• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 2. júlí 2018 í máli nr. S-259/2017:

  Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Ólafi Hauki Atlasyni

(Sigurður Sigurjónsson lögmaður/Suðurlandi)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 25. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. desember sl., á hendur Ólafi Hauki Atlasyni, til heimilis að Höfðabakka 1, Reykjavík,  

 

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 16. nóvember 2017, ekið bifreiðinni A sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,40 ‰) um Breiðumörk í Hveragerði.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr.  umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 25. júní sl., í fylgd lögreglu, ásamt skipuðum verjanda sínum, Sigurði Sigurjónssyni lögmanni. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tólf sinnum frá árinu 2006 sætt refsingu. Þann 15. desember 2006, var ákærða gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi, meðal annars vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár. Þann 31. janúar 2007, var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti og hann aftur sviptur ökurétti tímabundið. Var þar um að ræða hegningarauka við framangreindan dóm. Í nóvember sama ár, hlaut ákærði tvo dóma, annan meðal annars vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, þar sem honum var gert að sæta fangelsi í 45 daga og hann sviptur ökurétti ævilangt. Þann 13. mars 2008 var ákærði meðal annars fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkninefna, ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Var þar að hluta um að ræða hegningarauka við fyrri dóma. Var ákærða þá gert að sæta fangelsi í 30 daga, auk þess sem áréttuð var ævilöng svipting ökuréttar hans. Þann 18. september 2012 var ákærði enn fundinn sekur um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Var honum þá gert að sæta fangelsi í 60 daga og áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans. Þann 12. maí 2015 var ákærða gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði vegna lyfjaaksturs, ölvunarakstur og aksturs sviptur ökurétti, og hann sviptur ökurétti ævilangt. Þann 15. desember 2016 var ákærða gert að sæta fangelsi í fimm mánuði vegna hraðaakstur og aksturs sviptur ökurétti. Loks var ákærða þann 6. desember sl., gert að sæta fangelsi í eitt ár, vegna hraðaaksturs, ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Var þá og enn áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Líkt og að framan greinir hefur ákærði verið sviptur ökurétti ævilangt og ekkert liggur fyrir um að hann hafi hlotið endurveitingu ökuréttar. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar hans.  

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 35.498 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda hans sem er hæfilega ákveðin 316.200 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ólafur Haukur Atlason, sæti fangelsi í 90 daga.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði sakarkostnað, samtals 351.698 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, 316.200  krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.