• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 19. mars í máli nr. S-40/2019:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Antoni Erni Guðnasyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 14. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 8. febrúar sl., á hendur Antoni Erni Guðnasyni,  til dvalar í fangelsinu að Litla-Hrauni, Eyrarbakka,  

 

I. fyrir fíkniefnalagabrot

með því að hafa, föstudaginn 27. júlí 2018, í klefa sínum í fangelsinu að Litla-Hrauni á Eyrarbakka, haft í vörslu sinni 146 einingar af lýsergíði (LSD) og 2,80 g af kókaíni sem fangaverðir fundu við leit í klefa ákærða.

 

II.                       fyrir fíkniefnalagabrot

með því að hafa, fimmtudaginn 6. desember 2018, í klefa sínum í fangelsinu að Litla-Hrauni á Eyrarbakka, haft í vörslu sinni 0,30 g af ávana- og fíkniefninu MDMB-CHMICA sem fangaverðir fundu við leit í klefa ákærða.

 

Teljast brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrár lögreglu nr. 38621 og 39585) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt Þorgilsi Þorgilsyni lögmanni sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði þrisvar sinnum áður sætt refsingu og þar að auki einni skilorðsbundinni ákærufrestun. Þann 23. nóvember 2018 var ákærði í Landsrétti fundinn sekur um líkamsárás og tilraun til manndráps og gert að sæta fangelsi í fimm ár og sex mánuði. Brot það sem tilgreint er í I. lið ákæru og ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú að hluta dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Að virtum atvikum máls þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 218.869 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda ákærða og er hæfilega ákveðin 316.200 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts auk ferðakostnaðar verjanda, sem nemur 24.750 kr.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Anton Örn Guðnason, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Gerðar eru upptækar 146 einingar af lýsergíði (LSD), 2,8 g af kókaíni og 0,3 g af ávana- og fíkniefninu MDMB-CHMICA, sbr. efnaskrár lögreglu nr. 38621 og 39585.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals 559.819 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 316.200 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnað verjanda, 24.750 krónur.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.