• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn

Árið 2018, föstudaginn 16. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-146/2017:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi )

gegn

Fannari Þór Cray

(Jóhann Fannar Guðjónsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 16. ágúst 2017, á hendur Fannari Þór Cray, Perlukór 1a, Kópavogi

 

„fyrir fíkniefnalagabrot

með því að hafa að kvöldi föstudagsins 29. júlí 2016 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 59,70 grömm af amfetamíni, 136,49 grömm af kókaíni og 181 MDMA töflu en fíkniefnin fundust við leit lögreglu í farangurstösku ákærða á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2016-2642)

 

Telst framangreint brot ákærða varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á 59,70 grömmum af amfetamíni, 136,49 grömmum af kókaíni, 181 MDMA töflu og 20,27 grömmum af óskilgreindu efni samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001.“

 

            Málið var þingfest 12. október 2017.

            Ákærði neitar sök.

            Aðalmeðferð málsins fór fram 16. febrúar 2018 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Vitnið A u[…] kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skoraðist undan skýrslugjöf vegna tengsla sinna við ákærða.

            Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en til þrautavara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin. Þá er gerð krafa um að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun fyrir skipaðan verjanda.

 

Málavextir

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 29. júlí 2016 var lögregla með almennt fíkniefnaeftirlit á Vestmannabraut við Hótel Vestmannaeyjar. Varð lögregla vör við ákærða koma frá bifreiðinni […] ásamt B bróður sínum, en þar sem mikið fát kom á þá bræður þegar þeir urðu lögreglu varir þá vaknaði grunur um að þeir hefðu óhreint mjöl í pokahorninu. Voru höfð af þeim afskipti og fannst ekkert saknæmt við leit sem þeir heimiluðu að gerð yrði á þeim. Þeir fóru rakleiðis inn á hótelið og virtust vera að forðast frekari afskipti lögreglu. Fylgdist lögregla áfram með bifreið þeirra sem stóð með kveiktum ljósum fyrir utan hótelið.

            Meðan lögregla fylgdist með bifreiðinni sást til A, […], þar sem hún stóð fyrir utan hótelið og talaði í síma, en lögregla taldi jafnframt að hún væri að fylgjast með ferðum lögreglu.

            Segir svo að þegar A hafi talið lögreglu vera farna af svæðinu, þá hafi hún farið í bifreiðina að sækja eitthvað. Skömmu síðar hafi hún sést skammt frá með gráa ferðatösku á hjólum. Hafi þá lögregla haft af henni afskipti og spurt hver ætti þessa tösku og hún sagst eiga hana. Við skoðun sást að taskan var merkt ákærða og kvað hún þá að hún og ákærði ættu töskuna og að ákærði hafi beðið hana um að taka töskuna og fara með hana burt frá Hótel Vestmannaeyjum. Var A þá tilkynntur sá grunur lögreglu að í töskunni væru fíkniefni og óskuðu þeir eftir að fá að leita í henni, sem A samþykkti. Skömmu síðar kom ákærði gangandi, í öðrum fötum en hann hafði verið í við fyrri afskipti, en jafnframt virtist lögreglu hann hafi farið út af hótelinu bakdyramegin þar sem lögregla sá ekki til ferða hans. Neitaði ákærði lögreglu um heimild til að leita í töskunni, en var þá handtekinn og kynntur grunur um fíkniefnamisferli. Segir að ákærði hafi þá viðurkennt að í töskunni væri mikið magn fíkniefna og óskað eftir að vera fluttur á lögreglustöð þar sem hann vildi framvísa efnunum. Er haft eftir honum í frumskýrslunni að þetta væru tæp 100 grömm af kókaíni, 180 E töflur og svipað af amfetamíni. Voru bæði flutt á lögreglustöð.

            Í frumskýrslunni er haft eftir ákærða að ekki kæmi til greina að upplýsa hver væri móttakandi efnanna, með orðunum „þú vilt ekki vera barinn til þess að fá að vita það.“

            Í töskunni fundust skv. frumskýrslu ætluð fíkniefni, amfetamín, kókaín og E töflur. Segir að efnin hafi verið í heildsölupakkningum og ein þeirra þannig útbúin að hún hafi verið talin af lögreglu óbreytt frá því þegar hún var flutt til landsins.

