• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Umferðarlagabrot
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2018 í máli nr. S-253/2018:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

A

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 30. apríl 2018 á hendur:

 

            „A, kt. 000000-0000,

[...], Kópavogi,

 

fyrir brot gegn barnaverndarlögum, ofbeldi í nánu sambandi og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 1. janúar 2018 veist að X, kt. 000000-000, í bifreiðinni [...] á Vesturlandsveg við Úlfarsfell og kýlt hana hnefahöggum vinstra megin í andlitið, því næst ekið bifreiðinni sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 1,39‰ og 5,5 ng/ml af tetrahýdrókannabínól og 175 ng/ml af amfetamín) um ýmsar götur í Reykjavík sem leið lá að heimili þeirra að [...] þar sem hann stöðvaði aksturinn í bílakjallaranum, í framhaldinu veist aftur að X, ákærði með son þeirra B í fanginu og X með son þeirra C í fanginu, og kýlt hana hnefahöggi í andlitið og ýtt henni með þeim afleiðingum að hún féll á hnén en lögregla kom á vettvang skömmu síðar. Börnin B, C, báðir fæddir árið [...], D fædd árið [...] og E fædd árið [...] urðu vitni að háttseminni og með því beitti ákærði þau ógnunum og sýndi þeim yfirgang og ruddalegt athæfi. Af atlögunum hlaut X  mar á andliti og höfði, tognun og ofreynslu á hálshrygg, mar og áverka á hnjám.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. og 3. mgr. 99 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

            Verjandi gerir þær kröfur að verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa fyrir þau brot er ákærði hefur játað og að refsing verði skilorðsbundin. Þá krefst hann sýknu af umferðarlagabrotum. Einnig krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði

I.

            Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök hvað varðar brot sitt gegn sambýliskonu sinni og barnsmóður sem heimfært er undir 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

            Ákærði játaði einnig sök hvað varðar brot á barnaverndarlögum.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Fyrrnefnda brotið er rétt heimfært til refsiákvæðis. Ákærði mótmælir hins vegar heimfærslu barnaverndarlagabrots til 1. mgr. 99. gr. og telur 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eina eiga við.

Í málinu er óumdeilt að tvö börn sambýliskonu ákærða voru vitni að því þegar ákærði beitti móður þeirra ofbeldi 1. janúar 2018, eins og nánar er lýst í ákæru. Í dómaframkvæmd hefur slík aðstaða verið talin brot gagnvart börnum og brotið heimfært undir 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Felur slík háttsemi að mati dómsins í sér ógnanir í garð þeirra samkvæmt 1. mgr. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn framangreindum ákvæðum.

           

II.

            Ákærði neitar sök hvað umferðarlagabrot varðar, sem í ákæru eru heimfærð undir 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987.

            Málavextir eru þeir að 1. janúar 2018 var lögreglan kvödd að [...] vegna heimilisofbeldis. Á vettvangi var auk brotaþola hópur fólks. Var brotaþoli í miklu uppnámi og aðrir æstir og reiðir út í ákærða. Ákærði var innandyra og var handtekinn af lögreglu. Á leiðinni var sem hann fengi krampakast og var hann því fluttur á slysadeild en ekkert virtist ama að honum. Var þá jafnframt tekið úr honum blóðsýni vegna grunsemda um að hann hefði ekið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Að því búnu var hann fluttur á lögreglustöðina og vistaður í fangaklefa. Annað blóðsýni var tekið úr honum þar klukkutíma eftir að fyrra blóðsýnið var tekið. Tekið er fram í frumskýrslu að það hafi þurft að halda honum á meðan blóðsýnið var dregið úr honum. Ekki var tekið þvagsýni.

            Rætt var við brotaþola á vettvangi og segir í skýrslunni að hún hafi verið í miklu uppnámi og erfitt að fá ítarlegan framburð. Sjá mátti áverka á andliti hennar. Hafi hún lýst því að hún hafi verið akandi og sagt við ákærða að hann væri drukkinn og hún væri ekki hrifin af því. Hefði hann reiðst og kýlt hana þrisvar. Þau hefðu svo farið heim að [...] og lagt bílnum í bílakjallara.

            Einnig var rætt við vitni, þar á meðal F, bróðir brotaþola, sem kvaðst hafa ekið á eftir henni. Hafi hún verið ökumaður en á leiðinni hafi bifreiðinni verið beygt inn hjá skógræktinni við [...]. Bifreiðinni hafi síðan verið ekið þaðan á ofsahraða.

            Á meðal gagna málsins er skýrsla rannsóknarlögreglumanns sem var kallaður á vettvang í kjölfarið. Tekin var skýrsla af X og henni kynnt viðeigandi réttarfarsákvæði um vitnaskyldu og vitnaábyrgð. Skýrslan var tekin upp á upptökutæki. Viðstaddir skýrslutökuna voru m.a. faðir X og bróðir og lýstu þeir afmörkuðum atriðum. Þeim voru ekki sérstaklega kynnt réttarfarsákvæði. Í upphafi skýrslunnar mátti heyra brotaþola spyrja hvort ákærði fengi að sjá hvað hún segði, þá mátti heyra að hún var í geðshræringu. Fékk hún þau svör að ákærði fengi öll gögn ef málið færi lengra.

