• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hótanir
  • Líkamsárás
  • Lögreglumenn
  • Opinberir starfsmenn
  • Fangelsi

            Ár 2019, fimmtudaginn 14. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-287/2018: 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

                                                gegn

                                                Björgvini Þór Kristjánssyni

                                                (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

kveðinn upp svohljóðandi

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 14. febrúar sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 22. nóvember sl. á hendur ákærða, Björgvini Þór Kristjánssyni,

 

 „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. janúar 2018, á lögreglustöðinni […], hótað lögreglumanninum A, sem var við skyldustörf, lífláti og slegið hann hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut bólgu, roða og eymsli yfir hægri kinn, brot á bitköntum fjögurra tanna og lengdarsprungur í krónuhluta tveggja tanna.

 

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

             

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.

 

Málavextir.

 Aðfaranótt laugardagsins 20. janúar 2018 var ákærði handtekinn […]. Í skýrslu B segir að ákærði hafi farið með lögreglu á lögreglustöð og lagst þar í klefa nr. 1. Honum hafi verið kynnt að hann þyrfti að fara úr skóm en ákærði hafi þverneitað því og orðið ógnandi í hegðun. Hann hafi allt í einu risið á fætur  og gert sig líklegan til að ráðast á lögreglumann og hafi hann þá verið tekinn, lagður á bekk í klefanum og færður úr skónum. Hafi ákærði haft í hótunum við lögreglumanninn A, brotaþola í máli þessu, og sagt orðrétt „Ég stúta þér síðar.“ Hafi lögreglumennirnir þá gengið út úr klefanum og þegar B hafi verið að loka hurðinni hafi ákærði ýtt í hana með fætinum og hafi brotaþoli reynt að ýta fæti hans inn fyrir og lögreglumenn hafi ýtt á hurðina. Hafi ákærði þá kýlt brotaþola í andlitið og hafi eftir það verið hægt að loka hurðinni og læsa. Hafi blætt úr nösum brotaþola A og þegar lögreglumaðurinn C hafi opnað litla lúgu á hurðinni hafi ákærði reynt að kýla hann í gegnum lúguna en hann hafi ekki hitt. Samkvæmt skýrslu C lögregluvarðstjóra sló ákærði brotaþola í andlitið með krepptum hnefa þannig að hann fékk blóðnasir. Þá hafi ákærði reynt að slá C í gegnum litla lúgu á hurðinni en C hafi vikið sér undan. C staðfestir að ákærði hafi sagt við brotaþola: „Ég stúta þér síðar.“ Í skýrslu D, héraðslögreglumanns nr. […], segir að ákærði hafi haft í hótunum og sagt við brotaþola: „Ég stúta þér, þú skalt passa þig.“ Þá hafi ákærði kýlt brotaþola í andlitið og hafi hann fengið blóðnasir og kvartað undan verk í tönn. Brotaþoli, sem er héraðslögreglumaður nr. […], skrifaði lögregluskýrslu og þar kemur fram að ákærði hafi sett fót sinn milli stafs og hurðar og þegar brotaþoli hafi ætlað að ýta við fætinum hafi hann fengið hnefann framan í sig frá ákærða. Hann kvaðst strax hafa fundið að blóð hafi byrjað að leka úr hægri nös og að tennur hafi brotnað. Hann kvað lækni hafa skoðað sig og hafi hann tjáð sér að hann væri bólginn á hægri vanga og að tennur væru brotnar. Þá hafi brotaþoli farið til tannlæknis á mánudeginum og hafi honum verið tjáð að brot væru í fjórum tönnum. Brotaþoli gerði þá kröfu að ákærða yrði refsað.

Samkvæmt vottorði E læknis, dagsettu 24. janúar 2018, mun hafa kvarnast úr efri augntönn brotaþola hægra megin, hann sé svolítið bólginn, rjóður og aumur yfir kinninni alveg inn að nefi sem virtist vita lítið eitt til vinstri. Minniháttar nuddsár eða skröpun hafi verið á kinninni. Ekki hafi verið grunur um nefbrot, engin eymsli yfir nefrót og –beinum.

