• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Skilorð

Árið 2018, mánudaginn 5. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-201/2017:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi )

gegn

Herluf Ingvari Clausen

(Sigmundur Hannesson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 11. október 2017, á hendur Herluf Ingvari Clausen, Fróðengi 20, Reykjavík

                     

„fyrir líkamsárás

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí 2016 við tjaldsvæðið við Áshamar í Vestmannaeyjum veist að A og slegið hann þungu hnefahöggi í andlitið þannig að hann féll í jörðina. Af högginu hlaut A nefbrot, töluverða aflögun og bólgu á nefi, dofa í kringum nef vinstra megin, væga bólgu á vinstra augnloki og brot á gólfi vinstri augnumgjarðar.

(Mál nr. 319-2016-2722)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Aníta Óðinsdóttir, hdl., hefur krafist þess fyrir hönd A að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 1.260.400,- auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. júlí 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa var kynnt fyrir ákærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

 

 

Málið var þingfest 9. nóvember 2017.

Ákærði neitar sök og hafnar framkominni bótakröfu.

Aðalmeðferð málsins fór fram 7. febrúar 2018 og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

Af hálfu brotaþola hefur fjárhæð umkrafinna bóta verið lækkuð og er nú krafist kr. 1.000.000 í miskabætur, auk þess að krafist er þóknunar úr ríkissjóði fyrir skipaðan réttargæslumann.

Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en til þrautavara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa, en jafnframt að bótakrafa brotaþola sæti verulegri lækkun. Þá er gerð krafa um hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði.

 

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu þann 31. júlí 2016 barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um slagsmál við VIP-tjaldsvæðið á Áshamarstúni og voru gæslumenn með mann í tökum. Fór lögregla á staðinn og við komu sá lögregla gæslumennina B og C með ákærða í tökum á Áshamri á móts við hús nr. 40. Sá lögregla hvernig ákærði var að reyna að losa sig. Brást lögregla skjótt við og handjárnaði ákærða, en í skýrslunni segir að ákærði hafi streist á móti handtökunni og reynt að spenna allan líkama sinn og komast hjá handjárnum.

Kemur fram í skýrslunni að ákærði hafi verið óviðræðuhæfur með öllu og verulega æstur. Hafi hann sjáanlega verið undir miklum áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Var ákærði færður í lögreglubíl og fangageymslu, en ástand hans hafi verið þannig að ekki hafi verið unnt að kynna honum réttarstöðu sakbornings.

Segir í frumskýrslu að lögregla hafi á vettvangi rætt við þá B og C hvorn í sínu lagi. Hafi þeir skýrt frá á sömu lund, að ákærði hafi gengið upp Áshamar í átt að tjaldsvæðinu og verið með brotaþola og D. Hafi ákærði verið agressívur í garð brotaþola og hafi þeim lent eitthvað saman. Hafi B og C farið á milli þeirra til að koma í veg fyrir slagsmál. Þá hafi brotaþoli og D gengið frá ákærða og þeir B og C haldið að þetta væri búið og að ákærði myndi fara sína leið. Skyndilega hafi ákærði hlaupið á eftir brotaþola og D og öskrað eitthvað áður en hann hafi kýlt brotaþola með föstu hnefahöggi í andlit. Hafi þá B og C farið aftur að brotaþola og tekið hann niður á jörðina og hafi brotaþoli ítrekað reynt að bíta B í hendurnar.

Þá segir að rætt hafi verið við brotaþola og hafi hann sagt að hann hafi verið að rífast við kærustu sína, C, en þá hafi ákærði komið að þeim og skipt sér af samskiptum þeirra. Hafi brotaþoli sagt að hann og C hafi bæði sagt ákærða að allt væri í góðu og beðið hann að fara. Ákærði hafi þó ekki farið og svo kýlt brotaþola með krepptum hnefa í andlitið, einu til tveimur höggum. Þá hafi gæslumenn komið.

Segir að mátt hafi sjá áverka á nefi brotaþola, líklega nefbrot. Hafi jafnframt verið skurður neðan við vinstra auga. Einnig hafi mátt sjá áverka hægra megin á hálsi brotaþola. Hafi brotaþoli ekki alveg verið áttaður á hvað hafi gerst eftir höggið. Þá segir að D hafi skýrt frá á sama hátt og brotaþoli.

