstjóri þess áskynja að færsla í þinglýsingarbók sé röng skal hann bæta úr. Ekki er hægt að ráða af dómsniðurstöðu hæstaréttardóms 637/2014 að staðfesting á tilteknum landamerkjum milli jarðanna Brekku og Snartarstaða hafi falið í sér að aðveitustöð sem áður hafi verið í landi Snartarstaða sé nú í landi Brekku. Í greinargerð með frumvarpi til þinglýsingarlaga kemur fram að 1. mgr. 27. gr. eigi við það, að skjal hafi ranglega verið fært í þinglýsingarbók. Þar kemur einnig fram að ef dómari kemst að því að skjal sem vísa skyldi frá þinglýsingu, hafi verið þinglýst, þá sé ekki gerlegt að vísa skjalinu frá þinglýsingu á þessu stigi, heldur sé dómara þá unnt að gera athugasemd um þetta efni í þinglýsingarbók. Vera megi t.d. að útgefanda skjals hafi skort þinglýsta heimild til eigna, en skjal hafi allt að einu verið tekið til þinglýsingar. Beri dómara þá að gera athugasemd um þetta í þinglýsingarbók þegar mistök þessi verða honum kunn.

Þegar af þeirri ástæðu eru ekki lagaskilyrði, eins og er, til að aflýsa á grundvelli tilvitnaðs hæstaréttardóms stofnskjali sem var þinglýst 23. janúar 2007 á jörðina Snartarstaði. Þinglýsingarstjóri mun aftur á móti gera athugasemd um þetta í þinglýsingarbók. Þegar framangreindum lagaskilyrðum er fullnægt er grundvöllur til að endurskoða afstöðu embættisins.“

 

Við útgáfu stefnu í þessu máli kröfðust stefnendur að viðurkennt yrði með dómi að stofnskjal sem gefið var út af jarðadeild landbúnaðarráðuneytis í janúar 2006, sem innfært var til þinglýsingar 22. janúar 2007 með tilgreindum lóðarréttindum 5.600 fermetrar undir aðveitustöð, veitti stefndu engin lóðarréttindi fyrir aðveitustöð og spennuvirki í landi Brekku í Núpasveit.

Með úrskurði dómsins sem kveðinn var upp 15. mars 2018 var þessari kröfu stefnenda vísað frá dómi. Í úrskurðinum var rakið að samkvæmt 27. gr. þinglýsingalaga gæti sá, sem teldi færslu í fasteignabók ranga eða mistök hafa ella orðið við þinglýsingu, beint tilmælum um úrbætur til sýslumanns. Yrði sýslumaður ekki við slíkum tilmælum getur sá sem teldi á sér brotið með þeirri ákvörðun sýslumanns nýtt sér það réttarfarshagræði sem felst í 3. gr. þinglýsingalaga að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun sýslumanns eftir sérstökum reglum og fengið eftir atvikum sýslumann þannig knúinn til úrbóta.

Í úrskurðinum var rakið að í slíku máli yrði ekki með bindandi hætti kveðið á um efnisleg réttindi að baki þinglýstri heimild, heldur aðeins hvort sýslumaður hafi farið að lögum í ákvörðun sinni og þá með kröfu um að hann leiðrétti færslu í fasteignabók eða afmái hana. Ef sá sem gerði athugasemdir við færslu í fasteignabók nýtti sér ekki það hagræði sem kveðið væri á um í 3. gr. þinglýsingalaga innan þess frests sem kveðið er á um í ákvæðinu ætti hann þess kost að höfða einkamál eftir almennum reglum til að fá leyst úr ágreiningi um þau efnislegu réttindi sem búa að baki skráningu í fasteignabók. Í slíku máli væri þá jafnframt unnt að afla dóms um skyldu gagnaðila til að hlutast til um að sýslumaður breytti færslu í fasteignabók, en dómi um slíka skyldu mætti þá fullnægja með aðfarargerð samkvæmt 74. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Kröfugerð og málatilbúnaði yrði þá að haga með þeim hætti að efnisleg niðurstaða fáist um ágreining aðila með dómi, sem síðan gæti leitt til þess að breyta yrði þinglýstum heimildum honum til samræmis.

Í úrskurði dómsins var síðan rakið að fyrir lægi að stefnendur hefðu ekki látið reyna á ákvörðun sýslumanns frá 13. apríl 2016 um að aflýsa stofnskjalinu sem þinglýst var 23. janúar 2007 í máli á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga, heldur hefðu þeir höfðað mál þetta á hendur stefndu. Taldi dómurinn í því samhengi að framangreind viðurkenningarkrafa stefnenda um stofnskjalið væri því marki brennd að hún fæli ekki sér kröfu um að mælt yrði fyrir í dómi um skyldu til að afmá umræddar eignarheimildir, sem fullnægja mætti með aðfarargerð eftir fyrrnefndri 74. gr. laga nr. 90/1989.

Dómurinn taldi jafnframt ljóst að dómsorð í samræmi við þessa kröfu stefnenda myndi aðeins mæla fyrir um að stofnskjalið sem um ræðir og fært var til þinglýsingar í janúar 2007 veitti stefndu engin lóðaréttindi. Þetta þýddi að jafnvel þótt fallist yrði á þá kröfu stefnenda að stofnskjalið sem um ræddi veitti stefndu engin lóðarréttindi fyrir aðveitustöð og spennuvirki í landi Brekku í Núpasveit stæði engu að síður eftir að taka afstöðu til þess hvort með því væri leiddur til lykta sá efnislegi ágreiningur sem uppi er í málinu um hvort aðveitustöðin og spennuvirkið, stæðu samkvæmt lögmætri heimild þar sem þau nú stæðu og hvort þau væru í landi Snartarstaða eða Brekku.

Með vísan til þessa taldi dómurinn fyrstu dómkröfu stefnenda setta þannig fram að jafnvel þótt dómurinn féllist á að viðurkenna þennan lið í kröfugerðinni myndi það ekki leiða til þess að efnisleg úrlausn fengist um það álitaefni sem málsaðilar deildu um. Kröfugerð stefnenda væri því að þessu leyti andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað og yrði því ekki lagður dómur á hana. Yrði raunar ekki annað séð en að fyrsta krafa stefnanda væri í reynd málsástæða fyrir öðrum kröfum stefnenda sem enn eru til úrlausnar í málinu.

Stefnendur ákváðu að una úrskurði dómsins um að fyrstu kröfu þeirra yrði vísað frá dómi. Í þinghaldi 18. maí 2018 lögðu stefnendur fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta og skoða meint tjón matsbeiðenda vegna afnota matsþola af landareign matsbeiðenda í landi Brekku í Núpasveit. Óskuðu stefnendur eftir því að hinn dómkvaddi matsmaður mæti til verðs endurgreiðslu vegna afnota af landi stefnenda, þ.e. af umræddri landspildu, frá árinu 1978 til 2018 og að niðurstaða útreikninga yrði núvirt með hæfilegri ávöxtunarkröfu að mati hins dómkvadda matsmanns vegna alls tímabilsins.

Stefnendur lögðu fram matsgerð í dóminum 18. september 2018 þar sem lýst var þeirri niðurstöðu að leigugjald fyrir lóðina sem ágreiningur málsins snýst um undir aðveitustöð í landi Brekku á tímabilinu 1978 til 2018 væri samtals 264.000 kr. eða samtals 588.720 að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu

 

III. Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda

Stefnendur vísa til þess í málinu liggi fyrir lögboðnar landamerkjalýsingar frá árinu 1884 gerðar á grundvelli eldri landamerkjalaga, nr. 5/1882. Þessar lýsingar eru gerðar af réttum aðilum þ.e. fulltrúa eigenda Snartarstaða og eigenda Brekku. Þær hafi á sínum tíma verið færðar í landamerkjabók lögum samkvæmt, verið þinglýst á viðkomandi jarðir og ekki sætt neinum andmælum um form eða efni á þeim tíma. Þannig hafi í reynd aldrei verið hið minnsta tilefni af hálfu stefndu til að ætla að land undir aðveitustöð væri í landi Snartarstaða. Stefnendur vísa til þess að Hæstiréttur hafi staðfest öll sjónarmið og kröfur þeirra með dómi sínum frá 10. september 2015.

Stefnendur telja það enn fremur liggja fyrir að Ríkiseignir og Rafmagnsveitur ríkisins hafi brotið gróflega á eignarrétti þeirra. Rafmagnsveiturnar hafi á sínum tíma beitt valdníðslu með því að reisa aðveitustöðina í landi Brekku og einnig með lagningu spennuvirkis og stauravirkja með raflínum yfir landið. Síðar hafi Rafmagnsveitur ríkisins komið að viðræðum um leigugreiðslur eða bætur fyrir afnot en segja megi að þær viðræður hafi fallið niður við aðkomu landbúnaðarráðuneytis, sem vegna umkvartana Rafmagnsveitna ríkisins um lóðarréttindaleysi gaf út stofnskjal um lóð fyrir aðveitustöðina í landi Brekku án heimildar. Með þeim gerningi hafi ráðuneytið eða Jarðeignir ríkisins freistað þess að slá eign sinni á landið, þar sem aðveitustöðin hafði verið reist. Íslenska ríkið hafi síðan selt Landsneti hf. og Rarik ohf. aðveitustöðina og útbúið leigusamning.

