• Lykilorð:
  • Líkamsárás

Árið 2017, mánudaginn 18. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-4/2017:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Páli Arnari Jónssyni

(Guðmundur Njáll Guðmundsson hdl.)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni af Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum þann 30. desember 2016, á hendur Páli Arnari Jónssyni, Berjarima 14, Reykjavík

 

„fyrir líkamsárás

með því að hafa skömmu eftir miðnætti laugardaginn 1. ágúst 2015 í hvítu tjaldi við Ástarbraut 14 í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum veist að A, skallað hann og slegið hann í höfuðið allt með þeim afleiðingum að A hlaut glóðarauga og 1 cm skurð rétt fyrir neðan vinstra auga.

(Mál nr. 319-2015-2856)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Jóhannes A. Kristbjörnsson, hdl., hefur krafist skaða- og miskabóta fyrir hönd A, úr hendi ákærða að fjárhæð 1.003.900,- krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. febrúar 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

 

            Málið var þingfest 9. febrúar 2017.

            Ákærða neitar sök og hafnar bótakröfu.

            Aðalmeðferð málsins fór fram 10. nóvember 2017, en hún hafði dregist nokkuð vegna fjarveru ákærða.

            Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu dómkröfur og í ákæru greinir, með þeirri breytingu að fjárkrafan er lægri sem nemur 800 krónum og þá er krafist vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015 til 22. júní 2016, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

            Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara krefst ákærði þess að refsing verði felld niður en til þrautavara að vægasta refsing sem lög leyfa verði dæmd. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði auk ferðakostnaðar verjandans, auk þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

            Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

 

Málavextir

            Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu hófst mál þetta með því að sunnudaginn 2. ágúst 2015 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum og kvaðst vilja kæra ákærða fyrir líkamsárás. Er haft eftir brotaþola að hann hafi farið í sjúkraskýlið um nóttina og þar hafi verið saumuð 2 spor og þá hafi byrjað að myndast glóðarauga.

            Í frumskýrslunni er haft eftir brotaþola að hann og hópur fólks hafi gengið gegnum Herjólfsdal að hvítu tjöldunum þegar ein stúlka í hópnum hafi séð ákærða vera að kasta af sér þvagi inni í hvítu tjaldi. Hafi stúlkan farið að ákærða og spurt hann hvað hann væri að gera, en þá hafi ákærði „brjálast“. Hafi ákærði byrjað að sveifla höndunum um allt með þeim afleiðingum að B, frænka brotaþola hafi fengið á sig högg. C, kærasti B, hafi reynt að halda í ákærða en gengið illa. Þá hafi ákærði skallað brotaþola í andlitið vinstra megin og kastað sér svo á hann. Hafi þá brotaþoli lent með bakið á tveimur stólum í jörðinni með ákærða ofan á sér. Svo hafi einhver komið og rifið ákærða af brotaþola og hent honum út úr tjaldinu. Þetta hafi verið rétt eftir miðnætti.

            Lögregla tók skýrslu af ákærða þann 22. júní 2016 vegna þessa. Skýrði ákærði svo frá að hann hafi verið í tjaldi í Herjólfsdal og verið að pissa og allt í einu hafi komið fólk og rifið í hann. Hann muni það eitt að hann hafi óvart slegið einhvern utan undir og beðist fyrirgefningar á því, en sá hafi ekki verið neitt ósáttur. Síðan hafi ákærða verið hent út úr tjaldinu. Ekki hafi verið nein átök nema þegar honum hafi veið hent út. Hafi ákærði ýtt einhverjum í stærri kantinum út í horn og svo einhverjum öðrum frá sér líka og svo hafi ákærða verið hent út. Kvaðst ákærði ekki hafa skallað neinn, en þegar hann hafi ýtt einhverjum þá hafi hann fallið og hafi ákærði farið á eftir honum og ætlað að kýla hann, en þá hafi hann verið dreginn burt og hent út. Kvaðst ákærði hafa fengið glóðarauga við þetta og verið fjólublár við augun og með blóð við góm. Ekki hafi hann fengið þessa áverka við að skalla einhvern.

