• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys

         Ár 2018, mánudaginn 19. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur í máli nr. E-144/2017:

                                                                   José Enrique Olguin Bustamente

                                                                  (Höskuldur Þór Þórhallsson lögmaður)

                                                                  Trésmiðju Ingólfs ehf. og

                                                                  Vátryggingafélagi Íslands hf.

                                                                  til réttargæslu

                                                                  (Jón Eðvald Malmquist lögmaður)

 

         Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 15. ágúst   sl.

         Stefnandi er José Enrique Olguin Bustamente, Bergöldu 8, Hellu.

         Stefndi er Trésmiðja Ingólfs ehf., Freyvangi 16, Hellu. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands, Ármúla 3, Reykjavík.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.853.200 krónur ásamt 4,5% vöxtum af 11.095.778 krónum frá 15. ágúst 2014 til 31. mars 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 20.853.200 krónum frá 31. mars 2016 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Trésmiðju Ingólfs ehf. vegna þess líkamstjóns er stefnandi varð fyrir í vinnuslysi við Grjóthálsbraut 3 í Grímsnesi þann 14. ágúst 2014. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi í máli þessu. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins eða eftir málskostnaðarreikningi. Réttargæslustefndi gerir engar kröfur.

 

 

 

Málavextir.

 

         Málavextir eru þeir að stefnandi vann sem smiður hjá hinni stefndu trésmiðju og mun ásamt vinnufélaga sínum hafa verið að festa klæðningu úr timbri utan á vindskeið á húsgafli fasteignarinnar að Grjóthálsbraut 3 í Grímsnesi þann 15. ágúst 2014. Mun stefnandi hafa staðið á lausum tröppum ofan á röraverkpalli og mun gólfið á pallinum hafa verið í 1,8 m hæð en gafl hússins í u.þ.b. fjögurra metra hæð. Áltröppunni mun hafa verið komið fyrir ofan á verkpallinum til þess að stefnandi næði í þakbrúnina. Samstarfsfélagi stefnanda mun hafa verið uppi á þakbrúninni með skrúfvél og mun hann hafa skrúfað timburklæðninguna fasta en stefnandi haldið við hana neðan frá. Stefnandi mun hafa misst jafnvægið í tröppunum, fallið yfir steinvegg og lent við inngang hússins á malarundirlagi. Samkvæmt mælingum lögreglu mun hann hafa fallið úr u.þ.b. 3,15 m hæð. Stefnandi mun hafa verið fluttur á sjúkrahús og þar hafi hann m.a. verið greindur með þverbrot í gegnum mjaðmargrind og hafi brotið verið tilfært um rúman sentímetra. Hafi hann gengist undir aðgerð og brotið rétt og fest með plötu og skrúfum. Stefnandi segist enn finna fyrir verulegum verkjum og í áverkavottorði  A, læknis, dagsettu 14. október 2015, kemur fram að hann búi við skerðingu við snúning um mjöðm og eymsli yfir mjaðmarliðum. Talið er ólíklegt að stefnandi snúi aftur til þungrar vinnu og líklegt að hann þurfi að gangast undir frekari aðgerðir og þá í formi gerviliðsskipta.

         Vinnueftirlitið mun hafa verið kallað á vettvang og í skýrslu þess segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi misst jafnvægið þegar hann hafi verið á leið niður úr tröppunum og fallið yfir steinvegg við inngang hússins. Í skýrslunni kemur fram að mikil rigning hafi verið á slysstað og hefði ekki verið hægt að stilla verkpallinum upp við dyr hússins þar sem múrarar hefðu á sama tíma verið að leggja í gólf inni í húsinu og aðgangur að dyrunum hefði því þurft að vera greiður. Var það niðurstaða rannsóknar Vinnueftirlitsins að rekja mætti orsök slyssins til þess að ekki hefði verið notaður réttur búnaður við verkið þar sem notaðar hafi verið lausar tröppur uppi á vinnupalli við vinnu í hæð. Þá hafi verið skortur á skriflegu áhættumati og áætlun um forvarnir fyrir verkþáttinn og þá hafi veður verið meðvirkandi þáttur í orsökum slyssins. Með bréfi dagsettu 11. nóvember 2015 hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu og taldi gáleysi stefnanda hafa valdið slysinu.

