• Lykilorð:
  • Líkamsárás

            Ár 2018, þriðjudaginn 20. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-73/2017: 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Elimar Hauksson ftr.)

                                                gegn

                                                A

                                                (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 24. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 10. mars 2017, á hendur ákærða, A,

I.    fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 5. desember 2015 inni á skemmtistaðnum B á Selfossi, veist að C og slegið hann einu höggi í höfuðið.    (318-2015-13053)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.         fyrir eignaspjöll

með því að hafa skömmu eftir að atvik það sem frá greinir í ákærulið I. átti sér stað á bifreiðastæði framan við skemmtistaðinn B á Selfossi, lamið í bifreiðina D sem þar stóð með þeim afleiðingum að vindskeið (spoiler) brotnaði og skemmdist.   ( 318-2015-13053)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

III.      fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. desember 2015 í anddyri E í Rangárþingi eystra, veist að F og slegið hann einu höggi í andlitið.   (318-2015-13223)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Vegna ákæruliðar III. gerir Þ. Skorri Steingrímsson hrl. kröfu f.h. brotaþola um að ákærða verði gert að greiða F kr. 1.500.000,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 12.12.2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er jafnframt krafist viðurkenningar á skaðabótaábyrgð A vegna líkamstjóns F.  Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.“

             

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega.

            Í þinghaldi þann 4. maí sl. var af hálfu ákæruvalds fallið frá ákærulið II í máli þessu.

 

 Ákæruliður I.

Málavextir.

 

Aðfaranótt laugardagsins 5. desember 2015 barst lögreglu tilkynning um slagsmál fyrir utan veitingastaðinn B á Selfossi. Lögreglumenn höfðu tal af C sem kvað ákærða hafa kýlt sig inni á skemmtistaðnum og skemmt „spoiler“ á bifreið hans. Í lögregluskýrslu segir að sjá hafi mátt sár á vinstra gagnauga brotaþola sem blætt hafi lítillega úr. Rætt var við G á vettvangi en hann kvaðst hafa séð ákærða kýla brotaþola. Samkvæmt gögnum málsins gerði brotaþoli aldrei kröfu til þess að ákærða yrði refsað fyrir líkamsárás. Brotaþoli dró á síðari stigum málsins til baka kæru á hendur ákærða vegna skemmda á bifreiðinni.

 

                       

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             

            Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið að skipta sér af átökum vina sinna inni á skemmtistaðnum og hefði hann ýtt við einum eða tveimur strákum og gæti verið að annar þeirra hefði verið brotaþoli. Hefði honum þá verið hent út og hefði hann orðið reiður og sparkað í bifreið þar fyrir utan. Hann kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola.

            Vitnið C, brotaþoli í þessum þætti málsins, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi staðið við súlurnar  og verið að spjalla við vini sína þegar ákærði hafi komið að, litið á hann og sagt honum að drulla sér í burtu og síðan hafi ákærði lamið hann í höfuðið. Hann kvaðst hafa farið út og þá hafi honum verið sagt að búið væri að skemma bíl hans. Hann kvaðst hafa fengið glóðarauga og eitthvað hafi blætt. Hann kvað þetta alveg hafa jafnað sig. Hann kvað ákærða hafa haft samband við sig síðastliðið vor og greitt allar skemmdir á bifreiðinni og í framhaldi af því hafi hann dregið kæru á hendur ákærða til baka.

            Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið staddur á skemmtistaðnum og hafi fólk verið að fara út. Hann hafi verið á leið út með brotaþola þegar brotaþoli hafi fengið höfuðhögg og sár á augabrún og hafi þetta gerst nálægt súlum innandyra við innganginn. Hann kvað ákærða hafa veitt brotaþola þetta högg. Hafi engin orðaskipti átt sér stað milli þeirra áður en þetta hafi gerst. Hafi ákærði síðan verið dreginn út, sennilega af starfsmanni. Hann kvaðst muna atvik vel, hann hafi ekki verið undir það miklum áhrifum áfengis.

