• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Sönnun

Árið 2018, miðvikudaginn 7. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Heiðarvegi 15, Vestmannaeyjum, kveðinn upp í máli nr. S-30/2017:

 

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri )

gegn

Andra Vilhelm Guðmundssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 28. febrúar 2017, á hendur Andra Vilhelm Guðmundssyni, Faxastíg 6b, Vestmannaeyjum

„I.

fyrir líkamsárás

með því að hafa skömmu eftir miðnætti föstudaginn 22. janúar 2016 á veitinga- og skemmtistaðnum Lundanum, Kirkjuvegi 21 í Vestmannaeyjum, veist að A, tekið um höfuð hans og skellt því ofan á lágan vegg og síðan slegið hann þungu hnefahöggi í andlitið, allt með þeim afleiðingum að A hlaut beinbrot á alveolar beini í munni þannig að hann missti vinstri framtönn í efri gómi, tvær aðlægar tennur losnuðu og tannhold rifnaði þannig að sauma þurfti þrjú spor. Þá hlaut A mar og bólgur hægra megin á andliti og sár við munn.

(Mál nr. 319-2016-303)

 

Telst framgreint brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

II.

fyrir tollalagabrot

með því að hafa síðdegis föstudaginn 2. desember 2016 haft í vörslum sínum 11 tóbaksdósir sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega fluttar til landsins, en tóbaksdósirnar fundust í tösku ákærða við almennt eftirlit lögreglu við komu farþegaferjunnar Herjólfs til Vestmannaeyja.

(Mál nr. 319-2016-4260)

 

Telst framangreint brot ákærða varða við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta upptöku á framangreindum 11 tóbaksdósum skv. 1. mgr. 181. gr. nefndra tollalaga og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Þá hefur Aníta Óðinsdóttir, hdl., krafist þess fyrir hönd A, að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 5.000.000,- auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. janúar 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt fyrir ákærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

 

Málið var þingfest 9. mars 2017.

Ákærði neitar sök að því er varðar ákærulið I en játar sök í ákærulið II.

Aðalmeðferð málsins hófst 18. október 2017 með skýrslutöku af ákærða, en var svo frestað og haldið áfram og lokið 13. desember 2017 og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

Af hálfu brotaþola eru gerðar sömu kröfur og greinir í ákæru, en þó þannig að krafan hefur verið lækkuð og er nú krafist kr. 4.656.664 auk vaxta og dráttarvaxta eins og í ákæru greinir.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af  sakargiftum í ákærulið I, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna þeirra, en jafnframt gerir ákærði þá kröfu vegna sakargifta í ákærulið II að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá, en til vara að hann verði sýknaður af henni.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 22. janúar 2016 barst lögreglu símtal frá skemmtistaðnum Lundanum í Vestmannaeyjum og var lögreglu tjáð að ákærði hefði slegið brotaþola inni á Lundanum. Þegar lögregla kom á staðinn sat ákærði við spilakassa fyrir framan barinn og ræddi lögregla við hann. Segir að hann hafi í fyrstu ekki kannast við neitt, en síðan verið settur í handjárn og fluttur á lögreglustöð. Er haft eftir ákærða að hann hafi bara verið að verja vinkonu sína B, en vinkona ákærða hafi sagt að brotaþoli hafi verið að káfa á henni. Segir að brotaþoli hafi verið með sár á vinstri hendi sem hafi blætt lítillega úr og hafi verið plástur á því.

Lögregla tók skýrslu af brotaþola við rannsókn málsins og kom fram að hann þekkti ekkert til ákærða. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis og farið út með konu sinni C og vinahjónum þeirra. Þau hafi farið á Lundann eftir mat og kvaðst brotaþoli telja að hann hafi verið búinn með 5 stóra bjóra og 1 Irish coffee glas er þangað kom. Þegar þau hafi komið á Lundann hafi ákærði verið fyrir utan og lítil grönn stelpa. C hafi farið strax inn en brotaþoli verið að tala við ákærða og spurt hvort hann yrði ekki rólegur í kvöld en ákærði hafi verið að æsa sig við stelpuna. Hafi ákærði í framhaldinu æst sig við brotaþola og spurt hvort hann væri hræddur. Hafi svo D, sem hafi verið með brotaþola, komið að og sagst þekkja ákærða og sagst myndu ræða við hann. Þegar brotaþoli hafi verið einhverja stund inni á skemmtistaðnum hafi hann verið að ræða við einhvern mann, en þá hafi ákærði komið og slegið hann  í andlitið og hann hafi „dinglast“ eitthvað út í loftið. Gat ekki lýst því hvað hafi gerst í framhaldinu en hann hafi verið helmarinn hægra megin á höfðinu og vinstri kjálkanum. Telji að þetta hafi verið meira en eitt högg og jafnvel hafi verið sparkað í höfuð hans. Hann muni mjög vel eftir þessu eina höggi. Það hafi verið stumrað yfir honum og hann hafi fundið að tennur í munni hans hafi verið lausar.

