• Lykilorð:
  • Gripdeild
  • Hylming
  • Játningarmál
  • Þjófnaður

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-267/2016:

 

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi )

gegn

Guðjóni Bergi Jakobssyni

(Sigurður Sigurjónsson lögmaður/Suðurlandi)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi 2. nóvember  2016, á hendur Guðjóni Bergi Jakobssyni,  Hjarðarholti 11, Selfossi

 

fyrir hylmingu, þjófnað og gripdeild

 

I.

með því að hafa um hádegisbil miðvikudaginn 8. júní 2016 í anddyri Sundhallar Selfoss við Bankaveg á Selfossi, tekið ófrjálsri hendi eitt skópar af gerðinni Under Armor speed force skóstærð nr. 45,5 að óþekktu verðmæti.

 

Telst brot ákærða varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

 

II.

með því að hafa skömmu eftir hádegi miðvikudaginn 8. júní 2016 í verslun Krónunnar við Austurveg á Selfossi, stolið einu kerti og einum dunk af mysupróteini, samtals að verðmæti kr. 4.538,-

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

III.

með því að hafa síðdegis miðvikudaginn 8. júní 2016 utandyra við athafnasvæði Blómavals við Eyraveg á Selfossi, teygt sig yfir girðingu og tekið þaðan ófrjálsri hendi pottablóm að verðmæti kr. 1.590,-

 

Telst brot ákærða varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

IV.

með því að hafa síðdegis föstudaginn 10. júní 2016 að […] á Selfossi, haft í vörslu sinni gaskút, rafmagnsverkfæri og handverkfæri að óþekktu verðmæti sem ákærði vissi eða mátti vita að væru þýfi og þannig haldið umræddum munum sem stolið var í innbroti miðvikudaginn 8. júní að […] á Selfossi, frá lögmætum eigenda sínum.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

 

V.

með því að hafa snemma morguns laugardaginn 27. ágúst 2016 í verslun 10-11 í Austurstræti í Reykjavík tekið einn poka af Pringles snakki, að verðmæti kr. 649,- sem ákærði neytti að hluta inn í versluninni og gekk síðan út án þess að greiða fyrir vöruna.

 

Telst brot ákærða varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

 

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Málið var þingfest 12. janúar 2017 og var þá Sigurður Sigurjónsson lögmaður skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Í þinghaldi 19. janúar 2017 játaði ákærði sök í ákæruliðum nr. II, III og V, en neitaði sök skv. ákæruliðum nr. I og IV. Næst var málið tekið fyrir 30. ágúst 2017 og var þá ekkert vitað um verustað ákærða og hafði ekkert náðst til hans og var sækjanda falið að leggja fyrir lögreglu að færa ákærða fyrir dóminn.

            Ákærði kom fyrir dóminn 25. janúar 2018 og óskaði eftir að breyta afstöðu sinni til sakargifta þannig að hann játaði sök skv. öllum liðum ákæru nema lið I, en af hálfu sækjanda var fallið frá ákærulið I. Í þinghaldinu var fyrrnefndur verjandi jafnframt leystur undan starfanum, en Torfi R. Sigurðsson lögmaður skipaður verjandi ákærða í hans stað.

            Var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi og skipaður verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

            Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði höfð skilorðsbundin. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna skipaðra verjenda.

Um málavexti vísast til ákæruskjals eins og því hefur verið breytt. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill hans árið 2007 þegar hann var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur þann 23. apríl. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti. Þann 11. september 2007 var ákærði dæmdur í 75 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þann 15. september 2011 var ákærða veitt reynslulausn af 49 daga eftirstöðvum framangreindra tveggja dóma, skilorðsbundið í 1 ár. Þann 11. ágúst 2009 voru lagðar á ákærða 4 dagsektir á 125 danskar krónur hver skv. ákvörðun réttarins í Kolding í Danmörku, fyrir búðaþjófnað. Þann 10. mars 2010 var ákærði sektaður um 20.000 kr. fyrir þjófnað. Þann 26. maí 2011 var ákærði sektaður um 62.000 kr. fyrir brot gegn áfengislögum nr. 75/1998 og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað þann 28. nóvember 2011 og þann 20. september 2012 í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir tilraun til þjófnaðar. Þá var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir þjófnað þann 30. maí 2013 og var þá síðastgreindur skilorðsdómur dæmdur upp. Þá var ákærði sektaður um 220.000 kr. fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti þann 16. ágúst 2013. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti. Loks var ákærði sakfelldur fyrir gripdeild þann 29. ágúst 2019, en ekki gerð sérstök refsing og var dómurinn hegningarauki. Við ákvörðun refsingar ákærða nú verður litið til hreinskilnislegrar játningar ákærða, 77. gr. almennra hegingarlaga nr. 19/19409, sem og ítrekunaráhrifa vegna dóms frá 30. maí 2013 sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður litið til þess að um óveruleg verðmæti var að tefla. Þykir refsing ákærða hæfileg fangelsi í 60 daga, en vegna sakaferils ákærða er ófært að binda refsinguna skilorði.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, en aðeins er um að ræða þóknanir skipaðra verjenda ákærða, þeirra Sigurðar Sigurjónssonar og Torfa R. Sigurðssonar lögmanna. Eru þær eins og í dómsorði greinir og hefur verið litið til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Guðjón Bergur Jakobsson, sæti fangelsi í 60 daga.

Ákærði greiði þóknun skipaðra verjenda sinna, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, kr.  421.600 og Torfa R. Sigurðssonar lögmanns, kr. 105.400.

 

Sigurður G. Gíslason