            Samkvæmt efnaskrá lögreglu var um að ræða 59,7 grömm af amfetamíni í einni einingu, 136,49 grömm af kókaíni í 17 einingum, 181 töflu af „ecstasy“ í 2 einingum og 20,27 grömm af óskilgreindu efni í einni einingu. Voru efnin þannig í 21 einingu. Voru tekin forpróf af 3 einingum kókaíns og 2 einingum af MDMA töflum og voru send 7 sýni til rannsóknar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Þau sýni sem send voru rannsóknastofunni voru af ætluðu amfetamíni, óþekktu efni, kókaíni og MDMA. Þau kókaínsýni sem send voru til rannsóknar voru önnur sýni en þau sem höfðu svarað forprófi lögreglu sem kókaín. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofunnar var um að ræða amfetamín, kókaín og MDMA, auk þess að í einu sýninu fundust engin ávana- og fíkniefni, en í því sýni reyndist vera laktósi. Þá greindist í kókaínsýnum lyfið tetramísól, sem mun vera ormalyf fyrir dýr, en telst ekki til ávana- og fíkniefna.

            Tekin var lögregluskýrsla af A við rannsókn málsins. Kvaðst hún ekkert hafa vitað um téð fíkniefni og ekki hafa séð annað fara ofan í töskuna en það sem hún hafi sjálf sett þar. Taldi hún ekki annan koma til greina sem eiganda efnanna en ákærða.

            Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu kvaðst hann hafa komið með efni þessi til Vestmannaeyja og hafa tekið það að sér gegn greiðslu. Þetta hafi verið heimska af sinni hálfu. Þetta hafi verið um 50 grömm af amfetamíni, 40 grömm af kókaíni og um 180 E töflur. Hann hafi átt að fá fyrir þetta viðvik um 200.000 til 300.000 kr. en ekki hafi verið búið að sem    ja um tiltekna upphæð og hann ekki búinn að fá greitt. Ekki kvaðst ákærði vilja tjá sig um fyrir hvern hann hafi gert þetta, vegna hræðslu. Margir menn ættu þetta, en hann hafi bara hitt einn þeirra. Menn þessir séu ýmist íslenskir eða erlendir. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið neitt af efnunum sjálfur og ekki hafa ætlað að selja þetta sjálfur, heldur hafi ætlun hans verið að afhenda það öðrum aðila, sem ákærði kvaðst telja að hafi ætlað að selja efnin. Þá lýsti ákærði því hvernig hann hefði fengið efnin afhent og komið þeim fyrir í ferðatöskunni án vitundar A og að hún vissi ekkert um þetta. Þá lýsti ákærði því að B bróðir ákærða og C, unnusta B, vissu ekkert um þetta. Kvaðst ákærði áður fyrr hafa verið fíkniefnaneytandi en hann væri hættur þeirri neyslu.

            Ekki eru efni til að gera frekari grein fyrir málavöxtum.

 

 