Í skýrslu sem lögregla tók af ákærða kannaðist hann við að hafa slegið brotaþola einu hnefahöggi, en aðdragandi þess hafi verið sá að brotaþoli hafi verið eitthvað að þukla á B vinkonu hans. Hann hafi slegið brotaþola með krepptum hnefa vinstri handar, en höggið hafi ekki verið mjög fast og ekki með fullu afli. Ekki hafi hann gert brotaþola neitt annað og kannaðist ekki við að hafa séð neina áverka á brotaþola.

Brotaþoli leitaði á heilsugæslustöð í Vestmannaeyjum þessa umræddu nótt og segir í vottorði E læknis, sem þó tók ekki sjálf á móti brotaþola, að brotaþoli hafi haft áverka á tveimur tönnum og tannholdið hafi verið tætt. Haft hafi verið samband við tannlækni og brotaþoli farið þangað.

Í vottorði F tannlæknis, dags. 25. júlí 2016, segir að brotaþoli hafi komið á stofu eftir að hafa fengið högg á framtennur. Tönn 21 hafi verið slegin úr munni og tönn 22 mikið laus en tönn 11 minna hreyfanleg. Ekki hafi verið unnt að koma tönn 21 fyrir aftur í munni þar sem töluvert hafi brotnað af alveolar beini buccalt. Ákveðið að festa tönn 22 við 23 til að fá hana stöðuga. Tannhold hafi verið nokkuð rifið og saumaðir 3 saumar. Brotaþoli hafi komið nokkrum sinnum eftir þetta en svo hafi farið að tönn 22 hafi verið talin vonlaus og því dregin. Tönn 11 sé enn eilítið hreyfanleg. Smíðaður hafi verið bráðabirgðagómur í tannlaus bil en endanlegt meðferðarúrræði væri tveir tannplantar í stæði 21 og 22, en brotaþoli hafi farið til Guðmundar Björnssonar munn- og  kjálkaskurðlæknis í slíka aðgerð.

Í vottorði G læknis á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, dags. 5. júlí 2016, segir að brotaþoli hafi verið fluttur á bráðamóttöku með sjúkraflugi. Hann hafi verið meðvitundarskertur og greinst jákvæður fyrir ópíötum. Um þá áverka sem hér skipta máli segir að framtönn vinstra megin í efri gómi hafi brotnað og losnað og brotaþoli sé nokkuð marinn á hægri kinn.

Í vottorði H kjálkaskurðlæknis, dags. 5. september 2016, segir að brotaþoli hafi komið til hans 11. apríl 2016. Tönn 11 hafi verið aum og bil 21, 11 tannlaust. Muni hafa farið töluvert bein samhliða áverkanum. Þann 6. maí 2016 hafi verið gerð aðgerð þar sem tannígræðum hafi verið komið fyrir í tannstæðum. Ekki sé kunnugt um annað en að sár hafi gróið vel eftir aðgerð og frekari meðferð ekki fyrirhuguð. Tannkrónur verði svo settar á ígræði af tannlækni brotaþola.

Þá hefur verið lagt fram vottorð I sálfræðings, dags. 23. janúar 2017, þar sem kemur fram að brotaþoli hafi verið hjá henni í viðtölum árið 2015 og í ársbyrjun 2016. Eftir framangreint atvik hafi hann verið í tilfinningalegu uppnámi og sýnt einkenni kvíða, eirðarleysis og svefntruflana. Hann hafi verið dapur og upplifað reiði og skömm, sem algengt sé í kjölfar áfalls.

Þá liggja fyrir ljósmyndir og upptaka úr eftirlitsmyndavél á Lundanum, en ekki eru efni til að gera frekari grein fyrir rannsókn málsins.

