• Lykilorð:
  • Rangar sakargiftir
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 14. febrúar 2019 í máli nr. S-318/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Kristínu Chuthamart Khumkan

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 31. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. desember sl., á hendur Kristínu Chuthamart Khumkan,   

 

I.             fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 8. júlí 2017, ekið bifreiðinni […] austur Skeiða- og Hrunamannaveg við Skeiðaréttir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, með 113 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

 

Telst brot ákærðu varða við 2. mgr. 37. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

II.                       fyrir rangar sakargiftir

með því að hafa, er lögregla hafði afskipti af ákærðu í því tilviki er greinir í ákærulið I, á sömu stund og stað, tjáð lögreglu ranglega að hún héti X, að kennitala sín væri […] og undirritað vettvangsskýrslu lögreglu með því nafni og með því leitast við að koma því til leiðar að X yrði sökuð um brotið.

 

Telst brot ákærðu varða við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

III.                    fyrir þjófnað

með því að hafa, laugardaginn 12. ágúst 2017, í verslun B við Glerártorg á Akureyri, stolið einum brjóstahaldara (backless bra), að verðmæti 2.990 krónur.

 

Telst brot ákærðu varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  

 

Ákærða mætti við þingfestingu málsins og lýsti yfir að hún óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærða viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærðu og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hennar væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærða hefur gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærða ekki áður sætt refsingu.

Refsing ákærðu er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Að virtum atvikum máls, að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærðu og hreinum sakaferli hennar, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærða, Krstín Chuthamart Khumkan, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.