Stefnendur sætta sig ekki við að þinglýst hafi verið skjali, sem felur í sér ráðstöfun á landi þeirra úr jörðinni Brekku. Benda þeir á, að um fullkomna vanheimild ríkissjóðs hafi verið að ræða, þegar íslenska ríkið ráðstafaði spildu eða sló eign sinni á hana með útgáfu stofnskjalsins. Sýslumaður hafi þinglýst umræddu skjali ráðuneytisins án athugasemda, þrátt fyrir ágreining aðila. Nú hafi sýslumaður upplýst, að hann telji, að þrátt fyrir úrlausn Hæstaréttar Íslands sé enn ekki ljóst að umrædd aðveitustöð sé í landi Brekku.

Fyrir dóminum er gerð sú krafa að stefndu verði gert að þola dóm um að fjarlægja aðveitustöðina og tengd mannvirki af landi Brekku að viðlögðum dagsektum. Tilgreint fastanúmer fasteignarinnar sé 216-6621 en landnúmer 154223 í stofnskjali. Stefnendum telja að þeim sé nauðugur einn kostur að gera þessa kröfu. Þeir vilji ekki lengur una því að stefndu fari um land þeirra og slái eign sinni á land þeirra. Þeir hafi neyðst til að leita réttar síns og Hæstiréttur Íslands hafi staðfest réttindi þeirra og landamerki jarðanna Brekku og Snartarstaða. Stefnendur hafi beint erindum til stefndu um viðræður en ekki verið virtir viðlits. Hinn 25. nóvember 2016 hafi stefndu verið send krafa með ábyrgðarbréfi, þess efnis að þeir fjarlægðu aðveitustöðina og tengd mannvirki. Stefndu hafi ekki svarað kröfunni.

Stefnendur kveða byggingu aðveitustöðvarinnar á sínum tíma hafa verið andmælt af bóndanum á Brekku. Þrátt fyrir andmæli hans og fleiri aðila hafi stöðin verið reist. Til að bæta gráu ofan á svart hafi Jarðeignir ríkisins síðan slegið eign sinni á land Brekku. Sá gerningur hafi verið gerður gegn betri vitund, en ágreiningur og andmæli Brekku voru þá löngu þekkt og kunnug ráðuneyti og stjórnsýslustofnunum.

Í stað þess að fara að dómi Hæstaréttar og leita lausna hafi stefndu ekki virt stefnendur svars. Stefnendur telja að vera megi að stefndu telji að um léttvægar kröfur stefnenda sé að tefla og að þeir megi grípa til þess neyðarúrræðis á síðari stigum að freista þess að taka land stefnenda eignarnámi. Stefnendur telja hins vegar að skilyrði fyrir framkvæmd eignarnáms séu ekki til staðar.

Stefnendur telja liggja fyrir að aðveitustöðin sé í landi Brekku án heimildar og lóðarréttinda og því beri að fallast á kröfur þeirra um að stefndu verði gert að fjarlægja mannvirkin af landi þeirra. Stefnendur vísa til gagna sem þeir hafa lagt fram og sýna nánari staðsetningu á umræddum mannvirkjum þar sem færðar eru inn hnitasetningar á landamerkjum samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og einnig hnitapunkta X 616087 Y 646941 á norðanverðan húsgafl aðveitustöðvar, sem snýr að landamerkjum milli Brekku og Snartarstaða. Telja stefnendur augljóst að mannvirkin séu öll í landi Brekku.

Af hálfu stefnenda er gerð krafa um að stefndu verði gert að lagfæra landsspjöll og koma landi stefnenda í fyrra horf. Er þar átt við, að eftir að mannvirki hafa verið fjarlægð verði stefndu gert að lagfæra öll vegsummerki og færa landið í fyrra horf.

Krafa stefnenda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu er á því reist, að farið hafi fram heimildarlaus afnot stefndu á landi stefnenda úr jörðinni Brekku allt frá árinu 1978. Stefnendur hafi beint kröfum að stefndu, sem hafi vísað kröfugerð og sjónarmiðum þeirra á bug og vísað hver á annan, en afstaða stefndu sé á því reist, að enginn einn beri ábyrgð á umræddri aðveitustöð og landnotkun. Sjónarmiðum stefndu um grandleysi, tómlæti og hefð er hafnað, enda einsýnt að þau eiga ekki við og raska í engu eignarréttindum stefnenda. Þá breytir að mati stefnenda engu hvort leigusamningur hafi verið undirritaður eða ekki. Engu breytir heldur þó að sumir stefndu telji, að þeir reisi rétt sinn á loforði annarra stefndu. Þeir eigi allir hagsmuna að gæta vegna aðveitustöðvarinnar eða aðgerða henni tengdri og verði því öllum stefnt í einu máli.

Krafa stefnenda snýr að því að fá viðurkenningu á bótaskyldu en ekki er höfð uppi töluleg bótakrafa í málinu. Eðli máls samkvæmt færi fram mat á tjóni stefnenda í kjölfar þess, að bótaskylda yrði viðurkennd. Stefnendur hafi orðið fyrir tjóni, bæði með því að engin endurgreiðsla hafi átt sér stað fyrir afnot af landi og einnig hafi bæði jarðrask stefnenda vegna mannvirkja og umferðar spillt landi.

Krafa stefnenda um málskostnað er reist á því, að stefnendum sé nauðugur einn kostur að höfða mál þetta. Óskipt aðild stefndu blasi við en með samhjálp og sameiginlegu eignarhaldi hafi þeir valdið stefnendum tjóni og afstaða þeirra og framganga orðið þess valdandi, að stefnendur þurfi að leggja út í verulegan kostnað við málaferli til þess að ná fram sínum réttindum.

 

Málsástæður stefnda Landsnets hf. og Rariks ohf.

Stefndu Landsnet hf. og Rarik ohf. mótmæla öllum málsástæðum stefnenda. Stefndi Landsnet hf. byggir á því að hann sé eigandi hluta fasteignarinnar Snartarstaðir lóð, fastanr. 216-6621, í samræmi við skráningu í þinglýsingarbók og að hann hafi unnið eignarrétt, beinan eða óbeinan, að landi undir aðveitustöð á fasteigninni sem veiti honum eignarráð eða ótímabundinn afnotarétt af lóðinni á meðan aðveitustöð stefnda sé starfrækt, eða eftir atvikum tekið við slíkum rétti frá stefnda RARIK ohf. við stofnun Landsnets hf. Því beri að hafna öllum dómkröfum stefnenda.

            Stefndi Rarik ofh. tekur undir þennan málatilbúnað.  Varnir stefndu eru meðal annars þær að stefndi RARIK ohf. og/eða stefndi Landsnet hf. hafi unnið eignarréttindi yfir fasteigninni sem deilt er um á þeim grundvelli að hafa byggt aðveitustöð í grandleysi um réttindi landeiganda Brekku, og að sá réttur hafi síðan verið framseldur til stefnda Landsnets hf. Enn fremur er á því byggt að rétti stefnda til fasteignarinnar, þ.m.t. lóðar- og afnotaréttindum, verði ekki raskað vegna sjónarmiða um eyðileggingu verðmæta. Þá er á því byggt að stefnendur hafi allt að einu glatað rétti sínum fyrir tómlæti og enn fremur er byggt á sjónarmiðum um hefð og venjurétt.

 Fasteignaréttindi stefndu verða ekki skert þar sem mannvirki stefnda á fasteigninni voru reist í góðri trú og fasteignaréttindum verður ekki raskað á grundvelli sjónarmiða um eyðileggingu verðmæta.

Stefndu Landsnet hf. og Rarik ohf. byggja á því að stefndi Rarik ofh. hafi öðlast eignarrétt, eða til vara varanlegan afnotarétt, þ.e. rétt yfir fasteigninni, Kópasker – Aðveitustöð, sem aðveitustöð stefnda var byggð á og fengið hefur fastanúmerið 216-6621 með nafninu Snartarstaðir lóð Norðurþing, þar sem mannvirki voru byggð í góðri trú um heimild til réttinda yfir landinu og án nokkurra athugasemda af hálfu landeigenda Brekku. Stefndu byggja enn fremur á að þau réttindi verði ekki skert vegna sjónarmiða um eyðileggingu verðmæta.

            Stefndu telja að þegar eigandi mannvirkis hafi byggt mannvirki í góðri trú og sé grandlaus um betri rétt annars aðila hafi verið litið svo á að land undir slíkt mannvirki verði ekki endurheimt ef slík endurheimta myndi hafa verulegt tjón í för með sér. Í því sambandi beri að líta til þess annars vegar hversu mikla hagsmuni eigandi mannvirkjanna, í þessu tilviki stefndi Landsnet hf., hafi af því að röskun eigi sér stað, og hins vegar þess hversu mikla hagsmuni landeigandinn hefur af því að fá land sitt aftur óraskað. Stefndi byggir á því að stórfelldur munur sé á hagsmunum stefnenda og stefndu. Ef fallist yrði á kröfur stefnenda myndi það leiða til þess að núverandi aðveitustöð myndi ónýtast og reisa þyrfti nýja í hennar stað með tilheyrandi kostnaði.