Forsendur og niðurstaða

Við aðalmeðferð skýrði ákærði frá því varðandi líkamsárásarþátt ákærunnar að hafa verið á Lundanum umrætt kvöld. Hann hafi verið í spilakassanum og verið að drekka bjór. Hann hafi horft aftur fyrir sig og séð stympingar. Hann hafi séð brotaþola sem hafi verið dálítið fullur og verið að atast í vinkonu ákærða með ljótum orðum og einhverju káfi. Hafi ákærði orðið pirraður við þetta, en haldið áfram að spila og ekki viljað skipta sér af þessu. Svo hafi þetta nálgast hann frekar og hann hafi fylgst með þessu. Svo hafi þetta verið komið mjög nálægt honum og hann verið við kassann. Hafi ákærði stíað fólkinu sundur og brotaþoli verið drukkinn. Hafi verið orðin einhver slagsmál milli þessa fólks. Brotaþoli hafi dregist utan í manninn sem hafi verið við hlið ákærða í spilakassanum og ýtt við ákærða eitthvað sem hafi farið utan í barinn við það. Svo hafi ákærði slegið til brotaþola og svo snúið sér aftur að spilakassanum og haldið áfram að spila. Brotaþoli og fólkið hafi haldið áfram sínum slagsmálum. Svo hafi lögreglan komið og handtekið ákærða.

Var ákærða sýnd upptaka úr eftirlitsmyndavél á Lundanum sem sýnir þessi atvik. Kannaðist hann við sjálfan sig á upptökunni og vinkonu sína B. Kvaðst ekki þekkja neitt manninn sem hann hafi kýlt og kannaðist ekki við nein önnur samskipti við hann þetta kvöld. Kvaðst ekki kannast við að hafa slegið brotaþola utan í lágan vegg, en brotaþoli hafi ekki rekist utan í neinn vegg stubb. Hann hafi aðeins rekist utan í manninn sem hafi verið við hlið ákærða. Kvaðst ákærði hafa haft smá áverka á hendi en það hafi verið eftir að hafa slegið í spilakassann. Kvaðst ákærði ekki hafa séð neina áverka á brotaþola eftir höggið sem hann hafi slegið hann. Aðspurður kvaðst ákærði vera rétthentur. Tók fram að hann hafi ekki slegið brotaþola af fullu afli.

Þá kom fram að ákærði endurtók að hann játaði sök skv. ákærulið II um tollalagabrot.

Ákærði lýsti því að hann teldi ekki að áverkar sem brotaþoli hlaut væru eftir þetta eina högg sem ákærði hafi veitt honum. Kvaðst telja að höggið hafi lent í andliti brotaþola en hann væri ekki alveg viss um það. Hafi átök haldið áfram eftir það högg sem ákærði hafi veitt brotaþola sjálfur.

Þá lýsti ákærði stöðu sinni, en hann hefði ungur byrjað í neyslu og afbrotum en væri að reyna að rétta sig af og væri í meðferð í Svíþjóð.

Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa lagt fullt afl í höggið og hann vissi ekki til að brotaþoli hafi fengið af því áverka.

Vitnið A brotaþoli kom fyrir dóminn og lýsti því að hafa farið út að borða ásamt konu sinni og vinahjónum. Eftir það hafi leiðin legið á Lundann. Þar fyrir utan hafi hann strax hitt ákærða sem hafi verið æstur og hafi brotaþoli talað um hvort hann ætlaði ekki að vera rólegur. Svo hafi brotaþoli farið inn og fengið sér bjór. Svo hafi brotaþoli farið upp og sest með konu sinni þar á efri hæðinni. Svo þegar þau hafi verið að fara hafi brotaþoli verið örlítið á eftir og verið við dyrnar og átt þar orðaskipti við mann, en þeir hafi farið að þræta og farið upp að barnum og verið að rífast. Þá hafi brotaþoli næst vitað að hann hafi verið kýldur í andlitið, en hann hafi ekki séð vel hver hafi gert það enda verið alveg óviðbúinn. Konan hafi svo komið inn og þá hafi brotaþoli haldið á annarri tönn sinni í hendinni og beðið konuna sína að finna hina. Svo hafi þau farið út og upp á sjúkrahús og svo til tannlæknis. Svo hafi þau farið heim. Kvaðst ekki geta lýst högginu vel enda hafi þetta allt gerst mjög hratt. Fannst hann hafa verið laminn tvisvar sinnum enda kjálkinn illa farinn. Kvaðst ekkert vit hafa á því hvort þetta hafi verið þungt högg eða ekki, en alla vega nægilegt til að valda skemmdum á tönnum og kjálka. Aldrei verið kýldur áður. Lýsti því að þetta hafi allt haft miklar afleiðingar og gerði grein fyrir því að síðustu tvö ár hafi verið heilt helvíti, en hann hafi m.a. hlotið af þessu fótbrot. Munnurinn hafi verið allur dofinn og hann hafi fengið andlegt áfall eftir þetta. Hann hafi verið viðkvæmur fyrir vegna sjóslyss sem hann hafi lent í nokkru áður. Brotaþoli kvaðst minna að hann hafi farið með höfuðið utan í vegg í fallinu. Kvaðst brotaþoli hafi verið hræddur við ákærða eftir þetta og hafa heyrt af afbrotaferli ákærða.

Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki vita hvar hin tönnin hafi fundist. Hann telji að ristin á honum hafi brotnað í þessum átökum. Kvaðst muna atvik vel fram að högginu. Hann myndi ekki eftir átökum við neinn annan. Sá sem hann hafi rifist við hafi ekki verið ákærði. Gat ekki gert grein fyrir hvort átök hafi haldið áfram eftir þetta. Munnurinn á honum hafi allur verið stokkbólginn eftir þetta og gat ekki gert grein fyrir hvoru megin honum hafi verið meira illt. Kvaðst enn vera í meðferð vegna áverkanna og finna fyrir þeim. Hann hafi átt erfitt eftir þetta og tekið inn mikið af töflum morguninn eftir og ætlað að fyrirfara sér og verið fluttur á sjúkrahús eftir það. Hann hafi verið hjá sálfræðingi eftir þetta.

Vitnið J lýsti því fyrir dóminum að hafa verið á Lundanum umrætt sinn. Brotaþoli hafi komið þarna og verið með einhvern kjaft. Hafi vitnið ýtt honum inn á bar og tekið hann hálstaki. Svo hafi þeir lent saman í sófann og svo hafi vitnið verið tekinn af brotaþola. Ekki kvaðst vitnið hafa orðið var við að brotaþoli hafi fengið högg en var ekki viss um hvort hann hafi kýlt brotaþola. Það geti hafa gerst í sófanum. Kannaðist við að vera félagi ákærða og vinur B. Kvaðst ekki geta lýst nánar þeim átökum sem hafi orðið milli hans og brotaþola, en að þau hafi byrjað við kassana og færst bak við barinn og endað í sófanum. Vitnið hafi hent brotaþola í sófann. Kvaðst ekki viss hvað hafi gerst í sófanum. Vitnið hafi ekki verið mikið ölvað. Kvaðst ekki geta sagt til um hvort hann hafi slegið til brotaþola í sófanum en þar hafi verið átök þangað til K hafi rifið brotaþola af honum. Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hafa ekki slegið brotaþola kvaðst vitnið kannast við að hafa sagt það, en núna sé hann ekki viss um það. Hann hafi ekki kýlt hann með hnefa. Aðspurður kvaðst vitnið halda að hann hafi ekki valdið brotaþola þeim áverkum sem hann hafi borið. Vitnið hafi ekki slegið brotaþola. Kannaðist við að hafa sagt að hann hafi ekki séð áverka á brotaþola fyrr en seinna. Telji að hann hafi ekki valdið þeim.

Vitnið L kom fyrir dóminn og lýsti því að hafa verið að skemmta sér á Lundanum umrætt sinn, en það væri svo langt síðan að hún myndi ekki atburði vel. Svo hafi ákærði komið og kýlt brotaþola í andlitið og brotaþoli hafi misst tönn og hafi aðeins líkt og rotast strax eftir það og legið í gólfinu. Þetta hafi allt gerst hratt. Þetta hafi vitnið séð gerast. Höggið hafi verið eitt hnefahögg í andlit. Brotaþoli hafi legið í gólfinu og hafi verið hjálpað á fætur. Þetta hafi verið nálægt sófanum. Vitnið og M hafi borið brotaþola í sófann. Vitnið hafi séð að brotaþoli hafi misst tönn og hafi þau leitað að tönninni. Ekki hafi vitnið séð að brotaþola hafi verið skellt á lágan vegg. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða neitt, en vita aðeins deili á brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða í neinum öðrum átökum, en henni hafi verið sagt af einhverju slíku. Hún hafi ekki séð nein átök milli brotaþola og Sigurðar, en þá muni hún hafi verið uppi. Vitninu voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavél og kannaðist við sig á þeim. Vitnið lýsti því að brotaþoli hafi dottið í gólfið fyrir framan barinn og eftir það hafi verið haldið á honum í sófann.

