• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 31. maí 2018 í máli nr. S-337/2016:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Baldri Sigurðarsyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 4. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, þann 7. desember 2016, á hendur Baldri Sigurðarsyni,  til heimilis að Austurbergi 36, Reykjavík,

 

fyrir fíkniefnalagabrot

með því að hafa, föstudaginn 29. apríl 2016 í sprautuklefa í húsnæði að […], Þorlákshöfn, sem ákærði var með á leigu, haft í vörslu sinni 6839,37 g af kannabisstönglum og fyrir að hafa um nokkurt skeið fram til þessa dags ræktað þar framangreind fíkniefni sem fundust við húsleit lögreglu í húsnæðinu umrætt sinn.

 

Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá lögreglu nr. 32407) og búnaði til ólögmætrar ræktunar og meðferðar fíkniefna sbr. munaskrá lögreglu nr. 115838 samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði hefur neitað sök í málinu og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá mótmælir ákærði upptökukröfu en hann telur hana vanreifaða.

 

Málavextir

         Samkvæmt frumskýrslu lögreglu má rekja mál þetta til þess er lögregla hafði afskipti af vegfaranda, A, við eftirlit á Eyrarbakkavegi þann 29. apríl 2016. Hafi A verið handtekinn grunaður um vörslu ólöglegra ávana- og fíkniefna, en við leit í bifreið hans fundust kannabisefni. Hafi A sagst vera að koma úr ræktun í Þorlákshöfn þar sem hann hafi verið að klippa niður ræktun, ásamt ákærða í máli þessu. Hafi A jafnframt vísað lögreglu á umrædda ræktun að […] í Þorlákshöfn. Þegar að var komið hafi húsið verið mannlaust. Lögregla hafi þá haft samband við eiganda húsnæðisins, B, er kveðið hafi ákærða vera með hluta hússins á leigu, nánar tiltekið íbúð í norðurendanum og sprautuklefa í miðju þess. Loks hafi við leit lögreglu í húsnæðinu fundist búnaður til ræktunar, efnisleifar og kannabisefni, samtals 6.839,37 grömm, allt í framangreindum sprautuklefa.

            Við rannsókn málsins voru allir ofangreindir aðilar, A, B og ákærði Baldur yfirheyrðir sem sakborningar.

           

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Fyrir dómi gáfu skýrslu ákærði Baldur og vitnin A, B, C lögreglumaður, D lögreglumaður, E lögreglumaður og F, verkefnastjóri við rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands.

            Fyrir dómi bar ákærði að hann hefði haft á leigu húsnæði í Þorlákshöfn, íbúð og sprautuklefa, af B. Þar hafi ákærði ætlað að geyma búslóð og vera með tómatarækt og hafi í því skyni byrjað að setja upp ræktunaraðstöðu. Hafi vitnið A, vinur ákærða, aðstoðað hann við að henda drasli, en ákærði einn sett upp hina fyrirhuguðu tómataræktun. Hafi þetta verið um tveimur mánuðum áður en lögregla hafði afskipti af húsnæðinu, en ákærði hefði í millitíðinni ekki sinnt húsnæðinu. Ákærði kvaðst þó ekki hafa lokið verkinu áður en lögregla leitaði í húsnæðinu. Búnaðinn, sem ákærði kvaðst hafa ætlað að nota til tómataræktunarinnar og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, sagði hann að hluta áður hafa verið notaðan við kannabisrækt annars staðar, sem ákærði hlaut dóm fyrir á sínum tíma og hafi hann átt eftir að þrífa og sópa upp lauf og jurtaafganga. Kvaðst ákærði ósammála lýsingu í ákæru á magni fíkniefna sem verið hafi í húsnæðinu, eingöngu hafi verið um að ræða uppsóp og rusl úr eldri ræktun, eftir að henni hafi verið pakkað saman í flýti. Síðar hafi fyrrgreindur A hringt í ákærða og sagst hafa verið tekinn með „eitthvað“ og hafa bent á ákærða. Hefði samtalið verið stutt og ákærði ekki náð aftur í A eftir það. Þá bar ákærði að hann einn hefði haft aðgang að húsnæðinu og sprautuklefanum sem hafi að jafnaði verið læstur, en leigusalinn hafi þó verið með lykil að útidyrum húsnæðisins.