            Í vottorði D læknakandidats, dags. 24. ágúst 2016, segir að brotaþoli hafi leitað á vaktina í heilsugæslunni í Vestmannaeyjum 2. ágúst 2015. Hafi brotaþoli þar hitt E vakthafandi lækni. Samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá, ritaðri af E, hafi sést lítill skurður um 1 cm í þvermál rétt neðan við vinstra auga. Hafi skurðbrúnir fallið vel saman. Sárið hafi verið deyft og saumað með 2 sporum. Miðað við lýsingar E hafi árásin haft minniháttar afleiðingar fyrir brotaþola og hann ekki hlotið af annan skaða en þann að sauma hafi þurft sár neðan við vinstra auga.

            Óþarft er að rekja rannsókn málsins frekar.   

 

            Forsendur og niðurstaða

            Við aðalmeðferð skýrði ákærði frá því að hann minntist þess að hafa verið inni í tjaldi og ætlað að pissa. Svo hafi komið að honum eitthvað fólk og rifið í hann eitthvað. Hafi þá ákærði snúið sér við og slegið einhverja stelpu utan undir og beðið hana afsökunar á því eftir á og hún tekið vel í það. Svo hafi einhverjir tveir strákar ráðist á ákærða aftan frá eða á hlið. Hafi ákærði ýtt öðrum út í horn og hinn hafi dottið í gólfið og þeir hafi hnoðast þar eitthvað og slegist. Ákærði hafi sjálfur verið með glóðarauga og lausa tönn eftir þetta. Glóðaraugað hafi komið fram strax inni í tjaldinu. Sér finnist þetta hafa verið neyðarvörn hjá sér. Honum hafi verið hent út úr tjaldinu eftir þetta þegar hann hafi legið í gólfinu ofan á einhverjum strák og reynt að kýla hann án árangurs. Með ákærða þarna hafi verið tveir menn, F og G, en þeir hafi verið fyrir utan tjaldið. Enga áverka hafi ákærði séð á brotaþola eftir þetta. Ekki hafi verið áflog fyrir utan tjaldið.

            Aðspurður kvaðst ákærði hafa ætlað að pissa umrætt sinn, en ekki verið byrjaður. Ákærði kvaðst hafa verið drukkinn eins og aðrir viðstaddir, en auk þess muni hann þetta ekki vel svo löngu síðar.

            Ákærði lýsti því að hafa nýverið lokið áfengismeðferð. Þá gat ákærði þess að að hafa nýverið greitt upp rúmar 2 milljónir króna vegna fésekta og sakarkostnaðar í sakamálum.  

            Vitnið A, brotaþoli, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið á gangi með öðru fólki og þau hafi verið á leið í tiltekið tjald. Þegar þau hafi komið þangað hafi B sennilega farið fyrst inn og C þar á eftir og svo brotaþoli. Hafi ákærði verið að pissa úti í horni inni í tjaldinu. C hafi verið fyrir framan ákærða og hafi verið að tala við hann og reyna að henda honum út úr tjaldinu, en ákærði hafi streist á móti. Hafi brotaþoli blandað sér í þetta og verið kominn í jörðina áður en hann hafi vitað af og ákærði ofan á honum. Hafi ákærði svo verið rifinn af honum og hafi þá brotaþoli verið blóðugur eftir. Hafi ákærði veitt brotaþola einhver högg meðan brotaþoli hafi legið í jörðinni. Hafi ákærði skallað brotaþola í upphafi þegar hann hafi náð brotaþola niður. Hafi höggið komið við augað. Ekki kvaðst brotaþoli þekkja neitt til ákærða. Brotaþoli kvaðst ekki hafa séð neina áverka á ákærða. Eftir þetta hafi brotaþoli farið í sjúkratjald eða -skýli. Þar hafi verið saumað í andlit hans. Brotaþoli kvaðst hafa verið smá undir áhrifum áfengis, en það hafi ekki verið mikið.

            Aðspurður kvaðst brotaþoli hafa séð greinilega að ákærði hafi verið að pissa, en hann hafi séð aftan á ákærða. Sér hafi þótt augljóst að ákærði væri að pissa þó hann hafi ekki beinlínis séð bununa. B hafi reiðst þessu sem og C unnusti B. Þau hafi verið að reyna að tala við ákærða og koma honum út. Ekki hafi brotaþoli stokkið á ákærða, en hann hafi komið að C og ætlað að hjálpa honum við að koma ákærða út. Allt hafi þetta gerst mjög hratt.  

