• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

            Ár 2018, þriðjudaginn 11. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-117/2018: 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Grímur Hergeirsson fulltrúi)

                                                gegn

                                                Jóni Þórðarsyni

                                                (Þormóður Skorri Steingrímsson lögmaður)

 

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 23. maí sl. á hendur ákærða, Jóni Þórðarsyni, […]

 

 fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 11. febrúar 2018, ekið bifreiðinni […] austur Dynskála og norður Fossöldu á Hellu, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa áfengis (vínandamagn í blóði 1.23 ‰).

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

             

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

 

Málavextir.

 

Aðfaranótt sunnudagsins 11. febrúar 2018 voru lögreglumenn á eftirlitsferð vestur Dynskála á Hellu er þeir veittu athygli bifreiðinni […] sem ekið var austur þá götu. Segir í lögregluskýrslunni að lögreglumennirnir hafi þekkt ökumanninn og væri það ákærði í máli þessu. Hafi lögreglubifreiðinni verið snúið við og ekið á eftir bifreiðinni þar til henni hafi verið beygt til vinstri norður Fossöldu og inn á bifreiðastæði við Fossöldu 1. Hafi ökumaðurinn stöðvað bifreiðina, ljós hafi slokknað á bifreiðinni og hafi lögreglumaður verið kominn að bifreiðinni þegar ákærði hafi opnað hurðina ökumanns megin og komið undan stýri bifreiðarinnar. Hafi ákærði strax opnað afturhurðina ökumanns megin og náð í úlpu sem hann hafi farið í. Ákærða hafi verið tilkynnt kl. 03:27 að hann væri handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Ákærði kvaðst ekki hafa ekið bifreiðinni, einhver annar hafi gert það og hafi sá hlaupið í burtu. Ákærði kvaðst hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar og þegar hún hafi stöðvað hafi hann stokkið í bílstjórasætið. Í lögregluskýrslu segir að í framsæti bifreiðarinnar við hlið ökumanns hafi B setið með spennt öryggisbelti og hafi hún greinilega verið undir áhrifum áfengis. Hafi hún sagt að einhver A hefði ekið bifreiðinni en hann hafi síðan hlaupið í burtu til að hitta einhverja stelpu. Hafi framburður hennar verið mjög ruglingslegur sökum ölvunar. Ákærða var tekið blóð til alkóhólákvörðunar og samkvæmt niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði mældust 1.23 ‰ vínanda í blóði hans.

                       

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             

            Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið á þorrablót sem haldið hafi verið í íþróttahúsinu á Hellu ásamt B og A. Hafi þau síðan ekið burt og hafi A þessi ekið bifreiðinni í stæði, stöðvað hana og síðan hlaupið út úr bifreiðinni og farið inn í hús. Hann kvaðst hafa setið í aftursæti ökumanns megin, farið út, slökkt á ljósum bifreiðarinnar, opnað afturhurðina og sótt frakka sinn og hafi hann verið að klæða sig í frakkann sinn þegar lögreglan hafi komið og tekið hann fastan. B hafi setið í framsæti farþegamegin. Ákærði kvaðst hafa neitað að hafa ekið bifreiðinni en hann kvaðst ekki hafa sagt lögreglunni hver hefði ekið, honum hafi ekki verið gefið tækifæri til þess að skýra frá því, þeir hafi hamrað á því að hann hefði ekið bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa verið settur í fangaklefa og þar hafi hann verið í tvo tíma. Honum hafi síðan verið sleppt án þess að skýrsla hefði verið tekin af honum, honum hafi virst sem lögreglan hefði verið búin að ákveða að ákærði hefði ekið bifreiðinni.