         Með sameiginlegri matsbeiðni stefnanda og réttargæslustefnda þann 24. febrúar 2016 var óskað eftir mati á líkamstjóni stefnanda og er matsgerðin unnin af B lækni og C lögmanni og er hún dagsett 18. júlí 2016. Var tímabundið atvinnutjón stefnanda metið 100% frá 15. ágúst 2014 til 31. mars 2016. Tímabil  samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga var talið vera frá 15. ágúst 2014 til 31. mars 2016, þar af hafi stefnandi verið rúmfastur frá 15. ágúst 2014 til 28. ágúst sama ár, auk þriggja vikna til 22. september sama ár. Varanlegur miski skv. 4. gr. laganna var talinn nema 25 stigum og varanleg örorka skv. 5. gr. laganna taldist vera 25%. Stöðugleikapunktur var talinn vera 31. mars 2016.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

 

         Stefnandi byggir á því að hin stefnda trésmiðja beri skaðabótaábyrgð á slysinu, m.a. á grundvelli sakarreglunnar og eftir atvikum meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins liggi fyrir að meginorsök slyssins sé að rekja til þess að ekki hafi verið notaður réttur búnaður við verkið. Hafi verið notaðar lausar tröppur á vinnupalli sem skapað hafi mikla fallhættu. Hafi stefndi borið ábyrgð á þessu með vísan til 37. gr., sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 46/1980 og hafi hann látið stefnanda og samstarfsmanni hans einungis í té vinnupall og stiga. Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 37. gr. laganna skuli haga vinnu þannig og atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Þá skuli fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Stefnandi bendir einnig á sambærilegar reglur um aðstæður á vinnustöðum og um vélar og tæki og annan búnað í 42. gr. og 46. gr. laganna. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda komið á staðinn, skoðað aðstæður og ákveðið hvernig skyldi framkvæma verkið. Þá hafi hann einnig komið á staðinn á meðan stefnandi og vinnufélagi hans hafi unnið verkið og þá hefði hann hæglega átt að sjá að ekki væri gætt fyllsta öryggis við framkvæmd verksins. Stefndi hefði átt að útvega viðeigandi búnað sem hægt hefði verið að nota til að framkvæma verkið á sem öruggastan hátt auk þess sem  hann hefði átt að bíða með verkið meðan ekki hafi verið hægt að stilla verkpallinum upp á sem öruggustum stað. Verði háttsemi stefnda því metin honum til sakar, enda hafi hann skoðað aðstæður áður en hafist hafi verið handa, hann hafi ákveðið og gefið fyrirmæli um hvernig verkið skyldi framkvæmt. Þá hafi ekki legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir, sbr. 1. og. 2. mgr. 65. gr. a sömu laga, sbr. reglugerð nr. 920/2006. Þar sem stefndi hafi ekki gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn eða umræddan verkþátt, megi ljóst vera að hann hafi einnig brotið gegn ofangreindum ákvæðum.

         Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi brotið gegn reglugerð nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og aðra tímabundna mannvirkjagerð. Í gr. 19.1 segi m.a að ganga skuli frá stigum þannig að ekki sé hætta á að þeir velti eða skríði til. Stefndi hefði þurft að sjá til þess að stiginn væri ekki laus ofan á vinnupallinum, sér í lagi þar sem hellirigning hafi verið. Í gr. 31.1. segi að ef framkvæma skuli vinnu á þaki sem vegna halla þess, áferðar þakflatar eða vegna veðurskilyrða geti orsakað að starfsmenn falli niður, megi ekki hefja vinnu fyrr en nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar. Umrætt þak hafi verið með halla og mikil rigning á slysdegi. Stefndi hefði því þurft að sjá til þess að nauðsynlegar öryggisráðstafanir yrðu gerðar, en hann hafi ekki sinnt þeim skyldum sínum.

         Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, en í 5. gr. hennar segi að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum séu látin í té innan fyrirtækisins henti til þeirra verka sem vinna eigi þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Hefði stefndi átt að gera sér grein fyrir því að öryggi starfsmanna hans væri ekki best tryggt með því að nota lausa tröppu ofan á vinnupall og hefði hann átt að útvega betri tæki til verksins til þess að tryggja ítrasta öryggi starfsmanna sinna. Stefnandi byggir á gr. 4.1.1 í II. viðauka í sömu reglugerð þar sem segi að við tímabundna vinnu í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi skuli velja þau tæki sem best tryggi öruggar starfsaðstæður. Þá komi fram í ákvæðinu að umferð til eða frá aðgangsleiðum vinnupalla megi ekki auka hættu á falli. Ekki hafi verið hægt að stilla vinnupallinum upp á ákjósanlegum stað þar sem útgangur hafi þurft að vera greiður, stigi hafi verið ofan á pallinum og byrjað hafi að rigna kröftuglega. Sé brot stefnda á þessu ákvæði skýrt þar sem hann hefði átt að sjá til þess að umferð um aðgangsleið pallsins yki ekki fallhættu. Þá segi um stiga í gr. 4.2.1 að þeir verði að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun og að færanlegir stigar verði að hvíla á stöðugu og traustu undirlagi af heppilegri stærð. Þá segi í gr. 4.2.2 að koma skuli í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun. Það hafi stefndi ekki gert og beri hann ábyrgð á því. Sé því ljóst að slysið megi rekja til þess að stefndi hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar, stefnandi hafi notað þau áhöld sem til hafi verið og hafi stefndi ekki séð til þess að sá búnaður væri fullnægjandi.

         Stefnandi heldur því fram að fyrirsvarsmaður stefnda hafi farið sem verkstjóri og yfirmaður á vinnusvæðið og skoðað aðstæður með starfsmönnum sínum áður en verkið hafi hafist og þá hafi hann fylgst með þeim vinna verkið. Hefði honum mátt vera ljóst að aðstæður væru langt frá því að vera fullnægjandi. Ekki hafi verið unnt að lækka verkpallinn svo hægt væri að framkvæma verkið á honum einum og ekki hafi verið útvegaður neinn búnaður til að festa stigann og þess vegna hafi hann runnið til þegar stefnandi hafi notað hann. Þá getur stefnandi ekki séð að gúmmí hafi verið undir fótum stigans. Stefnandi telur því liggja í augum uppi að stefndi hafi valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og beri því skaðabótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli sakarreglunnar og eftir atvikum reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.

         Stefnandi bendir á viðurkennd leiðbeiningarsjónarmið við sakarmat sem mótast hafi í dómaframkvæmd, í fyrsta lagi hafi verið litið til þess hve mikil hætta hafi verið á tjóni, í öðru lagi hve mikið tjón hafi verið líklegt, í þriðja lagi hve auðvelt hefði verið fyrir tjónvald að gera sér grein fyrir hættu af tjóni og í fjórða lagi hvaða ráðstafanir hafi verið unnt að gera til að koma í veg fyrir tjón.

         Stefnandi telur að engu hefði breytt þótt gólf vinnupallsins hefði verið hækkað, enda hefði það haft í för með sér lækkun á handriðum pallsins. Miðað við staðsetningu pallsins hefði ekki verið hægt að bæta grindum ofan á hann og hefði verið útilokað að vinna verkið hefði það verið gert. Ekki hafi verið hægt að koma vinnupallinum fyrir beint undir þeim stað sem unnið hafi verið við þar sem á sama tíma hafi verið unnið við að leggja gólf inni í húsinu og því hafi ekki mátt hindra aðgang í gegnum útidyr. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda ákveðið sem verkstjóri að koma vinnupallinum fyrir hinum megin við stoðvegg sem legið hafi við útidyr hússins.

