• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Húsbrot
  • Fangelsi
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 27. febrúar 2018 í máli nr. S-248/2017:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Arnari Jóhanni Ragnarssyni

(Jón Egilsson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 15. febrúar sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Suðurlandi, annars vegar ákæru útgefinni 4. desember sl., á hendur Arnar Jóhanni Ragnarssyni,  skráðum óstaðsettur í hús á Selfossi,  

 

fyrir þjófnað:

með því að hafa, aðfara nótt fimmtudagsins 23. febrúar 2017 farið í heimildarleysi inn í bifreið OB-548 er stóð í heimkeyrslu að Eyrargötu 17, Eyrarbakka, þaðan stolið svartri 66 gráðu norður úlpu, tvö hulstur með Rayban gleraugum, Garmin GPS tæki, Samsung fartölvu, Acar Aspire fartölvu, debetkort, gjafabréf og Puma tösku, allt að óþekktu verðmæti.

 

Telst brot ákærða varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

 

fyrir fíkniefnalagabrot:

með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 23. febrúar 2017 í herbergi að Túngötu 23, Eyrarbakka haft í vörslu sinni 0,91 g af maríhúana, sem ákærði framvísaði lögreglu eftir að afskipti voru höfð af honum í umrætt sinn.

 

Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá lögreglu nr. 34397) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Þá var mál S-260/2017, höfðað gegn ákærða með ákæru útgefinni 18. desember sl.,

 

fyrir húsbrot

með því að hafa, að morgni þriðjudagsins 5. desember 2017, farið í óleyfi og heimildarleysi inn í íbúð í kjallara að Þóristúni 1 á Selfossi, þar sem húsráðandi kom að honum.

 

Telst brot ákærða varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 15. febrúar sl., ásamt Jóni Egilssyni lögmanni, sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Var þá mál S-260/2017, sameinað máli þessu. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í báðum ákæruskjölum. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tíu sinnum áður sætt refsingu. Þann 8. júní 2012 var ákærða gerð sekt vegna þjófnaðar, eignaspjalla, nytjastuldar og umferðarlagabrota. Þann 28. desember sama ár var ákærða gerð sekt vegna nytjastuldar og umferðarlagabrota. Þann 17. október 2013 var ákærða gerð sekt vegna umferðarlagabrota. Þann 24. júní 2014 var ákærði fundinn sekur um fíkniefnalagabrot og hann dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Þann 26. mars 2015 var ákærða gerð sekt vegna umferðarlagabrots og fíkniefnalagabrots. Var þar um að ræða rof á skilorði framangreinds dóms, en refsingin var ekki dæmd upp. Þann 22. október sama ár var ákærði fundinn sekur um fíkniefnalagabrot, og honum gert að sæta fangelsi í sex mánuði, en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar var frestað skilorðbundið til þriggja ára. Var þá dæmd upp refsing áðurgreinds skilorðsdóms. Þann 30. júní 2016 var ákærði fundinn sekur um umferðarlagabrot og honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði og var fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar þá frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Var þá dæmd upp refsing síðastgreinds skilorðsdóms. Þann sama dag gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna umferðarlagabrots. Þann 9. janúar 2017 var ákærða fundinn sekur um stórfellda líkamsárás og honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði, og var þá fullnustu fimm mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Var þar um hegningarauka að ræða og dæmd upp refsing síðastgreinds skilorðsdóms.  Loks var ákærði þann 14. febrúar sama ár fundinn sekur um umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og honum dæmdur hegningarauki við síðastgreindan dóm, en ekki gerð sérstök refsing. Ljóst er að ákærði hefur með brotum sínum nú rofið skilorð framangreinds dóms frá 9. janúar 2017. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka framangreinda refsingu upp og dæma með hinum nýja brotum, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 77. sömu laga. 

Við ákvörðun refsingar ákærða þykir rétt að taka tillit til skýlausrar játningar hans, en þó verður ekki fram hjá því litið að ákærði hefur á undanförnum árum ítrekað rofið skilorð. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þá þykir, að virtum atvikum málsins sem og að teknu tilliti til játningar ákærða, rétt að fresta fullnustu refsingarinnar að hluta, líkt og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans og er hæfilega ákveðin 126.480 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnaður verjanda, 13.200 kr.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Arnar Jóhann Ragnarsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Gerð eru upptæk 0,91 g af maríhúana, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 34397.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 139.680 krónur, sem er þóknun skipaðs verjanda, 126.480 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnaður verjanda, 13.200 krónur.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.