• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Eignaupptaka
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 10. janúar 2019 í máli nr. S-265/2018:

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri)

gegn

Sóloni Rafnssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 13. desember sl., og dómtekið þriðjudaginn 18. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þann 24. október sl., á hendur Sóloni Rafnssyni,

 

„fyrir fíkniefnalagabrot

I.

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst 2018 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samtals 12,26 grömm af kókaíni og þrjár MDMA töflur en efnin fundust í jakkavasa og sokk ákærða við fíkniefnaeftirlit lögreglu við söluturninn Tvistinn, Faxastíg 36, Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2018-3144)

 

II.

með því að hafa skömmu eftir miðnætti sunnudaginn 5. ágúst 2018 haft í vörslum sínum 0,99 grömm af kókaíni en efnin fundust í jakkavasa ákærða við fíkniefnaeftirlit lögreglu í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2018-3213)

 

III.

með því að hafa síðdegis sunnudaginn 5. ágúst 2018 haft í vörslum sínum 0,34 grömm af kókaíni en ákærða framvísaði efnunum er lögregla hafði afskipti af honum við fíkniefnaeftirlit við Aska Hostel, Bárustíg 11, Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2018-3244)

 

Teljast brot ákærða samkvæmt I.-III. lið ákærunnar varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á samtals 13,59 grömmum af kókaíni, þremur MDMA töflum og 54.000 krónum sem lagt var hald á við rannsókn málsins samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. nefndra laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 18. desember sl., en skipaður verjandi hans, Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður, hafði boðað forföll. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, en honum var þann 29. janúar 2016 gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots.  

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerðir  upptækir framangreindir peningar líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans og þykir hæfilega ákveðin 84.320 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Sólon Rafnsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

 

 

Gerð eru upptæk 13,59 g af kókaíni og þrjár MDMA töflur.

Gerðar eru upptækar 54.000 krónur sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað 84.320 krónur, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

 

                                                                        Sigurður G. Gíslason.