            Stefndu telja að við ofangreint hagsmunamat beri í fyrsta lagi að líta til þess að kostnaður stefnda af því að rífa núverandi aðveitustöð og reisa nýja yrði gríðarlegur. Áætlar stefndi Landsnet hf. að kostnaður vegna þess hluta sem tilheyrir honum, sem er um 21,9% heildareignar, myndi vera á bilinu 184 til 193 milljónir króna, auk kostnaðar við að breyta aðliggjandi háspennulínu og rífa og farga núverandi búnaði. Stefndi Rarik ohf. áætlar að kostnaður vegna þess hluta sem tilheyrir honum, sem er um 78,1% heildareignar, myndi vera um 206 milljónir króna.

Stefndu byggja á því að verðmæti lóðarinnar séu hverfandi í samanburði við þennan kostnað. Stefndu telja einsýnt að hagsmunir stefnda af því að koma í veg fyrir eyðileggingu þessara gríðarmiklu verðmæta séu mun meiri en sem nemur verðmætum lóðarinnar fyrir stefnendur. Þá hafi stefnendur í engu sýnt fram á að þeir hafi sérstaka hagsmuni af því að fá landið aftur til umráða innan þriggja mánaða.

Í öðru lagi beri við ofangreint hagsmunamat að líta til afleiðinga þess ef fallist yrði á dómkröfur stefnenda, m.a. með hliðsjón af almannahagsmunum. Stefndi Landsnet vísar til þess að hann sé flutningsfyrirtæki sem annist flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Stefndi beri ýmsar skyldur sem flutningsfyrirtæki, sbr. meðal annars 9. gr. laga nr. 65/2003. Ljóst sé að ef fallist er á kröfur stefnenda verði stefnda ómögulegt að uppfylla lögbundnar skyldur sínar og sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. að tryggja öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæði raforku og framfylgja stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku í Norður-Þingeyjarsýslu.

Af hálfu stefnda Rarik ohf. er vísað til þess að hann sé dreifiveita sem hafi sérleyfi til dreifingar raforku á ákveðnum svæðum víða um land í samræmi við IV. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Rarik ohf. annist dreifingu raforku og kerfisstjórnun á dreifisvæði sínu í Norður-Þingeyjarsýslu og beri ýmsar skyldur sem dreifiveita, sbr. meðal annars 16. gr. raforkulaga. Vísar Rarik ohf. til þess að ef fallist verði á kröfur stefnenda þá verði honum sömuleiðis ómögulegt að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og sinna því á stóru svæði á Norðausturlandi um nokkurt skeið.

Stefndu vísa einnig til þess að verulegir almannahagsmunir séu því fyrir því að aðveitustöðin fái að standa áfram. Stefndu telur að verðmæti lóðarinnar fyrir landeigendur séu hverfandi í samanburði við þessa hagsmuni.

Tómlæti stefnenda og fyrri landeigenda

Stefndu byggja á því að stefnendur og fyrri landeigendur Brekku hafi sýnt af sér tómlæti gagnvart staðsetningu og byggingu aðveitustöðvarinnar á lóð 154223 og geti ekki áratugum síðar krafist þess að mannvirki verði fjarlægð með tilheyrandi raski.

            Stefndu vísa til þess að lóð fyrir aðveitustöð hafi verið ákveðin á árunum 1976-1978 og aðveitustöðin hafi verið byggð á árunum 1978-1979. Samkvæmt upplýsingum stefnda Landsnets hf. hafi á þeim tíma verið litið svo á að verið væri að færa aðveitustöðina inn í land Snartarstaða og haft samráð við ábúendur um staðarval. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu landeigenda Brekku um að staðsetning aðveitustöðvarinnar væri innan landamerkja Brekku. Stefndi telur að landeigendum Brekku hafi borið, þegar við byggingu mannvirkjanna, að gera athugasemdir við staðarval aðveitustöðvarinnar hafi þeir talið brotið á rétti sínum.

Þar sem slíkar athugasemdir voru ekki hafðar uppi þá hafi landeigendur glatað rétti sínum til lóðarinnar, á meðan þau mannvirki sem þar eru standa, fyrir tómlæti.

            Stefndi Rarik vísar til þess að athugasemdir landeiganda Brekku um staðsetningu aðveitustöðvarinnar hafi fyrst komið fram í lok árs 1997, þ.e. eftir að stefnendur eignuðust jörðina Brekku, og það hafi ekki verið fyrr en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 637/2014 sem leyst var úr ágreiningi um landamerki. Stefndi telur að landeigendum Brekku hafi borið, þegar við byggingu mannvirkjanna, að gera athugasemdir við staðarval aðveitustöðvarinnar hafi þeir talið á rétti sínum brotið. Þar sem slíkar athugasemdir voru ekki hafðar uppi þá hafi landeigendur glatað rétti sínum til lóðarinnar, á meðan þau mannvirki sem þar eru standa, fyrir tómlæti. Afleiðing þessa tómlætis landeigenda leiði til þess að stefnendur geti ekki, áratugum síðar, krafist þess að mannvirki stefnda verði fjarlægð.

 

Hefð

Stefndu Landsnet hf. og Rarik ohf. byggja á því, án tillits til annarra málsástæðna, að þeir hafi ýmist báðir eða annar hvor unnið eignarrétt yfir fasteigninni Snartarstaðir lóð Norðurþing, fastanúmer 216-6621 (eða Kópasker – Aðveitustöð eins og hún er nefnd á upphaflegu lóðarblaði frá 1978), fyrir hefð og að stefndi Landsnet sé því réttmætur eigandi þess hluta fasteignarinnar sem stefndi RARIK ohf. framseldi honum, með afsali 21. desember 2005.

Stefndi vísar til þess að aðveitustöðin hafi verið byggð á lóðinni á árunum 1978-1979 með vitund þáverandi eiganda jarðarinnar Brekku. Þá hafi verið álitið að lóðin væri innan marka lands Snartarstaða sem sé í eigu stefnda íslenska ríkisins. Á þeim tíma hafi ekki komið fram neinar ábendingar eða athugasemdir frá landeiganda Brekku um að staðsetning lóðarinnar væri hugsanlega innan marka þeirrar jarðar. Eins og áður hefur komið fram var staðsetning lóðarinnar ákveðin í samráði við þáverandi landeiganda Snartarstaða. Frá árinu 1978 hafi stefndi RARIK ohf., og áður Rafmagnsveitur ríkisins, og síðar að hluta stefndi Landsnet hf., því haft óslitið eignarhald á fasteigninni og hafi stefndi því unnið eignarrétt yfir fasteigninni fyrir hefð, í samræmi við 2. - 3. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

 

Venjuréttur

            Sé ekki fallist á fyrri málsástæður um að stefndu hafi unnið eignarrétt yfir landinu er á því byggt að stefndu hafi unnið óbeinan eignarrétt yfir landinu á grundvelli venjuréttar. Ekki séu gerðar jafnstrangar kröfur til þess að aðili geti unnið rétt á grundvelli venjuréttar. Stefndu byggja á því að slíkur réttur veiti þeim afnotarétt af landinu á meðan mannvirki þeirra séu í notkun.

 

Þinglýst réttindi

            Stefndi Landsnet hf. byggir á því að hann hafi með þinglýsingu eignast réttindi yfir 21,9% hlut fasteignarinnar Snartarstaðir lóð fastanr. 216-6621. Stefndu hafi fengið eignarrétt sinn framseldan án þess að gerðar væru athugasemdir og án vitundar um betri rétt stefnenda. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 33. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 þurfi stefndi, sem hlaut réttindi með afsali frá aðila sem talinn var eigandi eignarinnar, ekki að sæta því að heimild fyrirrennara hans sé ógilt, enda var stefndi grandlaus um að lóðin væri innan landamerkja Brekku, er hann öðlaðist réttindin. 

 

Líta ber til sjónarmiða um eignarnám eins og málum er háttað þar sem eignarsvipting hefur í reynd farið fram.

 

Stefndu byggja enn fremur á því, án tillits til annarra málsástæðna, að heimild sé til eignarnáms lóðarinnar á grundvelli 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Ekki hafi komið til beitingar þessar heimildar, eða sambærilegrar heimildar á sínum tíma, enda afhenti stefndi íslenska ríkið stefnda RARIK ohf. fasteignina sem álitin var í landi sem var í eigu stefnda íslenska ríkisins og síðar var hluta afsalað til stefnda Landsnets hf., sbr. fyrri umfjöllun. Stefndu, eða aðrir sem unnu rétt áður en eignaraðild stefndu kom til, hafi því verið grandlausir um réttindi stefnenda. Þrátt fyrir að heimild til eignarnáms hafi ekki verið beitt formlega á sínum tíma hafi eignarsvipting fram í raun, de facto.