Jafnframt kemur fram að á lögreglustöð hafi ákærði kvartað yfir því að lögregla hafi skellt höfði hans í jörðina og því væri hann slasaður á höfði. Hafi ákærði fengið þessa áverka eftir að hafa skallað höfði sínu utan í vegg í fangaklefa sínum.

Lögregla tók skýrslu af ákærða daginn eftir atvikið og kvað hann brotaþola hafa verið að rífast við einhverja stelpu og „drulla yfir hana“. Hafi ákærði komið að þeim og skipt sér af þessu og hafi þá brotaþoli slegið sig, en ákærði hafi þá kýlt brotaþola eitt högg. Hann hafi gert það með hægri hendi. Kvaðst ekki rengja það að hafa slegið brotaþola einu höggi.

Lögregla tók skýrslu af brotaþola og D og lýstu þau atvikum á líkan hátt, þ.e. að þau hafi verið eitthvað að þræta umrætt sinn og ákærði komið að, en þau sagt honum að fara og allt væri í lagi hjá þeim. Hafi brotaþoli ýtt við ákærða, en ákærði hafi síðan slegið brotaþola eitt högg í andlitið. Jafnframt tók lögregla skýrslu af B og C sem að ofan greinir, en ástæðulaust er að gera grein fyrir þeim.

Í vottorði E læknis, dags. 27. nóvember 2016, segir að F læknir hafi skoðað brotaþola 31. júlí 2016, en jafnframt hafi E skoðað brotaþola sama dag og vottorðið er ritað. Samkvæmt lýsingu læknis hafi verið töluverð aflögun og bólga á nefi. Væg bólga á vinstra augnloki ásamt samfarandi dofa á nefi vinstra megin. Tölvusneiðmynd af andlitsbeinum staðfesti að áverkinn hafi verið töluverður og hafi verið lýst nefbroti og svokallaðri „blowout fracturu“ í gólfi vinstri augnumgjarðar. „Blowoutfractura“ komi þegar mikið högg komi á augað og þrýstingurinn valdi í kjölfarið broti á „orbitae“, þ.e. augnumgjörð. Hér sé því um að ræða töluverðan áverka sem valdi bæði nefbroti og broti á augnumgjörð. Í nótu læknisins hafi komið fram að töluverð aflögun og bólga hafi verið á nefi. Væg bólga á vinstra augnaloki. Hafi brotaþoli lýst dofa kringum nef vinstra megin. Grunur sé um nefbrot og ekki hægt að útiloka brot í öðrum andlitsbeinum. Þá segir að til staðar hafi verið nefbrot þar sem vinstri vængurinn virðist svolítið innfallinn og nefhryggur sé trúlega örlítið innfallinn og hliðraður til hægri. Nefbein hægra megin virðist þó heil og ekkert brot í „septum“. Það sé nánast „ódisloceruð blowout fractura“ vinstra megin. Brotið sjáist í raun bara alveg fremst þar sem „fragmentið“ sé 7 mm breitt, en brotalínan hverfi „posteriort“. Ekki sjáist „hernia“ á „orbital“ fitu. Svo hafi brotaþoli komið til skoðunar 27. nóvember 2016. Hafi hann þá fundið til óþæginda í andliti u.þ.b. mánuði eftir árás og verið með dofa í vinstri hluta andlits, þ.e. þar sem höggið hafi komið á nef, augnumgjörð og kinn. Fái enn verkjastingi í þann hluta andlitsins, u.þ.b. tvisvar í mánuði. Þá hafi hann ör undir auganu rúmlega 1 cm. Í samantekt segir að brotaþoli hafi fengið hnefahögg í vinstri hluta andlits, nef og augnumgjörð. Í kjölfarið bæði brot á vinstri hluta nefs og augnumgjörð. Enn finni brotaþoli fyrir óþægindum vegna þessa og beri lýti. Um sé að ræða töluverðan áverka.

Ekki eru efni til að gera frekari grein fyrir málavöxtum.

