• Lykilorð:
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun
  • Ógilding stjórnarathafnar

Árið 2019, miðvikudaginn 20. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Ragnheiði Thorlacius héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, í málinu nr. E-125/2018

 

Biokraft ehf.

                                                (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

                                                gegn

                                                Rangárþingi ytra

                                                (Guðjón Ármannsson lögmaður)

 

kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

            Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 27. febrúar 2019, er höfðað af Biokraft ehf., Borg, Rangárþingi ytra, á hendur Rangárþingi ytra, Suðurlandsvegi 1, Hellu, með stefnu birtri 28. ágúst 2018.

Upphaflegar kröfur stefnanda voru eftirfarandi. Í fyrsta lagi að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. mars 2018 um að synja umsókn stefnanda og hafna tillögu hans um breytingu á deiliskipulagi fyrir vindrafstöðvar í Þykkvabæ. Í öðru lagi að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á að fá deiliskipulagi iðnaðarsvæðis fyrir vindmyllur breytt á þann veg sem lagt var til í skipulagstillögu þeirri sem samþykkt var og auglýst til kynningar í nóvember 2017. Í þriðja lagi að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri fébótaábyrgð á því tjóni sem hin ólögmæta synjun hefur í för með sér fyrir stefnanda. Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. 

Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 27. febrúar sl., og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Í upphafi þinghaldsins féll stefnandi frá öðrum lið kröfugerðar sinnar, þ.e. að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á að fá deiliskipulagi iðnaðarsvæðis fyrir vindmyllur breytt á þann veg sem lagt var til í skipulagstillögu þeirri sem samþykkt var og auglýst til kynningar í nóvember 2017.

Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.

 

Helstu málavextir

            Málavextir eru helstir þessir samkvæmt stefnu, greinargerð og gögnum málsins. Þann 17. september 2013 gerði stefnandi máls þessa lóðarleigusamning við eigendur Hábæjar I í Þykkvabæ um leigu lóðar til reksturs tveggja vindrafstöðva, hér eftir nefndar vindmyllur. Var samningurinn móttekin til þinglýsingar 21. október sama ár og innfærður í þinglýsingabók daginn eftir. Þann 1. nóvember 2013 samþykkti sveitarstjórn stefnda deiliskipulag fyrir áðurnefndar vindmyllur og var deiliskipulagið auglýst í B-deild stjórnartíðinda þann 27. desember 2013. Í framhaldinu voru tvær vindmyllur reistar og segir í stefnu að rekstur þeirra hafi gengið áfallalaust þar til önnur vindmyllan hafi eyðilagst í eldi þann 6. júlí 2017.

            Þann 27. október 2017 var móttekin til þinglýsingar kaupsamningur, dags. 27. september sama ár, milli stefnanda sem seljanda og Elýsu ehf., sem kaupanda. Var framangreindur samningur innfærður í þinglýsingabók 30. sama mánaðar. Framangreindur samningur er undirritaður af Steingrími Erlingssyni annars vegar sem seljanda og prókúruhafa stefnanda og hins vegar sem kaupanda og prókúruhafa Elýsu ehf. Hið selda voru þrjár vindmyllur í eigu stefnanda, staðsettar á áðurnefndri leigulóð úr jörðinni Hábæ í Þykkvabæ. Sama dag, þ.e. þann 27. október 2017, var einnig móttekinn til þinglýsingar leigusamningur milli eigenda Hábæjar I og Elýsu ehf., dags. 27. september 2017, um tvær lóðir til reksturs vindmylla og mannvirkja þeim tengdum. Gögn málsins bera með sér að um er að ræða sömu lóð og stefnandi hafði áður haft á leigu frá landeigendum Hábæjar I í Þykkvabæ. Var framangreindur lóðarleigusamningur innfærður í þinglýsingabók 30. sama mánaðar. 

            Á fundi skipulags- og umferðarnefndar stefnda þann 9. október 2017 var tekið fyrir erindi Steingríms Erlingssonar um leyfi til að fjarlægja vindmyllur af stöplum vegna bruna í annarri þeirra, eins og segir í fundargerð nefndarinnar. Samkvæmt gögnum sem stefnandi lagði fram, með samþykki stefnda, í upphafi munnlegs málflutnings um frávísunarkröfuna, er nefndur Steingrímur bæði eigandi og forsvarsmaður stefnanda og Elýsu ehf. Þá segir í fundargerð nefndarinnar að ráðgert sé að setja síðar upp aðrar vindmyllur sem muni snúast hægar, framleiða meiri orku og séu 96 metrar í efstu stöðu spaða. Samþykkti nefndin veitingu byggingarleyfis til að fjarlægja vindmyllurnar, en hafnaði heimild til uppsetningar á hærri vindmyllum fyrr en samþykkar hafi verið breytingar á gildandi deiliskipulagi. Framangreind afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar stefnda 11. sama mánaðar.

            Í fundargerð skipulags- og umferðarnefndar stefnda þann 6. nóvember 2017 segir að Steingrímur Erlingsson hafi fengið heimild til að leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir endurnýjun á vindmyllum sínum í Þykkvabæ. Feli breytingin í sér hærra mastur og lengri spaða en sé á núverandi vindmyllum. Lagði nefndin til að tillaga yrði auglýst í samræmi við skipulagslög. Framangreind afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar stefnda 8. sama mánaðar. Mun tillaga að deiliskipulagsbreytingunni hafa verið auglýst frá 15. nóvember til og með 28. desember 2017.

            Næst var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 8. janúar 2018. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að athugasemdir hafi borist við tillöguna og ábendingar frá Heilbrigðiseftirliti. Hafnaði nefndin tillögum framkvæmdaaðila um breytingar á gildandi deiliskipulagi með vísan til athugasemda sem nefndinni hafi borist. Afgreiðsla nefndarinnar var tekin fyrir í sveitarstjórn stefnda 10. sama mánaðar. Í fundargerð sveitarstjórnar segir að komið hafi fram beiðni frá framkvæmdaaðila um að afgreiðslu málsins verði frestað. Hafi sveitarstjórn fallist á það og vísaði málinu aftur til umfjöllunar í skipulags- og umferðarnefnd.

            Enn fundaði skipulags- og umferðarnefnd um málið 12. mars 2018. Í fundargerð nefndarinnar segir að þær upplýsingar sem komið hafi fram frá síðasta fundi nefndarinnar séu ekki þess eðlis að breyta niðurstöðu hennar og leggur nefndin til að sveitarstjórn staðfesti fyrri afgreiðslu nefndarinnar. Á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2018 er eftirfarandi bókun: „Tillaga er um að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar. Sveitarstjórn vill jafnframt árétta að í gildi er deiliskipulag fyrir vindmyllur í Þykkvabæ og full heimild til þess að endurnýja núverandi myllur innan þess ramma. Samþykkt samhljóða.

            Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá sveitarstjórn og hafi formleg beiðni þess efnis verið lögð fram á fundi lögmanns stefnda með sveitarstjórn þann 5. júní 2018. Erindið hafi hvorki verið tekið fyrir á fundnum sveitarstjórnar 6. júní né 21. júní sama ár. Þegar stefnanda hafi borist svar frá sveitarstjóra þess efnis að fullmönnuð sveitarstjórn kæmi næst saman 13. september 2018 hafi stefndi ákveðið að höfða mál þetta, enda að hans mati óviðunandi að þurfa bíða lengur eftir svörum stefnda. 

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

            Eins og áður greinir féll stefnandi frá kröfu sinni um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á að fá deiliskipulag iðnaðarsvæðisins fyrir vindmyllur breytt, þ.e. á þann veg sem tilgreint hafi verið í skipulagstillögu þeirri sem auglýst hafi verið til kynningar í nóvember til desember 2017. Verður því ekki fjallað um málsástæður og lagarök stefnanda hvað þá kröfu varðar.

Varðandi kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar stefnda frá 14. mars 2018 um að synja umsókn stefnanda og hafna tillögu hans um breytingu á deiliskipulagi fyrir vindmyllur í Þykkvabæ vísar stefnandi m.a. til eftirfarandi:

Stefnandi telur málsmeðferð stefnda við undirbúning hinnar umdeildu ákvörðunar hafa hvorki verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 né stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðuninni sé verulega áfátt, bæði að formi og efni, að leiða eigi til ógildingar hennar. Stefnandi hafi á grundvelli aðalskipulags frá 2013, sem hafi tilgreint að á um 1 ha svæði skyldi heimilt að reisa tvær vindmyllur, látið vinna deiliskipulag fyrir umrætt iðnaðarsvæði þar sem tekið hafi verið mið af þeim vindmyllum sem stefnandi hugðist reisa. Í skipulaginu hafi verið tilgreind hæð og þvermál mastra, lengd spaða, stærð sökkla og spennistöðva og að orkuframleiðsla vindmylla væri allt að 1,9 MV. Í aðalskipulagi hafi engin mörk verið sett um stærð eða umfang vindmylla önnur en þau að samanlagt megi þær skila allt að 1,9 MV orkuframleiðslu. Í kjölfar þess að önnur vindmyllan brann í júlí 2017 hafi stefnandi þurft að endurnýja vindmyllurnar með kaupum á nýrri og stærri gerð. Því hafi stefnandi sótt um að fá að gera breytingu á deiliskipulaginu varðandi hæð mastra og spaðalengd. Hafi stefnandi talið sig eiga rétt til þess þar sem engar takmarkanir hafi verið í aðalskipulagi hvað þetta varðar. Erindi hans hafi í fyrstu verið vel tekið af stefnda sem hafi samþykkt tillögu stefnanda að breyttu deiliskipulagi sem hafi farið í auglýsingu í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga. Að liðnum athugasemdafresti hafi skipulags- og umferðarnefnd stefnda tekið málið fyrir þann 8. janúar 2018 og hafnað tillögunni með vísan til framkominna athugasemda. Gerir stefnandi athugasemdir varðandi afgreiðslu nefndarinnar að þessu leyti, m.a. að tekið hafi verið tillit til undirskriftalista sem hafi komið fram eftir lok athugasemdafrests. Þá hafi nefndin ekki kannað réttmæti athugasemda og því hvorki gætt að 10. gr. né 12. gr. stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins.

            Í framhaldinu hafi sveitarstjórn stefnda ákveðið á fundi 10. janúar 2018 að fresta afgreiðslu málsins vegna óska stefnda um að koma á framfæri andmælum við afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar. Að fengnum andmælum stefnanda hafi sveitarstjórn vísað málinu aftur til nefndarinnar. Hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að framangreind andmæli breyttu ekki fyrri afstöðu nefndarinnar og lagt til að sveitarstjórn staðfesti fyrri afgreiðslu nefndarinnar sem sveitarstjórn hafi síðan gert á fundi sínum þann 14. mars 2018.

            Stefnandi telur þá afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar stefnda að leggja til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslu nefndarinnar, þ.e. ákvörðun nefndarinnar frá 8. janúar 2018, ekki hafa verið í samræmi við lög og vísar stefnandi í því sambandi til 1. mgr. 38. gr. og 41.-43. gr. skipulagslaga. Þá vísar stefnandi til þess að nefndin hafi ekki haft heimild til fullnaðarafgreiðslu skipulagstillögunnar og með því hafi nefndin farið út fyrir valdmörk sín. Vísar stefnandi til þess að deiliskipulagstillagan hafi ekki komið til efnislegrar umræðu í sveitarstjórn stefnda og að það hafi ekki verið á færi skipulags- og umferðarnefndar stefnda að fjalla endanlega um framkomnar athugasemdir. Meðferð nefndarinnar hafi að þessu leyti verið ólögmæt og fjarri því að vera í samræmi við lög. Einnig vísar stefnandi til þess að svo virðist sem nefndin hafi gefið þeim sem athugasemdir gerðu kost á að tjá sig um andmæli stefnanda, tekið við þeim athugasemdum og lagt til grundvallar niðurstöðu sinni á fundi þann12. mars 2018 án þess að gefa stefnanda kost á að tjá sig um framangreindar athugasemdir þeirra sem andmæltu breytingu á deiliskipulaginu. Þannig hafi stefndi brotið gegn gr. 2.3 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 13. gr. stjórnsýslulaga.

            Vísar stefnandi til þess að jafnvel þó talið væri að sveitarstjórn gæti staðfest afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar, þá hafi skort mikið á að tillagan hafi fengið lögboðna meðferð í sveitarstjórn. Aldrei hafi komið fram skrifleg og rökstudd umsögn sveitarstjórnar um framkomnar athugasemdir, eins og lög kveði á um, og því ekki legið fyrir á hverju synjun sveitarstjórnar hafi byggst.

            Þá hafnar stefnandi því sem fram hafi komið í síðbúnu svari skipulagsstjóra til stefnanda, þ.e. talið hafi verið á fundi nefndarinnar 6. nóvember 2017 að fyrirhuguð breyting á vindmyllunum myndi ekki hafa veruleg umhverfisáhrif þar sem ekki hafi legið fyrir nákvæmar upplýsingar um gerð og tegund þeirra, m.a. framleiðslugetu. Þessu hafnar stefnandi. Ekkert hafi verið óljóst í umræddri skipulagstillögu þegar hún hafi upphaflega verið samþykkt og auglýst til kynningar.

            Þá byggir stefnandi á því að auk þess sem málsmeðferð stefnda samkvæmt skipulagslögum og stjórnsýslulögum hafi verið stórleg áfátt hafi verið ýmsir aðrir annmarkar á málinu. Synjun stefnda hafi ekki stuðst við málefnalega ástæður og hagsmunir þeirra sem athugasemdir hafi gert við skipulagið hafi ekki átt að vega þyngra en atvinnuhagsmunir stefnanda.

            Varðandi kröfu sína um viðurkenningu á rétti til þeirra deiliskipulagsbreytinga sem stefnandi óskaði eftir, samþykkt var og auglýst til kynningar í nóvember 2017 byggir stefnandi á því að samkvæmt skipulagslögum geti landeigandi eða framkvæmdaaðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingum á slíku skipulagi á kostnað þeirra fyrrnefndu, sbr. 2.mgr. 28. gr. skipulagslaga. Telur stefnandi að túlka verði umrætt ákvæði svo að framangreindir aðilar eigi rétt á því að fá gerðar breytingar á deiliskipulagi í samræmi við heimildir aðalskipulags. Að minnsta kosti þurfi synjun að styðjast við ríkar og málefnalegar ástæður en engu slíku hafi verið til að dreifa í máli þessu. Í því sambandi sé til þess að líta að stefnda hafi þegar tekið þá afstöðu í aðalskipulagi að leyfa vindmyllur á umræddu svæði án sérstakra takmarkana á hæð eða umfangi.

            Varðandi kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu byggir stefnandi á því að við undirbúning að hinni umdeildu synjun stefnda hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglu skipulags- og stjórnsýslulaga með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að framan. Ákvörðun stefnda sé ólögmæt og stórlega áfátt að stefndi beri fébótaábyrgð á henni eftir almennu skaðabótareglunni. Kveður stefnandi augljóst að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra tafa sem þetta hafi valdið á framkvæmdum stefnanda og á því beri stefndi alla ábyrgð.

            Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan féll stefnandi í upphafi munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefnda frá öðru lið kröfugerðar stefnanda. Verður því ekki fjallað um málsástæður og lagarök stefnda hvað þann kröfulið varðar. 

Stefndi byggir frávísunarkröfuna í fyrsta lagi á því að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af þeirri kröfu sinni að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar stefnda frá 14. mars 2018, þ.e. þegar stefnda synjaði umsókn stefnanda um breytingu á deiliskipulagi fyrir vindmyllur í Þykkvabæ. Vísar stefnda í því sambandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess séu sé krafa stefnanda vanreifuð, sbr. d-g liði 1. mgr. 80. gr. fyrrnefndra laga.

Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki verið aðili að umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir endurnýjun á vindmyllum, dags. 13. nóvember 2017. Umsækjandi hafi verið Steingrímur Erlingsson með netfangið […]Á þeim tíma hafi stefnandi því ekki verið aðili að stjórnsýslumáli sem lokið hafi með hinni „umdeildu synjun“. Þá hafi stefnandi ekki verið handhafi lóðarleigusamninga um vindmyllurekstur í Þykkvabæ, sbr. lóðarleigusamning sem Elýsa ehf., hafi gert við landeigendur í Hábæ 1 þann 27. september 2017, né eigandi vindmylla, sbr. kaupsamning milli stefnanda og Elýsu ehf., um kaup þess síðarnefnda á þremur vindmyllum af stefnanda, dags. sama dag. Þannig sé stefnandi hvorki leigutaki þeirra lóða sem fyrrgreindar vindmyllur séu staðsettar á né eigandi þeirra. Tengsl stefnanda við málsatvik séu verulega óljós og geri framangreint stefnda ómögulegt að verjast kröfu stefnanda. Óljósar hugmyndir um mögulega sameiningu stefnanda og Elýsu ehf., breyti þar engu. Með vísan til þessa séu kröfur stefnanda í andstöðu við 2. mgr. 25. gr. og d-g liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, og verði að vísa þeim frá dómi.

Í öðru lagi telur stefnda kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vanreifaða og að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar. Vísar stefndi í því sambandi til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, þ.e. að stefnandi verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans sé fólgið og hver tengsl hans séu við atvik máls. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að nýjar hærri vindmyllur myndu skila honum meiri hagnaði en vindmyllur sem rúmast innan núverandi deiliskipulags. Samkvæmt öllu framansögðu sé krafa stefnanda vanreifuð, og ómögulegt sé fyrir stefnda að verjast henni. Einnig sé krafan í andstöðu við 2. mgr. 25. gr. og d-g liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

 

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar stefnda frá 14. mars 2018 um að synja umsókn og hafna tillögu hans um breytingu á deiliskipulagi fyrir vindmyllur í Þykkvabæ. Í öðru lagi krefst stefnandi viðurkenningar á fébótaábyrgð stefnda á tjóni sem framangreind ákvörðun hafi haft í för með sér fyrir stefnanda. 

Stefndi, sem krefst frávísunar málsins frá dómi, telur stefnanda ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls auk þess sem aðild málsins sé vanreifuð. Varðandi kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi til þess að frá upphafi hafi Steingrímur Erlingsson komið einn fram fyrir hönd stefnanda gagnvart stefnda í máli þessu sem eigandi vindmylla í Þykkvabæ án nokkurra athugasemda af hálfu stefnda. Hagsmunir stefnanda af úrlausn þessa máls séu því augljósir. Varðandi síðari kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu vísar stefnandi til þess að aðgerðir stjórnvalda, sem leiði til þess að atvinnurekstur stöðvist, eins og raun hafi verið í máli þessu, leiði alltaf til tjóns fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Fyrir liggur að gerð var breyting á aðalskipulagi Rangárþings ytra fyrir árin 2010-2022 er varðar iðnaðarsvæði í Þykkvabæ og var breytingin samþykkt í sveitarstjórn stefnda þann 1. nóvember 2013. Sama dag samþykkti sveitarstjórn einnig deiliskipulag fyrir tvær vindmyllur á um 2,9 hektara svæði í landi Hábæjar í Þykkvabæ. Óumdeilt er að í kjölfarið hóf stefnandi rekstur tveggja vindmylla á leigulóðum úr landi áðurnefndrar jarðar. Einnig liggur fyrir að önnur vindmylla stefnanda brann þann 6. júlí 2017. Í kjölfar brunans hófst atburðarás sú sem ágreiningur máls þessa lýtur að.

Með greinargerð stefnda voru lögð fram skjöl um viðskipti stefnanda við einkahlutafélagið Elýsu ehf., en forsvarsmaður og eigandi þess mun vera Steingrímur Erlingsson, sami einstaklingur og skráður er forsvarsmaður og eigandi stefnanda. Samkvæmt þeim skjölum seldi stefnandi Elýsu ehf., þrjár vindmyllur staðsettar á jörðinni Hábæ með kaupsamningi, dags. 27. september 2017, mótteknum til þinglýsingar 27. október sama ár. Segir í kaupsamningnum að hinu selda fylgi það fylgifé sem nauðsynlegt sé til reksturs vindmyllanna, s.s. steyptur grunnur og verkfæri til þess að sinna viðhaldi, sbr. 1. gr. samningsins. Þá segir í 4. gr. að kaupandi, Elýsa ehf., taki við afhendingu, þ.e. við undirritun kaupsamnings, við öllum réttindum sem fylgja eignunum, þ.m.t. öllum arði og greiði jafnframt skatta og skyldur samfara hinu selda. Í 5. gr. kemur fram að kaupandi muni sækja um virkjunarleyfi og seljandi lýsir því yfir að á sama tíma muni hann hætta rekstri vindmylla. Sama dag og framangreindur kaupsamningur var undirritaður, þ.e. þann 27. október 2017, var einnig undirritaður leigusamningur, móttekinn til þinglýsingar 27. október sama ár, milli eigenda Hábæjar I og Elýsu ehf., um tvær lóðir til reksturs vindmylla. Gögn málsins bera með sér að um var að ræða sömu lóðir og stefnandi hafði áður haft á leigu frá landeigendum Hábæjar I. Segir í 4. gr. leigusamnings að leigutaka, Elýsu ehf., sé skylt að starfrækja vindmyllur á lóðinni og samkvæmt 6. gr. að leigutaka sé heimilt að leggja akveg að öllum þeim vindmyllum sem hann starfræki á landinu.

Í málavaxtalýsingu hér að framan er gerð grein fyrir afgreiðslum stefnda sem voru tilefni máls þessa. Annars vegar á fundum í skipulags- og umferðarnefnd stefnda á tímabilinu 9. október 2017 til 12. mars 2018 og hins vegar á fundum sveitarstjórnar stefnda á tímabilinu 11. október 2017 til 14. mars 2018. Samkvæmt þeim hafði stefnandi, áður en skipulagsferli um breytingu á deiliskipulaginu frá 1. nóvember 2013 var fyrst tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefnd stefnda þann 6. nóvember 2017, selt vindmyllur sínar og nýr leigutaki tekið við lóðum þeim sem stefnandi hafði áður haft á leigu til byggingar og reksturs tveggja vindmylla. Það var hins vegar ekki fyrr en við upphaf munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefnda sem stefnandi, með samþykki stefnda, lagði fram gögn um fyrirhugaðan samruna Elýsu ehf., og stefnanda í máli þessu, en samkvæmt gögnum málsins hófst fyrirhugað samrunaferli félaganna með móttöku fyrirtækjaskrá á tilkynningu þess efnis þann 21. febrúar sl.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms á kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr viðkomandi ágreiningi. Samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má þær málsástæður sem stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem greina þarf til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst og ekki fari á milli mála hver séu atvik að baki sakarefninu. Skal þessi lýsing vera gagnorð og skýr. Þá skal stefnandi samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna við þingfestingu leggja fram þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir kröfur sínar á. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði  úr ágreiningi í máli þessu. Þá er einnig til þess að líta að í stefnu er hvorki gerð grein fyrir þeim breytingum sem urðu á eignarhaldi vindmyllanna og leigutaka þeirra lóða sem umrædd deiliskipulagsbreyting tók til né hverjir hafi verið hagsmunir stefnanda að því að umrædd deiliskipulagstillaga næði fram að ganga. Varðandi síðbúnar skýringar á tengslum forsvarsmanns stefnanda við Elýsu ehf., og fyrirhugaðan samruna þessara tveggja félaga vísast til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, en þar er kveðið á um að sakarefni verði ekki lagt fyrir dómstóla nema að þau réttindi eða þær skyldur sem í því felast séu þegar orðin til við höfðun máls. Gögn þau sem stefndi lagði fram um fyrirhugaðan samruna stefnanda og Elýsu ehf., við upphaf munnlegs málsflutnings í máli þessu, bera með sér að samrunaferli félaganna sé á byrjunarstigi, sbr. fyrirmæli laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

            Varðandi síðari kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu þá hefur áskilnaður 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verið skýrður svo í dómum Hæstaréttar, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Auk þess sem að framan er rakið um vanreifun í stefnu hvað varðar aðild stefnanda að máli þessu og tengslum að öðru leyti við atvik máls, er til þess að líta að stefnandi vísar um síðari kröfu sína eingöngu til þess að augljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tafa á framkvæmdum sem stefndi beri alla ábyrgð á. Í stefnu er hvorki gerð grein fyrir í hverju hið ætlaða tjón felist né lögð fram gögn málatilbúnaði stefnanda til stuðnings. 

Samkvæmt öllu framansögðu uppfyllir málatilbúnaður stefnanda ekki framangreindar kröfur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og eru því svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að fallist verður á kröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.

Ragnheiður Thorlacius, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

            Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Biokraft ehf., greiði stefnda, Rangárþingi ytra, 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ragnheiður Thorlacius