            Vitnið H, unnusta brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að þau hafi verið á leið í eitt af hvítu tjöldunum þegar ákærði hafi verið þar inni án erindis. Hafi hann verið beðinn að fara út og svo hafi allt orðið brjálað og orðið slagsmál. Hún hafi séð slagsmálin og hafi brotaþoli orðið fyrir höggi. Í slagsmálunum hafi verið B, C , I, brotaþoli, vitnið sjálf og ákærði. Vitnið hafi séð ákærða ráðast á brotaþola og kvaðst vitnið muna eftir höggum sem brotaþoli hafi fengið frá ákærða. Ekki gat vitnið lýst með hvorri hendinni það hafi verið. Högg hafi lent í andliti brotaþola, nánar tiltekið á kinnbeini. Kvaðst eiga bágt með að lýsa þessu enda langt um liðið. Fleiri högg hafi komið frá ákærða, m.a. hafi B fengið högg. Brotaþoli hafi borið blæðandi sár eftir þetta sem hafi þurft að sauma. Ekki kvaðst vitnið minnast áverka á ákærða. Aðspurð kvað vitnið að ákærði hafi verið að pissa í tjaldinu. Vitnið kvaðst hafa verið lítt eða ekki undir áhrifum. Ákærði hafi virst í mjög annarlegu ástandi. Vitnið kvaðst muna að hafa séð ákærða veita brotaþola högg þegar þeir hafi legið í gólfinu, en ákærði hafi veitt brotaþola nokkur högg.

            Vitnið J, systir brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að þau hafi komið að hvíta tjaldinu og farið inn í það og séð þar ákærða sem hafi verið að pissa. Allt hafi svo gerst mjög hratt og hafi vitnið séð mörg högg lenda á brotaþola. Þetta hafi endað með því að ákærða hafi verið hent út úr tjaldinu og allir verið í sjokki. Fleiri hafi fengið högg s.s. B og C, en sér hafi fundist þau fyrst og fremst beinast að brotaþola. Þetta hafi verið högg á andlit fyrst og fremst. Þetta hafi verið hnefahögg, en ekki hafi vitnið tekið eftir öðruvísi höggum. Brotaþoli hafi fengið skurð nálægt auga. Ekki hafi vitnið séð áverka á ákærða, en vitnið hafi ekki séð hann frekar eftir að honum hafi verið hent út. Vitnið kvaðst muna þetta vel. Ákærði hafi fengið högg frá einhverjum þarna inni, m.a. frá brotaþola sem hafi slegið til baka en ákærði hafi náð yfirhöndinni. Enginn hafi verið þarna inni með ákærða. Ekki kvaðst vitnið muna að hafa séð ákærða skalla brotaþola, en staðfesti framburð sinn hjá lögreglu þar sem hún hafði sagt að ákærði hafi skallað brotaþola. Kvaðst ráma í þetta þegar framburðurinn var borinn undir hana. Hún hafi munað þetta betur þegar hún hafi gefið skýrslu hjá lögreglu.

            Vitnið C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að hann myndi þetta ekki vel enda langt um liðið. Kvaðst minnast þess að stelpurnar hafi gengið á undan og allt í einu hafi verið öskrað „ertu að pissa í tjaldið?“ Svo hafi þeir ætt inn og konan hans, sem sé skapstór, hafi ætlað að leiðbeina ákærða út úr tjaldinu, en þá hafi hún fengið högg í andlitið. Í kjölfarið hafi þeir lent saman ákærði og brotaþoli og það hafi verið reynt að sundra þeim, en meira muni hann ekki. Nánar hafi vitnið og brotaþoli gengið á eftir I og B, kærustu vitnisins. Þær hafi farið fyrst inn í tjaldið. Svo hafi vitnið heyrt „er verið að pissa í tjaldið?“. Hafi B farið að ákærða og ætlað að vísa honum út, en þá hafi ákærði slegið hana í andlitið. Um leið hafi þeir verið komnir saman ákærði og brotaþoli en ekki gat vitnið lýst því hvernig það gerðist. Hafi vitnið snúið sér að B og snúið henni frá. Þegar vitnið hafi snúið sér við hafi þeir verið komnir saman, ákærði og brotaþoli, en vitnið hafi reynt að skilja þá sundur. Meira kvaðst vitnið ekki muna. Fullt af höggum hafi gengið á milli og hélt vitnið það hafa verið á báða bóga. Þetta hafi verið barsmíðar eða slagsmál þó mun meira hafi sést á brotaþola. Brotaþoli hafi borið áverka eftir þetta, m.a. skurð neðan við auga. Ekki kvaðst vitnið hafa séð áverka á ákærða. Vitnið kannaðist við að hafa verið undir áhrifum áfengis. Aðspurður kvaðst vitnið halda að ákærði og brotaþoli hafi byrjað slagsmálin saman og ráðist hvor á annan, en kannaðist ekki við að hafa séð annan hvorn byrja frekar en hinn. Ekki mundi vitnið eftir að hafa séð að brotaþoli hafi verið skallaður. Brotaþoli hafi farið eða stokkið að ákærða og tekið í peysuna hans til að toga hann út úr tjaldinu og þá hafi höggin komið og þá hafi þeir byrjað að slást.