 

Forsendur og niðurstaða

Við aðalmeðferð skýrði ákærði frá því hann hafi verið á leið á tjaldsvæðið umrætt sinn og séð til brotaþola þar sem hann hafi komið illa fram við unnustu sína og hún hafi grátið. Hafi sér runnið blóðið til skyldunnar og hann því skipt sér af þessu. Hafi ákærði sagt brotaþola að koma ekki svona fram við konur. Hafi ákærði ýtt í brotaþola og brotaþoli ýtt á móti og sagt að þetta kæmi ákærða ekkert við. Hafi þeir ýtt hvor við öðrum en unnusta brotaþola beðið þá að hætta þessu. Hún hafi sagt að það væri allt í lagi með hana en hún þó verið grátandi. Hafi brotaþoli kýlt ákærða í andlitið og ákærði kýlt brotaþola á móti og brotaþoli við það farið í jörðina. Hafi ákærði staðið þar áfram og þá hafi gæslumenn komið og tekið ákærða niður í jörðina og haldið sér þangað til lögregla hafi komið. Hann hafi þannig kýlt brotaþola einu sinni. Kvaðst ákærði ekki vita hvort hann hafi sjálfur fengið áverka eftir högg frá brotaþola, en áverkar hafi verið á ákærða eftir gæslumenn og lögreglu. Þá lýsti ákærði því að brotaþoli hafi hrifsað tösku af unnustu sinni og kastað henni í jörðina en þá hafi ákærði hafið afskipti sín og ýtt við brotaþola. Ekki kvaðst ákærði vita um hvað þau hafi verið að rífast. Ákærði hafi fyrst ýtt við brotaþola og hann svo við ákærða. Ákærði kannaðist við að hafa verið að drekka áfengi áður en þetta hafi gerst, en ekki hafi hann verið undir áhrifum annarra vímugjafa. Þá kannaðist ákærði við að hafa séð blóð framan í brotaþola eftir að hann hafi farið í jörðina, en kvaðst ekki hafa tekið eftir að hafa orðið slíks var áður en hann hafi slegið brotaþola. Í raun hafi ekki vakað fyrir ákærða að slást við brotaþola. Unnusta brotaþola hafi beðið sig að hætta þessu og hún hafi ekki óskað eftir aðstoð hans. Ákærði kvaðst hafa kýlt brotaþola þar sem hann hafi fyrst kýlt sig. Kvaðst ákærði ekki hafa leitað læknis eftir þetta, þrátt fyrir að hann hafi borið áverka eftir á.

Aðspurður kvað ákærði að brotaþoli og unnusta hans hafi ekki verið í handalögmálum, en hann hafi þó tekið í öxl hennar og tekið af henni töskuna og hent henni frá sér, en þá hafi unnustan farið og tekið töskuna og þá hafi ákærði farið að skipta sér af þessu. Þá kannaðist ákærði við að hafa skaðað sig í fangaklefa með því að skalla vegginn og bar að hann hafi átt við vanda að stríða, m.a. vegna reiði.