Samkvæmt vottorði F tannlæknis, dagsettu 25. janúar 2018, voru brotnir bitkantar á tönnum 13, 21, 43 og 42. Þá hafi verið tvær lengdarsprungur í krónuhluta 13 (buccal- og mesial liggjandi) og þversprunga í krónuhluta 41. Ástandið var talið gott en vegna áverkans gætu orðið frekari eftirmálar þar sem drep geti orðið í taug viðkomandi tanna.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 7. mars 2018 og neitaði sök. Hann kvaðst ekki trúa því að hann hefði kýlt brotaþola.

           

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             

            Ákærði kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en óskaði eftir því að nýta sér þann rétt sinn að tjá sig ekki um sakarefnið.

            Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi verið ósáttur við að vera settur í fangaklefa en hann hefði róast og farið inn. Hann hefði neitað að fara úr skónum og hefði hann orðið æstur þegar hann hafi verið tekinn úr þeim. Hafi ákærði þá sagt að hann ætlaði að stúta brotaþola, en það væri ekki í fyrsta sinn sem hann segði slíkt. Þegar þeir hafi verið að fara út úr klefanum hafi fótur ákærða verið kominn milli stafs og hurðar.  Kvaðst brotaþoli hafa ætlað að ýta fæti hans inn en þá hafi ákærði slegið hann út um gættina. Hann kvaðst strax hafa fundið að brotnað hafi úr tönnum og þá hafi hann fengið blóðnasir.

            Vitnið B héraðslögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi ekki viljað fara úr skóm þegar hann hafi verið kominn inn í fangaklefann. Ákærði hafi beint reiði sinni að brotaþola og C og þegar honum hafi verið boðin tvö teppi hafi hann truflast og ætlað í C. Hafi ákærði verið tekinn í tök og færður úr skónum. Hafi ákærði sagt við brotaþola að hann myndi stúta honum síðar. Þegar brotaþoli hafi verið kominn út úr klefanum hafi ákærði sett fótinn fyrir hurðina. Hafi ákærði þá slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið og kvaðst hann hafa séð blóð renna úr nefi hans.

            Vitnið C lögregluvarðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi neitað að fara úr skónum og hafi þurft að taka hann úr skónum með valdi. Hann kvað ákærða hafa hótað brotaþola að hann myndi fyrirkoma honum. Þegar þeir hafi farið út úr klefanum hafi ákærði sett fót sinn milli stafs og hurðar og hafi hann þá slegið brotaþola í andlitið. Vitnið kvaðst hafa séð að brotaþoli hafi fengið blóðnasir. Ákærði hafi einnig reynt að slá vitnið í gegnum lúgu á hurðinni en vitnið kvaðst hafa vikið sér undan.

            Vitnið D héraðslögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi neitað að fara úr skónum og þegar honum hafi verið fært aukateppi hafi hann staðið upp mjög reiður og ætlað í hann. Hafi hann þá verið tekinn niður og færður úr skónum. Hafi ákærði þá sagt við brotaþola að hann skyldi passa sig, hann myndi stúta honum. Þegar þeir hafi verið komnir út hafi ákærði sett fótinn milli stafs og hurðar. Hafi brotaþoli ætlað að ýta fætinum inn. Vitnið kvaðst ekki hafa séð högg en aðspurður hafi brotaþoli sagt að hann hefði verið kýldur. 

            Vitnin F tannlæknir og E læknir staðfestu báðir vottorð sín í símaskýrslum fyrir dómi.

 

Niðurstaða.   