Vitnið B gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og kvaðst muna mjög takmarkað eftir þessu, en hún hafi verið við innganginn á Lundanum og þá hafi komið eldri maður og farið að atast í henni eitthvað. Þau hafi verið að ýta hvort í annað og svo muni hún ekki mikið meira en það. Hún kvaðst vita að ákærði hafi staðið við hliðina á þeim og hann hafi verið í spilakassanum, en svo muni hún lítið umfram það. Aðspurð um högg kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa séð ákærða leggja hendur á brotaþola eða neitt þannig. Vitnið kvaðst þekkja ákærða úr AA samtökunum í Vestmannaeyjum og þau séu fínir vinir, en brotaþola þekki hún ekki neitt. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa sparkað í brotaþola og mundi ekkert eftir að hafa séð áverka á brotaþola.   

Vitnið N kom fyrir dóminn og kannaðist við að hafa verið á staðnum og verið í spilakassanum á þeim tíma. Svo hafi hann snúið sér við og orðið var við eitthvað ósætti á bak við sig. Kvaðst ekki vera viss um hvort hann hafi séð höggið eða hvort það hafi verið slegin högg, en hann viti að einhver hafi farið í gólfið. Það hafi verið einhver erill kringum strákana og stelpurnar þarna. Kvaðst kannast við sumt af þessu fólki en ekki vita nöfn þeirra, enda mikið eldri. Við hliðina á honum hafi verið einhver maður, en hann vissi ekki hvað hann héti. Kvaðst ekki vera viss um hvort sá maður hafi skipt sér eitthvað af þessum æsingi. Kvaðst minna að einhver hafi borið áverka en var ekki viss. Aðspurður vegna framburðar síns hjá lögreglu um að tveir hafi lent saman og ákærði blandað sér í það og verið lemstraður á vinstri hendi eftir það og jafnframt að hafa séð þegar ákærði hafi slegið einhvern, kvaðst vitnið muna að hafa gefið þann framburð. Kannaðist vitnið við þetta. Kannaðist líka við að hafa sagt að ákærði hafi ekki verið með þetta sár á hendinni áður en hann hafi farið að skipta sér af átökunum. Vitnið kannaðist við að hafa borið um þetta. Vitnið kannaðist við að hafa borið að skurður á hendi ákærða hafi verið eins og eftir tönn, en þannig hafi skurðurinn litið út. Kvaðst ekki viss um hvort skurðurinn hafi getað verið eftir eitthvað annað en tönn.

Vitnið K kom fyrir dóminn og bar að hafa verið á Lundanum umrætt sinn. Kvaðst í rauninni ekki hafa séð þetta gerast að fullu. Það hafi verið einhver læti og þá hafi J verið í átökum við brotaþola og verið að keyra hann niður í sófann. Þeir hafi farið og stoppað þetta, en þeir hafi ekkert verið að kýla hvor annan eða þannig. Vitnið kvaðst þekkja J og brotaþola, en ákærða lítið. J og brotaþoli hafi eiginlega verið í faðmlögum og hálstaki. Engin högg hafi gengið þarna á milli. Þeir hafi verið skildir að í sófanum. Vitnið hafi séð áverka á brotaþola, hann hafi verið með brotna tönn og blóðslettur hafi verið á munnviki hans. Brotaþoli hafi farið á rassinn í sófann og minnti vitnið að brotaþoli hafi ekki farið á höfuðið í sófann, en kvaðst ekki vera alveg viss. Vitnið kvaðst hafa rætt við J eftir þetta og hann hafi sagt að hann hafi ekki valdið þeim áverkum sem brotaþoli hafi haft. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að J hafi sagt sér eftir á að það hafi ekki verið J sem hafi slegið brotaþola, heldur ákærði, kvað vitnið að það gæti alveg verið en það sé bara svo langt síðan. Jafnframt að hann hafi ekki orðið var við að J og brotaþoli hafi ekki slegið hvor annan, og að brotaþoli hafi ekki orðið fyrir höfuðhöggi af völdum J og kannaðist vitnið við þetta og að hafa skýrt rétt frá. Mögulegt sé þó að hann hafi ekki séð öll átökin milli þeirra.