            Af hálfu stefndu er byggt á því að fram að þessu hafi ekki þótt ástæða til þess að hefja formlegt eignarnámsferli þar sem eignin hafi í fyrsta lagi verið álitin undirorpin eignarrétti stefnda og skráð þannig opinberlega. Þá hafi í öðru lagið verið uppi vafi um landamerki jarðanna Snartarstaða og Brekku þar til dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í máli nr. 637/2014, og því óljóst hvorum megin landamerkjanna hin umþrætta lóð félli. Í þriðja lagi hafi ekki fyrr en með stefnu málsins orðið ljóst að ekki næðist samkomulag um lausn þess.

            Stefndu vísa til þess að í 6. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, komi fram að ef aðili sem heimild hefur til eignarnáms, hefur tekið umráð eignar þá geti eigandi og aðrir rétthafar krafist fyrirtöku máls hjá matsnefnd eignarnámsbóta. Hafi stefndi ekki þegar öðlast eignarrétt eða varanlegan umráðarétt yfir hinni umþrættu lóð, sbr. framangreint, þá er á því byggt að vísa beri málinu til matsnefndar eignarnámsbóta til úrskurðar um réttmætar bætur til handa stefnendum, sem landeigendum, sem myndi þannig fela í sér að stefndi yrði eigandi lóðarinnar gegn greiðslu eignarnámsbóta.

            Stefndu byggja á því að verði talið að þeir hafi ekki þegar öðlast eignarrétt yfir fasteigninni, sbr. fyrri málsástæður, þá beri að líta beri svo á að með yfirtöku á eigninni hafi eignarnám farið fram í reynd og ákvarða beri stefnendum eignarnámsbætur í samræmi við lög nr. 11/1973. Þá byggja stefndu á því að önnur skilyrði eignarnáms séu uppfyllt, þ.m.t. að almenningsþörf krefji, lögbundið hlutverk stefnda og áhrif þess ef fallist yrði á dómkröfur stefnenda.

Krafa stefnenda um viðurkenningu á bótaskyldu

Að því er varðar þann kröfulið stefnenda um að „viðurkennt verði að stefnendur eigi rétt á skaðabótum in solidum vegna afnota af landi stefnenda [...]“ vísa stefndu til þeirra málsástæðna sem þegar hafa verið raktar um eignarréttindi þeirra yfir hinni umþrættu fasteign. Byggja stefndu á þeim varðandi viðurkenningarkröfu stefnenda, að breyttu breytanda. Verði fallist á að stefndu eigi eignarrétt yfir hinni umþrættu fasteign telja þeir ljóst að stefnendur geta ekki átt skaðabótakröfu á hendur honum.

Til viðbótar við framangreindar málsástæður byggja stefndu á því að krafa stefnenda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sé vanreifuð og enn fremur að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi. Verði komist að þeirri niðurstöðu að skaðabótaskylda hafi stofnast er á því byggt að hún hafi fallið niður fyrir tómlæti stefnenda og fyrningu.

Vanreifun skaðabótakröfu

Stefndu benda á að í stefnu segi að krafa „um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu [sé] á því reist, að farið hafa fram heimildarlaus afnot stefndu á landi úr jörðinni Brekku allt frá árinu 1978.“ Þess sé krafist að stefndu beri skaðabótaskyldu sameiginlega.

Stefndu byggja á því að ekki sé ljóst af framangreindu á hvaða grundvelli skaðabótaskylda stefnda eigi að hafa stofnast. Hvorki sé þannig vísað til almennu skaðabótareglunnar né annarra reglna sem gætu fellt skaðabótaskyldu á stefnda. Skilyrði sakarreglunnar séu að tjónvaldur hafi sýnt af sér saknæma ólögmæta háttsemi og að orsakatengsl séu á milli hennar og þess tjóns sem er sennileg afleiðing háttseminnar. Grundvallarforsenda skaðabótaskyldu sé að tjón hafi orðið en stefnendur hafi að engu leyti reifað í hverju tjón þeirra af aðveitustöð stefnda fólst. Enn fremur sé það grundvallarforsenda þess að krafa sé sett fram sem viðurkenningarkrafa að leiddar séu líkur að tjóni. Þá sé í engu vikið að því í hverju saknæmi og ólögmæti stefndu sé fólgið og þannig augljóslega ekki hvernig orsakatengsl geti talist vera á milli háttseminnar og ætlaðs tjóns. Þá er ekki fjallað um hvernig ábyrgð stefndu sé sameiginleg eða hvernig hver og einn hinna stefndu hafi bakað sér bótaskyldu.

Með hliðsjón af framangreindu telja stefndu ljóst að krafa stefnenda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda sé verulega vanreifuð og því ekki dómtæk.

 

Skilyrði skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi

Stefndu byggir enn fremur á því að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi hvorki á grundvelli almennu skaðabótareglunnar né annarra reglna. Stefndi byggir þannig á því að stefnendur hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna afnota stefnda af lóðinni og stefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Af hálfu stefndu er á því byggt að aðveitustöðin hafi verið reist í góðri trú um að hún væri innan jarðar í eigu stefnda íslenska ríkisins og með leyfi stefnda íslenska ríkisins. Þar sem stefndi hafi verið grandlaus um rétt stefnenda, eða fyrri landeigenda, sé ekki um saknæmi af hálfu stefnda að ræða. Enn fremur geti háttsemi sem er framkvæmd með vitund og vilja stefnda íslenska ríkisins ekki talist ólögmæt eða saknæm. Því geti stefndu ekki hafa sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Stefndu telja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir neinu tjóni af aðveitustöð stefnda. Stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir tjóni sínu og þar sem ekki hafi verið sýnt fram á slíkt tjón ber að hafna skaðabótakröfu stefnenda.

Stefndu árétta að þar sem krafa stefnenda sé sett fram sem skaðabótakrafa sé ekki tekin afstaða í máli þessu til réttar stefnenda til sanngjarns endurgjalds vegna afnota stefndu af lóðinni ef álitið er að stefndu hafi unnið rétt til óbeinna eignarréttinda, svo sem varanlegs afnotaréttar, í landi sem er háð beinum eignarréttindum stefnenda.

 

Hluti skaðabótakröfu fyrndur og/eða fallin niður fyrir tómlæti

Verði fallist á að stofnast hafi skaðabótakrafa á hendur stefndu vegna afnota af fasteigninni byggir stefndi á því að slík krafa, eða a.m.k. hluti hennar, sé fallin niður fyrir fyrningu og tómlæti stefnda að halda slíkri kröfu á lofti. Stefndi bendir á að lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, hafi verið í gildi árið 1978 þegar afnot stefnda af lóðinni hófust og fram til loka árs 2007. Lögin taki því til fyrningar allra fjárkrafna sem stofnuðust á því tímabili, sbr. og 28. gr. laga nr. 150/2007. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist skaðabótakröfur á 10 árum og voru skaðabótakröfur stefnenda vegna afnota stefnda fram til 28. mars 2007 (10 ár fyrir þingfestingu) fyrndar þegar mál þetta var höfðað.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Allar kröfur stefnenda um skaðabætur vegna afnota fyrir 28. mars 2013 eru því fyrndar og byggir stefndi því á að þær séu fallnar niður.

 

Varakrafa um aukinn frest til að fjarlægja mannvirki og lagfæra land

Til vara krefjast stefndu þess, verði fallist á kröfur stefnenda um að fjarlægja mannvirki, að frestur sem veittur verði til að fjarlægja mannvirki sé lengdur verulega frá dómkröfum stefnenda eða í allt að 10 ár. Á þeim tíma sem afnotin stæðu myndu stefndu greiða stefnanda sanngjarnt endurgjald fyrir lóðarafnotin í samræmi við venjur og mat á verðmæti lóðarréttindanna.

Stefndu vísa í þessari málsástæðu til stuðnings til fyrri málsástæðna eftir því sem við á, að breyttu breytanda, sbr. meðal annars um hagsmunamat sem að framan er rakið. Ljóst sé að stefndu sé ómögulegt að verða við kröfum stefnenda innan þess skamma frests sem dómkröfur stefnenda fela í sér. Byggingu nýrrar aðveitustöðvar þurfi að undirbúa og gaumgæfa vel þannig að vel takist til og unnt sé standa við kostnaðaráætlanir. Líklega sé ómögulegt að fjarlægja aðveitustöðina og lagfæra landið á þremur mánuðum eins og stefnendur krefjast. Það væri óábyrgt og ólöglegt fyrir stefnda að hefja niðurrif aðveitustöðvarinnar tafarlaust þar sem slíkt myndi leiða til þess að kerfisstjórnun og raforkuflutningur stefnda í Norður-Þingeyjarsýslu færi úr skorðum og stefnda væri því ekki unnt að sinna lögbundnum skyldum sínum.