            Vitnið A gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum síma. Kvaðst vitnið hafa lent í samkrulli við menn, „raunverulega krimma“ sem vitnið vildi ekki nefna. Þeir hafi verið að rækta kannabis og beðið vitnið um að henda fyrir sig dálitlu af kannabisrusli. Hafi hann í fyrstu neitað bóninni en þá verið hótað öllu illu og hann því orðið við henni. Neitaði vitnið að ræða það frekar hvernig það kom til að mennirnir, sem vitnið nefndi „vondu mennina“ komu fíkniefnum fyrir í bifreið hans. Lögregla hafi síðan stöðvað vitnið og hann ekki þorað að benda á hinu réttu aðila, „vondu mennina“ enda hræddur við þá. Hafi þá vitnið bent á ákærða Baldur Sigurðarson, til að koma sjálfum sér undan sök. Kvaðst vitnið sirka mánuði áður hafa farið með ákærða austur í Þorlákshöfn þar sem hann hafi aðstoðað ákærða við að henda einhverju drasli úr húsnæði, nánar tiltekið sprautuklefa á trésmíðaverkstæði, sem ákærði hafi haft á sínum snærum. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við nein fíkniefni í húsnæðinu umrætt sinn. Vitnið kvaðst hafa verið í einhverju sambandi við ákærða á síðustu árum, en ekki hafi það verið mikið. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu að vitnið hefði ásamt ákærða verið að borða brauð í umræddum sprautuklefa kvöldið áður en vitnið var handtekið við akstur, kvaðst vitnið ekki muna til þess. Þá kannaðist vitnið ekki við framburð sinn hjá lögreglu um að vitnið hefði séð kannabisplöntur inni í sprautuklefanum umrætt kvöld. Þá neitaði vitnið að svara því hvernig það hefði komið til að lögregla hefði fundið fíkniefni í húsnæðinu, eftir ábendingu vitnisins umrætt sinn.

Vitnið B, eigandi húsnæðisins að […], Þorlákshöfn bar fyrir dómi að vitnið og ákærði hefðu lengi þekkst og væru félagar. Hann hafi leigt ákærða húsnæði til að hjálpa honum þegar hann hafði misst húsnæði sitt. Kvað vitnið marga hafa lykil að verkstæðinu, sem í húsnæðinu er og því hafi hann leigt ákærða sprautuklefann, sem hann gæti haft fyrir sig og læst. Eingöngu hafi verið einn lykill til að sprautuklefanum og þann hafi ákærði fengið.

            Vitnið C lögreglumaður bar fyrir dómi að lögregla hefði stöðvað ökumann, A, á Eyrarbakkavegi og fundið hjá honum kannabisleifar og „skúnk“. Hefði A borið að hann væri að koma úr ræktun í Þorlákshöfn, þar sem hann hefði verið með ákærða. Í framhaldinu hefði lögregla farið á staðinn. Hefðu lögreglumenn vegna fyrirliggjandi upplýsinga og þar sem þeir fundu kannabislykt, ákveðið að brjóta upp hurðina á sprautuklefanum til að koma í veg fyrir að sönnunargögnum yrði spillt. Þar fyrir innan hafi verið ræktunarbúnaður. Tvö tjöld hafi verið í klefanum, annað samanbrotið en hitt uppistandandi, einnig hafi verið þar lampar og viftur. Engin ræktun hafi verið í gangi og engar plöntur, en plöntuleifar, bæði í tjaldinu og fyrir utan tjaldið. Aðspurð um ástandið á plöntuleifunum kvað vitnið þær hafa virst misgamlar, en greinarnar hafi ekki hrokkið í sundur er lögregla var að pakka saman sönnunargögnum, heldur hafi verið seigla í þeim. Ekkert hafi bent til að stönglarnir hafi verið margra mánaða gamlir. Þá kvað vitnið mat hafa verið inni í sprautuklefanum, brauð og smjör. Þá staðfesti vitnið skýrslur sínar sem liggja frammi í málinu.

            Vitnið D lögreglumaður bar fyrir dómi að varðstjóri hefði óskað aðstoðar eftir að hafa stöðvað ökumann, A, á Eyrarbakkavegi, en hann hafi haft töluvert að fíkniefnum í vörslum sínum. Vitnið hafi farið með A heim til hans, þar sem vitnið kom ekki auga á neitt saknæmt. Síðar hafi vitnið farið með varðstjóra í Þorlákshöfn að húsnæði þar sem grunur lék á að fyrrgreindur A og ákærði í máli þessu hefði staðið að kannabisræktun. Legið hafi fyrir að B væri eigandi umrædds húsnæðis og hafi hann afhent lögreglu lykla að því, sem og veitt þeim leyfi til að fara inn í húsnæðið. Þangað hafi vitnið farið og lögreglumenn svipast um en ekkert séð athyglivert. Hafi lögreglumenn á vettvangi þá hringt á stöð og beðið lögreglumenn þar um að fá nánari lýsingar hjá A, sem þá var í haldi lögreglu. Hafi lögreglumenn í kjölfarið, eftir ábendingu A, brotið upp hurð að sprautuklefanum, en kannabisþef hafi legið frá honum. Þar hafi ræktunarbúnaður komið í ljós, uppsettur og tilbúinn, og töluvert af plöntuleifum. Hefði einnig verið búnaður sem annað hvort var búið að taka niður, eða átti eftir að setja upp. Þá hafi lögreglumenn tekið ræktunina niður og tekið saman þá plöntuafganga sem fundust.  Aðspurður um aldur plöntuafganga kvað vitnið bæði hafa verið um að ræða fersk lauf og þurrari lauf. Þá hafi stiklarnir hugsanlega verið nokkurra daga gamlir. Hluti plöntuleifanna hafi að mati vitnisins verið ferskar og mögulega nokkurra daga gamlar, en einhver laufblaðanna hafi verið skraufþurr. Þá bar vitnið að inni í klefanum hafi verið brauð, smjör og álegg. Greinilegt hefði verið að einhver hefði nýlega verið þarna. Þá staðfesti vitnið skýrslu sína sem liggur frammi í málinu.