Vitnið A, brotaþoli, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið að ganga heim úr Herjólfsdal ásamt unnustu sinni, D. Þau hafi verið eitthvað að þræta og brotaþoli hafi kastað frá sér tösku og hún hafi farið að sækja töskuna. Í því hafi ákærði komið og verið með einhvern kjaft og hafi sagt sér að hætta að vanvirða konur. Hafi brotaþoli reynt að fá ákærða til að hætta þessu. Þá hafi ákærði ýtt í brotaþola sem hafi ýtt á móti, aðallega til að koma ákærða frá sér, en brotaþoli hafi bara viljað komast heim. Þá hafi gæslumenn komið á milli þeirra og tekið ákærða frá. Hafi brotaþoli og unnusta hans haldið áfram göngu sinni. Gæslumennirnir hafi greinilega strax sleppt ákærða því það næsta sem brotaþoli viti sé að ákærði hafi komið aftur og slegið brotaþola, einu höggi sem brotaþoli muni eftir. Hafa bara liðið um 10-15 sekúndur á milli og þau bara verið komin kannski 20 metra frá. Kvaðst muna lítið eftir höggið en hann haldi að hann hafi dottið í gangstéttina. Svo hafi brotaþoli bara setið þarna á jörðinni. Ekki kvaðst brotaþoli muna eftir að ákærði hafi sagt eitthvað meira, en þó hafi hann bætt því við að brotaþoli væri með ljótan hatt. Kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku sem hann hafi sjálfur sagt við ákærða umfram það að hætta þessu. Ekki hafi brotaþoli slegist neitt við ákærða. Þau hafi bara verið að ganga burt þegar ákærði hafi slegið sig, en brotaþoli kvaðst ekki geta lýst hvort höggið hafi verið veitt með krepptum hnefa eða með hvorri hendinni. Brotaþoli kvaðst hafa nefbrotnað við höggið og svo hafi brotnað flís úr augnumgjörðinni og hafi brotaþoli verið dofinn í hálfu andlitinu lengi eftir þetta. Dofinn komi stundum ennþá, sérstaklega ef brotaþoli setji upp einhverja svipi. Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki geta lýst því hvort hann hafi ýtt fast eða laust við ákærða, en það hafi verið með báðum höndum og hafi brotaþoli bara viljað losna við hann og komast heim. Ákærði hafi verið ógnandi, ýtt í sig og öskrað á sig að hætta að vanvirða konur. Ákærði hafi átt upptökin að þessu. Aðspurður hélt brotaþoli að D hafi sagt ákærða að hætta þessum afskiptum. Þá kvaðst brotaþoli aldrei hafa slegið ákærða, en hann hafi bara ýtt í hann. Brotaþoli kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra en ekki hafa verið undir öðrum áhrifum. Kærasta brotaþola hafi ekki verið búin að drekka neitt. Kvaðst ekki hafa áður fengið áverka í andliti. Hann hafi líka fengið skurð neðan við auga við þetta.

Aðspurður kvaðst brotaþoli viss um að hann hafi ekki fengið áverka við að detta í gangstéttina. Hann hafi dottið aftur fyrir sig eftir því sem hann best viti. Taldi útilokað að hann hafi slasast eða fengið þessa áverka við að detta í gangstéttina. Brotaþoli kvaðst ekki geta lýst því hvenær lögreglan hafi komið á staðinn, en hún hafi verið komin þegar brotaþoli hafi rankað við sér. Þá hafi hann setið við hlið lögreglu. Gat heldur ekki lýst því hve langur tími hafi liðið frá högginu uns hann muni eftir sér. Hann hafi ekki séð þegar ákærði hafi komið og kýlt sig. Hann hafi þurft að leita á sjúkrahús eftir þetta og hann hafi farið í nefréttingu á sjúkrahúsi í Reykjavík 5. ágúst 2016. Hann hafi farið á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum eftir atvikið og verið þar um nóttina.

Vitnið D, unnusta brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að þau hafi verið að ganga úr Herjólfsdal þessa nótt og hafi verið eitthvað að þræta. Hafi brotaþoli verið með bakpoka og hent honum eitthvað í burtu og hún hafi tekið hann upp. Þá hafi ákærði komið og verið eitthvað að spyrja hvort ákærði hafi verið að vanvirða hana, en hún hafi neitað því og sagt að þetta væri allt í góðu. Hafi ákærði samt haldið því fram að svo hafi verið og gengið að brotaþola og ýtt honum og brotaþoli ýtt til baka. Hafi svo gæslan tekið ákærða og þau hafi gengið áfram. Svo hafi ákærði komið aftur eftir eina til eina og hálfa mínútu og kýlt brotaþola. Ekki gat vitnið sagt hve langt þau hafi verið komin. Þetta hafi hún séð, en þetta hafi þó gerst mjög hratt. Höggið hafi verið með krepptum hnefa og hélt að það hafi verið með hægri hendi. Höggið hafi lent á nefinu og kinninni. Svo hafi ákærði kýlt brotaþola aftur þegar brotaþoli hafi verið kominn í jörðina. Brotaþoli hafi ýtt til baka þegar ákærði hafi ýtt við honum, en brotaþoli hafi ekki kýlt ákærða eða slegið hann. Ákærði hafi byrjað að ýta við brotaþola. Ákærði hafi sagt við brotaþola að hann hafi verið að vanvirða vitnið, en brotaþoli hafi neitað því. Hélt vitnið að ekki hafi farið sérstök orð á milli brotaþola og ákærða umfram það. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða að hætta. Vitnið kvaðst ekki hafa fundist sér stafa ógn af brotaþola þarna og hefði t.d. ekki verið ástæða fyrir gæslumennina til að hafa af þeim afskipti vegna þrætu þeirra. Hún kvaðst ekki muna hvert hafi verið þrætuefni þeirra, en það hafi verið eitthvað smávægilegt og hún hafi ekkert beðið ákærða um aðstoð í því samhengi. Hann hafi þvert á móti skipt sér af þessu alveg óbeðinn. Hún hafi ekki upplifað sig í neinni hættu. Hún hafi ekki séð þegar gæslumenn hafi sleppt ákærða því þau hafi þá gengið burt, en ákærði hafi svo komið skyndilega hlaupandi fram fyrir þau og kýlt brotaþola. Aðspurð taldi vitnið að brotaþoli hafi dottið aftur fyrir sig með hnakkann í götuna og misst meðvitund stutta stund, minna en mínútu. Brotaþoli hafi fengið áverka eftir þetta, nefbrotnað o.fl. Hann hafi verið blóðugur eftir þetta, en ekki fyrir atvikið. Vitnið taldi að brotaþoli hafi ekki slasast við að detta aftur fyrir sig. Vitnið kvaðst hafa verið búin að drekka, en það verið lítið enda drekki hún mjög lítið.

