• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Fangelsi og sekt
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 2. mars 2018 í máli nr. S-1/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kort Þórssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var fimmtudaginn 1. febrúar sl., og dómtekið fimmtudaginn 15. febrúar sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara þann  27. desember sl., á hendur Kort Þórssyni, til heimilis að Stóragerði 25, Hvolsvelli,  

 

fyrir brot gegn valdstjórninni, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 22. desember 2015 á bifreiðastæði framan við Eyrarveg 15 á Selfossi, ekið bifreið með skráningarnúmerið […] óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna, en áfengismagn í blóði ákærða var 1,21‰ og magn tetrahýdrókannabínóls 1,9 ng/ml, utan í bifreið sem þar var lagt og gengið burt án þess að tilkynna um óhappið og tjón sem af því hlaust, og með því að hafa skömmu síðar, er lögregla hafði afskipti af ákærða, reynt að skalla lögreglumanninn A, sparkað hnésparki í enni hans og reynt að bíta lögreglumanninn B, og að hafa við handtöku haft í vörslu sinni 1,15 grömm af maríhúana.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. og 2. mgr. 10. gr., 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr. sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá er krafist upptöku á framangreindum 1,15 grömmum af maríhúana skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 15. febrúar sl., ásamt Guðmundi St. Ragnarssyni lögmanni, sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tvívegis áður sætt refsingu. Þann 8. maí 2015 var ákærða gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots. Þann 4. október 2016 var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs og hann jafnframt sviptur ökurétti í tíu mánuði. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og ungs aldurs hans, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal ákærði jafnframt greiða 235.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 16 daga.          Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærða ökurétti í níu mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti ákæranda 127.665 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda, sem er hæfilega ákveðin 210.800 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Kort Þórsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði jafnframt, 235.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 16 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í níu mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja.

Gerð eru upptæk 1,15 g af maríhúana.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals 338.465 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 210.800 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.