• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás

Árið 2018, miðvikudaginn 10. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-216/2017:

 

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri)

gegn

                                                Piotr Antoni Sokól

(Helgi Bragason hrl.)

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 9. nóvember 2017 og dómtekið 14. desember 2017, er höfðað með ákæru útgefinni af Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum þann 19. október sl., á hendur Piotr Antoni Sokól ,  Vestmannabraut 25, Vestmannaeyjum

                       

„fyrir líkamsárás

með því að hafa síðdegis laugardaginn 30. júlí 2016 á Skólavegi í Vestmannaeyjum við hús númer 11 veist að A og slegið hann þungu höggi í andlitið með krepptum hnefa hægri handar þannig að A féll í götuna. Af árasinni hlaut A tvö kjálkabrot, á kjálkabarði vinstra megin og á hökusvæði hægra megin.

(Mál nr. 319-2016-2685)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Björn Jóhannesson, hrl., hefur krafist þess fyrir hönd A að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur, samtals að fjárhæð kr. 1.368.340.- auk vaxta samkv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30 júlí 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins, en það gerði Helgi Bragason hrl. fyrir ákærða og var hann skipaður verjandi hans.

Ákærði kom fyrir dóminn 14. desember sl. og játaði skýlaust sök. Ákærði hafnaði bótakröfu sem of hárri en samþykkti bótaskyldu. Þá sótti þing Björn Jóhannesson hrl. vegna brotaþola og var hann skipaður réttargæslumaður brotaþola að hans ósk.

 Var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi, skipaður verjandi og réttargæslumaður  höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða er þess krafist að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa, auk hæfilegra málsvarnarlauna skipaðs verjanda. Þá er krafist verulegrar lækkunar á bótafjárhæð.

Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu dómkröfur og í ákæru greinir, auk þóknunar fyrir skipaðan réttargæslumann sem greiðist úr ríkissjóði.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu. Að virtum áverkum á brotaþola, sem og hreinskilnislegri játningu ákærða og því að hann hefur samþykkt bótaskyldu sína vegna brotsins, þykir hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Einakréttarkrafa brotaþola er annars vegar um miskabætur að fjárhæð 1.200.000, en hins vegar um útlagðan kostnað vegna læknis- og lyfjakostnaðar kr. 66.026, bætur vegna munatjóns  kr. 24.604, útlagðan kostnað vegna bifreiðakostnaðar kr. 15.070, bætur vegna tapaðra orlofsdaga kr. 48.000, auk þjáningabóta kr. 14.640. Af þessu hefur ákærði fallist á að greiða kr. 60.040 vegna læknis- og lyfjakostnaðar, auk miskabóta en þá með verulegri lækkun.

Ljóst er að í háttsemi ákærða gagnvart brotaþola umrætt sinn felst ólögmæt meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og verður ákærða gert að greiða brotaþola miskabætur vegna þess og eru þær hæfilegar ákveðnar kr. 300.000. Þá ber skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fallast á kröfu brotaþola um þjáningabætur kr. 14.640, en sú krafa hefur ekki sætt efnislegum tölulegum andmælum. Vegna annarra liða í skaðabótakröfu brotaþola verður ákærða gert að greiða þá fjárhæð sem hann hefur fallist á, en ekki verður fallist á að dæma ákærða til greiðslu vegna lyfja sem hann keypti ekki sjálfur kr. 5.984, andvirði svefnpoka kr.24.602, akstur á bifreið B kr. 15.070 og orlofsdaga kr. 48.000. Skulu dæmdar bætur bera vexti og dráttarvexti eins og greinir í dómsorði, en fram kemur í gögnum málsins að bótakrafan var kynnt ákærða þann 29. mars 2017.

Þá ber jafnframt að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, en skv. yfirliti nemur kostnaður vegna rannsóknar kr. 72.996, en ekki verður ákærða gert að greiða kostnað vegna túlks. Þá verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Bragasonar hrl., kr. 217.000 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, ásamt þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hrl., kr. 590.240 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk útlagðs kostnaðar réttargæslumannsins, kr. 67.300.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Piotr Antoni Sokól, sæti fangelsi í 2 mánuði.

Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A kr. 374.680 með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. júlí 2016 til 29. apríl 2017, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 947.536, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Bragasonar hrl., kr. 217.000, ásamt þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hrl., kr. 590.240, auk útlagðs kostnaðar réttargæslumannsins, kr. 67.300.

                                                                                    Sigurður G. Gíslason