Vitnið D kom fyrir dóminn og bar að hafa verið fyrir utan Lundann umrætt sinn og hitt þar ákærða sem hafi verið spólvitlaus. Hún hafi þá talað við ákærða og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Hafi þá ákærði farið og vitnið ekki séð hann frekar um kvöldið. Vitnið kvaðst hvorki hafa séð átök né áverka á brotaþola þetta kvöld.

Vitnið G læknir á slysa- og bráðamóttöku bar fyrir dómi gegnum síma og kannaðist við að hafa tekið á móti brotaþola og ritað um hann vottorð. Brotaþoli hafi verið fluttur með sjúkraflugi með skerta meðvitund. Hafi hann verið fluttur á gjörgæslu vegna skertrar meðvitundar. Hafi brotaþoli verið með mar og bólgur í andliti, fyrst og fremst á kinn og niður á vör. Taldi það hafa verið vinstra megin og hafi aðeins verið ruglingur í skráningu með það. Tannáverkinn hafi verið vinstra megin og þá að líkindum bólgan líka. Eitt högg geti hafa valdið þeim áverkum sem brotaþoli hafi borið í andliti. Vitnið staðfesti vottorð sitt með þeim afleiðingum og áverkum sem þar er lýst. Áverkar geti hafa komið við að sparkað hafi verið í andlit brotaþola. Á gjörgæslu hafi komið í ljós áverki á ristarbeini.

Vitnið H kjálkaskurðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum gegnum síma og lýsti því að brotaþoli hafi komið til hans á stofu 11. apríl 2016 og þá hafi vantað í hann tvær tennur vinstra megin í efri kjálka, framtönn og hliðarframtönn. Hafi komið aftur 6. maí 2016 og þá hafi verið gerð aðgerð og sett tvö titanígræði í kjálkann, eitt fyrir hvora tönn. Vitnið staðfesti vottorð sitt. Vitnið kvað þurfa töluvert högg til að brjóta tennur og kjálkabein.

Vitnið F tannlæknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti vottorð sitt. Önnur miðframtönn hafi ekki verið í munninum og hliðarframtönn þar við hliðina hafi verið mjög laus. Hafi vitnið reynt að koma tönninni fyrir en það hafi ekki reynst mögulegt. Hafi brotaþoli verið skorinn á mjúkvef kringum tennur og bólgin vör. Kjálkabeinið sem styðji tönnina framanvert hafi brotnað töluvert og þess vegna hafi ekki verið unnt að koma tönninni fyrir í holunni. Vitnið kvaðst telja að þungt högg þyrfti til að valda svona áverka. Þetta hafi verið heilar og óviðgerðar flottar tennur sem hafi tapast.

Vitnið I sálfræðingur kom fyrir dóminn og lýsti því að brotaþoli hafi komið til sín nokkrum dögum eftir umrætt atvik. Hann hafi verið í verulegu og augljósu uppnámi. Hann hafi verið í langri endurhæfingu sem þessi árás hafi sett vel úr skorðum. Hann hafi verið reiður og dapur. Brotaþoli hafi verið í endurhæfingu eftir vinnuslys á árinu 2015 og verið að vinna í afleiðingum þess og verið farið að ganga mjög vel í því. Hann hafi verið í námi sem hafi liðið fyrir þetta. Hann hafi gert tilraun til sjálfsvígs eftir árásina, en áður hafi hann verið á góðri leið með líf sitt og liðið vel. Árásin hafi verið honum mikið áfall og haft þá áfallaeinkenni.

Vitnið O lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti því að kallað hafi verið á lögreglu vegna þess að ákærði hafi slegið mann á Lundanum. Hafi lögregla farið á staðinn og þar hafi ákærði setið við spilakassa. Það hafi verið eitthvað ástand í kringum brotaþola. Á vettvangi hafi einnig komið fram að ákærði hafi gengið að brotaþola og slegið hann. Hafi ákærði verið handtekinn í framhaldinu. Fólk hafi verið að stumra yfir brotaþola.

Vitnið P kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar að hafa verið á vettvangi umrætt sinn. Kvaðst kannast við ákærða en ekki brotaþola. Kannaðist við að hafa séð átök þarna, en myndi lítið hvað hafi gerst þarna. Hann hafi verið drukkinn þetta sinn og langt síðan þetta hafi verið. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu kvað vitnið atvikin ekki rifjast sérstaklega upp fyrir sér. Hann hafi sagt satt við skýrslugjöf sína hjá lögreglu.