 

Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa á lögreglustöðinni […] hótað brotaþola lífláti og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum er nánar greinir í ákæru. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, enda er í ákæru talið að brotaþoli hafi verið lögreglumaður sem verið hafi verið skyldustörf. Þá eru afleiðingarnar taldar þess eðlis að brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 218. gr.  sömu laga. Ákærði hefur neitað sök en hann nýtti sér þann rétt sinn að tjá sig ekki um sakarefnið við aðalmeðferð málsins. Brotaþoli og héraðslögreglumennirnir B og D hafa fyrir dómi skýrt svo frá að ákærði hafi hótað að stúta brotaþola og þá hefur lögregluvarðstjórinn C skýrt svo frá fyrir dómi að ákærði hafi hótað brotaþola og sagt að hann myndi fyrirkoma honum. Með hliðsjón af þessum framburði vitna telst sannað að ákærði hafi hótað brotaþola lífláti. Þá hafa brotaþoli og vitnin B og C skýrt svo frá fyrir dómi að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið. Vitnið D kvaðst ekki hafa séð högg en brotaþoli hefði tjáð honum að hann hefði verið kýldur. Skoðuð hafa verið myndskeið af samskiptum ákærða við framangreind vitni í fangaklefa á lögreglustöðinni og er greinilegt að til átaka kom á milli ákærða og vitna í máli þessu en ekki sést á myndskeiðum að ákærði hafi veitt brotaþola högg en myndskeiðin útiloka þó ekki að það hafi gerst. Allt að einu þykir nægilega sannað með framburði framangreindra vitna að ákærði hafi slegið brotaþola með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Samkvæmt læknisvottorðum og öðrum gögnum málsins voru afleiðingarnar með þeim hætti að brot ákærða þykir varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Verjandi ákærða hefur í málflutningi sínum við aðalmeðferð málsins hreyft þeirri vörn að brotaþoli hafi ekki verið opinber starfsmaður í skilningi 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga þar sem hann hafi verið héraðslögreglumaður og hafi engin gögn verið lögð fram í málinu sem sýni fram á að hann hafi haft lögregluvald. Í 1. mgr. 106. gr. laganna segir að hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í lagagreininni að ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hafi heimild til líkamlegrar valdbeitingar, megi beita fangelsi allt að 8 árum. Í gögnum málsins kemur fram að brotaþoli, B og D hafi verið héraðslögreglumenn og sinntu þeir lögreglustörfum ásamt C lögregluvarðstjóra.  Samkvæmt 10. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglustjóra heimilt að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra að ráða héraðslögreglumenn til starfa í umdæmi sínu, enda fullnægi þeir nánar tilteknum skilyrðum 1. mgr. 38. gr. laganna. Þá segir í sömu lagagrein að héraðslögreglumenn njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og lögreglumenn á meðan þeir gegna lögreglustörfum. Í 10. gr. reglugerðar nr. 283/1997 um héraðslögreglumenn, sem sett er samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögreglulaga, segir að héraðslögreglumenn njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og fastráðnir lögreglumenn á meðan þeir eru að störfum og þá fari þeir með lögregluvald þegar þeir eru að störfum.  Þegar umræddir héraðslögreglumenn höfðu afskipti af ákærða voru þeir undir stjórn C lögregluvarðstjóra og leikur því enginn vafi á því að brotaþoli hafi verið opinber starfsmaður í skilningi 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Er því að mati dómsins vafalaust að háttsemi ákærða varði við þá lagagrein.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða á hann að baki allnokkurn sakaferil. Frá árinu 2000 hefur hann hlotið 19 refsidóma og gengist undir eina lögreglustjórasátt vegna ýmissa brota gegn almennum hegningarlögum, löggjöf um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Hafa ekki þótt efni til að skilorðsbinda fangelsisdóma sem hann hefur hlotið frá árinu 2004. Ákærði hefur þrisvar áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, síðast með dómi Hæstaréttar þann 6. október 2011, en þá hlaut hann 12 mánaða fangelsi fyrir slíkt brot og brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þann 13. janúar 2013 var honum veitt reynslulausn í 2 ár á 300 daga eftirstöðvum refsingar. Þá hlaut ákærði tvívegis fangelsisdóma fyrir líkamsárásir árið 2009. Síðast hlaut hann 12 mánaða fangelsisdóm 26. júní 2017 fyrir brot gegn 2., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af sakaferli hans fangelsi í 12 mánuði.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti, 41.100 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 25.080 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 Ákærði, Björgvin Þór Kristjánsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 41.100 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson