• Lykilorð:
  • Lausafjárkaup
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 7. nóvember 2018 í máli nr. E-2999/2017:

BSV ehf.

(Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

gegn

Orange Project ehf.

(Jón Magnússon lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október 2018, höfðaði BSV ehf., [...], hinn 25. september 2017, á hendur Orange Project ehf., [...]

            Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda 249.860 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. maí 2016 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

 

I

Helstu málsatvik og ágreiningsefni

            Málavextir eru þeir helstir að stefndi keypti tíu öryggismyndavélar, og þjónustu við forritun og stillingar á myndavélakerfi, af stefnanda vorið 2016. Stefnandi gaf út reikning vegna kaupanna og uppsetningar á búnaðinum, dagsettan 24. maí 2016. Haustið 2015 hafði stefndi keypt tólf sams konar vélar og þjónustu af stefnanda og hafði stefnandi gefið út reikning, dagsettan 12. október 2015, í samræmi við tilboð dagsett 30. september s.á., vegna þeirra viðskipta. Óumdeilt er að stefndi hefur greitt þann reikning að fullu. Samkvæmt báðum þessum reikningum var veittur 50% afsláttur af kaupum á vélunum sjálfum.

            Aðilar deila um skyldu stefnda til greiðslu áðurnefnds reiknings frá 24. maí 2016. Stefndi heldur því fram að sá búnaður sem hann keypti af stefnanda hafi ekki virkað og sé haldinn galla. Hann hafi því farið fram á það að stefnandi kæmi búnaðinum í lag eða fjarlægði hann ella. Stefnandi hafi ekki orðið við þeirri beiðni heldur ákveðið að gefa út reikning vegna viðskiptanna. Stefnandi heldur því hins vegar fram að búnaðurinn sem stefndi keypti hafi virkað við uppsetningu og því beri stefnda að greiða stefnanda umdeildan reikning.

 

II

Málsástæður stefnanda

            Samkvæmt stefnu byggir stefnandi kröfu sína á reikningi, dagsettum 24. maí 2016, að fjárhæð 249.860 krónur „vegna kaupa stefnda á vörum, vinnu og þjónustu af stefnanda í maí 2016, eins og lýst er í framlögðum reikningi“. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sem fái meðal annars lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og í lögum nr. 42/2000 um þjónustukaup.

            Við munnlegan málflutning kom fram að stefnandi byggi á því að stefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir við virkni búnaðarins eftir kaup hans á sams konar vörum í október 2015, sem starfsmaður stefnanda hafi sett upp á starfsstöð stefnda. Stefnandi telji ósannað að öryggismyndavélarnar, sem settar voru upp í kjölfar kaupa stefnda í maí 2016, hafi verið haldnar galla eða að einhverju hafi verið ábótavant við uppsetningu þeirra. Stefnandi beri ekki ábyrgð á því að átt hafi verið við kerfið af þriðja aðila, eins og virðist hafa verið gert í þessu tilviki. Fyrirsvarsmaður stefnanda og starfsmaður hans hafi bent fyrirsvarsmanni stefnda á að myndavélarnar þyrftu helst að vera nettengdar með snúru, í stað þráðlauss nets, og ef hnökrar væru á kerfinu væri það líklegast vegna netsambands á starfsstöð stefnda. Þá byggi stefnandi á því að ekki liggi annað fyrir í málinu en að vélarnar hafi verið í lagi við uppsetningu þeirra og ef þær hafa orðið óvirkar síðar sé það alfarið á ábyrgð stefnda. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir þeim staðhæfingum sínum að stefnandi sé ábyrgur fyrir því að búnaðurinn virki ekki sem skyldi. Stefndi hafi ekki beiðst dómkvaðningar matsmanns undir rekstri málsins til að leggja mat á virkni kerfisins og hvort það sé haldið göllum. Skjal sem stefndi hafi lagt fram um yfirferð utanaðkomandi aðila á myndavélakerfinu hafi ekkert sönnunargildi í málinu, enda aflað einhliða og alfarið án aðkomu stefnanda. Viðkomandi aðili hafi auk þess ekki gefið skýrslu fyrir dóminum til staðfestingar áliti sínu.