Vitnið R læknir gaf skýrslu fyrir dóminum gegnum síma og bar að brotaþoli hafi komið á heilsugæsluna að næturlagi eftir atvik á Lundanum. Þetta hafi snúist mikið um tennur og hafi vitnið náð í vakthafandi tannlækni og hafi brotaþola verið komið til hans. Hafi verið lausar tennur sem hafi þurft að koma aftur fyrir í munni brotaþola.

Vitnið S gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma og bar að hafa verið á vettvangi umrætt sinn. Vitnið kvaðst eiginlega ekki muna neitt eftir þessu. Kvaðst vita hver brotaþoli væri og hafa séð að J hafi legið á brotaþola í sófanum og þá hafi einhverjir komið og tekið J af honum. Brotaþoli hafi haft áverka. Aðspurður um skýrslu sína hjá lögreglu kannaðist vitnið við að einhver læti hafi verið í sófanum. Hann hafi þó ekki séð þá lenda í sófanum, en hann hafi heyrt það. Sér hafi fundist líklegt að höfuð brotaþola hafi skollið í sófagrindinni.

Eins og að framan greinir liggur fyrir upptaka úr eftirlitsmyndavél á Lundanum umrætt sinn. Má þar sjá brotaþola í átökum og afskipti ákærða af þeim. Má sjá þar sem ákærði þrífur í brotaþola og skellir honum í átt að lágum vegg, en ekki þykir unnt að fullyrða við skoðun á upptökunni að andlit brotaþola hafi skollið á veggnum. Í beinu framhaldi má sjá þar sem ákærði slær brotaþola einu hnefahöggi í andlit með vinstri hendi. Brotaþoli lendir ekki í gólfinu við það. Eftir þetta halda ryskingarnar áfram án þátttöku ákærða og má m.a. sjá þar sem brotaþoli er lagður yfir barborð með andlitið fram og yfir barborðið og er ekki unnt að sjá hvort andlit hans lendir þar á einhverju, en eftir það berast ryskingarnar út úr sjónsviði myndavélarinnar. Að mati dómsins er líklegast að brotaþoli hafi hlotið áverka sína í þessari atburðarás, en ekki verður fullyrt við skoðun upptökunnar hvenær það gerðist í atburðarásinni.

Eins og að framan hefur ákærði frá upphafi borið að hafa slegið brotaþola einu hnefahöggi í andlit, en kannast ekki við að hafa valdið honum téðum áverkum. Brotaþoli hefur borið að hafa verið að kýta við einhvern mann og þá skyndilega verið sleginn. Þessi frásögn brotaþola er ekki í fullu samræmi við það sem sjá má framangreindri upptöku úr öryggismyndavélinni á Lundanum, en frásögn ákærða er meira í takt við það sem þar má greina.

Vitnið L lýsti því að hafa séð ákærða slá brotaþola eitt hnefahögg í andlitið, sem við það hafi misst tönn og rotast og legið í gólfinu í beinu framhaldi, en þetta er ekki í samræmi við það sem sést á nefndri upptöku.  

Ekkert vitni hefur borið um að ákærði hafi skellt brotaþola utan í lágan vegg, en brotaþoli sjálfur hefur borið að hann minni að hafa rekist í vegg í fallinu, en á upptökunni verður ekki séð að brotaþoli hafi fallið þegar ákærði þreif í brotaþola og skellti honum í átt að veggnum.

Fram hefur komið að ákærði bar áverka á vinstri hönd eftir handtöku sína, en hann hefur lýst því að sá áverki hafi komið eftir að hann hafi slegið í spilakassann og hefur það ekki verið hrakið af ákæruvaldi. Verður sakfelling ekki byggð á þess og það þótt vitni hafi þótt áverkinn geta verið eftir tönn.

Að öllu framansögðu virtu verður ekki talið að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi umrætt sinn gert meira en að slá brotaþola einu hnefahöggi í andlit, en jafnframt er ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi með því valdið brotaþola þeim áverkum sem lýst er í ákærunni. Verður því háttsemi ákærða aðeins heimfærð undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Háttsemi ákærða sem lýst er í ákærulið II er nægilega sönnnuð með játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins og er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í þessum ákærulið.