         Stefnandi byggir á því að verði fallist á að gáleysi stefnanda hafi valdið slysinu þá sé ætlað gáleysi hans svo smávægilegt að ekki sé rétt að skipta sök. Stefnandi vísar til 23. gr. a skaðabótalaga þar sem áskilið sé að ef skerða eigi rétt starfsmanns til bóta vegna líkamstjóns í starfi vegna meðábyrgðar hans, þurfi hann að hafa af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í tjónsatburður hafi orðið. Ætlað frávik stefnanda frá viðurkenndu verklagi hafi ekki verið svo alvarlegt að háttsemi hans verði talin stórkostlegt gáleysi samkvæmt áðurgreindri lagagrein. Þá beri ekki einungis að líta til eigin sakar tjónþola, heldur einnig sakar tjónvalds. Sé sök tjónvalds mikil hefur verið talið rétt að fella alla bótaábyrgð á hann þrátt fyrir sök tjónþola sjálfs. Telur stefnandi brot stefnda á áðurgreindum laga- og reglugerðarákvæðum það alvarleg og frávik frá þeim það mikið að verði fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér einhverja sök beri að líta framhjá henni vegna þess hve mikil sök stefnda hafi verið.

         Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að krafist sé bóta fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 31. mars 2016 þegar heilsufar hans hafi verið orðið stöðugt, sbr. 2. gr. skaðabótalaga og nemur fjárkrafa hans af þessum sökum 7.459.978 krónum. Krafa um bætur fyrir þjáningar, sbr. 3. gr. sömu laga, er miðuð við að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í alls 35 daga og veikur án rúmlegu í 560 daga. Nemur fjárkrafa stefnanda samkvæmt þessum lið 1.168.300 krónum. Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska er miðuð við 25 stig, sbr. 4. gr. sömu laga og nemur 2.467.500 krónum. Þá hafi varanleg örorka stefnanda verið metin 25%, sbr. 7. gr. sömu laga og nemur fjárkrafa stefnanda samkvæmt þessum lið 9.757.422 krónum.

         Stefnandi reisir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

 

         Stefndi byggir á því að stefndi eða starfsmenn sem hann beri ábyrgð á eigi hvorki sök á slysi stefnanda né hafi háttsemi þeirra orsakað tjónið. Hafi stefnanda ekki tekist að sanna að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið tjóni hans með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Þá séu engar þær aðstæður uppi sem heimili að sönnunarbyrði verði snúið við eða slakað verði á sönnunarkröfum. Slysið hafi bæði verið tilkynnt til lögreglu og Vinnueftirlitsins, sem hafi rannsakað slysið. Samkvæmt niðurstöðu þess hafi aðalorsök slyssins verið að ekki hafi verið notaður réttur búnaður við verkið, notaðar hafi verið lausar tröppur á vinnupalli. Stefndi byggir á því að hann eigi ekki sök á því. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að nota lausar tröppur ofan á vinnupallinn en það sé alvarlegt frávik frá hefðbundnu verklagi. Hvorki stefndi né aðrir starfsmenn hans hafi tekið þá ákvörðun. Hafi stefnanda verið í lófa lagið að hækka vinnupallinn eða gólf hans til að ná upp í gafl hússins, en allur búnaður til þess hafi verið til staðar. Hvorki stefndi né aðrir starfsmenn hans hafi skipað svo fyrir að notast skyldi við lausar tröppur ofan á vinnupalli, enda megi hverjum manni vera ljóst hversu hættulegt það verklag sé. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið það og þá hafi verk það sem stefnandi hafi  unni verið einfalt og hættulaust ef rétt væri staðið að verki. Stefnandi hafi sjálfur stjórnað verkinu, hann hafi unnið lengi hjá stefnanda og vegna reynslu sinnar og þekkingar hafi honum verið treyst til að vinna verkið og láta vita ef einhverju væri ábótavant. Stefnandi hafi haft yfirumsjón með verkinu og því borið skyldur verkstjóra skv. gr. 20-23 í lögum nr. 46/1980. Hafi honum borið að sjá til þess að búnaður væri góður og öruggur og yrði hann var við einhver atriði sem leitt gætu til hættu á slysum  hefði honum borið að tryggja að hættunni yrði afstýrt. Þetta hafi stefnandi ekki gert og hafi þann þannig brotið þær skyldur sem á hann séu lagðar samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum. Þá byggir stefndi á því að stefnanda hafi skv. 2. mgr. 26. gr. laganna borið að tilkynna yfirmönnum sínum ef hann hafi ekki talið sig geta unnið verkið með þeim viðurkenndu tækjum sem vinnuveitandi hans hafi útvegað. Hafi honum sjálfum borið að gæta þess að nota ekki stiga á þann hátt sem hann hafi gert og augljóslega hafi verið hættulegt og ekki hentað í verkið.

