• Lykilorð:
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Hraðakstur
  • Sönnun
  • Umferðarlagabrot

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Ragnheiði Thorlacius héraðsdómara, í málinu nr. S-161/2018: 

 

                                                Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi lögreglustjórans á Suðurlandi)

                                                gegn

                                                A

                                                (Snorri Snorrason lögmaður)

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

            Mál þetta, sem þingfest var 27. september 2018, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 16. október sl. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 9. ágúst 2018, á hendur ákærða, A

 

„fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 22. júlí 2018 ekið bifreiðinni […] vestur Suðurlandsveg við Skeiðavegamót í Flóahreppi með 124 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

 

         Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að ákærði verði sýknaður. Til þrautavara að ákvörðun refsingar verði frestað en til þrautaþrautavara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að hafnað verði framlagningu á dskj. nr. 4, vettvangsskýrslu, dags. 22. júlí 2018, verði ekki fallist á aðalkröfu hans. Loks gerir verjandi ákærða kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sem greidd verði úr ríkissjóði.  

 

Málavextir.

            Samkvæmt gögnum málsins og því sem fram kom við aðalmeðferð málsins voru lögreglumennirnir B og héraðslögreglumaðurinn C umrætt kvöld við umferðareftirlit og ók B lögreglubifreið austur Suðurlandsveg í Árnessýslu skammt vestan við Skeiðavegamót. Segir í frumskýrslu að þau hafi veitt bifreiðinni […] athygli þar sem henni hafi sýnlega verið ekið greitt vestur Suðurlandsveg og hafi hraði bifreiðarinnar verið mældur á 128 km/klst. Ökumanni, ákærða í máli þessu, hafi verið gefið merki um að stöðva, sem hann hafi gert skömmu síðar. Ákærða, sem komið hafi yfir í lögreglubifreiðina, hafi verið kynnt réttarstaða sakbornings og hafi ákærði játað brot sitt. 

            Fram kemur í handritaðri vettvangsskýrslu lögreglu (skýrslu um umferðarmál) að ákærði hafi ekið bifreiðinni […] vestur Suðurlandsveg á vegarkafla móts við Skeiðavegamót. Í frumskýrslu lögreglu og vettvangsskýrslu kemur fram að stund brots hafi verið 22. júlí 2018 klukkan 21:58. Í vettvangsskýrslu segir að mældur hraði hafi verið 128, vikmörk 4, niðurstaða 124 og hámarkshraði á vegi 90 km/klst. Þá kemur fram að ratsjá lögreglubifreiðarinnar hafi verið prófuð fyrir mælingu klukkan 21:22 og eftir mælingu klukkan 22:01. Rætt hafi verið við ákærða í lögreglubifreiðinni og honum sýndur mældur hraði á skjá ratsjárinnar. Ákærði hafi gengist við broti og undirritað umrædda skýrslu. Í skýrslunni kemur fram að dagsbirta hafi verið, þurrt, mikil umferð, skýjað og yfirborð vegar fast og malbikað. Í gögnum málsins liggur fyrir myndbandsupptaka af umræddri hraðamælingu. Ákærði hafnaði að ljúka máli þessu með greiðslu sektar sem honum stóð til boða samkvæmt sektargerð lögreglustjóra, dags. 26. júlí 2018.

             

            Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, sem og vitnin og lögreglumennirnir B og C. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi verður ekki rakinn, en vikið að honum í niðurstöðukafla að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar málsins. 

 

Forsendur og niðurstaða.      

            Um aðalkröfu, þ.e. um frávísun málsins frá dómi, vísar ákærði til fjölmargra atriða er varða afskipti lögreglu af ákærða á vettvangi, framkvæmd umræddrar hraðamælingar og gerð vettvangsskýrslu. Samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Þeir sem rannsaka sakamál skulu vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim ber jafnframt að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er. Samkvæmt 145. gr. sömu laga skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, eða taka eftir atvikum ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 111. gr. laganna verður sakfelling ákærða ekki reist á því sem skráð er eftir honum í lögregluskýrslu nema önnur gögn styðji nægilega þann framburð.

            Ákæruvaldið hefur metið það svo að það hafi haft næg gögn um kæruefni til að geta tekið afstöðu til ákvörðunar um ákæru í máli þessu, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda ákæruvalds getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls. Eru því ekki skilyrði til að fallast á kröfu ákærða um að máli þessu verði vísað frá dómi. Þá þykja ekki skilyrði til að fallast á kröfu ákærða um að hafnað verði framlagningu á dskj. nr. 4, vettvangsskýrslu, dags. 22. júlí 2018.

            Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni […] á 124 kílómetra hraða vestur Suðurlandsveg þar sem leyfður hámarkshraði var 90 kílómetrar á klukkustund.

            Ákærði, sem neitar sök, kannast við afskipti lögreglu af akstri hans umræddan dag, að lögregla hafi sýnt honum 128 km/klst mældan hraða, að hafa játað brotið og að hafa skrifað undir vettvangsskýrslu í lögreglubifreiðinni. Hann kvaðst í umrætt sinn hafa ekið fram úr bifreið á beinum vegarkafla á Suðurlandsvegi, en umræddri bifreið hafi verið ekið á 60-70 km hraða. Kvaðst ákærði hafa veitt ljósum lögreglubifreiðarinnar eftirtekt þegar hann hafi verið að hægja ferðina eftir framúraksturinn en ekki hafa fylgst með ökuhraða bifreiðarinnar umrætt sinn. 