Vitnið B kom fyrir dóminn við aðalmeðferð, en vitnið sinnti gæslu umrætt sinn. Kvað vitnið að þeir hafi verið tveir gæslumenn þarna og hafi þá komið gangandi brotaþoli og unnusta hans, en ákærði á eftir þeim. Það hafi endað með því að ákærði hafi kýlt brotaþola, gæslumennirnir hafi tekið ákærða og haldið honum niðri uns lögregla hafi komið á vettvang. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða slá brotaþola og það hafi verið með hægri hendi í andlit. Taldi það hafa verið með krepptum hnefa og hafi verið a.m.k. eitt högg. Taldi vitnið að þeir hafi verið að rífast um stúlkuna. Vitnið hafi verið í kannski 40 metra fjarlægð frá þessu. Ákærði og brotaþoli hafi verið svona ofan í hvor öðrum en ekki hafi hann séð hvar þeir hafi þá haft hendurnar. Ákærði hafi sagst ætla að bjarga stúlkunni, en hún hafi þó ekki virst þurfa neina björgun eða aðstoð. Ekki hafi vitnið séð brotaþola slá ákærða. Brotaþoli hafi fengið höggið og gripið um andlitið á sér. Kvaðst ekki geta sagt til um hvort þeir hafi áður ýtt eitthvað við hvor öðrum. Kvaðst ekki hafa séð hvort brotaþoli hafi dottið en hann hafi sest á umferðarkant. Kvaðst ekki hafa séð hvor hafi átt upptökin. Ákærði hafi verið ósáttur við afskiptin og reynt að hrækja og bíta vitnið, en honum hafi verið haldið niðri. Enga áverka kvaðst vitnið hafa séð á brotaþola fyrir atvikið. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum. Á að giska 10-15 mínútur hafi liðið uns lögreglan kom, en vitnið kvað brotaþola ekki hafa rotast heldur hafi hann setið á umferðarkantinum. Fyrst hafi þeir stíað þeim í sundur og svo hafi ákærði hlaupið til og náð brotaþola og slegið hann.