            Vitnið E lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum síma. Kvað vitnið misræmi í málsnúmerum lögreglu tilkomna af því að efnaskrá hefði verið færð á milli mála, er vörðuðu annan aðila. Bar vitnið að eingöngu væri ein efnaskrá á hverju númeri. Þannig hefði orðið til misræmi í málsnúmerum, er þáttur annars aðila yfir í eldra mál hans við sameiningu þeirra.

Vitnið F verkefnastjóri gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum síma. Kvaðst vitnið hafa fengið átta sýni til rannsóknar. Mest plöntumulningur og stönglar, sem allt innihélt tetrahýdrókannabínól. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta aldursgreint efnið, en kvað það hafa „eitthvað verið orðið lúið“, en gat ekki áætlað frekar um aldur þess. Þá staðfesti vitnið matsgerð sína fyrir dómi.

 

Niðurstaða

            Ákærða í máli þessu er gefið að sök fíkniefnalagabrot, annars vegar fyrir vörslur kannabisefna og hins vegar fyrir ræktun þeirra. Ákærði hefur neitað sök í málinu og kveðst hafa ætlað að rækta tómata í umræddu húsnæði, en búnaðurinn sem hann hugðist nota til þess hafi áður verið notaður til ræktunar kannabisplantna og ákærði þegar hlotið dóm vegna þess. Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa verið að rækta fíkniefni í umræddu húsnæði, en kannast við að hafa haft það til umráða og geymt þar búslóð sína. Þá hefur ákærði frá upphafi kannast við að eiga búnað þann er lögregla lagði hald á. Hjá lögreglu bar ákærði að hann hefði kvöldið áður en lögregla gerði húsleit í húsnæðinu verið þar ásamt vitninu A að þrífa og taka til. Þá hefðu þeir fengið sér að éta, eins og ákærði orðaði það. Fyrir dómi var framburður ákærða hvað þetta varðar á annan veg og kvað hann áðurnefnda tiltekt þeirra félaga hafa farið fram um tveimur mánuðum áður en lögregla fann hina ætluðu ræktun.

            Líkt og áður greinir eru tildrög máls þessa þau að A, vitni í máli þessu, var stöðvaður á Eyrarbakkavegi og handtekinn grunaður um vörslur fíkniefna. Hafi A þá kveðist vera að koma úr Þorlákshöfn, þar sem hann hafi ásamt ákærða í máli þessu, verið að taka niður kannabisræktun. Framburður vitnisins, hjá lögreglu, sem þá var yfirheyrður sem sakborningur er verulega frábrugðinn framburði vitnisins fyrir dómi. Hjá lögreglu bar vitnið að ákærði hefði hringt og beðið vitnið um að hjálpa sér. Þegar hann hafi komið á staðinn hafi ákærði verið að taka niður starfsemina í húsinu. Eftir hafi staðið þrír pottar með plöntum, sem vitnið hafi klippt niður eftir leiðbeiningum ákærða, á meðan ákærði tók niður tjald. Síðar hafi þeir farið með fulla bifreið af mold og sturtað af Óseyrarbrú. Síðan hafi vitnið ekið ákærða til baka á verkstæðið, en vitnið farið áleiðis heim. Þá kom og fram í framburði vitnisins hjá lögreglu að þeir félagar hafi neytt matar í húsnæðinu umrætt sinn en ákærði hefði boðið upp á brauð og salöt. Við skýrslutöku hjá lögreglu gaf vitnið jafnframt greinargóða lýsingu á húsnæði því sem ákærði hafði til umráða að […] í Þorlákshöfn, sem og þeirri aðstöðu sem inni var. Fyrir dómi bar vitnið aftur á móti að það hefði ekki greint rétt frá hjá lögreglu og einungis bent á ákærða til þess að fría sjálfan sig. Kvað vitnið þá efnin sem hann var handtekinn með hafa verið í eigu „vondra manna“ og ákærða alls óviðkomandi. Þó kannaðist vitnið við að hafa aðstoðað ákærða við að henda rusli og drasli úr húsnæðinu við […] en það hefði verið um mánuði áður en hann var handtekinn með fíkniefni í bílnum.