         Stefndi byggir á því að orsaka slyssins sé ekki að rekja til þeirra tækja eða búnaðar sem stefndi hafi útvegað til verksins eða ætlaðs skorts á verkstjórn eða áhættumati. Orsakirnar liggi í þeirri háttsemi stefnanda sjálfs að setja lausar tröppur ofan á vinnupall og vinna í mikilli hæð. Hafi reyndur starfsmaður eins og stefnandi átt að gera sér grein fyrir að slíkt væri mjög hættulegt. Hafi hann ekki talið fullnægjandi að vinna verkið með þessum hætti hafi hann átt að tilkynna stefnda að þetta væri ekki rétt verklag eða að það vantaði fullnægjandi tæki.

         Stefndi byggir í öðru lagi á eigin sök stefnanda og sé stórfellt gáleysi hans aðalorsök slyssins og ætluð sök stefnda hverfandi þannig að stefnandi verði að bera allt sitt tjón sjálfur. Hafi stefnandi öðrum fremur mátt gera sér grein fyrir fyrir hættunni af verklaginu í ljósi starfsreynslu sinnar. Þá hafi hann stjórnað verkinu og því borið að uppfylla þær skyldur sem lagðar séu á verkstjóra samkvæmt lögum nr. 46/1980. Við mat á því hvort um stórkostlegt gáleysi sé að ræða skuli sem endranær líta til þeirra skráðu hátternisreglna sem gilt hafi um háttsemina og sé þá viðurkennt að víki háttsemin með veigamiklum hætti frá því sem reglur geri ráð fyrir geti verið um stórkostlegt gáleysi að ræða. Þá beri að líta til almennra sjónarmiða, svo sem hve mikil hætta hafi verið á tjóni, hve mikið tjón hafi verið líklegt, hve auðvelt hafi verið að gera sér grein fyrir hættu á tjóni og hvaða ráðstafanir hafi verið unnt að gera til að koma í veg fyrir tjón. Þá beri að líta til þess hvernig huglæg afstaða birtist í háttsemi, þ.e. hvort háttsemin gefi til kynna skeytingarleysi um  mögulega hættu og mögulegar afleiðingar athafna. Þá hafi verið litið svo á að það hafi sérstakt vægi hvaða þekkingu eða reynslu viðkomandi hafi haft á umræddu sviði, hvort hann hafi gert sér grein fyrir því hvaða reglur giltu, hve mikil hætta hafi verið á tjóni og hvernig hafi mátt koma í veg fyrir hættuna. Með vísan til framangreinds telur stefndi einsýnt að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og að sú háttsemi hafi verið aðalorsök þess að slysið varð. Stefnandi hafi unnið hjá stefnda í um 10 ár við smíðar og umrætt verk ekki verið flókið. Öll öryggistæki hafi verið til staðar og með því að nýta þau ekki við starf sitt hafi stefnandi gerst brotlegur við verklagsreglur og hagað sér með öðrum og mun óvarfærnari hætti en venjan hafi verið á umræddum vinnustað. Sérstaklega sé vítavert að notast við lausar tröppur ofan á vinnupalli þegar einfalt hafi verið að hækka vinnupallinn og þá hafi hann ekki notað öryggishjálm.  Sé ljóst að athafnir stefnanda hafi vikið svo mjög frá þeirri hegðan sem ætlast megi til af góðum og gegnum einstaklingi með sömu reynslu og vitneskju og stefnanda hafi haft að ekki sé annað hægt en að meta háttsemi stefnanda til stórfellds gáleysis. Hafi háttsemi stefnanda borið þess merki að hann hafi sýnt aukið skeytingarleysi um eigið öryggi og sé sérstaklega vísað til þess að stefnandi hafi verið vanur að setja upp verkpalla og hafi hann vitað eða mátt vita að auðvelt hafi verið að breyta verkpallinum svo hann hentaði fyrir verkið og þá hafi hann ekki einu sinni notað hjálm.

         Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn lögum nr. 46/1980 og jafnframt mótmælir hann því að hafa borið ábyrgð á því að notaðar hafi verið lausar tröppur við verkið. Það hafi stefnandi sjálfur ákveðið og þá hafi veðrið ekkert haft með það að gera að stefnandi hafi ákveðið að notast við lausar tröppur og ekkert bendi til þess að ekki megi vinna á vinnupöllum í rigningu. Þá mótmælir stefndi því að orsakir slyssins sé að rekja til þess að ekki hafi legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir er varði umræddan verkþátt. Þá mótmælir stefndi því að hafa brotið gegn reglugerð nr. 547/1996. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi misst jafnvægið og hafi það ekkert haft með það að gera hvernig gengið hafi verið frá stiganum. Að því er gr. 31.1., 31.3 og 31.4 varðar byggir stefndi á því að um sé að ræða ákvæði þegar um vinnu á þaki sé að ræða. Stefnandi hafi ekki verið að vinna á þaki, hann hafi unnið af verkpalli. Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn reglugerð nr. 367/2006 þar sem nauðsynlegur búnaður hafi verið til staðar, þ.e. verkpallur sem hægt hafi verið að breyta til að framkvæma verkið. Stefndi hafi ekki ákveðið að notast skyldi við lausan stiga ofan á verkpallinum. Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn ákvæðum í II. viðauka reglugerðarinnar. Stefndi hafi einmitt valið tæki sem tryggt hafi öruggar starfsaðstæður. Þá reyni ekkert á aðgangsleiðir að verkstað í máli þessu, aðgangur að verkstaðnum hafi verið fullnægjandi og ekkert haft með slys stefnanda að gera. Þá liggi ekkert fyrir um að það að stiginn hafi verið laus á pallinum hafi valdið slysinu. Stefnandi hafi misst jafnvægið og það hvernig gengið hefði verið frá stiganum hafi ekkert haft með slysið að gera.

         Stefndi mótmælir því að fyrirsvarsmaður hans, Ingólfur Kristinn Rögnvaldsson, hafi verið verkstjóri yfir verkinu umrætt sinn. Stefnandi hafi sjálfur stjórnað verkinu, en það hafi ekki verið flókið. Þá er því mótmælt að Ingólfur hafi fylgst með verkinu og hefði mátt gera sér grein fyrir því að aðstæður hafi verið langt frá því að vera með fullnægjandi hætti. Hann hafi ekki verið á verkstað, enda hefði hann aldrei leyft að notast við lausar tröppur ofan á vinnupalli.