 

Málsástæður stefnda íslenska ríkisins

Stefndi íslenska ríkið byggir á því að stofnast hafi réttarvernd og takmörkuð eignarréttindi sem leiði til þess að meðstefndu sé heimilt að nýta sér land undir mannvirkin. Vísar stefnandi um það til hefðar og venju, auk þess sem stefnendur hafi sýnt af sér tómlæti. Eins og fram komi í málinu var um langan aldur vafi um merki. Þetta sýni ákvörðun sýslumanns þar sem merki voru í samræmi við kröfur stefnda, dómur héraðsdóms og Hæstaréttar þar sem ljóst er að vafi var um merkin. Þá séu samfélagslegir hagsmunir af mannvirkjunum meiri en hagsmunir stefnenda, sem ekki hafa sýnt fram á að hafa orðið fyrir tjóni.

Stefndi íslenska ríkið krefst sýknu af kröfum um að stefndu verði „in solidum gert að þola dóm um að fjarlægja öll mannvirki, þ.e. aðveitustöð og tengd spennuvirki, sem reist hafi verið á landi Brekku og eru inni á landi númer 154223 samkvæmt stofnskjali stefnenda innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dóms. Einnig krefst íslenska ríkið sýknu af kröfu um að stefndu verði in solidum gert að lagfæra landsspjöll og koma í fyrra horf landi vegna jarðrasks vegna aðveitustöðvar og mannvirkja henni tengdri í landi Brekku, að viðlögðum dagsektum.

Stefndi rökstyður sýknukröfu sína á þann veg að umrædd mannvirki séu í þinglýstri eigu annars vegar Rarik ohf., 78,1% og hins vegar Landsnets hf., 21,9%, samkvæmt þinglýstu afsali, dags. 21. desember 2005. Stefndi vísar til þess að Ríkiseignir séu skráður umráðandi lóðarinnar með landnúmerið 154223 en hins vegar ekki fasteignarinnar sem um ræðir, þ.e. aðveitustöðvar eða tengds spennuvirkis, sem standa á lóðinni. Ekkert samningssamband sé á milli Ríkiseigna og annarra stefndu.

Stefndi, íslenska ríkið, vísar enn fremur til þess að hann hafi afsalað sér sínum eignarhluta í umræddum mannvirkjum á lóðinni til meðstefndu, Rarik ohf. og Landsnets hf. á árinu 2005. Samkvæmt afsali, dags. 21. desember 2005, afsali Rafmagnsveitur ríkisins til Landsnets hf. 21,9% hlutdeild í fasteigninni 216-6621, spennistöðinni/aðveitustöðinni við Kópasker. Það afsal hafi verið hluti af eignayfirfærslu sem byggði á 10. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem raforkufyrirtækjum var gert skylt að selja eða leigja búnað sem ætlaður var til raforkuflutnings til Landsnets hf.

Í tilgreindu afsali, dags. 21. desember 2005, hafi komið fram sú kvöð á leigulóðinni nr. 154223 að mannvirkjum á lóðinni fylgdu réttindi til lóðarinnar vegna þeirra, þ.e. réttur til þess að láta viðkomandi mannvirki með fastanúmerið 216-6621, standa á lóðinni sem og þann afnotarétt og umferðarrétt sem nauðsynlegur var vegna nýtingar mannvirkjanna. Frá þeim tíma sem fasteignin var afhent, þ.e. þann 31. desember 2005, skyldi Landsnet hf. jafnframt greiða skatta og gjöld af hlutdeild sinni í fasteigninni.

Íslenska ríkið vísar til þess að meðstefndi, Rarik ohf. sé hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og hafi verið það frá 1. ágúst 2006 en félagið tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína þann 1. janúar árið 1947. Meðstefndi, Rarik ohf. sé því sjálfstæður lögaðili. Meðstefndi, Landsnet sé hlutafélag.

Stefndi íslenska ríkið bendir á að á þeim tíma sem krafa stefnenda tekur til hafi umrædd mannvirki ekki verið í beinni eigu íslenska ríkisins heldur í eigu framangreindra félaga. Óraunhæft sé að íslenska ríkið hafi vegna Ríkiseigna lögbundnar eða samningsbundnar heimildir til að fjarlægja mannvirki þau sem standa á lóðinni Snartarstaðir lóð, landnr. 154223 eða geti verið gert að þola efnisdóm þess efnis. Sama eigi við um kröfur stefnenda um að lagfæra landsspjöll og koma landi í fyrra horf. Af þeim sökum verði því að sýkna stefnda, íslenska ríkið vegna Ríkiseigna á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16.

Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er einnig á því byggt að stefnendur hafi sýnt af sér tómlæti og ekki verið reiðubúnir að ræða um endurgjald eða bætur. Þeir hafi einnig sýnt af sér tómlæti með því að höfða ekki landamerkjamál fyrr en um síðir og ekki hafa krafist þess að mannvirkin yrðu fjarlægð fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar. Allir stefndu í málinu hafi verið í góðri trú um að á engan hátt væri gengið nærri réttindum stefnenda með framkvæmdum og mannvirkjum á lóðinni. Þá hafi mannvirkin verið reist á grundvelli lögmætra heimilda. Í samræmi við viðhorf fræðimanna og dómafordæma yrðu skertir verulegir samfélagslegir hagsmunir meðal annars á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og fyrri laga um það efni með því að fjarlægja mannvirkin, a.m.k. samanborið við hagsmuni stefnenda. Þjóðfélagslegir hagsmunir mæli eindregið gegn því að verðmætum af þessu tagi sem þjóna almannahagsmunum sé fargað. Verði því að líta svo á að a.m.k. takmörkuð eignarréttindi og afnotaréttur á lóðinni hafi stofnast í ljósi venju og hefðar fyrir umrædd mannvirki, sbr. lög nr. 46/1905, um hefð, einkum 2. og 3. gr.

Að því er varðar kröfu í stefnu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sem reist er á því að farið hafi fram heimildarlaus afnot stefndu af landi stefnenda úr jörðinni Brekku allt frá árinu 1978 þá vísar íslenska ríkið til þess að stefnendur hafi hvergi sýnt fram á að þeir hafi gert kröfu til leigu fyrr. Réttaróvissa hafi verið um landamerki uns dómur Hæstaréttar féll. Sýslumaður hafði gert tillögu um önnur merki og héraðsdómur önnur en Hæstiréttur. Þá sjáist af gögnum að tún í heimalandi jarðanna voru ekki slegin með hliðsjón þeim af merkjum sem Hæstiréttur féllst á. Stefndu telja stefnendur á engan hátt hafa sýnt fram á ætlað tjón eða á nokkrum stigum gert ráð fyrir leigugreiðslum fyrir afnot vegna mannvirkja. Hvergi sé sýnt fram á tjón eða jarðrask vegna mannvirkja og umferðar sem spillt hafi landi.

Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er bent á að skaðabótakrafa stefnenda byggi meðal annars á því að gerður hafi verið leigusamningur milli íslenska ríkisins og meðstefndu Rarik ohf. og Landsnets hf. á árinu 2007. Ljóst sé þó að leigusamningur um lóðina með landnr. 154223 var aldrei undirritaður milli aðila, ekki síst vegna deilna eigenda Brekku annars vegar og Snartarstaða hins vegar um eignarheimildir landsins umrædd aðveitustöð stendur á, sbr. undirritunarblaðsíðu leigusamningsins. Í gögnum stefnendur lögðu fram sé aðeins að finna leigusamninginn en ekki undirritunarsíðu. Um þetta er einnig vísað til tölvupósts Garðars Briem, f.h. Rarik, dags. 27. febrúar 2007, þar sem fram komi að Rarik telji ótækt að ganga frá lóðarleigusamningi við landbúnaðarráðuneytið um lóð undir aðveitustöð meðan ekki hafi verið skorið úr um hvar ótvíræð landamerki séu. Þá komi jafnframt fram að meðstefndi Rarik ohf. hafi fengið kröfu um lóðargjöld frá landeigendum jarðarinnar Brekku. Ljóst sé að leigusamningur hafi aldrei komist á milli meðstefndu og íslenska ríkisins um leigu á lóðinni með landnr. 154223 og leigugreiðslur hafi aldrei verið inntar af hendi frá meðstefndu til íslenska ríkisins.

Með vísan til þessa er kröfu um bætur vegna meints tjóns stefnenda vegna afnota íslenska ríkisins af landinu hafnað og ætluðu tjóni mótmælt sem ósönnuðu. Stefndi íslenska ríkið telur með engu vera rökstutt eða stutt gögnum hvert tjón stefnenda er af meintu jarðraski eða spjöllum á landi vegna mannvirkja eða umferðar sé. Hvergi sé heldur rökstutt með hvaða hætti stefndi vegna Ríkiseigna ætti að eiga aðild að slíkri kröfu. Ljóst sé að vegir að aðveitustöðinni liggja um báðar jarðir, þ.e. Snartarstaði og Brekku. Þá sé einnig á því byggt að stefndi, íslenska ríkið vegna Ríkiseigna, eigi ekki aðild að kröfum stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að deila hafi staðið með eigendum jarðanna Brekku og Snartarstaða í áratugi og að ekki hafi fengist niðurstaða dómstóla í landamerki jarðanna fyrr en með dómi Hæstaréttar þann 10. september 2015. Í þeim dómi hafi þó ekki verið að fullu fallist á kröfur stefnenda um landamerki, svo sem punktinn sunnan Beltisvatns. Áður hafi sýslumaður og héraðsdómur fallist að mestu á kröfur íslenska ríkisins um legu landamerkja. Af meðferð málsins og niðurstöðum fyrir úrskurðaraðila og dómstólum sé ljóst að málefnalegar ástæður hafi verið fyrir hendi af hálfu íslenska ríkisins og starfsmanna landbúnaðarráðuneytisins til að telja að lóð undir aðveitustöð tilheyrði jörðinni Snartarstöðum, eða a.m.k. að réttmætur vafi væri um eignarheimildir lóðarinnar.

