• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 10. desember 2018 í máli nr. S-276/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Heiðari Kristjáni Grétarssyni

                                         (enginn)

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 29. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 7. nóvember sl., á hendur Heiðari Kristjáni Grétarssyni, […],   

 

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 2. ágúst 2018, ekið bifreiðinni […] um Austurveg á Selfossi, án gildra ökuréttinda, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,77 ‰) og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa MDMA.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 20. nóvember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði fjórtán sinnum áður sætt refsingu. Þann 31. maí 2012 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna fíkniefnaaksturs. Þann 13. maí 2013 var ákærða gerð fjögurra mánaða fangelsisrefsing meðal annars vegna fíkniefnaaksturs. Þann 13. nóvember 2014 var ákærða veitt reynslulausn af eftirstöðvum refsingarinnar, sem bundin var skilorði í eitt ár. Loks var ákærða þann 22. janúar 2016 gert að sæta fangelsi í 60 daga vegna þjófnaðar og eignaspjalla, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif á refsingu ákærða í máli þessu. Ákærði er nú meðal annars fundinn sekur um ölvunarakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna og er það brot hans ítrekað í annað sinn. Þá er ljóst að ákærði hefur með broti sínu rofið skilorð framangreinds dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka framangreinda refsingu upp og dæma með hinum nýju brotum, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 77. sömu laga. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 105 daga. Að virtum atvikum máls þykir rétt að fresta fullnustu 60 daga refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærðu ökurétti ævilangt. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 118.576 kr.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Heiðar Kristján Grétarsson, sæti fangelsi í 105 daga, en fresta skal fullnustu 60 daga refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði er sviptur ökurétt ævilangt.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 118.576 krónur.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.