            Vitnið og lögreglumaðurinn B kvaðst hafa stjórnað hraðamælingunni. Fram kom hjá vitninu að engin bifreið hafi ekið á vegarhelmingi lögreglubifreiðarinnar, þ.e. fyrir framan lögreglubifreiðina, þegar hraðamælingin hafi verið gerð, en bifreið hafi verið ekið fyrir aftan bifreið ákærða. Vitnið og lögreglumaðurinn C kvað bifreið ákærða hafa verið fremsta í fjögurra til fimm bíla lest þegar hraðamælingin hafi verið gerð. Hafi bifreið ákærða verið ekið áberandi hraðar en bifreiðum sem á eftir komu. Þá hafi bifreið verið ekið fyrir framan lögreglubifreiðina, þ.e. á sama vegarhelmingi, en nokkuð verið í hana. Eins og vitnið B kvað vitnið C útilokað að aðrar bifreiðar eða aðstæður á vettvangi hafi getað truflað hraðamælinguna. Bæði vitnin báru um að radar hafi verið prófaður fyrir og eftir hina umræddu hraðamælingu. Kvað vitnið C vera venja að prófa tækið strax að lokinni vinnu við vettvangsskýrslu.

            Meðal gagna málsins er myndbandsupptaka nr. 20180722220336-01-KSI-20180722-22-03-38-00-6 af umræddri radarmælingu. Hins vegar er skýrslunnar ekki getið í þar tilgerðum reit á vettvangsskýrslu eins og kveðið er á um í lok 11. gr. verklagsreglna Ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá frá 2002. Dómari hefur kynnt sér umrætt myndband. Þar kemur eftirfarandi fram: Myndbandið hefst klukkan 22:03.08. Lögreglubifreiðinni er ekið austur Suðlandsveg skammt fyrir vestan Skeiðavegamót. Á tímabilinu klukkan 22:03:14 til 22:03:18 mætir lögreglubifreiðin fjórum bifreiðum sem ekið er í lest. Á tímabilinu klukkan 22:03:25 til 22:03.28 mætir lögreglubifreiðin öðrum fjórum bifreiðum sem ekið er í lest. Klukkan 22:03:31 má sjá þrjár bifreiðar aka í vesturátt í aflíðandi beygju með jöfnu millibili, en umrædd beygja er skammt fyrir austan Skeiðavegamót. Þegar fyrsta bifreið er enn í beygjunni birtist talan 128 á skjánum og klukkan 22:03:33 er henni læst á skjánum. Myndskeiðinu lýkur klukkan 22:04:16 þegar lögreglubifreiðin er stöðvuð fyrir aftan dökkleita bifreið sem lagt er út í vegarkant norðan Suðurlandsvegar. Er skráningarnúmer bifreiðarinnar ekki sýnilegt á myndbandinu.

            Ósamræmi er milli rannsóknargagna um stund hraðamælingar þeirrar sem liggur til grundvallar ákæru í máli þessu. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu hér að framan er stund brots tilgreind í frumskýrslu lögreglu og vettvangsskýrslu klukkan 21:58 umræddan dag. Samkvæmt því sem fram kemur í myndbandsupptökunni, sem einnig er gerð grein fyrir hér að framan, var stund brots samkvæmt klukku myndbandsins 22:03, en þá birtist talan 128 á skjánum við stafina „sT“, og var læst. Vitnið B kvað framangreinda skammstöfun þýða sterkasta merki. Þá verður ekki séð að farið hafi verið eftir fyrirmælum 6. gr. áðurnefndra reglna Ríkislögreglustjóra um að ratsjá skuli ávallt prófuð við upphaf og lok hraðamælingar. Samkvæmt vettvangsskýrslu, sem vitnið B kvaðst hafa gert og staðfesti fyrir dómi, fór prófun ratsjár eftir hraðamælingu fram klukkan 22:01, þ.e. áður en mæling á hraða bifreiðar ákærða fór fram samkvæmt myndbandsupptökunni, líkt og áður greinir. Einnig er ósamræmi milli framburðar vitnanna og lögreglumannanna B og C og framlagðra gagna málsins um aðstæður og staðsetningu bifreiðar ákærða á vegi þegar hraðamælingin fór fram. Vitnið B kvað það ekki mögulegt að önnur bifreið en bifreið ákærða hafi verið mæld umrætt sinn, það hafi verið bifreið ákærða sem gefið hafi sterkasta merkið, þ.e. „sT“ á myndbandinu. Sérstaklega aðspurt kvað vitnið C öruggt að hraðamælingin hafi verið gerð á beinum vegarkafla en ekki í hinni aflíðandi beygju á Suðurlandsvegi austan við Skeiðavegamót eins og fram kemur í framlögðu myndbandi. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið og 108. og 109. gr. laga nr. 80/2008 um meðferð sakamála er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að axla sönnunarbyrði í máli þessu og að skýra verði ákærða í hag þann vafa sem uppi er um framkvæmd hraðamælingar lögreglu sem lögð er til grundvallar ákæru í máli þessu. Ákærði verður því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. 

Enginn kostnaður var af rannsókn málsins en með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.e. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Snorra Snorrasonar lögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin  359.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, A, er sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.e. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Snorra Snorrasonar lögmanns, 359.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  

 

Ragnheiður Thorlacius