Stefndi vísar enn fremur til þess að aðgerðir starfsmanna landbúnaðarráðuneytisins hafi fremur stýrst af því að greiða fyrir byggingu og afmörkun mannvirkja með samfélagslegt hlutverk og að mati byggingarfulltrúa og sýslumanns á þeim tíma hafi afstaðan einnig verið sú að stefnda, íslenska ríkið, væri bært til að þinglýsa stofnskjali um lóðina. Stefndi, íslenska ríkið innheimti enga leigu vegna lóðarinnar og ekki var gengið frá formlegum lóðarleigusamningi.

Stefndi hafnar því að stofnun lóðarinnar hafi getað talist ólögmæt og saknæm í skilningi almennra reglna skaðabótaréttar eða að ráðstöfunin sem slík geti varðað skaðabótaskyldu eftir sakarreglunni.

Því er alfarið hafnað að ásakanir um meinta grandsemi landbúnaðarráðuneytisins við útgáfu stofnskjals eða þinglýsingu eigi við rök að styðjast. Ekki sé rétt að landbúnaðarráðuneytinu hafi verið ljóst að umrædd mannvirki hafi verið í landi Brekku enda hafi engin niðurstaða legið fyrir um það þá af hálfu dómstóla hver landamerki væru. Þá er því jafnframt hafnað að fyrir hendi séu skilyrði til þess að viðurkenna bótaskyldu íslenska ríkisins vegna útgáfu skjalsins eða vegna notkunar meðstefndu, Rarik ohf. og Landsnets hf. á lóðinni fyrir aðveitustöð eða eftir atvikum fjarlægingar mannvirkja og rasks sem kunni að verða af því.

Stefndi íslenska ríkið telur ljóst að lóðin sem slík verði ekki til við þinglýsingu umrædds stofnskjals. Í því sambandi megi m.a. líta til þess að þegar skjalinu var þinglýst á jörðina 23. janúar 2007, hafi um nánari afmörkun lóðarinnar verið vísað til uppdráttar sem dagsettur var 13. september 1978 og fylgdi með stofnskjalinu. Ljóst er að lóðin var til skráð og stofnuð áratugum áður en umræddu stofnskjali var þinglýst, undir sama heiti og landnúmeri, þ.e. Snartarstaðir lóð, landnúmer 154223. Byggingarfulltrúi eða byggingaryfirvöld á þeim tíma skrá lóðina undir nefndu heiti, sem vísar til þess að lóðin komi úr landi Snartarstaða.

Byggt er á því að skipulags- og byggingarfulltrúi Þingeyinga gerði ekki athugasemdir við stofnskjal lóðarinnar þegar það var borið undir hann af hálfu ráðuneytisins, áður en skjalið var sent til þinglýsingar, í janúar 2006, sbr. tölvupóst hans dags. 18. janúar 2006.

Því er þannig hafnað af hálfu stefnda að nokkur eðlisbreyting verði á tilvist lóðarinnar Snartarstaðir lóð, landnúmer 154223, við þinglýsingu umrædds stofnskjals, enda lóðin skráð í fasteignaskrá og til löngu fyrir þann tíma. Vísar stefndi þá til þess að bæði leigusamningur um lóðina til Rarik hf. og stofnskjal til þinglýsingar hafi verið send með bréfum dagsett sama dag úr ráðuneytinu, þ.e. 16. janúar 2007. Skjalinu var þinglýst á jörðina 23. janúar 2007. Í því ljósi sé því þannig alfarið hafnað að ráðuneytið hafi verið grandsamt um deilur aðila um eignarheimildir á grundvelli þess að leigusamningur hafi ekki verið undirritaður, þegar stofnskjal var sent frá ráðuneytinu í janúar 2007, enda leigusamningur sendur úr ráðuneytinu sama dag og stofnskjalið. Ráðuneytið hafi því með engu verið grandsamt um þær deilur sem urðu í kjölfarið til þess að leigusamningur var ekki undirritaður, heldur verið í góðri trú. Atvik urðu síðan þau að leigusamningur var ekki undirritaður um framangreinda lóð og leigugreiðslur ekki greiddar. Þær staðreyndir hafi ekki legið fyrir er ráðuneytið sendi stofnskjal til þinglýsingar, með bréfi dags. 16. janúar 2007, heldur síðar. Endanleg úrlausn í deilum aðila um landamerki hafi ekki legið fyrir fyrr en með framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands, dags. 10. september 2015.

Stefndi vísar til þess að landamerki séu í eðli sínu háð túlkun, einkum ef fyrir liggja ólíkar heimildir um legu þeirra. Ekki verði séð að stofnun lóðarinnar sem slíkrar uppfylli skilyrði ólögmætishugtaksins eða að ráðstöfunin sem slík geti varðað skaðabótaskyldu samkvæmt almennu sakarreglunni. Þá fær ekki staðist, með vísan til framangreinds, að með þeim gjörningi að þinglýsa stofnskjali um lóðina hafi íslenska ríkið slegið eign sinni á umrædda lóð eða viðhaft háttsemi sem uppfyllir skilyrði almennu skaðabótareglunnar.

Stefndi byggir einnig á því að engin rök standa til að taka til greina skaðabótakröfu stefnenda enda hafi ekki endanlega verið ljóst um merki fyrr en með dómi Hæstaréttar og veruleg óvissa var þar um í langan tíma. Fyrst að gengnum dómi Hæstaréttar varð álitamál um það raunhæft.

Stefndi byggir einnig á því að kröfur um skaðabætur séu fallnar niður fyrir tómlæti og fyrndar, a.m.k. þær sem eldri eru en 4 ára, sbr. ákvæði fyrningarlaga nr. 150/2007. Ekki sé raunhæft að miða við eldri fyrningarlög, en ef til kæmi væri fyrningarfrestur einnig 4 ár, sbr. 3. gr. lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, enda byggir skaðabótakrafa stefnenda í reynd á afgjaldi eða afnotum sem jafna megi til leigu. Þótt litið væri á þá kröfu sem skaðabótakröfu eftir þeim lögum var 10 ára fyrningarfrestur löngu liðinn á árinu 2007 áður en lög nr. 150/2007, um fyrningu tóku gildi. Þegar litið er til hinna nýrri laga eru kröfur um skaðabætur fyrndar að því leyti sem þær eru eldri en frá marsmánuði 2013, sbr. 1. mgr. 9. gr. þeirra.

 

IV. Niðurstaða

1.      Afmörkun sakarefnis og aðildar að málinu

Stefnendur krefjast þess að öllum stefndu verði sameiginlega gert að þola dóm um að fjarlægja öll mannvirki, þ.e. aðveitustöð og tengd spennuvirki, sem reist hafa verið í landi Brekku og eru inni á landi númer 154223 samkvæmt stofnskjali af landi stefnanda innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dóms í málinu að viðlögðum dagsektum 50.000 krónur fyrir hvern dag sem stefndu láta hjá líða að fjarlægja mannvirkin.

Þá er þess krafist að stefndu verði sameiginlega gert að lagfæra landsspjöll og koma í fyrra horf landi vegna jarðrasks vegna aðveitustöðvar og mannvirkja tengdum starfsemi vegna aðveitustöðvarinnar í landi Brekku, að viðlögðum dagsektum fyrir hvern dag sem stefndu láta hjá líða að koma landinu í fyrra horf. Loks krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði með dómi að þeir eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefndu sameiginlega vegna afnota af landi stefnenda vegna aðveitustöðvarinnar og spennuvirkja henni tengdri frá árinu 1978 til þess dags er efndir hafa farið fram á fyrstu og annarri kröfu þeirra.

Af málatilbúnaði stefnenda verður ráðið tilgangur þessarar málshöfðunar sé meðal annars að fá úr því skorið hvort mannvirkin sem vikið er að í kröfugerðinni séu í landi Brekku, jarðar stefnenda, eða í landi Snartarstaða, sem er í eigu stefnda íslenska ríkisins. Í stefnu er vikið sérstaklega að þessu markmiði en þar vísa stefnendur til þess að sýslumaður telji þrátt fyrir dóm Hæstaréttar frá 10. september 2015 í máli nr. 637/2014 óljóst hvort aðveitustöðin sem ágreiningurinn snýst um sé í landi Brekku og stefnendum sé þannig nauðugur einn kostur að leita úrlausnar dómstóla að þessu leyti.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er ljóst að staðsetning umræddra mannvirkja svo og landamerkja Brekku og Snartarstaða hefur grundvallarþýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins sem hér um ræðir. Telja verður að stefnendum hafi miðað við þessar forsendur málatilbúnaðarins og í samræmi við kröfur e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, borið að gera grein fyrir staðsetningu landamerkjanna með tilliti til landamerkja Brekku og Snartarstaða í stefnu þannig fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 80. gr. um nauðsyn skýrrar afmörkunar á ákveðnu sakarefni, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 16. janúar 2007 í máli nr. 650/2006.

Stefndi íslenska ríkið hefur hins vegar tekið fram í greinargerð sinni að því sé ekki mótmælt sem slíku að umrædd lóð með landnúmerið 154223 sé innan landamerkja Brekku eins og þau eru dregin í dómsorði dóms Hæstaréttar þann 10. september 2015 í málinu nr. 637/2014. Þá hafa meðstefndu Rarik ohf. og Landsnet hf. ekki hreyft mótmælum við fullyrðingum stefnenda um að aðveitustöðin sé innan landamerkja Brekku en ekki Snartarstaða. Í ljósi þess hvernig stefndu hafa hagað málatilbúnaði sínum að þessu leyti geta fyrrgreindir annmarkar á því hvernig stefnendur hafa lýst málsástæðum sínum ekki leitt til þess að þessum kröfulið þeirra verði vísað frá.

Að því er varðar kröfur stefnenda um að mannvirkin sem verði fjarlægð og landspjöll lagfærð þá verður hafa í huga að samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu þá er það ekki íslenska ríkið heldur stefndu Landsnet hf.og Rarik ohf. sem fara með eignarheimildir að þeim mannvirkjum sem stefnendur hafa nú krafist að verði fjarlægð og landspjöll verði lagfærð eftir. Í ljósi þessa verður ekki séð með hvaða hætti stefndi íslenska ríkið getur átt aðild að máli sem varðar þessa fyrstu tvo liði í kröfugerð stefnenda. Verður stefndi íslenska ríkið því sýknað af þessum kröfum vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

2.      Málsástæður stefndu Rarik ohf. og Landsnets hf. um að þeir hafi

eignast fasteignina sem aðila deila um á grundvelli laga nr. 46/1905, um hefð

 

Þegar kemur að því að leysa úr fyrstu og annarri kröfu stefnenda á hendur stefndu Rarik ohf. og Landsneti hf. þá hafa þessir stefndu byggt á þeirri málsástæðu að stefndi Rarik ohf., og áður Rafmagnsveitur ríkisins, og síðar að hluta stefndi Landsnet hf., hafi haft óslitið eignarhald á fasteigninni frá því að aðveitustöðin var byggð árið 1978. Stefndi Landsnet hafi því unnið eignarrétt yfir fasteigninni fyrir hefð, í samræmi við 2. - 3. gr. laga nr. 46/1905, um hefð.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 er óslitið 20 ára eignarhald á fasteign skilyrði fyrir hefð. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. laganna að ef maður hefur náð umráðum með glæp eða óráðvandlegu atferli, megi hann þá ekki hefð vinna, og sama gildi ef hefðandi fær vitneskju um, áður en hefðin er fullnuð, að eignarhaldið sé þannig til komið. Loks er í 3. gr. laga nr. 46/1905 kveðið á um að til hefðartíma megi telja óslitið eignarhald tveggja manna eða fleiri, ef eignarhaldið hafi gengið löglega frá manni til manns, en eignarhald hvers einstaks hefðanda verður að fullnægja skilyrðum þeim, er sett eru í 2. gr. 

Eins og áður kemur fram var aðveitustöðin sem málið snýst um reist á árið 1978 og reiknast eignarhald samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/1905 frá sama tíma. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga segir að álíta skuli hefðarhaldi slitið ef réttur hefðanda er vefengdur með löglega birtri dómstefnu, áður en hefðartíminn er fullnaður, ef dómur gengur sækjanda í vil. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. laganna hefur hins vegar skýrt svo að vitneskja þess, sem eignarhald hefur á landi, um að annar telji til réttar yfir því geti eftir atvikum slitið hefðarhaldi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 13. desember 2007 í máli nr. 152/2007 og 16. mars 2017 í máli nr. 390/2016. Með sama hætti hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið lögð rík áhersla á það við beitingu 2. og 3. gr. laga nr. 46/1905 hvort sá sem telur sig hafa öðlast eignaréttindi á grundvelli hefðar hafi farið með eignarhald án athugasemda af hálfu annarra, sjá hér meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 11. október 2001 í máli nr. 80/2001 frá 8. nóvember 2007 í máli nr. 145/2007.

Þegar litið er til þess að annar stefnenda gerði á árinu 1997 athugasemdir við að aðveitustöðin væri á landi Brekku, áður en 20 ára hefðartími samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 var liðinn verður ekki fallist að stefndu hafi öðlast eignarrétt að fasteigninni þar sem aðveitustöðin stendur á grundvelli hefðar. Í tengslum við ákvæði laga nr. 46/1905 verður enn fremur að geta þess að stefndu hafa ekki byggt á því þeir hafi öðlast afnotarétt, sbr. 7. gr. laganna, á landi stefnenda á grundvelli málstæðna sem rökstuddar eru með vísan til laga nr. 46/1905. Sjónarmið um afnotahefð samkvæmt þeim lögum koma því ekki til skoðunar við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Að því er varðar málsástæðu stefnda Landsnets um að hann hafi öðlast rétt til fasteignarinnar á grundvelli 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og að hann eigi ekki að sæta því að heimild fyrirrennara hans sé ógilt, þar sem hann hafi verið grandlaus um að lóðin væri innan landamerkja Brekku, þegar hann öðlaðist réttindin þá getur dómurinn ekki fallist á þessa málsástæðu. Vísar dómurinn þá til þess að eigninni sem um ræðir var afsalað til stefnda Landsnets hf. 21. desember 2005 en stofnskjali lóðarinnar var hins vegar ekki þinglýst fyrr en 22. janúar 2007. Í ljósi þessa verður ekki séð að stefndi Landsnet hf. hafi með nokkru móti reitt sig á þinglýsingu fasteignarinnar sem um ræðir við að afla sér réttinda yfir henni. Er þessari málsástæðu því hafnað.

Þá hafnar dómurinn málsástæðum stefndu um að 6. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, geti átt við í þessu máli, enda er það ákvæði bundið samkvæmt orðalagi sínu við þær aðstæður að máli hafi verið vísað til matsnefndar eignarnámsbóta. Í ljósi þess að hvorugur aðila hefur vísað málinu til nefndarinnar tekur ákvæðið ekki til atvika málsins og verður því ekki fjallað frekar um það í málinu.

 

3.      Málsástæður stefndu um sýknu á með vísan til sjónarmiða

um tómlæti, venju og nauðsyn þess að komast hjá eyðileggingu verðmæta

 

Stefndu Rarik ohf. og Landsnet hf. hafa einnig byggt á því að sjónarmið um tómlæti stefnenda, venju og nauðsyn þess að komast hjá eyðileggingu verðmæta eigi að leiða til þess þeir verði sýknaðir af kröfu stefnenda um að aðveitustöðin og tengd spennivirki verði fjarlægð.

Sjónarmiðin sem stefndu vísa til að þessu leyti eru ekki skráð í settum lögum. Dómurinn telur að í ljósi sjónarmiða um réttarvissu verði almennt að leggja til grundvallar að eigandi fasteignar glati ekki réttindum sínum yfir henni á grundvelli aðgerðaleysis og afnota annars grandlauss aðila nema að því leyti sem kveðið er á um í ákvæðum laga nr. 46/1905 eða, eftir atvikum, öðrum skráðum lagareglum um réttaráhrif tómlætis.

Af þessum ástæðum verða almennt að liggja veigamikil rök að baki því að tómlæti fasteignareiganda, sem ekki fellur undir gildissvið skráðra réttarreglna, leiði til þess að eigandinn fyrirgeri að einhverju leyti þeim einkarétti til nýtingar eignar sem fylgja eignarrétti hans á grundvelli eigin tómlætis eða annarra óskráðra réttarreglna. Slík réttaráhrif eru þó að mati dómsins alls ekki útilokuð.