            Vitnið H lögreglumaður skýrði frá afskiptum sínum af máli þessu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola sem hafi verið með áverka í andliti og hafi hann sagt að ákærði hefði slegið sig á staðnum. Hann kvað brotaþola ekkert hafa viljað gera vegna árásarinnar og þá hafi ákærði neitað sök, en hann hafi þó játað að hafa kastað flösku í bifreið brotaþola.

 

Niðurstaða.   

 

            Ákærða er í þessum lið ákærunnar gefið að sök að hafa veist að brotaþola og slegið hann einu höggi í höfuðið. Ákærði kvaðst hafa verið að skipta sér af átökum vina sinna inni á skemmtistaðnum og hefði hann ýtt við einum eða tveimur strákum og gæti verið að annar þeirra hefði verið brotaþoli. Hefði honum þá verið hent út og hefði hann orðið reiður og sparkað í bifreið þar fyrir utan. Hann kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa verið að spjalla við vini sína þegar ákærði hafi komið að, litið á hann og sagt honum að drulla sér í burtu og síðan hafi ákærði lamið brotaþola í höfuðið. Vitnið G kvaðst hafa verið á leið út með brotaþola þegar brotaþoli hafi fengið höfuðhögg og sár á augabrún og hafi þetta gerst nálægt súlum innandyra við innganginn. Hann kvað ákærða hafa veitt brotaþola þetta högg.

            Brotaþoli hefur dregið refsikröfu sína á hendur ákærða til baka og kemur því til skoðunar hvort vísa beri þessum ákærulið frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga höfðar ákæruvaldið mál út af broti samkvæmt 1. mgr. og skal það ekki gert nema almenningshagsmunir krefjist þess. Ákæruvaldið hefur metið það svo að almenningshagsmunir krefðust þess að mál þetta yrði höfðað. Sú ákvörðun er liður í beitingu ákæruvalds á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 516/2016. Kemur því ekki til álita að vísa þessum ákærulið frá dómi.

            Með samhljóða framburði brotaþola og vitnisins G telst nægilega sannað að ákærði hafi slegið brotaþola einu höggi í höfuðið, en engra afleiðinga af högginu er getið í ákæru. Er brot ákærða rétt fært til refsiákvæða í ákæru.  

 

 Ákæruliður III.

Málavextir.

 

            Aðfaranótt laugardagsins 12. desember 2015 var lögreglu tilkynnt að strákur hefði verið sleginn í andlitið í E í Rangárþingi eystra og hefðu einhverjar tennur brotnað. Lögreglumenn fóru á vettvang og höfðu þar tal af I sem kvað F hafa fengið högg í andlitið. Hafi hann bent á J sem hann sagði bróður geranda. Hafi gengið illa að ræða við J en vinur hans hafi sagt lögreglumönnum að ákærði hefði verið að verki. Lögreglumönnum tókst ekki að hafa uppi á ákærða en haft hafi verið símasamband við brotaþola sem hafi sagt að hann hafi verið á leið frá salerninu þegar hann hafi rekist utan í strák. Hafi sá orðið reiður og ýtt við brotaþola sem hafi svarað í sömu mynt. Hafi þá stór maður komið að og byrjað að rífast við  hann og síðan slegið hann í andlitið. Brotaþoli kvaðst hafa farið til læknis á Selfossi sem hafi sagt að ekki væri um kjálkabrot að ræða en tvær tennur í efri gómi hefðu færst til.