 

III

Málsástæður stefnda

            Sýknukrafa stefnda er reist á því að búnaðurinn sem stefnandi afhenti stefnda hafi verið ónothæfur, en ætlun stefnda hefði verið að kaupa búnað sem væri í lagi. Því hafi stefndi rift kaupunum þegar hann krafðist þess að stefnandi tæki til baka þann búnað sem komið hafði verið fyrir í húsnæði stefnda. Stefndi bendir á að hann hafi ítrekað farið fram á það við stefnanda að hann kæmi búnaðinum í lag en tæki hann ella.

            Þá byggir stefndi á því að reikningur stefnanda sé „fráleitur þar sem um tæki og búnað er að ræða sem nýtist ekki væntanlegum kaupanda“. Beri að lækka hann verulega verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu.

            Stefndi vísar til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sérstaklega 2. mgr. 17. gr. laganna, og telur að töluliðir a-d taki til viðskipta aðila. Sá búnaður sem afhentur hafi verið stefnda hafi verið haldinn galla og beri stefndi ekki greiðsluskyldu vegna afhendingar stefnanda á gölluðum hlut. Stefndi vísar jafnframt til 30. gr. sömu laga um úrræði við galla og telur sig hafa í öllum efnum farið að ákvæðum þeirrar lagagreinar, en hann hafi fyrst krafist þess að stefnandi reyndi að bæta úr göllum á hinu selda. Þegar stefnandi gerði það ekki hafi stefndi krafist riftunar kaupanna í samræmi við ákvæði 30. gr. laganna.

            Verði talið að einhver hluti búnaðarins sé nothæfur fyrir stefnda og í samræmi við samninga aðila þá byggi stefndi á því að lækka eigi reikning stefnanda verulega og allt að einu beri stefnandi allan kostnað af málarekstrinum.

 

IV

Niðurstaða

Við aðalmeðferð málsins gaf Bjarni Hilmar Jónsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, aðilaskýrslu. Þá gaf Tómas Hilmar Ragnarsson framkvæmdastjóri stefnda skýrslu sem vitni, sem og Siguróli Jóhannsson, tæknimaður hjá Origo hf.

Af stefnu málsins má ráða að stefnandi reisi kröfu sína gegn stefnda á reikningi, útgefnum 24. maí 2016, en reikningurinn hafi verið gefinn út vegna kaupa stefnda á vörum, vinnu og þjónustu af stefnanda. Í framlögðum reikningi er nánar tilgreint hvaða vörur um sé að ræða og hvaða þjónusta hafi verið veitt stefnda. Þótt málsatvikalýsing í stefnu sé knöpp, líkt og gjarnan á við í innheimtumálum, er lýsingu málsatvika ekki svo áfátt að frávísun varði án kröfu, en á því var byggt við munnlegan málflutning af hálfu stefnda. Málsgrundvöllur stefnanda telst nægilega skýr og uppfyllir málatilbúnaður hans kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eins og þegar er fram komið byggist sýknukrafa stefnda meðal annars á því að hann hafi rift kaupunum þegar í ljós kom að tæki og búnaður sem stefnandi afhenti stefnda hefðu verið í ólagi. Komi því ekki til greiðsluskyldu stefnda vegna afhendingar stefnanda á tækjunum og búnaðinum. Í málflutningi byggði stefndi á því að riftun hefði átt sér stað í kringum áramótin 2016–2017.

