• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 6. apríl 2018 í máli nr. S-15/2018:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Ágústi Líndal Ágústssyni

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 22. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 8. janúar sl., á hendur Ágústi Líndal Ágústssyni,  óstaðsettum í hús í Kópavogi,   

 

I.             fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, sunnudaginn 5. nóvember 2017, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, MDMA, metamfetamíns og tetrahýdrókannabínóls vestur Suðurlandsveg á móts við Tún í Flóahreppi.

 

II.                       fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 6. nóvember 2017, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, MDMA, metamfetamíns og tetrahýdrókannabínóls um Suðurlandsveg í Kömbum í Sveitarfélaginu Ölfusi.

 

Teljast brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a  umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru í Lögbirtingablaði þann 20. febrúar sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar I, kemur fram að amfetamín, MDMA, metamfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 365 ng/ml, MDMA 755 ng/ml, metamfetamín 235 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,0 ng/ml. Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar II, kemur fram að amfetamín, MDMA, metamfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 170 ng/ml, MDMA 295 ng/ml, metamfetamín 105 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,0 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði og öðrum gögnum hefur ákærði tíu sinnum áður sætt refsingu. Þann 1. september 2006 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna ölvunaraksturs og hann jafnframt sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Þann 12. júní 2008 var ákærða gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots. Þann 20. júní 2008 var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, auk þess sem hann var þá sviptur ökurétti í þrjú ár. Þann 11. janúar 2010 var ákærða gerð sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 29. mars 2012 var ákærða gert að sæta fangelsisrefsingu vegna ölvunaraksturs auk annarra umferðarlagabrota, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Þann 31. janúar 2014 var ákærða gerð fangelsisrefsing vegna ölvunaraksturs, fíkniefnaaksturs og akstur sviptur ökurétti. Þá var ævilöng svipting ökuréttar hans áréttuð. Þann 18. febrúar 2016 var ákærða gerð fangelsisrefsing vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, auk annarra brota. Var þá enn áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða. Loks var ákærði þann 11. desember 2017 meðal annars fundinn sekur um ölvunarakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Var honum þá gert að sæta fangelsi í sex mánuði og enn áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 452.554 kr.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ágúst Líndal Ágústsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði sakarkostnað 452.554 krónur.

 

                                                                        Sigurður G. Gíslason.