            Meðal gagna málsins er læknisvottorð K dagsett 26. mars 2016 þar sem fram kemur að brotaþoli sé með bólgu í efri og neðri vör en engin blæðandi sár. Hann sé með víra í tönnum í efri og neðri góm en ekki sjáist nein greinileg merki um brot í tönnum. Þá liggur fyrir ódagsett vottorð L, tannlæknis, sérfræðings í tannréttingum og kemur þar fram að höggið hafi verið það kröftugt að efri góms framtönn og hliðarframtönn höfðu gengið inn á við um það bil 3-5 mm. Hafi tannréttingabogi verið tekinn frá og tennurnar færðar til með fingurþrýstingi. Hafi tennurnar verið bundnar inn á ný á tannréttingabogann til bráðabirgða. Kemur fram í vottorðinu að fylgjast þurfi vikulega með tönnum brotaþola til að athuga litabreytingu á tönnum hans svo að rótfyllingarmeðferð hefjist strax og þá sé taugadauði staðfestur með litabreytingu.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

 

            Ákærði kvaðst hafa verið staddur í E þegar hann hafi séð J bróður sinn í átökum við brotaþola í anddyrinu. Hann kvað brotaþola hafa ýtt við sér og hafi hann þá ýtt við honum til baka. Hafi kærasta ákærða þá dregið hann í burtu og kvaðst hann aldrei hafa kýlt brotaþola.  Hann kvað hvorugan þeirra hafa dottið.  Hann mundi ekki eftir að hafa rætt við dyraverðina þetta kvöld.

            Vitnið F, brotaþoli í þessum þætti málsins, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið staddur í E þegar hann hafi rekist utan í einhvern strák sem hafi orðið pirraður og ýtt við sér. Hafi þá annar strákur komið, rifið til hans og ýtt við honum. Hann kvaðst hafa lyft upp höndum til merkis um að hann hefði ekki gert neitt. Þá hafi honum verið ýtt að ákærða sem hafi gefið honum eitt högg á efri kjálka. Hann kvaðst ekki hafa dottið að öðru leyti en því að hann hafi dottið á hnén eftir að honum hafi fyrst verið ýtt. Hafi þá gæslumaður stigið inn í og hafi vitnið þá farið burt og inn í eldhús. Hann kvaðst ekki hafa verið það ölvaður að hann hafi ekki getað áttað sig á því að ákærði hafi verið þarna að verki.

            Vitnið I skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið yfirdyravörður á dansleiknum þegar komið hafi verið með brotaþola og hafi verið sagt að hann hefði verið sleginn. Hann kvaðst hafa talað við ákærða sem hafi viðurkennt að hafa slegið brotaþola og hafi hann gefið þá ástæðu að brotaþoli hefði lamið bróður ákærða.

            Vitnið M skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi orðið var við einhver köll og deilur á milli manna. Hann kvaðst hafa séð hnefa svífa fram hjá sér og hafi hnefinn lent í andlit brotaþola og hafi blætt úr munni hans. Hann kvaðst hafa séð að ákærði hafi veitt þetta hnefahögg og færi það ekki á milli mála. Hann kvaðst hafa gengið á milli og hafi ákærða verið vísað út. Hann kvaðst hafa verið dyravörður umrætt sinn. Hann kvað hvorki ákærða né brotaþola hafa verið áberandi ölvaða.

            Vitnið N, fyrrverandi kærasta ákærða, skoraðist ekki undan vitnisburði og skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi ekki orðið vitni að því að ákærði hafi barið einhvern. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við átök eða ýtingar milli manna umrætt kvöld, en það hafi verið mjög gaman og hafi þau verið saman allt kvöldið. Hún kvaðst ekki hafa verið full en hún hafi drukkið.          

            Vitnið J, bróðir ákærða, skoraðist ekki undan vitnisburði og skýrði svo frá fyrir dómi að einhver strákur hafi rifið í hann í anddyrinu og þá hafi ákærði komið og hafi strákurinn ýtt við ákærða, sem hafi ýtt til baka. Hann hafi síðan farið á salernið með ákærða. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neitt annað hafi gerst á milli ákærða og stráksins og kvaðst hann ekki hafa séð ákærða slá neinn.

            Vitnið L tannlæknir skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði sinnt brotaþola sem hefði fengið högg á tennur. Hann kvað meðferð á tönnum brotaþola lokið en tíminn yrði að leiða í ljós hvernig honum myndi farnast í framtíðinni.

            Vitnið K, læknir, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði sinnt brotaþola og staðfesti hann læknisvottorð sem hann gaf vegna hans.