Fyrir dóminum bar Siguróli Jóhannsson að hann hefði haustið 2015, þá starfandi sem sjálfstæður verktaki, sett upp að beiðni stefnanda myndavélabúnað á starfsstöð stefnda í Ármúla og síðar í nýtt húsnæði stefnda við Tryggvagötu. Fullyrti hann að kerfið hefði virkað eftir uppsetningu en hann hefði þó bent fyrirsvarsmanni stefnda á að fasttengja vélarnar, þ.e. tengja þær netsambandi með snúru, fremur en að keyra þær á þráðlausu neti, en ávallt sé ráðlagt að fasttengja vélarnar til að tryggja gott netsamband. Þá hafi starfsmaður sem vann að því að endurskipuleggja netkerfið hjá stefnda haft samband við vitnið síðar og fengið ráðleggingar. Loks staðfesti Siguróli það, sem fram kemur í skriflegri yfirlýsingu hans, dagsettri 1. desember 2017, að hann telji ekki hægt að kenna bilun í myndavélabúnaði um að kerfið hafi á einhverjum tímapunkti ekki virkað, heldur netbúnaði sem og breytingum sem gerðar hafi verið innanhúss hjá stefnda löngu eftir að kerfið hafi verið sett upp og komið í fulla virkni.

Í málinu liggja fyrir tölvubréf fyrirsvarsmanns stefnanda og vitnisins Siguróla til framkvæmdastjóra stefnda 1. til 5. október 2015, þ.e. í tengslum við fyrri viðskipti aðila vegna kaupa á samskonar búnaði. Þar kemur fram að framkvæmdastjóra stefnda var bent á að það væri frumskilyrði þess að búnaðurinn virkaði hnökralaust að netsamband væri gott.

Stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir þeim staðhæfingum sínum að öryggismyndavélabúnaðurinn sem hann keypti af stefnanda sé haldinn galla og hafi ekki virkað sem skyldi eftir uppsetningu hans. Stefnandi hefur mótmælt því að búnaðurinn hafi verið í ólagi við uppsetningu hans á starfsstöð stefnda. Að virtum framburði Siguróla Jóhannssonar, sem ekki hefur verið hnekkt af hálfu stefnda, verður það ekki talið síður líklegt að netsamband á starfsstöð stefnda hafi orsakað vandkvæði á notkun kerfisins en að galla á búnaðinum sjálfum eða uppsetningu hans sé um að kenna. Stefndi lagði ekki fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til þess að leggja mat á virkni myndavélanna og kerfisins, eins og honum hefði verið í lófa lagið að gera. Framlagt skjal, dagsett 15. mars 2018, sem undirritað er af Rúnari P. Rúnarssyni fyrir hönd Tactica ehf. og varðar yfirferð hans á myndavélakerfinu, getur ekki talist hafa sönnunargildi í málinu enda var þess aflað einhliða af hálfu stefnda, auk þess sem höfundur þess staðfesti ekki efni þess fyrir dómi. Í ljósi alls framangreinds verður ekki fallist á að stefndi hafi réttilega rift kaupunum og geti þannig komist hjá greiðsluskyldu sinni.

Þá verður stefndi, með sömu rökum, að bera hallann af sönnunarskorti fyrir varakröfu sinni um lækkun, sem byggð er á þeirri málsástæðu að fjárhæð reiknings stefnanda sé „fráleit“ þar sem búnaðurinn hafi ekki nýst honum. Kemur hún því ekki til frekari skoðunar.

Samkvæmt framanrituðu verður því fallist að fullu á fjárkröfu stefnanda í málinu og verður hún dæmd með dráttarvöxtum eins og krafist er, en dráttarvaxtakröfu, þ.m.t. upphafstíma þeirra, hefur ekki verið sérstaklega mótmælt. Það athugist að í stefnu er krafa um upphafstíma dráttarvaxta miðuð við að umræddur reikningur hafi verið gefinn út 25. maí 2016, en ekki 24. s.m., eins og framlagður reikningur ber með sér. Er þar sjáanlega um misritun að ræða og er kröfugerð stefnanda ekki áfátt af þeim sökum, enda er hún stefnda hagfelld. Vegna ákvæða 12. gr. laga nr. 38/2001 er engin þörf á því að kveða í dómsorði á um höfuðstólsfærslu vaxta, eins og krafist er.

            Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Stefndi, Orange Project ehf., greiði stefnanda, BSV ehf., 249.860 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. maí 2016 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                 Hildur Briem