Líkt og að framan greinir lagði lögregla þann 29. apríl 2016 hald á 6.839,37 g af kannabisefnum, sem og búnað til ræktunar í húsnæði er ákærði hafði til umráða og samkvæmt honum sjálfum sem og vitnum í málinu, einn lyklavöld að. Dómari hefur kynnt sér framburð ákærða og vitna hjá lögreglu, sem og myndband sem liggur frammi í málinu, er tekið var á búkmyndavél er lögregla hafði meðferðis við húsleit í […] umrætt sinn. Styðja umrædd gögn málsins framburð vitnisins A hjá lögreglu, þar sem lýsingar hans á húsnæðinu og þeim búnaði sem þar var að finna, koma heim og saman við myndskeið er tekið var á vettvangi. Við rannsókn málsins, báru bæði ákærði sjálfur sem og vitnið A að þeir hafi kvöldið áður en lögregla kom að hinni ætluðu ræktun, verið að taka til í húsnæðinu, þó þeim hafi ekki borið saman um hvort tiltektin sneri að því að taka niður hina ætluðu ræktun. Þá báru ákærði og vitnið A báðir um það hjá lögreglu að þeir hefðu umrædda nótt neytt matar í húsnæðinu, og talaði vitnið um að það hefði verið brauð og salöt. Fær þetta stoð í framburði þeirra lögreglumanna sem komu á vettvang, en þeim var það báðum minnisstætt að brauð hefði verið á borðum. Í ljósi framlagðra gagna sem og framburði annarra vitna, er það mat dómara að hinn breytti framburður vitnisins A fyrir dómi sé ótrúverðugur, sem og skýringar hans á hinum breytta framburði. Aftur á móti þykir framburður vitnisins hjá lögreglu við rannsókn málsins eiga sér stoð í gögnum málsins, sem og framburði ákærða eins langt og hann nær.

Að öllu framangreindu virtu þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur samkvæmt framansögðu unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði átta sinnum áður sætt refsingu, þar af einu sinni vegna fíkniefnalagabrots. Þann 24. janúar 1996 var ákærði dæmdur til að sæta 30 daga varðhaldi vegna umferðarlagabrots. Þann 8. október sama ár var ákærði dæmdur til að sæta 60 daga varðhaldi vegna umferðarlagabrots. Þann 28. maí 1998 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í átta mánuði, vegna kynferðisbrots. Þann 19. desember 2008 var ákærða gerð sekt vegna skjalabrots og umferðarlagabrots. Þann 7. apríl 2011 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar, sem og í skilorðsbundið fangelsi vegna skattsvika. Þann 10. október 2012 var ákærða gerð sekt vegna skjalabrots og umferðarlagabrots. Þann 11. júní 2014 var ákærða gerð sekt fegna áfengislagabrots. Loks var ákærði þann 17. mars 2015 fundinn sekur um fíkniefnalagabrot og gert að sæta fangelsi í 60 daga, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Ljóst er að ákærði hefur með broti sínu rofið skilorð síðastgreinds dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka framangreindan dóm upp og dæma með hinu nýja broti, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 77. sömu laga. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Að virtum atvikum máls, sem og að teknu tilliti til sakaferils ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ekki verður á það fallist að upptökukrafa ákæruvaldsins sé vanreifuð. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 7. mgr. sömu greinar er og gerður upptækur búnaður til ólögmætrar ræktunar og meðferðar fíkniefna líkt og greinir í dómsorði.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti lögreglu nemur kostnaður af rannsókn málsins 168.655 krónur. Er þar meðal annars tilgreindur kostnaður vegna þóknunar verjanda, en samkvæmt gögnum málsins er um að ræða reikning vegna kærða A. Ákærða í máli þessu verður ekki gert að greiða þóknun annarra þeirra er töldust sakborningar málsins. Að þessu virtu verður ákærða gert að greiða útlagðan sakarkostnað, samtals 701.647 krónur, auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, sem telst hæfilega ákveðin 550.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts auk ferðakostnaðar lögmannsins, 55.500 krónur.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson, kveður upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

                                                           DÓMSORÐ

Ákærði, Baldur Sigurðarson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Gerð eru upptæk 6.839,37 g af kannabisstönglum, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 32407.

Gerður er upptækur búnaður til ólögmætrar ræktunar og meðferðar fíkniefna, sbr. munaskrá lögreglu nr. 115838.

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað er hann varðar, 701.647 krónur, auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, 550.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts auk ferðakostnaðar lögmannsins, 55.500 krónur.

 

 

                                                              Hjörtur O. Aðalsteinsson.