            Vitnið B kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið á leið í hvíta tjaldið ásamt I vinkonu sinni. I hafi gengið á undan og séð ákærða við að pissa í tjaldinu. Hafi vitnið ætlað að taka í ákærða og vísa honum út en þá hafi hann slegið frá sér og beint í vitnið. Hafi C og brotaþoli gengið á milli hennar og ákærða. Í kjölfar þessa hafi orðið slagsmál sem hún hafi lítt séð enda henni verið vísað út úr tjaldinu. Svo hafi brotaþoli komið blóðugur út úr tjaldinu. Hún hafi ekki séð áverka á ákærða. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Vitnið kannaðist við að u.þ.b. hálftíma eftir þetta hafi ákærði beðið hana afsökunar og hún fallist á það. Sá hluti slagsmálanna sem hún hafi þó séð hafi verið þannig að þeir hafi haldið hvor í annan og dottið um stóla sem hafi brotnað. Vitnið hafi ekki séð högg ganga á milli ákærða og brotaþola.

            Vitnið I kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið að koma í tjaldið og þá hafi ákærði staðið þar inni við tjalddúkinn og henni sýnst hann vera að pissa. Hún hafi spurt hann hvort hann væri að pissa. Hún hafi beðið hann að fara út og hann verið eitthvað ringlaður en samt verið á leiðinni út og svo hafi fleiri komið inn, en hún muni þetta ekki alveg nógu vel. Svo hafi orðið slagsmál. Ákærða og brotaþola hafi lent saman en vitnið kvaðst ekki muna vel hvernig það hafi gerst. Minnti vitnið að ákærði hafi verið með leiðindi á leiðinni út úr tjaldinu og slegið B. Voða lítið muni hún eftir framhaldinu, en þeir hafi verið komnir í jörðina í slagsmálum. Brotaþoli hafi verið meiddur eftir þetta, með skurð og glóðarauga. Vitnið kvaðst ekki hafa verið mikið undir áhrifum áfengis. Aðspurð kvaðst vitnið muna eftir að hafa séð ákærða veita brotaþola högg þegar þeir hafi legið í gólfinu. Þeir hafi slegið og kýlt hvor annan. Ekki gat vitnið sagt til um hvar brotaþoli hafi fengið högg frá ákærða. Þá kvaðst vitnið minna að ákærði hafi skallað brotaþola í andlitið.

            Vitnið G, vinur ákærða, gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann myndi þetta ekki vel, en hann hafi verið þarna með ákærða og svo hafi verið þarna eitthvað partýtjald eða eitthvað. Ákærði hafi farið inn í það og þegar hann hafi komið út þá hafi verið búið að berja hann af fleiri en einum. Það hafi orðið læti og ákærði komið út með glóðarauga og blóð í munninum. Vitnið kvaðst ekki vita hvað ákærði hafi verið að gera þarna inni, en vitnið hafi verið fyrir utan á meðan. Nánar um áverka kvað vitnið að ákærði hafi verið rjóður kringum augað og greinilega búinn að fá högg þarna.

            Vitnið F, uppeldisbróðir ákærða, gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa hitt ákærða skömmu eftir að ákærði hafi komið úr margnefndu tjaldi og hafi ákærði sagt að ráðist hafi verið á sig og hann kýldur. Hafi ákærði verið með lausa tönn og blóðuga vör. Ekki hafi vitnið séð hvernig áverkar þessir hafi verið tilkomnir.

