• Lykilorð:
  • Skuldamál

Ár 2018, föstudaginn 16. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur  í máli nr. E-53/2017:

 

                                                       Bonafide-lögmenn/ráðgjöf sf.

                                                       (Aníta Óðinsdóttir lögmaður)

                                                       gegn

                                                       Þorvaldi Jóni Ottóssyni

                                                       (sjálfur)

                                                      

Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 8. febrúar 2018, er höfðað með stefnu birtri 24. febrúar 2017.

Stefnandi er Bonafide-lögmenn/ráðgjöf sf., Klapparstíg 25-27, Reykjavík.

Stefndi er Þorvaldur Jón Ottósson, kt., Vesturvegi 17b, Vestmannaeyjum.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 688.915, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 163.000 frá 20. júlí 2015 til 23. nóvember 2015, af kr. 201.285 frá 24. nóvember 2015 til 13. mars 2016 og af kr. 688.915 frá 14. mars 2016 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður. Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, auk álags á málskostnað.

Við aðalmeðferð gáfu skýrslur Lúðvík Bergvinsson lögmaður og fyrirsvarsmaður stefnanda og stefndi sjálfur.

Aðalmeðferð fór fram 14. desember 2017 en þar sem dómsuppsaga dróst fram yfir 4 vikur vegna anna dómara var málið endurflutt að ósk stefnda þann 8. febrúar 2018 og var að því loknu dómtekið á ný.

 

 

 

Málavextir

Þann 20. maí 2015 undirritaði stefndi skjal með fyrirsögninni „UMBOГ, þar sem hann veitir Anítu Óðinsdóttur hjá lögmannsstofu Bonafide í Vestmannaeyjum, fullt og ótakmarkað umboð til að annast fyrirsvar fyrir hann vegna mögulegs ágreinings við nágranna stefnda vegna uppsetningar á girðingu. Segir að í umboðinu felist aðstoð og fyrirsvar við bréfaskriftir, kröfugerð, sáttatilraunir og málflutningur fyrir héraðsdómi eftir atvikum.

Í framhaldinu gerði Aníta Óðinsdóttir lögfræðingur og starfsmaður stefnanda, þann 11. júní 2015, kröfu fyrir hönd stefnda, hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum um að lagt yrði lögbann við því að nágranni stefnda reisti girðingu við lóðamörk á milli eigna þeirra í Vestmannaeyjum. Var lögbannið lagt á og höfðaði stefndi staðfestingarmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands og var kveðinn upp í því dómur 5. apríl 2016. Voru dómkröfur stefnda, sem var þá stefnandi staðfestingarmálsins, að  lögbannið yrði staðfest og að viðurkennt yrði að nágrannanum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin, auk málskostnaðarkröfu. Var lögbannið staðfest, en stefndi í því máli sýknaður af kröfu um að honum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin. Var málskostnaður felldur niður.

Hefur þingbók staðfestingarmálsins verið lögð fram og kemur þar fram að Aníta Óðinsdóttir sótti þing í því fyrir stefnda þessa máls, vegna Lúðvíks Bergvinssonar lögmanns stefnanda staðfestingarmálsins, sem er stefndi þessa máls. Kemur jafnframt fram að Lúðvík Bergvinsson annaðist um málflutning og hagsmunagæslu fyrir stefnda þessa máls við aðalmeðferð staðfestingarmálsins og að stefndi þessa máls sótti kom þá fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu.

Kveður stefnandi að við framangreindan málarekstur hafi verið unnir 26,8 klukkutímar af hálfu stefnanda í þágu stefnda og hefur verið lögð fram tímaskýrsla um það. Hafa verið lagðir fram 3 reikningar stefnanda til stefnda, innheimtubréf, milliinnheimtuviðvaranir, lokaaðvaranir og löginnheimtubréf vegna innheimtu skuldarinnar, en stefnandi kveður stefnda ekki hafa greitt og er því ekki mótmælt. Mótmælir stefndi heldur ekki tímaskráningu stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að í staðfestingarmálinu hafi lögmaður hans átt að krefjast þess að nágrannanum yrði gert skylt að rífa niður það sem þegar hefði verið reist, en ekki að krefjast viðurkenningar á því að óheimilt væri að reisa girðingu á lóðamörkunum. Þá kveður stefndi að þegar hann hafi rætt við Anítu Óðinsdóttur í upphafi vegferðarinnar þá hafi hann haldið að hún væri ein með málið, en ekki hópur af fólki í  Reykjavík, enda hafi hann gefið henni umboðið einni, en ekki stefnanda. Hún hafi talað um að kostnaðurinn yrði u.þ.b. 10.000 kr. en aldrei gert grein fyrir öllum þessum kostnaði. Stefnandi kveður hins vegar að stefndi hafi leitað til sín og óskað eftir lögfræðiaðstoð vegna þessa og veitt sér ofanlýst umboð.  

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir mál sitt á því að stefndi hafi keypt af honum lögmannsþjónustu og hafi stefnandi gefið út reikninga vegna þess, en stefndi hafi ekki viljað greiða þá. Innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur. Kveðst stefnandi byggja á almennum reglum kröfuréttar og meginreglu samningaréttarreglum um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Nánar vísar stefnandi til VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og samningalaga nr. 7/1936.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styður stefnandi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001, en krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af greinargerð stefnda verður ráðið að hann byggir á því að hann hafi talið að Aníta Óðinsdóttir hafi ein verið með mál hans og að hann hafi falið henni einni umboð til að gæta hagsmuna sinna. Þá hafi Aníta talað um að kostnaður af þessu yrði mögulega 10.000 kr. fyrir stefnda.

Þá verður ráðið af málatilbúnaði stefnda að hann byggir á því að fyrir hans hönd hafi verið gerðar rangar kröfur í staðfestingarmálinu sem hafi leitt til þess að stefndi í því máli hafi verið sýknaður af annarri af tveimur kröfum í stefnunni, en þetta hafi leitt til þess að málskostnaður hafi verið látinn falla niður í stað þess að stefndi fengi dæmdan málskostnað úr hendi gagnaðila síns.

Í greinargerð stefnda eru málsástæður hans ekki tengdar við tilteknar dómkröfur hans og engar lagatilvísanir eru þar.

 

 Forsendur og niðurstaða

Aðalkrafa stefnda í máli þessu er um það að málinu verði vísað frá dómi. Að mati dómsins er krafa þessi með öllu vanreifuð og ekki studd neinum lagarökum. Ekki verður séð að á málatilbúnaði stefnanda séu neinir þeir annmarkar sem leitt geti til frávísunar málsins án kröfu. Verður frávísunarkröfu stefnda hafnað.

Í málinu deila aðilar um reikninga sem stefnandi gerði stefnda fyrir lögfræðiþjónustu. Ekki er þó deilt um að vinnan hafi átt sér stað.

Í umboði því sem stefndi veitti Anítu Óðinsdóttur 20. maí 2015 kemur fram að hún sé hjá lögmannsstofu Bonafide, þ.e. stefnanda þessa máls, en upplýst er að á þessum tíma var Aníta ekki með lögmannsréttindi. Kom fram við skýrslugjöf Lúðvíks Bergvinssonar lögmanns og fyrirsvarsmanns stefnanda að Aníta sé fulltrúi hans.

Við skýrslugjöf stefnda kom fram að hann hafi leitað lögmannsþjónustu og hitt Anítu Óðinsdóttur, sem þá var löglærður starfsmaður stefnanda á starfsstöð stefnanda að Vesturvegi 10 í Vestmannaeyjum.

Við skýrslugjöf stefnda sjálfs og skýrslugjöf Lúðvíks Bergvinssonar kom fram að stefndi hitti Lúðvík fyrir málflutning í málinu og fór með honum á vettvang, en jafnframt lýsti Lúðvík því hvernig stefndi hefði aðstoðað sig við undirbúning aðalmeðferðar í málinu. Kom fram hjá stefnda að hann hafi ekki gert neinar athugasemdir á þessum tíma við aðkomu Lúðvíks að málinu og vinnu hans þá.

Stefndi hefur lýst því að hann hafi ekki verið meðvitaður um dómkröfur sem gerðar hafi verið fyrir hans hönd í málinu. Þetta verður að telja með miklum ólíkindum, enda liggur fyrir að hann var viðstaddur aðalmeðferð í málinu.

Það er álit dómsins að með því að leita á lögmannsstofu þá sem Aníta Óðinsdóttir starfaði hjá og óska eftir lögmanns- eða lögfræðiaðstoð, sem og því að gera engar athugasemdir við eftirfarandi vinnu, m.a. Lúðvíks Bergvinssonar, hafi stefndi undirgengist samningssamband við stefnanda um að honum væri á vegum stefnanda veitt lögfræðiaðstoð og þjónusta við málarekstur sinn. Þá verður að telja ósannað að stefndi hafi ekki vitað um þær dómkröfur sem hann hafi gert í téðu dómsmáli, enda verður stefndi ekki sýknaður af kröfum stefnanda vegna þess að málareksturinn hafi tapast að hluta til.

Stefndi hefur vísað til þess að Aníta Óðinsdóttir hafi talað um að væntanlegur kostnaður stefnda vegna þeirrar þjónustu sem hann óskaði eftir yrði í kringum 10.000 krónur. Allt er þetta ósannað og að auki fráleitt að ætla að lögfræði- og lögmannsþjónusta líkt og stefndi keypti af stefnanda myndi ekki kosta meira en nefnda fjárhæð. Verður þessari málsástæðu stefnda hafnað.

Þrautavarakrafa stefnda er um stórlega lækkun stefnukröfunnar. Er krafa þessi þó ekki studd sérstökum rökum og ekki á neinu byggt um það hvert væri þá hæfilegt endurgjald, en þegar hefur því verið lýst að ekki mátti stefndi vænta þess að þjónustan myndi kosta 10.000 krónur.

Verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda dómkröfur málsins líkt og nánar greinir í dómsorði, en óþarft er að tiltaka í dómsorði að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða tímabili.

Að þessari niðurstöðu fenginni er rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 488.870 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Þorvaldur Jón Ottósson, greiði stefnanda, Bonafide-lögmenn/ráðgjöf sf., kr. 688.915, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 163.000 frá 20. júlí 2015 til 23. nóvember 2015, af kr. 201.285 frá 24. nóvember 2015 til 13. mars 2016 og af kr. 688.915 frá 14. mars 2016 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 488.870 í málskostnað.

           

                                                       Sigurður G. Gíslason