         Stefndi mótmælir kröfufjárhæð stefnanda og að því er tímabundið atvinnutjón varðar sé engin grein gerð fyrir því í stefnu af hverju sé miðað við 382.563 krónur í mánaðarlaun. Þá séu engin gögn sem sýni staðgreiðslu á árinu 2014. Mánaðartekjur árið 2013 hafi verið 354.768 krónur og sé því ljóst að miða beri við þær tekjur verði fallist á kröfu stefnanda. Þá beri samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga að draga frá greiðslur frá opinberum tryggingum og vátryggingabætur, en ekki sé tekið tillit til þessa í stefnu. Þá beri að draga frá laun sem stefndi hafi greitt til stefnanda á þessu tímabili, samtals 3.458.373 krónur auk annarra greiðslna og telur stefndi að lækka beri kröfu stefnanda um a.m.k. 5.194.932 krónur. Þá vanti einnig upplýsingar um aðrar greiðslur, t.d. staðgreiðsluyfirlit fyrir árin 2014 og 2016. Stefndi kveður ekkert koma fram um það í stefnu hvernig þjáningabætur séu uppreiknaðar. Stefndi byggir á því að miða eigi við vísitölu í þeim mánuði sem stefnandi telji að upphaf dráttarvaxta skuli miða við. Eigi því að reikna þjáningabætur hvern dag sem stefnandi hafi verið rúmfastur, 3.350 krónur og 1.800 krónur hvern dag sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmfastur. Skuli þjáningabætur því aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemi 1.125.250 krónum. Þá byggir stefndi á 2. málslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga þar sem segi að nemi bætur meira en 200.000 krónum (sem uppreiknað miðað við mars 2016 séu 515.356 krónur) sé heimilt að víkja frá fjárhæðum sem greini í 1. málslið. Telur stefndi því að bætur fyrir þjáningar skuli ekki nema hærri fjárhæð en 515.356 krónum. Þá byggir stefndi á því að lækka beri kröfuna vegna greiðslna sem stefnandi hafi fengið og eigi rétt á, sbr. 2. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Það vanti alveg í stefnu að gera grein fyrir þeim greiðslum sem stefnandi hafi fengið greitt eða eigi rétt á og draga frá kröfunni. Þá kveður stefndi ekki koma fram í stefnu við hvaða tímabil sé miðað þegar bætur fyrir varanlegan miska séu uppreiknaðar. Byggir stefndi á því að stefnandi eigi í mesta lagi rétt á 2.406.125 krónum ef miðað sé við mars 2016. Þá beri að lækka kröfuna vegna greiðslna sem stefnandi hafi fengið, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna, en þessa sé ekki getið í stefnu. Stefndi byggir á því að lækka beri kröfu stefnanda um greiðslu fyrir varanlega örorku vegna greiðslna sem stefnandi hafi fengið, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna, en þessara greiðslna sé ekki getið í stefnu. Hafi stefnandi fengið greiddar 4.385.934 krónur frá réttargæslustefnda þann 9. ágúst 2016 og beri að lækka kröfuna um þá fjárhæð. Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu og byggir á því að miða eigi dráttarvexti í fyrsta lagi við það tímamark þegar mánuður var liðinn frá því matsgerð lá fyrir, eða 18. ágúst 2016.

         Stefndi byggir varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og í aðalkröfu, m.a. varðandi eigin sök og stórfellt gáleysi.

         Krafa um málskostnað er reist á 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða.

 

         Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi er hann starfaði hjá stefnda við byggingu fasteignar að Grjóthálsbraut 3 í Grímsnesi. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem  hann varð fyrir í vinnuslysinu. Ekki virðist ágreiningur með aðilum um það hvernig slysið vildi til, en stefnandi mun hafa verið að vinna við að festa klæðningu úr timbri utan á vindskeið á gafli hússins ásamt samstarfsmanni sínum sem var uppi á þakbrúninni. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem kallað var á vettvang, segir að notaður hafi verið röraverkpallur úr áli og hafi gólf hans verið í um 1,8 m hæð. Til þess að ná upp í þakbrúnina hafi áltröppu verið stillt upp á verkpallinn, enda hafi ekki verið hægt að hafa verkpallinn það háan að hægt væri að framkvæma verkið á honum einum. Segir í skýrslunni að slysið hafi orðið með þeim hætti að þegar stefnandi var á leið niður úr tröppunum hafi hann misst jafnvægið og fallið yfir steinvegg við inngang hússins úr u.þ.b. 2,5 m hæð og lent á malarundirlagi. Ekki er ágreiningur um þá áverka sem stefnandi hlaut í slysinu en stefndi gerir ýmsar athugasemdir við tölulega kröfugerð stefnanda. Lagðar hafa verið fram ljósmyndir af vettvangi þar sem verkpallurinn sést ásamt tröppunni ofan á honum. Verður að telja nægilega sannað að stefnandi hafi dottið úr áltröppunni, enda vandséð hvernig hann hefði getað dottið yfir handrið verkpallsins hefði hann staðið á gólfi hans.

         Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri ekki menntaður smiður. Hann kvaðst ekki hafa verið verkstjóri þegar hann vann umrætt verk hjá stefnda. Hann kvað Ingólf (fyrirsvarsmanna stefnda) hafa fyrirskipað að verkið skyldi unnið og hefði hann komið á verkstað dagana á undan en ekki á slysdegi. Hann hafi séð þann aðbúnað sem hefði verið notaður við verkið og hafði hann sagt að nota skyldi verkpall og tröppu og hafi hann sagt hvernig pallinum skyldi stillt upp en þeim hafi ekki verið sagt að setja neitt undir hann. Hann hafi ekkert farið yfir öryggismál að öðru leyti en því að hann hafi sagt þeim að fara varlega. Stefnandi mundi ekki hvernig á því stóð að hann datt úr tröppunni. Hann kvaðst ekki muna hver hafi sett tröppuna á vinnupallinn en það hafi verið einhver af þeim þremur sem unnið hafi á pallinum.

         Ingólfur Kristinn Rögnvaldsson, fyrirsvarsmaður stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekki verið á staðnum þegar slysið varð en hann hafi farið reglulega á vettvang dagana á undan. Hann kvaðst ekki vita hver hefði tekið ákvörðun um að nota tröppu ofan á vinnupallinum, það væri stórhættulegt og raunar bannað.

         Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hann mundi ekki eftir því hvort Ingólfur hefði komið á verkstað daginn sem slysið varð. Hann kvaðst ekki hafa séð hvort stefnandi hafi staðið í tröppunni þegar hann datt. Hann kvaðst ekki muna hver hafi tekið ákvörðun um að nota tröppuna við verkið. 

         Vitnið E skýrði svo frá fyrir dómi að hann vissi ekki hver hefði tekið ákvörðun um að setja tröppu á vinnupallinn.

         Samkvæmt framansögðu er því ósannað að fyrirsvarsmaður stefnda hafi mælt svo fyrir um að nota skyldi áltröppu ofan á verkpallinum við það verk sem stefnandi vann umrætt sinn og þá hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi verið á vettvangi umræddan dag og séð starfsaðferðir stefnanda að þessu leyti. Stefnanda, sem hafði unnið hjá stefnda um árabil, hlaut að hafa verið ljóst að þessi vinnubrögð voru stórhættuleg og til þess fallin að valda honum miklum skaða. Ef hann hefði talið að verkið yrði ekki unnið með öðrum hætti hefði honum borið að bregðast við með því að tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 og krefjast úrbóta. Það gerði stefnandi ekki og kaus að nota áltröppuna með framangreindum afleiðingum. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að slys stefnanda verði rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á og þá verður ekki talið að hugsanleg frávik stefnda frá lögum nr. 46/1980 og reglugerðum settum samkvæmt þeim að því er varðar t.d. skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir geti eins og á stendur í þessu máli fellt skaðabótaábyrgð á stefnda. Hins vegar þykir nægilega sannað að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með verklagi sínu með þeim afleiðingum að hann slasaðist og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

         Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi í máli þessu með bréfi innanríkisráðuneytis dagsettu 13. janúar 2016. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Höskuldar Þórs Þórhallssonar og þóknun lögmanns hans á fyrri stigum málsins, Guðjóns Ólafs Jónssonar, samtals 2.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar, 222.574 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

DÓMSORÐ:

 

         Stefndi, Trésmiðja Ingólfs ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, José Enrique Olguin Bustamente, í máli þessu.

         Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun Höskuldar Þórs Þórhallssonar lögmanns og þóknun lögmanns hans á fyrri stigum málsins, Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, samtals 2.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar, 222.574 krónur, greiðist úr ríkissjóði.          

 

                                                                  Hjörtur O. Aðalsteinsson.