            Í skýrslunni er haft eftir X að hún hafi ekið bifreiðinni [...] frá heimili foreldra sinna í [...]. Strax í kjölfarið hafi ákærði orðið mjög æstur og reiður yfir því að hún hefði fundið að því að hann væri undir áhrifum áfengis. Hún hefði þá beygt upp hjá Skógræktarfélaginu og ákærði farið út úr bílnum, dregið hana út og beitt hana ofbeldi. Hann hafi síðan sest undir stýri og ekið heim. Hafi ákærði keyrt „ógeðslega harkalega heim og beyglaði húddið og allt á bílnum“.

 

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa ekið umrætt sinn eða atvikum að öðru leyti enda verið í „blackouti“. Vísaði hann til skýrslu sinnar hjá lögreglu og framburðar síns þá. Kvaðst ákærði hafa verið undir miklum áhrifum áfengis umrætt sinn og því myndi hann aldrei hafa ekið í slíku ástandi. Ákærði kvaðst þó ekki rengja atvikalýsingu að öðru leyti og hefði hann því gengist við brotum sínum gegn sambýliskonu og börnum. Væri rétt haft eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði oft lent í reiðikasti og dytti út en þá kæmi „einhver djöfull í staðinn“. Ákærði kvaðst vera í sambandi með sambýliskonu sinni og hefði tekið sig á í yfirstandandi afplánun.

            X, unnusta og barnsmóðir, kom fyrir dóminn en vegna náins sambands við ákærða óskaði hún eftir því að tjá sig ekki. Var hún leyst undan vitnaskyldu með vísan til 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kvaðst hún eingöngu vilja taka fram að ákærði hefði ekki ekið bifreiðinni umrætt sinn.

            G, faðir brotaþola, kvað sér ekki vera kunnugt um hvernig sambandi dóttur hans og ákærða væri háttað í dag en á sínum tíma hefðu þau verið í sambúð. Það kvöld sem um ræðir hafi fjölskyldan verið saman á heimili vitnisins og hafi vitnið séð að ákærði varð ölvaður. Vitnið staðfesti að hann hefði beðið son sinn að aka á eftir þeim heim því hann hefði haft áhyggjur af öryggi X. Henni hefði ekki liðið vel yfir ástandi ákærða og ljóst að hún þyrfti aðstoð með börnin. Þá lýsti vitnið því er brotaþoli hringdi grátandi og æst í hann skömmu síðar og að hann hefði strax farið til hennar. Hefði hún tjáð honum að þau hefðu stansað á leiðinni en í því samtali hefði ekki komið sérstaklega fram hver hefði ekið bifreiðinni.

            F, bróðir X kvaðst hafa fylgt henni eftir á bifreið sinni umrætt sinn en hann hefði ætlað að hjálpa þeim að bera dót úr bílnum. Hún hafi þá verið ökumaður og ekið á löglegum hraða og ekki „eitthvað skringilega“. Þegar komið var að hringtorgi hafi hann séð þegar bílnum var ekið úr torginu og stansað við Skógræktina. Þaðan hafi bifreiðinni síðan verið ekið á ofsahraða. Kvaðst vitnið hafa dregið þá ályktun af aksturslaginu að ákærði hefði verið bílstjóri umrætt sinn. Bifreiðinni hafi síðan verið ekið í bifreiðakjallarann við heimili [...] hans. Hafi hann aldrei séð ákærða undir stýri. Aðspurður kvað vitnið ákærða hafa drukkið áfengi þetta kvöld. Kvaðst hann hafa munað atvik betur þegar hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu en þá er haft eftir honum að ákærði hafi verið „óvenjulega fullur“ sem vitnið skýrði nánar að hann hefði átt við að ákærði hefði verið mjög fullur.

            H lögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu. Kvaðst hann m.a. hafa rætt við bróðir brotaþola sem hefði talið fullvíst að ákærði hefði ekið vegna þess hve aksturslag bifreiðarinnar breyttist. Hvað varði blóðsýnatöku kvað vitnið regluna vera þá að ef menn væru ekki staðnir að akstri væru tekin tvö blóðsýni með klukkustundar millibili. Hefði þurft að halda ákærða niðri á lögreglustöðinni þegar blóðsýnið var tekið.

            Einnig komu fyrir dóminn lögreglumennirnir I lögreglumaður og J og lýstu þau aðkomu sinni að málinu og gerðu grein fyrir helstu atriðum er fram koma í fyrirliggjandi lögregluskýrslum.

 

III.