Vitnið E læknir kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og staðfesti vottorð sitt. Vitnið skýrði frá því að brotaþoli hafi komið til hans í lok nóvember 2016 vegna áverkanna. Þá hafi brotaþoli verið að fá verkjastingi í andlitið á því svæði þar sem áverkar hafi verið. Við skoðun hafi sést 1 sm ör neðan við auga. Eðlilegt sé að brotaþoli hafi haft óþægindi þetta löngu eftir atvikið. Brotaþoli hafi farið á háls,- nef- og eyrnadeild Landspítala stuttu eftir atvikið og hafi þá nefbrot verið rétt. Samkvæmt tölvusneiðmynd hafi verið brot á nefi vinstra megin, en auk þess hafi verið svokallað „blowout“ brot. Það virki þannig að það komi högg á augað, en þar sem augað sé í lokaðri umgjörð geti það ekki farið neitt undan þannig að það þrýsti á aðliggjandi „strúktúra“ og þeir séu gjarnan veikari en augað sjálft og geti því komið brot í augnumgjörðina. Hafi sést merki um þetta á myndinni. Við þetta geti augað „pompað“ niður, en það hafi ekki gerst í þessu tilviki. Það geti haft áhrif á augnhreyfingar, valdið tvísýni og haft áhrif á sjónina. Séu einkenni enn til staðar nú, þá séu minni líkur til að þau gangi að öllu leyti til baka. Ólíklegt sé að brotaþoli hafi fengið áverka í augnumgjörð við að falla í jörðina, en til þess hefði þurft að koma högg beint á augað. Hnefahöggið sé mun líklegri orsök.

Vitnið F læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti að hafa hitt brotaþola umrædda nótt. Brotaþoli hafi verið mjög illa farinn í andliti. Hafi brotaþoli verið lagður inn yfir nóttina til að gera á honum frekari skoðun að morgni. Vitnið skýrði frá því að „blowout fractura“ sé lýsing á áverka sem verður við högg sem lendir á tilteknum stað í andliti og brotið sé þá í augntóftinni þar sem augað situr á gólfi augntóftarinnar. Svona komi ekki með því að falla á flata jörð. Mögulegt sé að það geti gerst við að falla á ójafna jörð, en þá þurfi augað að lenda beint á ójöfnunni og hún að vera af réttri stærð. Svona lagað geti ekki gerst við að falla aftur fyrir sig. Nefbrot geti komið til við að falla á andlitið. Ekki hafi verið brot í „septum“ sem þýði miðnes. Ekki hafi orðið tilfærsla á beini þannig að bútur af beininu hafi færst til. Vitnið mundi ekki eftir að brotaþoli hafi haft skurð fyrir neðan auga. Ekki kvaðst vitnið vita um aðgerð sem brotaþoli hafi gengist undir á Landspítala eftir þetta.

Vitnið G lögreglumaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að komið hafi útkall um líkamsárás og mann í tökum dyravarða. Hafi lögregla farið á staðinn og ákærði verið mjög erfiður og því verið handjárnaður strax. Hafi ákærði streist á móti og látið ófriðlega og sjáanlega verið undir áhrifum. Hafi verið rætt við vitni og árásarþola og hafi komið fram að ákærði hafi haft einhver afskipti af brotaþola og unnustu hans og svo eftir að honum hafi verið stíað frá, þá hafi hann aftur komið og þá kýlt brotaþola. Ekki hafi ákærði verið beittur harðræði, en hann hafi streist á móti. Hafi ekki verið beitt meira valdi en þurft hafi til. Einhverjir áverkar hafi sést á brotaþola, en ekki mundi vitnið eftir að áverkar hafi verið á ákærða. Aðspurður kvað vitnið að ákærði hafi verið handtekinn. Vitnið minnti að brotaþoli hafi verið nálægt á vettvangi við komu lögreglu og verið í „pínu sjokki“. Vitnið mundi ekki hvort brotaþoli hafi staðið eða setið en það hafi verið hægt að fá hjá honum upplýsingar, en vitnið hafi ekki rætt við hann sjálfur.

Vitnið C gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að brotaþoli og vinkona hans hafi verið gangandi þarna og svo hafi ákærði komið á eftir þeim, en sá hafi virst svolítið æstur. Hafi verið eins og hann þekkti til þeirra. Hafi ákærði verið að ýta í brotaþola og hafi svo endað með því að kýla brotaþola í auga eða nef, eða eitthvað, og hafi brotaþoli fallið niður við þetta. Svo hafi ákærði haldið eitthvað áfram og hafi verið átök. Svo hafi vitnið og hinn gæslumaðurinn stoppað þetta. Ákærði hafi átt upptökin að þessu. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig brotaþoli hafi lent í jörðinni, en mögulega hafi það verið á hliðinni. Vitnið kvaðst minna að brotaþoli hafi eitthvað reynt að svara fyrir sig. Ekki hafi brotaþoli slegið til ákærða að fyrra bragði. Vitnið kvaðst hafa verið á að giska 5-10 metra frá þessu. Kvaðst minna að þeir hafi ýtt eitthvað hvor í hinn, en brotaþoli hafi greinilega viljað losna við ákærða sem hafi ekki viljað fara burt. Tvímælalaust hafi ákærði átt upptökin að þessu. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega hvort þeir hafi sagt eitthvað hvor við annan, en stúlkan hafi verið að segja ákærða að fara burt. Hún hafi greinilega viljað að ákærði færi. Ekki kannaðist vitnið við að brotaþoli hafi verið eitthvað að ónáða stúlkuna. Ekki kvaðst vitnið telja að ákærði hafi haft einhverja ástæðu til að slá brotaþola. Ákærði hafi svo verið mjög æstur, nánast alveg trylltur, þegar gæslumennirnir hafi verið að halda honum. Ekki kvaðst vitnið muna eftir að brotaþoli hafi haft áverka fyrir þetta, en eftir á hafi hann greinilega borið áverka. Vitnið var ekki viss hvernig brotaþoli hafi lent eftir höggið, en fannst eins og hann hafi fallið aftur fyrir sig eða á hliðina. Fannst eins og ákærði hafi slegið brotaþola meira en einu höggi. Taldi ekki að brotaþoli hafi vankast við þetta, heldur hafi hann verið með meðvitund allan tímann. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að hafa fundist stúlkan vera í einhverjum vandræðum eða þurfa einhverja aðstoð. Ekki hafi brotaþoli verið með einhvers konar ruddahátt eða svívirðingar gagnvart henni svo vitnið myndi til.

Með játningu ákærða, sem er jafnframt studd við framburð annarra í málinu eins og að ofan greinir, er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði sló brotaþola umrætt sinn hnefahögg í andlit eins og lýst er í ákæru. Ákærði hefur sjálfur borið að brotaþoli hafi átt upptök að þessu og hafi slegið ákærða að fyrra bragði. Þetta nýtur ekki stuðnings í neinu öðru í málinu. Þannig liggur ekkert fyrir um að ákærði hafi brotið áverka eftir þetta og ekkert vitni hefur lýst því að brotaþoli hafi slegið ákærða slíku höggi eða á annan handa máta átt upptök að þessu. Þá verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi umrætt sinn fengið við þetta hnefahögg alla þá áverka sem lýst er í ákærunni, en ekkert hefur komið fram um að hann hafi fengið þá á annan hátt, svo sem við það að detta í götuna í beinu framhaldi, en það væri þá hvort heldur sem er bein afleiðing af hnefahögginu. Þá er hafnað framburði ákærða um að einhver þörf hafi verið á því að hann skipti sér eitthvað af samskiptum brotaþola og unnustu hans, enda liggur ekkert fyrir um að hún hafi þurft á utan að komandi aðstoð að halda.

Er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir. Er háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur samkvæmt ofansögðu unnið sér til refsingar, en samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann einu sinni áður hlotið refsingu, en þann 30. janúar 2017 gekkst hann undir fésekt fyrir umferðarlagabrot, að fjárhæð kr. 80.000. Verður því litið til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar ákærða. Skal ákærði sæta fangelsi í 60 daga en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með broti sínu hefur ákærði gerst sekur um ólögmæta meingerð í garð brotaþola í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ber honum að greiða brotaþola miskabætur vegna þess og eru bæturnar hæfilega ákveðnar kr. 300.000. Skulu bæturnar bera vexti og dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði, en bótakrafan var kynnt ákærða þann 26. janúar 2017.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt yfirliti rannsakara er útlagður kostnaður vegna rannsóknar kr. 25.278 vegna læknisvottorðs og ber ákærða að greiða þann kostnað. Þá ber ákærða að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, kr. 426.870 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins kr. 30.550. Jafnframt greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, kr. 365.180, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber ákærða að greiða kostnað vegna vitnisins B, kr. 28.700.  

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Herluf Ingvar Clausen, sæti fangelsi í 60 daga.

Fresta ber fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A kr. 300.000 í miskabætur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. júlí 2016 til 26. febrúar 2017, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 876.578, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, kr. 426.870 og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, kr. 365.180.

 

Sigurður G. Gíslason