            Vitnið C lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að þeir hafi séð bifreið snúa við, en talsverður snjór hafi verið. Hann kvaðst hafa þekkt ökumanninn og hafi sá verið ákærði í máli þessu. Bifreiðinni hafi verið veitt eftirför og hafi henni verið lagt í stæði og hafi lögreglubifreiðinni verið lagt aftan við hana. Hafi ljós bifreiðarinnar verið slökkt og þá hafi félagi vitnisins farið út og tekið á móti ákærða þegar hann  hafi stigið út úr bifreiðinni ökumanns megin. Hann kvaðst hafa séð konu sitja í framsæti með spennt öryggisbelti og hafi aðeins þau tvö verið í bifreiðinni. Hann kvað engan annan hafa ekið bifreiðinni og stokkið út úr henni, það væri útilokað, þeir hafi verið það nálægt bifreiðinni. Hann kvaðst þekkja ákærða vegna fyrri afskipta af honum. Hann kvað ákærða hafa verið dónalegan og með hótanir, þá hafi hann borið einkenni ölvunar.  Hann kvaðst hafa farið á vettvang og skoðað hvort mögulegt væri að einhver annar hefði ekið bifreiðinni og hlaupið burt, en engin ummerki í nýföllnum snjónum hefðu bent til þess. Hefðu þeir því talið málið upplýst og ákærða og konunni þá verið sleppt. Vitnið gat ekki upplýst hvað orðið hefði um bíllyklana.

            Vitnið D lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að þeir hafi mætt bifreið sem hafi snúið við og hafi hann þekkt ökumanninn og sá verið ákærði. Hann kvaðst hafa haft grun um að ákærði væri sviptur ökurétti og hafi þeir því veitt honum eftirför. Hafi bifreiðinni verið lagt í stæði og lögreglubifreiðinni fyrir aftan. Vitnið kvaðst hafa farið út og hafi ákærði komið á móti honum úr ökumannssætinu undan stýri, opnað afturhurðina og náð í jakka.  Í bifreiðinni hafi verið stúlka sem setið hafi í sæti við hlið ökumanns. Fleiri hafi ekki verið í bifreiðinni. Vitnið kvað engan möguleika að einhver annar en ákærði hefði ekið bifreiðinni. Hann kvað þá hafa farið aftur á vettvang og skoðað hvort mögulegt væri að einhver annar hefði ekið bifreiðinni, en engin ummerki hefðu sést um það í snjónum. Hann kvað ákærða ekkert hafa sagt um það hver hefði ekið bifreiðinni. Vitnið gat ekki upplýst hvað orðið hefði um bíllyklana.

            Vitnið B, […], skoraðist ekki undan vitnisburði. Hún skýrði svo frá að hún hafi verið á þorrablóti ásamt ákærða og hafi A komið til að skutla þeim. Hafi hann ekið þeim að húsi á Hellu til að hitta einhverja stelpu og hafi hann farið inn í húsið. Hún kvað lögregluna hafa komið eftir einhverjar mínútur, tvær til fjórar að því er hún hélt. Hún kvaðst hafa setið í framsæti bifreiðarinnar en ákærði hafi setið aftur í, hægra megin, að því er hún hélt. Hún kvað  lögregluna hafa talað við ákærða sem hafi staðið vinstra megin við bifreiðina til að ná í frakkann sinn.

            Vitnið A skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi sótt ákærða og B á þorrablót í íþróttamiðstöðinni, skutlað þeim í einhverja götu og síðan hafi vitnið farið út úr bifreiðinni til að hitta stelpu. Vitnið kvað ákærða hafa setið í framsæti en B aftur í, hægra megin að því er vitnið hélt. Vitnið kvað hafa verið dimmt, rigning og leiðindaveður, en akstursskilyrði hafi verið ágæt. Vitnið kannaðist ekki við að hafa þurft að snúa við en vitnið kvaðst hafa séð lögreglubifreið. Vitnið kvaðst hafa lagt bifreiðinni og farið inn í húsið. Vitnið mundi ekki hvort fleiri bifreiðar hefðu verið við húsið. Vitnið kvaðst hafa verið að flýta sér. Vitnið kvað engan snjó hafa verið á götunum. Vitnið kvaðst hafa verið með bíllyklana.

            Vitnið E, sérfræðingur hjá Rannsóknarstofu lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti niðurstöðu alkóhólrannsóknar í símaskýrslu fyrir dómi.

 

Niðurstaða.   