            Forsendur og niðurstaða

            Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvaðst hafa átt að flytja þessi efni til Vestmannaeyja fyrir aðra menn. Hann hafi flutt efnin til Vestmannaeyja í venjulegri ferðatösku. Hann hafi sjálfur sett efnin í töskuna kvöldið áður meðan A hafi verið sofandi. Hann hafi verið að bíða eftir að hitta viðtakanda eða mann á hans vegum. Hann hafi svo verið handtekinn. Kvaðst ákærði hafa skuldað þessum mönnum peninga og verið hræddur um sína heilsu vegna þess, en jafnframt hafi hann óttast að þessir menn myndu gera fjölskyldu hans eitthvað. Ekki kvaðst ákærði þora að segja hverjir þetta væru. Það myndi leiða til meiri vandamála fyrir sig. Aðspurður um hvort hann hafi átt að fá eitthvað fyrir þetta viðvik kvaðst ákærði hafa vonast eftir að fá niðurfelldan hluta af skuld sinni við þessa menn. Þeir ákveði það sjálfir. Efnin hafi hann fengið afhent frá þessum mönnum, en kvaðst ekki þora að segja hvar. Stuttu áður hafi sér verið sagt að hann ætti að gera þessum mönnum greiða. Kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hversu mikið þetta hafi verið og hversu hættuleg efnin væru. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu alvarlegt þetta væri. Hann hafi ekki ætlað að selja efnin eða dreifa þeim, heldur hafi hann átt að afhenda þau öðrum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvort efnin væru ætluð til sölu, en alveg eins gætu þessir menn hafa ætlað að nota þetta sjálfir við skemmtanir um Þjóðhátíð. Þegar hann hafi tekið við þessu hafi hann ekki vitað neitt hvað viðtakandinn hygðist fyrir með efnin. A hafi ekki vitað um þetta fyrr en eftir á. Aðspurður kvaðst ákærði áður hafa notað fíkniefni en vera hættur því og vera í skóla. Hann væri að reyna að standa sig í lífinu. Hann væri í skóla að læra til rafvirkja og það gengi vel.

            Aðspurður kvað ákærði að unnin hafi verið eignaspjöll hjá fjölskyldu sinni og móðir hans verið heimsótt af einhverju fólki sem hafi öskrað á hana. Þetta hafi verið vegna fíkniefnaskulda hans. Hafi jafnframt verið brotin rúða á heimilinu vegna þessa.

            Aðspurður kannaðist ákærði við að fíkniefnin, sem hann hafi tekið við af hinum ónefndu mönnum, séu fíkniefnin sem lögregla hafi fundið í töskunni. Það séu jafnframt þau efni sem lýst sé í ákærunni. Hann hafi verið í peningaskuld við þá menn sem hafi látið hann hafa þessi efni, en það hafi verið á milli 300.000 og 500.000 kr. skuld, en fjárhæðin sé þó á reiki. Það hafi verið búið að gefa í skyn við sig að þetta yrði fellt niður að hluta eða öllu leyti ef hann gengist inn á þetta verk, með orðunum „við gerum eitthvað gott fyrir þig og græjum þetta eitthvað“. Hvatinn hjá sér hafi þó aðallega verið að hann og móðir hans yrðu ekki fyrir barsmíðum og eignaspjöllum. Hann hafi áður orðið fyrir barðinu á þessum mönnum. Hann hafi reynt að kæra þess háttar, en það hafi ekki gengið vel. Kvaðst ekki vita hvort viðtakandinn hafi verið einn eða fleiri, en hann hafi átt von á að fá frekari fyrirmæli. Hann hafi þannig ekki verið búinn að fá að vita hver myndi taka við þessu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvað yrði um þetta, hvort það yrði selt eða eigendurnir myndu nota það sjálfir. Ekki kvaðst ákærði hafa neinar athugasemdir við magntölur í ákærunni og kvaðst ekki vita neitt um það. Kvaðst ekkert hafa vigtað þetta neitt sjálfur.

Aðspurður um skýrslugjöf sína hjá lögreglu kvaðst ákærði bara hafa sagt eitthvað sem hann héldi að lögregla vildi heyra. Hann hafi ekki vitað vel hversu mikið magn þetta væri þegar hann hafi tekið við því og ekkert spáð sérstaklega í það. Magntölurnar hafi hann giskað á eftir að hafa tekið efnin úr töskunni. Honum hafi ekki verið sagður fjöldi MDMA taflnanna þegar hann hafi tekið við þessu, en hann hafi talið þær sjálfur. Hann hafi sagt lögreglu að hann hafi verið í skuld og hún myndi kannski lækka um 200-300.000 kr. við þetta. Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hafi talið að efnin væru ætluð til sölu kvað ákærði að honum hafi liðið illa, verið hræddur og viljað losna út. Hann hafi bara ekki vitað þetta. Kvaðst ekki vita hvort þessir menn seldu fíkniefni. Aðspurður um hvers vegna hann hafi skuldað þeim peninga kvað ákærði að það væri vegna þess að hann hafi fengið hjá þeim fíkniefni og skuldaði vegna þess.