Eins og áður greinir neitar ákærði sök hvað varðar brot gegn fyrrgreindum ákvæðum umferðarlaga. Byggir hann í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki ekið bifreiðinni [...] nánar tilgreindan vegarkafla og í öðru lagi á því að ákæruvaldinu sé óheimilt að leggja til grundvallar í málinu blóðsýni sem tekið var gegn vilja ákærða í fangageymslu.

Ákærði kannast við að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna umrætt sinn. Staðhæfði hann að hann myndi aldrei hafa sest undir stýri í slíku ástandi. Auk þess hafi verið börn í bílnum. Af þessum ástæðum neiti hann sök.

Ljóst má vera að ályktun ákærða tekur mið af ákvörðunum sem hann myndi taka með óskerta dómgreind. Hér fyrir dómi gekkst hann við því að hafa misst stjórn á sér umrætt sinn og að hafa beitt brotaþola ofbeldi í bifreiðinni og einnig í framhaldinu. Þá kvað hann það hafa gerst áður að hann hefði reiðst heiftarlega við ákveðnar aðstæður. Að þessu virtu hafnar dómurinn þessum skýringum ákærða.

 

Brotaþoli lýsti því yfir fyrir dómi að ákærði hefði ekki ekið umrætt sinn og bar þar með til baka fyrri framburð sinn. Kaus hún að tjá sig ekki frekar um málið.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þó getur skýrsla vitnis hjá lögreglu haft sönnunargildi þótt vitnið komi ekki fyrir dóminn ef þess er ekki kostur við meðferð málsins, sbr. 3. mgr. 111. gr. Í athugasemdum í greinargerð um ákvæðið er orðalagið „þess er ekki kostur“ skýrt svo að það geti m.a. tekið til þess þegar vitni neitar að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 117. gr. laganna.

Þrátt fyrir afstöðu brotaþola metur dómurinn eftir sem áður sönnunargildi framburðar brotaþola fyrir dómi samkvæmt 7. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 sé þess kostur. Telur dómurinn ljóst að viðsnúningur hennar frá fyrri framburði sé vegna sambands hennar við ákærða og rýrir það trúverðugleika hennar nú.

Í frumskýrslu lögreglu er ekkert haft eftir brotaþola um að ákærði hafi ekið bifreiðinni þann vegarkafla sem greinir í ákæru. Formleg lögregluskýrsla var tekin á heimili brotaþola í kjölfarið og gat hún þess þá eins og áður er rakið. Var skýrslan tekin upp á upptökubúnað og hefur því ríkara sönnunargildi en ella. Á móti kemur að þeir annmarkar voru á fyrirkomulagi skýrslutökunnar að brotaþoli var ekki í einrúmi heldur voru ýmsir aðilar þar viðstaddir, m.a. faðir hennar og bróðir sem eru vitni í málinu.

Þó að dómari hafi, telji hann breyttan framburð vitnis fyrir dómi ótrúverðugan, heimild til að taka tillit til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 verður sakfelling ákærða ekki reist á skýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu einni og sér heldur þarf hún að fá næga stoð í öðrum gögnum eða í framburði annarra. Bróðir brotaþola sá ákærða hvorki aka bifreiðinni frá Skógræktinni né stíga út úr bifreiðinni eftir að hún staðnæmdist. Ekki er öðrum vitnum til að dreifa sem borið gátu um atburðarásina. Ber því með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 99/2008 að sýkna ákærða af þeim hluta ákæru er lýtur að umferðarlagabrotum.

 

 

 

 

IV.

   Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum. Hann hefur ekki áður gerst sekur um slík brot eða ofbeldistengd brot. Hann á að baki talsverðan sakaferil, að mestu tengdan fíkniefnaneyslu.

Við ákvörðun refsingar er litið til skýlausrar játningar ákærða. Þá skal getið hegðunarvottorðs frá Sogni, dagsetts 15. júní 2018, þar sem ákærði hefur verið í afplánun frá 23. maí sl. Fær hann góð meðmæli fyrir hegðun þann tíma. Hefur það þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.

Til þyngingar horfir að ákærði braut alvarlega gegn sambýliskonu sinni. Þykir það auka alvarleika brotsins að hún var akandi er ákærði kýldi hana og hélt hann áfram að kýla hana eftir að heim var komið. Þá eykur það á grófleika verknaðarins að börn þeirra voru vitni að ofbeldinu. Vísast í þessu sambandi til 1. tl., 3. tl. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar litið er til framangreinds, og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir hæfileg refsing ákærða ákveðin fimm mánaða fangelsi. Þá þykja ekki skilyrði til þess að fresta fullnustu refsingarinnar.

 

            Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar, 421.600 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði jafnframt 48.290 krónur í annan sakarkostnað sem tilkominn er vegna læknisvottorðs brotaþola, en 176.265 krónur sem er kostnaður tilkominn vegna matsgerðar og blóðtökuvottorðs, greiðist úr ríkissjóði.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, A, sæti fangelsi í fimm mánuði.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 421.600 krónur. Ákærði greiði 48.290 krónur í annan sakarkostnað en 176.265 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)