Hefur ákærði skv. þessu unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill hans með því að þann 2. júní 2005 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað, umferðarlagabrot og ávana- og fíkniefnabrot. Þann 2. maí 2007 var ákærði dæmdur til að greiða 90.000 kr. fésekt til ríkissjóðs fyrir umferðarlagabrot og var jafnframt sviptur ökurétti í 2 mánuði. Þann 28. febrúar 2008 var ákærði dæmdur til að greiða 180.000 kr. fésekt til ríkissjóðs fyrir umferðarlagabrot og jafnframt sviptur ökurétti í 3 ár. Enn var ákærði, þann 2. október 2008, dæmdur til að greiða fésekt til ríkissjóðs fyrir umferðarlagabrot, nú að fjárhæð kr. 50.000 og var hann jafnframt sviptur ökurétti í 4 mánuði. Þann 25. mars 2009 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir umferðarlagabrot, ávana- og fíkniefnabrot og nytjastuld. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 4 ár. Þann 26. nóvember 2010 var ákærði dæmdur í 2 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, rán og ávana- og fíkniefnabrot. Var síðastgreindur skilorðsdómur dæmdur upp. Þann 1. júní 2011 var ákærði dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir líkamsárás. Var ákærða veitt reynslulausn af 780 daga eftirstöðvum refsinga síðastgreindra tveggja dóma þann 4. apríl 2015 og var reynslulausnin bundin skilorði í 2 ár. Með dómi 9. desember 2015 var framangreind reynslulausn dæmd upp og ákærða gert að sæta fangelsi í 2 ár og 5 mánuði, þar af 2 ár og 2 mánuðir skilorðsbundið í 3 ár, fyrir ávana- og fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.

Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð síðastgreinds dóms. Ber að dæma upp skilorðsbundna hluta refsingarinnar og dæma refsingu í einu lagi fyrir öll brotin sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ber jafnframt að líta til 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar, sem og ítrekunaráhrifa vegna dóma 26. nóvember 2010 og 1. júní 2011, sbr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. c sömu laga. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 4 mánuði. Með hliðsjón af því að nokkuð er um liðið og því að ákærði er aðeins sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og því að ákærði hefur sýnt tilburði til að snúa af vegi afbrota, þykir mega fresta framkvæmd 2 ára og 2 mánaða af fangelsisrefsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en vegna sakaferils ákærða þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu að fullu eða dæma ákærða til greiðslu fésektar og láta skilorðið haldast.

Með vísun til tilvitnaðra ákvæða í ákæru ber að gera upptækar tóbaksdósir sem þar greinir eins og nánar kemur fram í dómsorði.

Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur um ólögmæta meingerð í garð brotaþola í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er hann bótaskyldur vegna þess. Með vísun til þess að ákærði er sakfelldur fyrir brot gegn brotaþola sem talið er varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ekki sannað að líkamstjón sem lýst er í ákæru stafi af háttsemi ákærða verður ákærða aðeins gert að greiða miskabætur og eru þær hæfilega ákveðnar kr. 80.000 og skulu bera vexti og dráttarvexti eins og í dómsorði greinir, en rétt er að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögu sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Með vísun til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða sakarkostnað, en þar sem hann er aðeins sakfelldur fyrir hluta þess sem honum er gefið að sök þykir rétt að ákærði greiði einn fjórða hluta sakarkostnaðar, en þrír fjórðu hlutar greiðist úr ríkissjóði. Útlagður kostnaður við rannsókn skv. sakarkostnaðaryfirliti er kr. 109.300, en einn fjórði hluti þess er kr. 27.325. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, eru alls ákveðin kr. 1.201.560 og þar af greiði ákærði fjórðung, kr. 300.390, auk fjórðungs af ferðakostnaði verjandans sem alls er kr. 33.800. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, er alls ákveðin kr. 875.790, en þar af greiði ákærði fjórðung kr. 218.947. Þóknanir eru að meðtöldum virðisaukaskatti.        

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Andri Vilhelm Guðmundsson, sæti fangelsi í 2 ár og 4 mánuði.

Fresta ber fullnustu 2 ára og 2 mánaða af fangelsisrefsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Gerðar eru upptækar 11 tóbaksdósir.

Ákærði greiði A kr. 80.000 í miskabætur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. janúar 2016 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. , sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði fjórðung alls sakarkostnaðar, samtals kr. 555.112, þar með talinn fjórðungur málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, en alls eru málsvarnarlaunin kr. 1.201.560, og jafnframt þar með talinn fjórðungur ferðakostnaðar verjandans, en alls nemur ferðakostnaðurinn kr. 33.800, og jafnframt þar með talinn fjórðungur þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, en alls er þóknunin kr. 875.790.

 

Sigurður G. Gíslason