Vitnið D lögreglumaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og lýsti því hafa verið viðstaddur leit í ferðatösku ákærða og að magn efna sem hafi komið upp úr töskunni hafi passað nokkurn vegin við það sem ákærði hafi áður sagt. Ekki kvaðst vitnið muna vel hvaða magn ákærði hafi tilgreint í lögreglubílnum á leið á lögreglustöð, áður en leitað hafi verið í töskunni. Vitnið minnti að ákærði hafi talað um 300 grömm af amfetamíni og kókaíni og 200 „E töflur“. Ákærði hafi sagt að hann gerði sér alveg grein fyrir að þetta væri ætlað til sölu, en hann hafi verið að flytja þetta fyrir aðra sem myndu síðan selja þetta. Hafi ákærði verið meðvitaður um að þetta væri ætlað til sölu og dreifingar, þegar hann hafi verið að flytja þetta fyrir aðila sem hann hafi ekki viljað gefa upp. Megnið af efnunum hafi verið í svokölluðum neysluskömmtum. Ákærði hafi afþakkað verjanda og viljað ljúka skýrslutökunni sem fyrst.

Vitnið E verkefnastjóri hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti matsgerð sína. Eitt amfetamínsýni hafi borist og styrkur þess verið 4,2%. Það sé ívið lægra en meðalstyrkur sýna sem hafi verið haldlagt á „götunni“, samkvæmt rannsókn sem gerð hafi verið fyrir 10-11 árum, en þar hafi meðalstyrkur verið 5,8% og miðgildisstyrkur 4,2%. Í Danmörku hafi miðgildisstyrkur „götusýna“ verið um 5% síðustu ár. Kókaínið hafi verið 3 sýni. Eitt hafi verið 56%, annað 20% og hið þriðja 19%. Ekki væru til samanburðartölur yfir haldlagt kókaín á Íslandi, en í Danmörku væri styrkleiki í neysluskömmtum „götusýna“ að miðgildi 37% árið 2015. Mest af sýnum á Íslandi séu úr innflutningi. Tvö sýnanna hafi innihaldið MDMA og styrkleikinn hafi verið 88 mg í öðru og 90 mg í hinu. Það sé ívið lægra en hið algengasta, en á árunum 2010 til 2015 hafi meðalstyrkleiki verið 92 mg í sýnum sem borist hafi til rannsóknar.  

Eins og að framan greinir hefur ákærði sjálfur kannast við að hafa haft umrædd umrædd efni í vörslum sínum á þeim stað og tíma sem greinir í ákærunni. Styðst það við gögn málsins og framburð lögreglumannsins D. Ákærði sjálfur hefur ekki borið brigður á það magn amfetamíns og kókaíns sem lýst er í ákærunni, og ekki heldur fjölda MDMA taflna. Er fjöldi MDMA taflnanna í samræmi við það sem ákærði skýrði fyrst frá í samtölum sínum og skýrslutöku hjá lögreglu. Magn amfetamíns og kókaíns er sambærilegt við það sem ákærði skýrði fyrst frá í samtölum sínum við lögreglu þó að hlutföllin séu ekkli alveg hin sömu. Ákærði hefur sjálfur ekki borið neitt um að hluti efna sem tilgreind eru í ákæru séu annað en amfetamín, kókaín og MDMA. Fyrir liggur að ekki voru tekin sýni úr hverri einustu pakkningu sem haldlögð var, en telja verður allt að einu að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að efnin séu þeirrar tegundar og í því magni sem greinir í ákæru. Verður hafnað þeirri málsvörn sem kom fyrst fram hjá verjanda ákærða við aðalmeðferð, en sem aldrei hefur komið fram hjá ákærða sjálfum, að skynsamlegur vafi sé um að kókaín og amfetamín hafi verið í öllum pakkningunum vegna þess að ekki hafi verið efnagreind sýni úr þeim öllum, enda var ekkert tilefni fyrir lögreglu við rannsókn málsins til að fara í svo kostnaðarsamar rannsóknaraðgerðir að virtum framburði ákærða. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi á þeim stað og tíma sem greinir í ákæru haft vörslur allra þeirra efna sem þar greinir.

Ákærði hefur borið að hafa ekki ætlað sjálfur að dreifa eða selja téð efni. Hann hefur borið að hafa ætlað sér að afhenda efnin til annars manns eða manna eftir nánari fyrirmælum sem hann kveðst ekki hafa verið búinn að fá. Hefur þessu ekki verið hnekkt af hálfu ákæruvalds og verður á þessu byggt við úrlausn málsins. Hjá lögreglu bar ákærði að hann teldi að þeir sem áttu að taka við efnunum myndu ætla þau til sölu og dreifingar. Frá þessu hvarf ákærði við aðalmeðferð og kvaðst ekkert vita um það, en að mati dómsins eru skýringar hans á breyttum framburði að þessu leyti ótrúverðugar. Þá er ekki annað hægt en að líta til þess að ákærði sjálfur hafði fengið fíkniefni til eigin neyslu frá mönnum þessum og skuldaði þeim fé vegna þess. Að þessu gættu, sem og magni efnanna, er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hlaut að vera ljóst að efnin væru ætluð til sölu og dreifingar. Breytir engu að ákærði hafi ekki ætlað sjálfur að selja efnin eða dreifa þeim á annan hátt.

Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann hafi verið logandi hræddur við þá menn sem fengu hann til verksins og að hann hafi nánast verið þvingaður til þess arna, en ella mátt eiga von á óförum í formi barsmíða og eignaspjalla, sem jafnvel myndu beinast að móður hans. Hjá lögreglu gat ákærði ekkert um þetta. Þar skýrði hann frá því að hann hafi átt að fá greitt 200.000 – 300.000 kr. fyrir viðvikið. Lýsti ákærði þar engri hræðslu eða þvingun af neinu tagi sem hafi verið orsök þess að hann tókst verkefnið á hendur. Hann skýrði þar frá því að hann vildi ekki upplýsa um hverjir menn þessir væru vegna þess að hann væri hræddur við afleiðingar þess, en ekki kom fram hjá honum neitt um að hann hafi verið þvingaður til verksins eða undir einhvers konar hótunum, hvorki beinum né óbeinum. Þá hefur ákærði vísað til þess að hann hafi áður mátt sæta óförum af hálfu þessara manna. Engum stoðum hefur verið rennt undir þetta, s.s. með vísun til læknisvottorða, lögregluskýrslna eða vitna sem gætu borið um þetta.

Samkvæmt framansögðu er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Hefur ákærði unnið sér til refsingar, en sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingarinnar. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til magns og styrkleika efnanna, en jafnframt til þess að hann var ekki skipuleggjandi og frumkvöðull að brotum þessum. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Ekki þykir fært að binda refsinguna skilorði að öllu leyti, en að virtu því að nokkuð er um liðið og að ákærði hefur á þeim tíma snúið lífi sínu til betri vegar þykir mega fresta fullnustu á 7 mánuðum af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá ber að gera upptæk þau efni sem í ákæru greinir með vísun til þeirra ákvæða sem getið er þar.

Samvæmt 235. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti rannsakara er útlagður kostnaður vegna rannsóknar á haldlögðum efnum kr. 484.315 og ber ákærða að greiða þann kostnað ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Jóhanns Fannars Guðjónssonar lögmanns, kr. 685.100 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturs- og ferðakostnaðar lögmannsins, kr. 53.780. 

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Fannar Þór Cray, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Fresta ber fullnustu 7 mánaða af refsingu ákærða og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upptæk eru til eyðingar 59,70 grömm af amfetamíni, 136,49 grömm af kókaíni, 181 MDMA tafla og 20,27 grömm af óskilgreindu efni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 1.223.195, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhanns Fannars Guðjónssonar lögmanns, kr. 685.100 auk kr. 53.780 vegna ferðakostnaðar verjandans.

 

Sigurður G. Gíslason