            Vitnið O, lögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi verið farinn af vettvangi. Rætt hafi verið við J, bróður ákærða og hafi hann verið verulega ölvaður og með skrýtna framkomu. Hafi verið óskýrt í upphafi hvað hefði gerst en ákærði hefði ekki fundist.

 

Niðurstaða.

 

            Ákærða er í þessum lið ákærunnar gefið að sök að hafa veist að brotaþola og slegið hann einu höggi í andlitið. Ákærði kvað brotaþola hafa ýtt við sér og hafi hann þá ýtt við honum til baka. Hafi kærasta ákærða þá dregið hann í burtu og kvaðst hann aldrei hafa kýlt brotaþola.  Brotaþoli kvaðst hafa rekist utan í einhvern strák sem hafi orðið pirraður og ýtt við brotaþola. Hafi þá annar strákur komið, rifið til brotaþola og ýtt við honum. Hafi brotaþola þá verið ýtt að ákærða sem hafi gefið honum eitt högg á efri kjálka. Vitnið I yfirdyravörður kvað brotaþola hafa sagt að hann hefði verið sleginn. Hann kvaðst hafa talað við ákærða sem hafi viðurkennt að hafa slegið brotaþola og hafi hann gefið þá ástæðu að brotaþoli hefði lamið bróður ákærða. Vitnið M dyravörður kvaðst hafa séð hnefa svífa fram hjá sér og hafi hnefinn lent í andlit brotaþola og hafi blætt úr munni hans. Hann kvaðst hafa séð að ákærði hafi veitt þetta hnefahögg og færi það ekki á milli mála. Vitnið N, fyrrverandi kærasta ákærða kvaðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði hafi barið einhvern. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við átök eða ýtingar milli manna umrætt kvöld. Vitnið J, bróðir ákærða kvað einhvern strák hafa rifið í sig í anddyrinu og þá hafi ákærði komið og hafi strákurinn ýtt við ákærða, sem hafi ýtt til baka. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neitt annað hefði gerst á milli ákærða og stráksins og kvaðst hann ekki hafa séð ákærða slá neinn.

            Meta verður framburð vitnanna N og J með hliðsjón af tengslum þeirra við ákærða. Með samhljóða framburði brotaþola og dyravarðanna I og M telst nægilega sannað að ákærði hafi slegið brotaþola einu höggi í andlitið, en engra afleiðinga af högginu er getið í ákæru. Er brot ákærða rétt fært til refsiákvæða í ákæru.  

 

Ákvörðun refsingar, bótakrafa.

 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði sættist ákærði þann 22. nóvember 2016 á greiðslu 280.000 króna sektar og 9 mánaða ökuréttarsviptingu fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna.  

Með hliðsjón af því að langt er um liðið frá því ákærði framdi brot sín og jafnframt að hann var þá aðeins 18 ára gamall, þykir rétt að fresta ákvörðun um refsingu ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brotaþolinn F hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða, sbr. ákærulið III. Hann krefst miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 500.000 krónur og greiðslu vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 1.000.000 krónur. Þá er jafnframt krafist viðurkenningar á skaðabótaábyrgð ákærða vegna líkamstjóns brotaþola. Ákærði hefur verið fundinn sekur um að hafa slegið brotaþola einu höggi í andlitið og má af gögnum málsins ráða að hann hafi hlotið áverka á tennur. Eins og að framan er rakið er engra afleiðinga af þessu höggi getið í ákæru og liggur því ekki fyrir sönnun um að það högg sem ákærði hefur verið fundinn sekur um að hafa veitt brotaþola hafi valdið þeim áverkum sem brotaþoli krefst bóta fyrir. Verður því ekki hjá því komist að vísa bótakröfunni frá dómi.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan ferðakostnað vitna, 94.820 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 570.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 36.192 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

Dómsorð:

 

Ákvörðun um refsingu ákærða, A, er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Bótakröfu F er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan ferðakostnað vitna, 94.820 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 570.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 36.192 krónur.

 

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson