• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Skilorð
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 6. apríl 2018 í máli nr. S-16/2018:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn:)

Davíð Erni Ægissyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 15. febrúar sl., og dómtekið 22. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 19. janúar sl., á hendur Davíð Erni Ægissyni, Selfossi,

 

 

fyrir hegningar- og umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 25. maí 2017, ekið bifreiðinni […] austur Suðurlandsveg um Svínahraun í Sveitarfélaginu Ölfusi, of hratt miðað við aðstæður, þar sem rökkur var og vegur blautur, þegar ákærði ók þar á eftir bifreiðinni […] með of stutt bil á milli bifreiða og án nægjanlegrar aðgæslu, þannig að hann ók aftan á bifreiðina […], en við áreksturinn misstu ökumenn beggja bifreiða stjórn á akstri þeirra og óku út á vegöxl hægra megin miðað við akstursstefnu, þaðan sem bifreiðin […] hafnaði utanvegar í hrauni skammt þar hjá. Allt framangreint með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar […], A, hlaut tvíhliða lungnamar, brot á lendarlið, mar og yfirborðsáverka á hálsi.

 

Teljast brot ákærða varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. og b. og h. lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

II.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 9. október 2017, ekið bifreiðinni […] vestur Suðurlandsveg við Arnarstaði í Flóahreppi, án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og með 117 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

 

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa

Vegna ákæruliðar I gerir Haukur Freyr Axelsson hdl. kröfu fyrir hönd brotaþola, A, um að ákærða verði með dómi gert að greiða miskabætur samtals að fjárhæð kr. 1.500.000,- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá 25. maí 2017, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærðu, til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts, fyrir að halda fram bótakröfu í málinu.

 

Ákærði hefur fyrir dómi, að viðstöddum skipuðum verjanda sínum, skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þá hefur ákærði viðurkennt bótaskyldu sína, en mótmælt fjárhæð framkominnar bótakröfu sem of hárri. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða, að því frátöldu að ákærða verður ekki refsað fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga þar sem það ákvæði er svo almennt orðað að það getur ekki að mati dómsins og að teknu tilliti til fyrirmæla 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, talist viðhlítandi refsiheimild. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, en honum var þann 27. október 2015 gerð sekt vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, sem og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti tímabundið.  

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærða ökurétti í þrjá mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem að brotum hans hlaust. Samkvæmt yfirliti lögreglu nam kostnaður af rannsókn málsins samtals 899.854 kr. Er þar meðal annars um að ræða kostnað af uppdrætti af vettvangi er nemur 202.311 kr. og vegna læknisvottorðs brotaþola, er nemur 44.800. Er það mat dómsins að annar kostnaður sem tiltekin er í sakarkostnaðaryfirliti lögreglu standi ekki í beinu sambandi við sakarefni málsins og greiðist því úr ríkissjóði. Þá skal ákærði greiða þóknun skipaðs verjanda síns sem er hæfilega ákveðin 295.120 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnaður verjanda, 39.600 kr.

Með broti sínu hefur ákærði gerst sekur um ólögmæta meingerð í garð brotaþola í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ber honum að greiða brotaþola miskabætur vegna þess og eru bæturnar hæfilega ákveðnar kr. 200.000. Skulu bæturnar bera vexti og dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði, en bótakrafan var kynnt ákærða við birtingu ákæru þann 15. febrúar sl. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærði greiða brotaþola málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 150.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Davið Örn Ægisson, sæti fangelsi í 30 daga.

Fresta ber fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjá mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals, 581.831 krónu, þar af þóknun skipaðs verjanda, Guðmundar St. Ragnarssonar, 295.120 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og ferðakostnað verjanda, 39.600 krónur.

Ákærði greiði brotaþola, A, 200.000 krónur í miskabætur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25.5.2017 til 15. mars 2018, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði brotaþola 150.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

 

Sigurður G. Gíslason