            Þegar atvik þessa máls eru virt með heildstæðum hætti þá verður ekki annað séð af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu en að Rafmagnveitur ríkisins hafi þegar aðveitustöðin og tengd spennuvirkin voru reist árið 1978 verið í góðri trú um að mannvirkin væru í landi Snartarstaða sem þá var í eigu stefnda íslenska ríkisins. Enn fremur verður ekki annað séð að Rafmagnsveiturnar hafi síðan áfram verið grandlausar um þessa heimild sína um 19 ára skeið, eða allt þar til annar stefnenda gerði athugasemdir við að mannvirkin væru á hans landi árið 1997. Fullyrðingar í málatilbúnaði stefnanda um að þeir hafi gert athugasemdir fyrir þann tíma eiga sér ekki stoð í gögnum málsins, enda liggja þar ekki fyrir nein gögn um athugasemdir þeirra sem dagsett eru fyrir bréf lögmanns stefnanda, dags. 24. október 1997. Af því bréfi verður enn fremur ekki ráðið að stefnandi hafi gert kröfu um að mannvirkin yrðu fjarlægð heldur áskildi hans hann sér eingöngu endurgjald fyrir afnot stefndu, annaðhvort í formi skaðabóta eða ígildis eignarnámsbóta. Jafnframt liggur fyrir að ekki var skorið endanlega úr um landamerki Brekku og Snartarstaða fyrr en með dómi Hæstaréttar frá 10. september 2015 í máli nr. 647/2015.

            Telja verður ljóst þegar litið er til atvika málsins að ástæður þess að stefnendur gerðu ekki fyrr reka að því að leita réttar síns vegna mannvirkjanna sem þeir krefjast nú að verði fjarlægð megi rekja til þess að þeir stóðu sjálfir ranglega í þeirri trú að þau stæðu í landi Snartastaða en ekki Brekku. Þótt stefnendum verði ekki talið það til sakar að hafa láti það viðgangast að aðveitustöðin væri reist þá verður hins vegar ekki hjá því litið að stefnendur höfðu í bæði ljósi umfangs mannvirkjanna og staðsetningar þeirra nálægt mörkum Brekku og Snartarstaða ærið tilefni til að grennslast fyrir um landamerki sín og setja fyrr fram kröfur um að mannvirkin yrðu fjarlægð ef þeir sættu sig ekki við byggingu þeirra.

Við mat á kröfu stefnenda um að mannvirkin verði fjarlægð verður enn fremur ekki dregin fjöður yfir að umtalsverðar fjárfestingar eru fólgnar í því að reisa mannvirkin sem um ræðir, sem rennir frekari stoðum undir góða trú fyrirrennara stefndu um staðsetningu þeirra. Þá verður ekki horft framhjá því að rekstur aðveitustöðvarinnar er þáttur lögbundnu hlutverki stefnda Landsnets hf., sbr. III. kafla raforkulaga nr. 65/2003 og lögbundnum verkefnum stefnda Rarik ohf. Aðveitustöðin tengist Laxárvirkjun og stöðin sér íbúum og fyrirtækjum í Norður-Þingeyjasýslu, sem og Bakkafirði fyrir rafmagni, þannig að verulegir almannahagsmunir fylgja rekstri stöðvarinnar.

            Að mati dómsins duga þau sjónarmið sem hér eru rakin ekki til að stefndu verði taldir hafa eignast fullan eignarrétt á því landi sem aðveitustöðin stendur á eins og haldið er fram í málatilbúnaði þeirra. Verður því að hafna öllum málsástæðum þeirra um slíkan eignarrétt. Með vísan til sömu sjónarmiða svo og sjónarmiða um tómlæti stefnenda og þeirra hagmuna sem bundnir eru í mannvirkjum stefndu er hins vegar fallist á þær málsástæður sem þeir hafa teflt fram til vara að þeir hafi unnið sér slíkan rétt til afnota af landi Brekku fyrir rekstur aðveitustöðvarinnar að hafna verði fyrstu og annarri kröfu stefnanda um að mannvirkin verði fjarlægð. Verður þá að leggja áherslu á að Rafmagnsveitur ríkisins höfðu áður en stefndu yfirtóku réttindi og skyldur þeirra gengið út frá því um langa hríð að aðveitustöðin væri í landi stefnda íslenska ríksins.

           

4.      Krafa stefnenda um viðurkenningu bótaskyldu.

Þótt dómurinn hafi samkvæmt framansögðu ekki fallist á kröfur stefnanda um að mannvirkin verði fjarlægð kunna sjónarmið leidd af vernd eignarréttarins samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar að leiða til þess að stefnendur geti engu að síður áskilið sér endurgjald fyrir afnot stefndu.

Hvað endurgjald varðar þá hafa stefnendur krafist þess að viðurkennt verði með dómi að þeir eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefndu in solidum vegna afnota af landi stefnenda vegna aðveitustöðvarinnar og spennuvirkja henni tengdri frá árinu 1978 til þess dags er efndir hafa farið fram á kröfum samkvæmt öðrum og þriðja lið dómkrafna stefnenda í máli þessu.

Stefndu telja að þessi liður kröfunnar sé vanreifaður, enda sé hvorki gerð fullnægjandi grein fyrir kröfunni í stefnu né gögn lögð fram henni til stuðnings. Stefndi íslenska ríkið vísar til þess að engum rökstuðningi sé fyrir að fara um ætlað tjón, ólögmæta eða saknæma háttsemi starfsmanna ríkisins, hvorki starfsmanna landbúnaðarráðuneytis né annarra. Almennt telja stefndu að krafan sé þannig fram sett að þeim sé í reynd sé erfitt að taka til varna.

Áskilnaður 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni hefur í fjölmörgum dómum Hæstaréttar verið skýrður á þann veg að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Með úrskurði dómsins frá 18. mars 2018 var hafnað kröfu stefnda íslenska ríkisins um frávísun kröfunnar um viðurkenningu skaðabótaskyldu. Vísaði dómurinn þá til þess að stefnendur hefðu lýst því í stefnu að krafa þeirra um viðurkenningu skaðabótaskyldu byggðist á því að þeir hefðu orðið fyrir tjóni, bæði með því að engin endurgreiðsla hefði átt sér stað fyrir afnot af landi þeirra og einnig með því að jarðrask stefndu vegna mannvirkja og umferðar hefði spillt landi. Eins og greinir í úrskurði dómsins taldi dómurinn að stefnendur hefðu með þessu lýst nægilega grundvelli málatilbúnaðarins. Stefndu Landsnet hf. og Rarik ohf. gerðu ekki kröfu um frávísun málsins.

Þótt stefnendur hafi kosið að setja fram kröfur sínar sem kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu verður að mati dómsins ekki um það villst þegar litið er til málatilbúnaðar þeirra að viðurkenningarkrafa þeirra lýtur í reynd að rétti þeirra til endurgjalds í formi bóta fyrir afnot stefndu af landi þeirra en ekki rétti til bóta vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi. Ekki eru forsendur til að fjalla um hið síðarnefnda í málinu enda hafa stefndu sem fyrr segir ekki gert viðunandi grein fyrir málsástæðum um skaðabótaskyldu.

Að því er varðar fjárhæð þess tjóns sem stefnendur telja sig hafa beðið vegna afnota stefndu þá lögðu stefnendur fram matsgerð í dóminum 18. september 2018 þar sem lýst var þeirri niðurstöðu að leigugjald fyrir lóðina sem ágreiningur málsins snýst um undir aðveitustöð í landi Brekku á tímabilinu 1978 til 2018 væri samtals 264.000 kr. eða samtals 588.720 að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu. Telja verður að stefnendur hafi með þessari matsgerð leitt nægilegar líkur að tjóni sínu í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Að því er snertir varnir stefndu um að kröfur stefnenda séu fyrndar þá leiðir það af 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, að krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Ekki verður séð að stefnendur hafi í ljósi óvissunar um landamerki Brekku og Snartarstaða fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt í skilningi 1. mgr. 9. gr. fyrr en með dómi Hæstaréttar frá 10. september 2015 í máli nr. 637/2014 þar sem fallist var á kröfur þeirra um landamerki milli Brekku og Snartarstaða. Í ljósi þessa er vörnum stefndu um að kröfur stefnenda séu fyrndar hafnað.

Dómurinn telur þar með rétt að fallast á kröfu stefnenda um viðurkenningu bóta fyrir afnot stefndu af landi þeirra. Í ljósi niðurstöðu dómsins um fyrri tvær kröfur stefnenda er ekki fallist á að réttur til bóta vegna afnota verði miðaðar við þann dag er efndir hafa farið fram á kröfum samkvæmt fyrsta og öðrum lið dómkrafna stefnenda.

Samkvæmt framangreindu hefur dómurinn sýknað stefndu af fyrstu og annarri kröfu stefnanda en fallist á kröfu stefnenda um að viðurkennt verði að stefnendur eigi rétt á bótum úr hendi stefndu sameiginlega vegna afnota af landi stefnenda vegna aðveitustöðvarinnar og spennuvirkja henni tengdri frá árinu 1978.

Með vísan til þessarar niðurstöðu verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnendum málskostnað í málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.240.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið horft til þess að fyrstu kröfu stefnenda var vísað frá með úrskurði dómsins 15. mars 2018. 

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefnendur eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefndu sameiginlega sökum afnota af landi stefnenda vegna aðveitustöðvarinnar og spennuvirkja henni tengdri frá árinu 1978.

Stefndu eru sýknaðir af öðrum kröfum stefnenda í málinu.

Stefndu greiði sameiginlega stefnendum 1.240.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson (sign).