            Vitnið E læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa hitt brotaþola í sjúkraskýlinu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Hafi brotaþoli haft skurð neðan vinstra auga sem hafi þurft að sauma. Ekki hafi verið aðrir áverkar. Áverkarnir hafi getað samræmst því að brotaþoli hafi verið skallaður. Aðspurður um glóðarauga kvað vitnið að slíkt komi ekki fram strax en geti tekið nokkra daga að myndast. Áður en glóðarauga komi fram sjáist roði í húð og það sjáist strax. Svo eftir einhvern tíma kannski 30 tíma fari að koma roði og bólga og svo þegar blæðing undir húðinni byrji að brotna niður þá komi glóðaraugað. Þetta gerist ekki fyrr en einhverjum tímum eða dögum eftir á.    

            Ekki leikur á því vafi að í umræddu tjaldi umrætt sinn urðu átök, en undanfari þeirra er sá að ofangreint fólk kom í umrætt tjald sem var að einhverju leiti á þeirra vegum og kom þar að ákærða sem virtist vera að pissa, en tjald þetta var ákærða óviðkomandi. Er jafnframt hafið yfir skynsamlegan vafa að átök eða ryskingar urðu milli ákærða og brotaþola í framhaldi af þessu. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið umrætt sinn og er jafnframt hafið yfir skynsamlegan vafa að við þetta hafi brotaþoli fengið þá áverka sem lýst er í ákærunni. Á hinn bóginn þykir vera varhugavert að telja sannað að ákærði hafi skallað brotaþola svo sem lýst er í ákærunni, en um það hefur aðeins brotaþoli sjálfur borið auk þess að vitnið I minnti þetta, en ekki hafa önnur vitni borið um það fyrir dómi að ákærði hafi skallað brotaþola.

            Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hefur hann unnið sér til refsingar. Hvorki verður talið að ákvæði 74. og 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 né 3. mgr. 218. gr. c sömu laga eigi við í málinu, en upplýst er að komið var að ákærða við að pissa í annarra manna tjaldi og brást hann illa við afskiptum fólksins vegna þess.

            Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði 9 sinnum áður sætt refsingu, þar af samtals kr. 2.848.000 í fésektir, skv. 5 dómum eða viðurlagaákvörðunum, fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot síðan ákærði framdi brot sitt sem hann er nú dæmdur fyrir. Þá gekkst ákærði undir fésekt að fjárhæð kr. 100.000 með viðurlagaákvörðun þann 8. júlí 2015 og hefur viðurlagaákvörðunin ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar ákærða nú sbr. 1. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en jafnframt ber að líta til 78. gr. laganna vegna framangreindra fésekta. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi þann 28. júní 2017 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti og sviptur ökurétti ævilangt.

            Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Með háttsemi sinni hefur ákærði bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola. Er rétt að ákærði greiði brotaþola miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er hæfileg fjárhæð þeirra kr. 150.000, en samkvæmt almennum skaðabótareglum ber  ákærða jafnframt að bæta brotaþola sjúkrakostnað kr. 3.100. Skulu bæturnar bera vexti skv. 8. gr. laga nr. 38&/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til 22. júlí 2016, en með dráttarvöxtum skv. 6. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls útlagðs sakarkostnaðar kr. 12.000 samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, sem er vegna öflunar áverkavottorðs. Þá ber ákærða að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Njáls Guðmundssonar hdl., kr. 558.620 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar og annars útlagðs kostnaðar verjandans kr. 58.600. Jafnframt ber ákærða að greiða brotaþola málskostnað, en brotaþola var ekki skipaður réttargæslumaður. Er málskostnaðurinn kr. 443.310 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun og útlagðs kostnaðar lögmanns brotaþola. Loks ber að dæma ákærða til greiðslu kostnaðar vegna vitna kr. 35.150.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Páll Arnar Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A skaða- og miskabætur kr. 153.100 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015 til 22. júlí 2016, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði A kr. 443.100 í málskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 664.370, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Njáls Guðmundssonar hdl. kr. 558.620, auk útlagðs kostnaðar og ferðakostnaðar verjandans, kr. 58.600. 

 

Sigurður G. Gíslason