 

            Ákærða er í máli þess gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Ákærði neitar sök og kveður annan mann, vitnið A, hafa ekið bifreiðinni. Ákærði kvað A hafa ekið honum og B frá íþróttahúsinu á Hellu að húsi þar í bæ, stöðvað bifreiðina og síðan hlaupið út úr henni og farið inn í hús. Ákærði kvaðst hafa setið í aftursæti ökumanns megin, farið út, slökkt á ljósum bifreiðarinnar, opnað afturhurðina og sótt frakka sinn. Hafi B setið í framsæti farþegamegin og kvaðst ákærði hafa verið að klæða sig í frakkann sinn þegar lögreglan hafi komið og tekið hann fastan. Vitnið B kvað A hafa ekið þeim að húsi á Hellu til að hitta einhverja stelpu og hafi hann farið inn í húsið. Hafi lögreglan komið eftir tvær til fjórar mínútur að því er hún hélt. Hún kvaðst hafa setið í framsæti bifreiðarinnar en ákærði hafi setið aftur í, hægra megin, að því er hún hélt. Ákærði hafi þó staðið vinstra megin við bifreiðina til að ná í frakka sinn þegar lögreglan hafi haft tal af honum. Við mat á trúverðugleika framburðar B ber að hafa hliðsjón af tengslum hennar við ákærða. Vitnið A kvaðst hafa skutlað ákærða í einhverja götu og síðan hafi vitnið farið út úr bifreiðinni til að hitta stelpu. Vitnið kvað ákærða hafa setið í framsæti en B aftur í, hægra megin að því er vitnið hélt. Vitnið kvað hafa verið dimmt, rigning og leiðindaveður en enginn snjór hafi verið á götunum.

            Lögreglumennirnir C og D skýra báðir svo frá fyrir dómi að þeir hafi mætt umræddri bifreið og hafi þeir þekkt ökumann hennar sem ákærða í máli þessu. Þeir hafi síðan veitt bifreiðinni eftirför og hafi henni verið lagt í stæði og lögreglubifreiðinni fyrir aftan. Þeir skýra báðir svo frá að enginn möguleiki hafi verið á því að einhver annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni, en hann hafi stigið út úr henni ökumanns megin. Lagðar hafa verið fram ljósmyndir í máli þessu sem sýna að allnokkur snjór var á vettvangi. Engin för er að sjá í snjónum sem benda til þess að einhver hafi farið út úr bifreiðinni ökumanns megin og gengið í átt að húsi þar í grennd. Lögreglumennirnir kváðust báðir hafa rannsakað vettvang í því skyni að ganga úr skugga um hvort mögulegt væri að einhver annar en ákærði hefði ekið bifreiðinni en ekki hefðu fundist ummerki í snjónum sem bent gætu til þess. Að mati dómsins er framburður vitnisins A mjög ótrúverðugur, hann kvað vitnið B hafa setið aftur í þegar ákærða og lögreglumönnunum ber saman um að hún hafi setið í framsæti. Þá kannaðist vitnið A ekki við að það hafi verið snjór á götunum. Þá kannaðist vitnið ekki við að hafa þurft að snúa bifreiðinni en báðir lögreglumennirnir bera að bifreiðinni hafi verið snúið við. Er engu líkara en að vitnið sé að lýsa allt öðrum atburði en hér er fjallað um. Þá vekur það athygli að ákærði skýrir lögreglu aldrei frá því að umræddur A hafi ekið bifreiðinni, en sú frásögn kemur strax frá B.

            Þegar allt framanritað er virt og sérstaklega höfð hliðsjón af skýrum framburði lögreglumannanna þess efnis að þeir telji að útilokað sé að einhver annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni, þykir það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði átta sinnum áður verið fundinn sekur um refsivert athæfi, þar af tvívegis vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Ákærði var þann 30. mars 2015 fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna, honum gerð 70.000 króna sekt og hann sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Þann 15. mars 2017 var ákærði dæmdur í 100.000 króna sekt og sviptur ökurétti í tvö ár frá 21. september 2016 að telja fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.  

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af sakaferli hans fangelsi í 30 daga.

Með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja, enda um að ræða aðra ítrekun.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað vegna blóðrannsóknar, 35.498 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns, 360.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 36.960 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

Dómsorð:

 

Ákærði, Jón Þórðarson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna blóðrannsóknar, 35.498 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns, 360.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 36.960 krónur.

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson