• Lykilorð:
  • Samningur
  • Skuldajöfnuður

 

            Ár 2018, fimmtudaginn 5. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur  í máli nr. E-127/2017:

 

                                                                  V.I.P. Drífandi ehf.

                                                                  (Aníta Óðinsdóttir lögmaður)

                                                                  gegn

                                                                  Fagco ehf.

                                                                  (Skúli Sveinsson lögmaður)

                                                                 

         Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð þann 7. mars 2017, er höfðað með stefnu birtri 19. maí 2017.

         Stefnandi er V.I.P Drífandi ehf.,  Bárustíg 2, Vestmannaeyjum.

         Stefndi er Fagco ehf.,  Köllunarklettsvegi 4, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Smári Arnarsson,  Sogavegi 150a, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 824.507,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 824.507,- frá 23.11.2015 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram ef til aðalmeðferðar kemur.

         Dómkröfur stefnda eru sýkna af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað honum að skaðlausu.

         Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

         Við aðalmeðferð gáfu skýrslur Smári Arnarsson fyrirsvarsmaður stefnda og Þröstur Bjarnhéðinsson Johnsen fyrrverandi fyrirsvarsmaður stefnanda.

 

         Málavextir

         Stefnandi rekur Hótel Eyjar í Vestmannaeyjum og veitir þar gistiþjónustu. Er óumdeilt í málinu að veturinn 2013 til 2014 keypti stefndi gistiþjónustu af stefnanda fyrir starfsmenn sína í Vestmannaeyjum, en stefndi hafði þá með höndum tiltekið verk í Vestmannaeyjum og þurfti að útvega gistingu fyrir starfsmenn sína þar vegna þess. Deila aðilar um það hvort samið hafi verið um tiltekið verð fyrir gistinguna, náar tiltekið kr. 2.000 fyrir hverja gistinótt sem stefndi byggir á, en stefnandi kveður ekki hafa verið. Jafnframt er um það deilt hvort stefndi hafi afhent stefnanda tiltekna muni sem greiðslu upp í gistinguna, en því hefur stefnandi hafnað.

         Í málinu liggja ekki fyrir neinir skriflegir samningar um verð fyrir gistinguna, en fram hafa verið lögð tölvupóstsamskipti Þrastar Bjarnhéðinssonar Johnsen fyrrverandi fyrirsvarsmanns stefnanda og Smára Arnarssonar fyrirsvarsmanns stefnda í aðdraganda viðskiptanna.    

         Ekki sést hvenær tölvupóstsamskiptin byrja, en í upphafi skrifar Smári fyrir hönd stefnda „Nú verð ég að fá verðið hjá þér fyrir gistinguna ,, síðast vars þú að tala um þá hugmynd þína að miða við eins og að leigja einbýlishús í eyjum sem viðmiðun. Hvað kostar að leigja einbýlishús þar??? eins og þú veist erum við að koma í næstu viku og þurfum að hafa gistingu að jafnaði fyrir 6 manns og upp í 10 manns þegar flest er og það verður að vera fram í mai allavega við verðum sveigjanlegir í herbergjum þegar einhver umgangur er og þegar sísonið byrjar vitum að þú reddar því við græjum svala og neyðar útganginn fyrir þig og við finnum einhverja skuldajöfnun á því á móti. með ynnilegri kveðju Þröstur minn og hafðu það sem allra best þarna úti í hinum stóra heimi.“

         Ofangreindum tölvupósti svarar Þröstur Bjarnhéðinsson Johnsen fyrir stefnanda þann 26. október 2013 með eftirfarandi orðum: „Saell sm´ari Thetta verdur gott hja okkur, einbylishusaverd er mjog mismunandi fra 160.000 og yfir 300.000. vidd skodum thetta betur thegar eg kem aftur um 14 nov og finnum tha bara eina manada tolu I gistinguna a manudi, en svona a medan tha skulum vid hafa svona vidmid kronur 2.000 nottin a mann til a[ hafa einhverja tolu inni, en vid gerum thad ekkert upp fyrr en vid hittumst. Thad er traffic midvikudag thann 30 og 31 okt fimmtudag og ef turfid naudsynlega ad vera ´I Eyjum tha, tha gaeti eg verid med h´mark 3 x 2  mannna ´ib´udaherbergi en best vaeri ad koma a fullt fra og med fostudeginum 1 nov. T´u ert med simann 4813636 (Hotel)og hj´a Bjarna str´aknum sem verdur fyrir mig a medan eg er uti er 8680270. og ef thad er ´aridandi tha getur thu kannad hvort eg se I simasambandi 8958350. Bestu kvedjur og heyrumst hressir Throstur ps. muna bara ad ganga vel um og passa ad fara ekki upp stigann ´I sk´om ef mikil drulla er a theim:)“

         Fram hafa verið lagðir tveir reikningar frá stefnanda til stefnda fyrir gistingu, annar að fjárhæð kr. 465.000 og hinn að fjárhæð 376.000 og mynda þeir stefnukröfuna að frádregnum kr. 16.493 sem voru ofgreiddar vegna fyrri viðskipta. Báðir reikningar eru dagsettir 15. desember 2014 og fylgja þeim handfærðar sundurliðanir á gistingu, sem ekki hafa verið vefengdar af hálfu stefnda. Er ekki deilt í málinu um fjölda gistinátta heldur einungis um verðið.

         Þá hefur verið lagður fram reikningur frá stefnda til stefnanda, dags. 6. júlí 2016, að fjárhæð kr. 588.700 fyrir 3 glugga, 1 verslunarhurð og 8 ofna, sem stefndi kveður stefnanda hafa keypt af sér, en sem séu ógreiddir.

         Jafnframt hefur stefnandi lagt fram verðskrá fyrir gistingu.

         Ekki vildi stefndi greiða framangreinda reikninga og taldi þá og háa og stofnaði stefnandi kröfu í Landsbankanum til innheimtu skuldarinnar þann 11. nóvember 2015. Gjalddagi kröfunnar var 23. nóvember 2015 og miðar stefnandi dráttarvaxtakröfu sína við það tímamark. Sjálfvirk ítrekun var svo send þann 3. desember 2015.  Innheimtubréf var sent stefnda þann 21. október 2016 og aftur var innheimtubréf sent stefnda þann 3. nóvember 2016. Ekki tókst samkomulag um greiðslu eða uppgjör, en með tölvupósti lögmanns stefnda 9. desember 2016 var lýst yfir skuldajöfnun vegna framangreinds reiknings að fjárhæð kr. 588.700.

         Þá hafa verið lagðir fram reikningar sem stefnandi gerði stefnda fyrir gistingu 8. desember 2013 og 15. janúar 2014 vegna gistingar í nóvember og desember 2013, samtals að fjárhæð kr. 283.507, en þar eru tilgreind einingaverð frá kr. 2.337 til kr. 3.738. Er óumdeilt að reikningar þessir voru greiddir og hefur ekki annað komið fram en að það hafi verið án athugasemda.

          

 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi kveður kröfu sína vera byggða á uppsafnaðri skuld stefnda við stefnanda vegna þjónustu sem stefnandi hafi veitt stefnda, n.t.t. vegna kaupa stefnda á gistingu hjá stefnanda á árinu 2014, en stefnandi rekur Hótel Eyjar í Vestmannaeyjum.

         Kveður stefnandi kröfu sína vera byggða á tveimur reikningum stefnanda á hendur stefnda, sem séu vegna framangreindra viðskipta stefnanda og stefnda, en stefndi hafi verið í viðskiptum við stefnanda allt frá árinu 2013. Útgáfudagar téðra reikninga sé 15. desember 2014 og fjárhæð þeirra samtals 824.507 kr.

         Kveður stefnandi að reikningarnir hafi ekki fengist greiddir og hafi farið svo að stefnandi hafi stofnað kröfu í Landsbankanum hf. til innheimtu skuldarinnar þann 11. nóvember 2015. Gjalddagi kröfunnar hafi verið 23. nóvember 2015 og miðist krafa um dráttarvexti því við það tímamark. Sjálfvirk ítrekun hafi svo verð send þann 3. desember 2015.

         Kveður stefnandi að innheimtubréf hafi verið sent stefnda að Sogavegi 150a í Reykjavík þann 21. október 2016 og þá hafi innheimtubréf verið sent stefnda að Köllunarklettsvegi 4 í Reykjavík þann 3. nóvember 2016.

         Þá kveður stefnandi að þann 28. nóvember 2016 hafi lögmaður stefnda sent lögmanni stefnanda tölvupóst og óskað eftir sundurliðun á framangreindri kröfu. Í kjölfarið hafi átt sér stað samskipti milli lögmanna aðila þar sem m.a. hafi verið reynt að komast að samkomulagi um fullnaðaruppgjör, en það hafi ekki lánast og sé stefnandi því nauðbeygður til að höfða mál þetta.

         Byggir stefnandi á því að samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, beri stefnda að greiða kröfuna. Þar sem skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

         Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 91/1991.

         Þá vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga en þessar reglur fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfur um vaxtavexti og dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

 

         Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi byggir á því að í gildi hafi verið samningur aðila um endurgjald fyrir þjónustu stefnanda, þar sem samið hafi verið um að greiða ætti kr. 2.000.- fyrir hverja gistinótt. Kröfur stefnanda í málinu séu byggðar á allt öðru og margfalt hærra endurgjaldi, sem stefnandi virðist jafnframt hafa innheimt áður án vitundar stefnda.  Kröfur stefnanda séu því í engu samræmi við umsamið verð fyrir þá þjónustu sem samið hafi verið um að stefnandi veitti stefnda og því sé sú krafa sem stefnandi hefur uppi í máli þessu óréttmæt. Sýkna beri stefnda á grundvelli þess eins og sér. Kveður stefndi að sýknukrafan byggi á meginreglu laga um skuldbindingargildi samninga og meginreglum kröfuréttar.

         Stefndi kveðst byggja gagnkröfu sína upp á kr. 588.700.- á reikningi, gefnum út þann 6. júlí 2016, fyrir afhentum, ásamt fylgiskjali með sundurliðun hinna afhentu muna. Vísar stefndi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Krefst stefndi dráttarvaxta á gagnkröfu frá 6. ágúst 2016, með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Þá krefst stefndi málskostnaðar á grundvelli XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

         Stefndi kveðst byggja á meginreglum kröfu- og samningaréttar, varðandi skuldbindingargildi samninga. Varðandi gagnkröfu sína kveðst stefndi byggja á meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Krafa um dráttarvexti á gagnkröfu er byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

 

         Forsendur og niðurstaða

         Í málinu er annars vegar deilt um framangreinda tvo reikninga fyrir gistingu og hvort samningur hafi tekist milli aðila um að öll gisting myndi kosta kr. 2.000 fyrir manninn fyrir hverja nótt svo sem stefndi kveður vera, en hins vegar hvort stefndi hafi greitt fyrir gistingu með því að afhenda stefnanda tiltekna muni og geti lýst yfir skuldajöfnuði vegna þess.

         Ekki er deilt um það hvort gistiþjónustan hafi verið látin í té eða um fjölda gistinátta.

         Stefndi byggir málsvörn sína á framangreindum tölvupósti frá þáverandi fyrirsvarsmanni stefnanda, Þresti Bjarnhéðinssyni Johnsen, dags. 26. október 2013. Kveður hann að með þeim tölvupósti hafi komist á samningur milli aðila um að gistingin myndi kosta kr. 2.000 fyrir mann fyrir hverja nótt og að aldrei hafi verið samið um annað.

         Fyrir dómi lýsti fyrirsvarsmaður stefnda þessum skilningi sínum og kvað aldrei hafa verið samið um annað verð. Aldrei hafi t.a.m. verið samið um hækkun upp í kr. 4.000 eða 7.000 yfir sumartímann. Þá hafi aldrei verið kynnt nein verðskrá yfir gistingu.

         Vitnið Þröstur Bjarnhéðinsson Johnsen, fyrrverandi fyrirsvarsmaður og eigandi stefnanda, lýsti því fyrir dómi að einungis hafi verið gert ráð fyrir því að verðið kr. 2.000 fyrir manninn fyrir hverja nótt myndi gilda fram undir miðjan nóvember 2013 þegar hann kæmi heim frá útlöndum og auk þess hafi það verð aðeins verið miðað við gistingu í tveggja manna herbergjum en raunin hafi orðið sú að fyrirsvarsmaður stefnda og aðrir á hans vegum hafi iðulega gist í eins manns herbergjum og í stúdíóíbúðum sem séu dýrari gisting eðli málsins samkvæmt. Eftir það hafi verið rætt og handsalað að gistingin yrði skv. verðskrá en þó með afslætti, en verðskrá hefur verið lögð fram.

         Að virtu orðalagi framangreinds tölvupósts telur dómurinn, gegn fullyrðingum stefnanda og að virtum framburði vitnisins Þrastar, ekki sannað að komist hafi á samningur milli aðila þessa máls um að fyrir gistingu hvers manns skyldi ávallt greiða kr. 2.000 fyrir hverja nótt án tillits til þess um hvers konar gistingu væri að ræða og á hvaða tíma, en ljóst er af orðalagi tölvupóstsins að gert var ráð fyrir því af hálfu stefnanda að umrætt verð fyrir gistingu myndi aðeins gilda til bráðabirgða. Ljóst er að gert var ráð fyrir að um frekari samninga yrði að ræða og yrði þá miðað við eitt fast gjald fyrir hvern mánuð, en ekki hefur verið leitt í ljós að slíkt samkomulag hafi verið gert og þá hvers efnis það hafi verið. Ekki hefur verið á því byggt af hálfu stefnda að neinn annar samningur hafi komist á í framhaldinu. Þá þykir ekki unnt að horfa fram hjá því að stefndi greiddi án athugasemda reikninga fyrir gistingu þar sem miðað var við annað og hærra einingaverð en kr. 2.000 fyrir manninn hverja nótt og hlaut honum því að vera ljóst þá þegar að stefnandi byggði ekki á því að hver nótt fyrir manninn skyldi kosta kr. 2.000.

         Stefndi hefur ekki byggt á því að fjöldi gistinátta sé rangur miðað við innheimtuna eða að verð fyrir gistinguna sé að öðru leyti úr hófi, óeðlilegt eða ekki í samræmi við verðskrá.

         Stefndi kveðst hafa selt stefnanda þá muni sem greinir á framangreindum reikningi, en ekki hafi þó verið samið sérstaklega um verð fyrir þá. Um þetta nýtur engra gagna við í málinu, þ.e. hvort komist hafi á um þetta einhvers konar samningur. Fyrir liggur að munirnir voru skildir eftir, en vitnið Þröstur lýsti því við aðalmeðferð að hann hafi leyft stefnda að hafa munina á lóðinni áður en þeir yrði fjarlægðir. Aldrei hafi komið til að stefnandi keypti muni þessa af stefnda, en það hafi þó staðið til boða. Gegn andmælum stefnanda og að virtum framburði vitnisins Þrastar er alls ósannað að stefnandi hafi keypt muni þessa af stefnda og skuldi honum fé vegna þess. Verður skuldajöfnuði því hafnað.

         Að framangreindu virtu verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umkröfðu fjárhæð með dráttarvöxtum eins og krafist er og í dómsorði greinir, en ekki hefur stefndi haft uppi efnisleg mótmæli við réttmæti dráttarvaxtakröfunnar.

         Þá verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð kr. 559.980 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. 

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Fagco ehf., greiði stefnanda, V.I.P. Drífanda ehf., kr. 824.507,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 824.507,- frá 23.11.2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 559.980 í málskostnað.

           

                                                                  Sigurður G. Gíslason